Fara í innihald

Tékkland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Tékkía)
Lýðveldið Tékkland
Česká republika
Fáni Tékklands Skjaldarmerki Tékklands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Pravda vítězí (tékkneska)
Sannleikurinn lifir)
Þjóðsöngur:
Kde domov můj
Staðsetning Tékklands
Höfuðborg Prag
Opinbert tungumál Tékkneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Petr Pavel
Forsætisráðherra Petr Fiala
Sjálfstæði
 • Tékkóslóvakía 28. október 1918 
 • Aðskilnaður 1. janúar 1993 
Evrópusambandsaðild 1. maí 2004
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
115. sæti
78.871 km²
2,12
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
86. sæti
10.701.777
136/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 432,346 millj. dala (36. sæti)
 • Á mann 40.585 dalir (34. sæti)
VÞL (2019) 0.900 (27. sæti)
Gjaldmiðill Króna (CZK)
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .cz
Landsnúmer +420

Tékkland (tékkneska: Česko; opinberlega Lýðveldið Tékkland, tékkneska: Česká republika) er landlukt ríki í Mið-Evrópu og vestasta land gömlu austantjaldsríkjanna. Landið var stofnað 1. janúar 1993 þegar Tékkóslóvakíu var skipt í tvo hluta, Tékkland og Slóvakíu. Höfuðborgin er Prag og er hún jafnframt stærsta borg landsins.

Tékkland er nánast miðsvæðis í Mið-Evrópu og á sér að miklu leyti náttúruleg landamæri í formi fjallgarða. Í vestri er Þýskaland, en Eirfjöllin (Krušné hory) og Bæheimsskógur (Šumava) skilja þar á milli. Í norðri er Pólland en þar mynda Súdetafjöllin (Sudety) og Risafjöllin (Krkonoše) náttúruleg landamæri. Í austri er Slóvakía en landamærin liggja um Karpatafjöll. Í suðri er svo Austurríki. Tékklandi er gjarnan skipt í þrjá meginhluta: Bæheim í vestri, Mæri í austri og syðsta hluti Slésíu í norðaustri. Í höfninni í Hamborg er stór hafnarbakki, 30 þúsund m2 að stærð, sem tilheyrir Tékklandi. Bakkinn kallast Moldárhöfn (Vltavský přístav). Hann var hluti af Versalasamningnum sem kvað á um að Tékkland skyldi eiga aðgang að hafnaraðstöðu í Hamborg, þaðan sem hægt er að sigla niður Saxelfi alla leið til Bæheims. Samningurinn gildir í 99 ár og rennur út árið 2028.

Tékkar nota orðið Česko um land sitt. Hugtakið kom fyrst fram 1777 en var aldrei eða sárasjaldan notað fyrir 1993. Meðan Tékkóslóvakía var til hét landið allt Československo. Þegar Tékkóslóvakíu var skipt í tvö ríki 1993 varð heitið Česko ofan á en það merkir Tékkar eða tékkneska þjóðin. Tékkneska heitið fyrir Bæheim er Čechy en oftast er það notað fyrir landið allt (líka Mæri og Slésíu). Þjóðsagan segir að forfaðirinn Čech hafi verið stofnandi tékknesku þjóðarinnar. Önnur tungumál, svo sem enska og þýska, hafa tekið síðara orðið að láni og myndað heitið Czech (enska) og Tschech (þýska) síðan Tékkóslóvakía var mynduð 1918. Það hafa Íslendingar einnig gert. Þó eru íbúar Mæris og Slésíu ekki allir sáttir við síðara heitið, enda útilokar það á vissan hátt íbúa þess en setur íbúa Bæheims ofar hinum. Tékkar sjálfir nota ekki neitt stuttheiti á landi sínu. Alþjóðlega heitir landið Česká republika. Þó er til styttri útgáfa í flestum öðrum málum. Í íslensku er heitið Tékkland gjarnan notað í staðinn fyrir Tékkneska lýðveldið, en áður kom fyrir að landið væri nefnt Tékkía.[1][2][3][4]

Stórmæri þegar hún náði mestri útbreiðslu.

Fundist hafa mannvistarleifar frá fornsteinöld í Tékklandi. Venus frá Dolní Věstonice er keramikstytta af konu sem er talin vera frá því fyrir 29.000 til 25.000 árum.

Frá 3. öld f.Kr. settist keltneski þjóðflokkurinn Bojar (gríska: Βόιοι) að á svæðinu. Talið er að heitið Bæheimur (Bohemia) vísi til þessa þjóðflokks. Á fyrstu öld e.Kr. settust germanskir þjóðflokkar að á svæðinu og hröktu Keltana burt. Í Bæheimi voru til dæmis Markómannar en Rómverjar stöðvuðu útrás þeirra til suðurs. Á þjóðflutningatímabilinu á 5. öld gjörbreyttist íbúasamsetning landsins.

Frá og með 550 settust Slavar frá ströndum Svartahafs og Karpatafjöllum að í Bæheimi og Mæri. Þeir hrökkluðust þangað undan framrás Húna, Avara, Búlgara og Magýara frá sléttum Asíu. Árið 833 var furstadæmið Stórmæri stofnað og náði það langt út fyrir mörk Bæheims og Mæris í dag. Svatopluk 1. af Mæri varð fursti í Stórmæri 871, en á hans tíma komu munkarnir (og bræðurnir) Kýrill og Meþódíus og kristnuðu þjóðina. Þeir höfðu verið sendir frá Miklagarði og lögðu því grunninn að rétttrúnaðarkirkjunni í Stórmæri.

Árið 895 gekkst Spytihněv fursti Heilaga rómverska ríkinu á hönd, en keisari var þá Arnúlfur keisari. Stórmæri varð því hluti þess ríkis og var lögð niður tólf árum síðar. Afleiðingin var sú að rómversk-kaþólska kirkjan nam land í Bæheimi og óx hratt meðan rétttrúnaðarkirkjan átti undir högg að sækja. Árið 1003 réðist Boleslaw 1. konungur Póllands inn í Bæheim og hertók landið. Hersetan stóð hins vegar aðeins yfir í eitt ár.

Miðpunktur þýska ríkisins

[breyta | breyta frumkóða]
Karl 4. gerði Prag að stórborg.

Árið 1085 leyfði Hinrik 4. keisari stofnun konungsríkis í Bæheimi. Markgreifinn Vratislav 2. varð því krýndur konungur, enda var hann eindreginn stuðningsmaður Hinriks gegn Söxum. Krýningin fór fram í Prag, sem þar með varð að eiginlegri höfuðborg. Konungstitill Vratislavs var ekki arfgengur og eftirmenn hans voru því áfram hertogar þar til Ottókar 1. fékk Sikileyjarbréfið frá Friðriki 2. keisara sem staðfesti rétt erfingja hans til konungstitils í Bæheimi. Konungríkið Bæheimur var sjálfstætt sem slíkt en var undir verndarvæng og umsjón hins Heilaga rómverska ríkis.

Í kjölfarið fylgdi nokkurt þýskt landnám í Bæheimi. Sökum stuðnings konunganna í Prag við hina þýsku keisara ríkisins, var konungur Bæheims hverju sinni einnig kjörfursti, það er að segja hann sat í kjörfurstaráðinu sem valdi næsta konung hins Heilaga rómverska ríkis. Sem kjörfurstar höfðu konungar Bæheims mikil völd í ríkinu. Árið 1300 voru Bæheimur og Pólland undir sama konungi, fyrst Wenzel 2. og síðan Wenzel 3., en því fyrirkomulagi lauk 1306 er Wenzel 3. var myrtur í Olomouc.

Árið 1310 kvæntist Jóhann af Lúxemborg, sonur Hinriks 7. keisara, Elísabetu, dóttur Wenzels 2. konungs í Bæheimi. Sonur þeirra hét Wenzel og tók við konungdæminu í Bæheimi 1347 sem Karl 1. Aðeins ári síðar stofnaði Karl konungur háskóla í Prag, en hann er elsti háskóli Evrópu norðan Alpafjalla. Á sama ári var hann kjörinn keisari Heilaga rómverska ríkisins og tók við embætti sem Karl 4. keisari í borginni Aachen. Karl ákvað að sitja í Prag, sem þar með varð að höfuðborg hins heilaga rómverska ríkis. Árið 1355 var Karl svo krýndur keisari í Róm. Karl gaf út Gullbréfið 1378, en í því fastsetti hann reglur um konungskjör í Heilaga rómverska ríkinu, ásamt ýmsum öðrum grundvallarlögum. Gullbréfið var í gildi þar til Heilaga rómverska ríkið leið undir lok árið 1806. Tveir synir Karls áttu einnig eftir að verða keisarar Heilaga rómverska ríkisins. Wenzel 4. var konungur 1378–1400 og Sigmundur keisari 1411–1437. Sá síðarnefndi var krýndur keisari ríkisins árið 1433.

Jan Hus brenndur á báli 1415

Hússítar voru umbótahreyfing innan kaþólsku kirkjunnar upprunnin í Bæheimi. Þeir hófu að vinna gegn kaþólsku kirkjunni og keisaranum, sem á þessum tíma voru jafnframt konungar Bæheims. Hússítar eru nefndir eftir guðfræðingnum Jan Hus, sem á tímabili var rektor háskólans í Prag. Þegar Hus var brenndur á báli á kirkjuþinginu í Konstanz 1415 fyrir villutrú, gerðu fylgjendur hans uppreisn. Þegar Hússítar réðust inn í ráðhúsið í Prag 1419 og fleygðu fulltrúum konungs út um gluggana, hófust Hússítastríðin.

Múgur manna réðst einnig inn í kirkjur og klaustur til að ræna og eyðileggja. Í desember 1419 fór fyrsta orrustan fram nálægt Plzeň, en henni lauk með sigri Hússíta undir forystu Jan Žižka. Árið 1420 réðist keisaraher inn í Prag en Hússítar náðu að hrekja hann á brott. Keisarinn missti meira og meira land í Bæheimi næstu árin, uns hann réði aðeins yfir nokkrum jaðarsvæðum. Nokkrir bæir sem héldu tryggð við kaþólsku kirkjuna og keisarann voru jöfnuð við jörðu. Í stríðinu réðust Hússítar einnig á lönd handan Bæheims, svo sem Austurríki (1428–1429), Saxland og jafnvel Ungverjaland. Eftir ýmsar orrustur, sem Hússítar höfðu yfirleitt sigur í, kom til lokaorrustu milli hófsamari Útrakista og róttækari Taboríta 30. maí 1434. Þar voru róttækir Hússítar loks gjörsigraðir og þeim nær útrýmt.

Ósigur þeirra batt þó ekki alveg enda á siðbót Hússíta í Bæheimi, jafnvel þótt kaþólska kirkjan væri víða endurreist í landinu. Þar að auki hafði Jan Hus þýtt Biblíuna á tékknesku og þannig átt stóran þátt í að festa tungumálið í ritmálinu. Þrátt fyrir ósigur Hússíta myndaðist í fyrsta sinn eiginleg þjóðarvakning meðal Tékka. Árið 1458 varð Georg Podiebrad konungur Bæheims. Þar með varð hann fyrsti siðbótarkonungur Evrópu á miðöldum.

Habsborgarar og 30 ára stríðið

[breyta | breyta frumkóða]
Fulltrúum keisarans hent út um glugga á kastalanum í Prag. Atburður þessi markaði upphaf 30 ára stríðsins.

Frá og með 1526 urðu Bæheimur og Mæri lén Habsborgara er Ferdinand 1. af Habsborg varð konungur landsins. Eftir það voru löndin tvö undir væng Austurríkis allt til loka heimsstyrjaldarinnar fyrri 1918. Habsborgarinn Rúdolf 2., keisari Heilaga rómverska ríkisins, flutti aðsetur sitt frá Vínarborg til Prag 1583. Prag varð því næstu áratugi miðstöð stjórnmála, lista og vísinda í ríkinu. Rúdolf var opinn fyrir nýjum hugmyndum og veitti Bæheimi formlegt trúfrelsi. Hann var jafnframt ötull áhugamaður um listir og vísindi, og bauð ýmsum þekktum mönnum á þeim sviðum til Prag. Má þar nefna Tycho Brahe og Jóhannes Kepler.

Árið 1612 lést Rúdolf. Þá varð Mattías konungur Bæheims og Heilaga rómverska ríkisins. Hann hóf þegar að þrengja að mótmælendum í Bæheimi og endurreisa kaþólsku kirkjuna. Þetta gekk svo langt að árið 1618 ruddust mótmælendur inn í kastalann í Prag (Hradčany) og fleygðu fulltrúum keisarans út um gluggann. Atburður þessi markar upphafið að þrjátíu ára stríðinu. Ári síðar lést Mattías keisari og kusu gildin í Prag, sem voru mótmælendatrúar, Friðrik frá Pfalz sem nýjan konung Bæheims. Samtímis varð Ferdinand af Habsborg keisari Heilaga rómverska ríkisins. Vorið 1620 var fyrsta orrusta stríðsins háð í Bæheimi þegar keisaraher Ferdinands gjörsigraði Friðrik konung í orrustunni við Hvítafjall. Friðrik flúði úr landi og var kallaður Vetrarkonungurinn. Hann var síðasti sjálfstæði konungur Bæheims.

Mótmælendur í Prag voru ofsóttir. Sumir voru fangelsaðir, aðrir líflátnir og enn aðrir flúðu land. Í kjölfarið kom Ferdinand keisari kaþólsku kirkjunni á með valdi. Konungdæmið í Bæheimi varð hluti af titlum keisarans og sjálfstæði landsins að hluta afnumið. Bæheimi og Mæri var þaðan í frá stjórnað frá Vín, allt til 1918. Þýsk tunga ruddi sér til rúms, að minnsta kosti í opinberu lífi, en tékkneska hörfaði.

Ný þjóðarvakning

[breyta | breyta frumkóða]

Á 19. öld myndaðist ný þjóðarvakning meðal Tékka, en þá höfðu Habsborgarkeisarar í Vín stjórnað landinu í tvær aldir. Í júní 1848 var Slavaráðstefnan mikla haldin í Prag. Tékkar heimtuðu að tékkneskt mál yrði viðurkennt á ný en það var þá orðið að minnihlutamáli. Auk þess kröfðust þeir aukinna stjórnmálalegra réttinda.

Ráðstefnunni var vart lokið þegar borgarauppreisn hófst í Prag og stóð í fimm daga (12.-17. júní). Mótmælendur heimtuðu sjálfstæði og gengu berserksgang út um allt. Götubardagar stóðu yfir í nokkra daga. Austurrískir varðliðar urðu að setja upp fallbyssur og umkringja borgina til að ráða niðurlögum mótmælanna.

Í iðnbyltingu næstu áratuga varð Bæheimur að helsta iðnaðarhéraði keisaradæmisins í Vín. En þjóðin naut ekki þess frelsis sem aðrar þjóðir innan Austurríska keisaradæmisins nutu. Til að mynda var bannað að gefa út dagblöð á tékknesku. Allt lesefni var á þýsku. Það var ekki fyrr en 1897 að stjórnin í Vín leyfði borgum og sveitarfélögum að nota tékknesku til jafns við þýsku. Einnig fékk Bæheimur heimastjórn en hún var leyst upp árið 1913.

Tékkóslóvakía

[breyta | breyta frumkóða]
Tékkóslóvakía eins hún leit út í upphafi: Bæheimur, Mæri, Slóvakía og vesturhluti Úkraínu
Hitler lætur hylla sig í Kraslice í október 1938 eftir að hafa innlimað Súdetahéruðin

Tékkar börðust með Þjóðverjum og Austurríkismönnum í heimsstyrjöldinni fyrri, þrátt fyrir andstöðu almennings. Við stríðslok 1918 leystist Austurríska keisaradæmið upp. Skyndilega stóðu Tékkar uppi án stjórnar í Vín. Þann 16. október 1918 sameinuðust héruðin Bæheimur, Mæri og suðurhluti Slésíu er stofnað var nýtt ríki með Prag sem höfuðborg. Tveimur vikum síðar, 30. október, sameinaðist Slóvakía nýja ríkinu, sem hlaut nafnið Tékkóslóvakía. Auk þess tilheyrði vestasti hluti Úkraínu nýja ríkinu.

Í manntali 1921 kom í ljós að íbúar voru 14 milljónir, þar af rúmlega helmingur Tékkar, 23% Þjóðverjar, 14% Slóvakar, 5,5% Ungverjar, auk Rútena, Pólverja og Króata. Lýðveldið var því fjölþjóðaríki og erjur og sundurlyndi nánast daglegt brauð. Árið 1938 ásældist Adolf Hitler stóra hluta landsins, aðallega Súdetahéruðin, enda bjuggu þar margir Þjóðverjar. Með München-sáttmálanum 29. september 1938 voru Súdetahéruðin innlimuð í Þýskaland. Ungverjaland og Pólland lögðu einnig undir sig hvert sinn skikann af landi Tékkóslóvakíu. Við þetta missti Tékkóslóvakía rúmlega 40% iðnaðar síns. Eftir stóð aðeins lítið og vanmáttugt ríki.

Þjóðverjar hófu að reka Tékka burt úr innlimuðu héruðunum, en fangelsuðu og myrtu marga. Þann 5. október flúði Edvard Beneš forseti til London. Í kjölfarið lýstu Slóvakar yfir sjálfstæði. Þann 15. mars 1939 innlimaði Hitler afganginn af Bæheimi og Mæri, og þar með leystist Tékkóslóvakía upp sem ríki. Það voru Sovétmenn sem frelsuðu landið að mestu leyti 1945. Þann 5. maí hófu íbúar Prag uppreisn gegn Þjóðverjum sem stóð í þrjá daga. 8. maí hrökkluðust Þjóðverjar burt og degi síðar hertók Rauði herinn borgina. Í kjölfarið var Tékkóslóvakía endurreist, fyrir utan Úkraínuhlutann. Þremur milljónum Þjóðverja, aðallega í Súdetahéruðunum, var gert að yfirgefa landið.

Kommúnistaríkið og Vorið í Prag

[breyta | breyta frumkóða]

Í kosningum 1946 hlutu kommúnistar 40% greiddra atkvæða og mikilvæg embætti í stjórn landsins. Árið 1948 hrifsuðu þeir til sín öll völd í landinu gerðust hallir undir Moskvu. Edvard Beneš, sem aftur var orðinn forseti, neitaði að skrifa undir nýja stjórnarskrá og sagði af sér. Klement Gottwald, leiðtogi kommúnista, lýsti því yfir stofnun nýs sósíalísks lýðveldis og var fyrsti forseti þess.

Árið 1968 var Alexander Dubček formaður kommúnistaflokksins og Ludvík Svoboda varð forseti. Þeir voru báðir mjög frjálslegir gagnvart kommúnismanum og hófu ýmsar umbætur í landinu. Til dæmis voru höftin á prentfrelsi afnumin, komið var á skoðanafrelsi og fólk mátti jafnvel ferðast til útlanda. Einnig unnu þeir að umbótum á efnahagssviðinu. Þessar umbætur gengu undir heitinu „vorið í Prag“. Þetta mæltist illa fyrir í öðrum austantjaldslöndum, sérstaklega í Póllandi og Austur-Þýskalandi.

Þann 21. ágúst 1968 gerðu herir Varsjárbandalagsins, undir forystu Sovétmanna, innrás í Tékkóslóvakíu. Tékkar fengu ekkert við ráðið. Allar lýðræðisbreytingar undanfarinna mánaða voru teknar til baka. Dubček var settur af og kommúnistaflokkurinn hreinsaður. Heimurinn stóð á öndinni. Tugþúsundir Tékka yfirgáfu landið í kjölfarið. Talið er að rúmlega 170 þúsund manns hafi flúið til Austurríkis.

Leiðin til lýðræðis

[breyta | breyta frumkóða]
Václav Havel forseti

Í nóvember 1989 hófust mótmæli gegn kommúnistastjórninni í Prag. Þíða hafði myndast í ýmsum austantjaldslöndum, ekki síst í Sovétríkjunum. Í lok nóvember sagði stjórnin í Prag af sér. Í upphafi desember var mynduð ný stjórn án aðkomu kommúnista. Seinna í sama mánuði var rithöfundurinn og baráttumaðurinn Václav Havel kjörinn forseti landsins.

Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar landsins síðan 1945 fóru fram 8. júní 1990. Brátt kom þó í ljós að hagsmunir Tékka og Slóvaka voru mismunandi. Strax í upphafi árs 1991 hófust viðræður milli þjóðanna um aðskilnað, en ákveðið var að bíða eftir kosningum árið 1992. Þegar þær voru afstaðnar komust forsætisráðherrar beggja þjóða að þeirri niðurstöðu að aðskilja löndin á friðsamlegan hátt, án kosninga eða aðkomu almennings. Samkvæmt því fór aðskilnaðurinn fram 1. janúar 1993 en við hann urðu Tékkland og Slóvakía til sem tvö sjálfstæð ríki.

Í júní á sama ári gekk Tékkland í Evrópuráðið og 1999 í NATO. Þann 1. maí 2004 fékk Tékkland síðan inngöngu í Evrópusambandið. Um það var kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu en rúmlega 77% kusu með aðild.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Tékkland er landlukt land sem liggur að mestu milli 48. og 51. breiddargráðu norður og 12. til 19. lengdargráðu austur. Tékkland á landamæri að fjórum öðrum ríkjum: Þýskalandi (810 km) í vestri, Póllandi (762 km) í norðri, Austurríki (466 km) í suðri og Slóvakíu (252 km) í austri.

Snætindur (Sněžka) er hæsti tindur Tékklands,1.603 m. Efst sér í veðurathugunarstöðina.

Tékkland er nær umkringt fjallgörðum. Bæheimur er eins og skál í stórum fjalladal. Til vesturs eru Bæheimsskógur og Eirfjöllin en til norðurs eru Risafjöllin og Súdetafjöllin. Í síðastnefnda fjallgarðnum er hæsta fjall landsins, Snætindur (tékkneska: Sněžka; þýska: Schneekoppe) sem er 1.602 metra hátt. Í austurhluta landsins er vestasti hluti Karpatafjalla.

Nær gjörvallur Bæheimur tilheyrir vatnasviði Saxelfar, en fljótið rennur frá Risafjöllum um allt norðanvert landið uns það hverfur inn í Þýskaland. Mæri er hins vegar á vatnasviði Dónár. Örlítill hluti nyrst í landinu tilheyrir vatnasviði Odru, sem rennur í Eystrasalt. Lengstu fljót Tékklands eru Moldá (Vltava), Saxelfur (Labe), Ohre (Eger) og Morava (March). Moldá og Ohre eru þverár Saxelfar, en Morava rennur út í Dóná.

Í Tékklandi eru stöðuvötn aðeins fá og lítil.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Í Tékklandi er fjölflokkaþingræði og fulltrúlýðræði. Tékkneska þingið (Parlament České republiky) kemur saman í tveimur deildum; fulltrúadeild með 200 fulltrúa, og öldungadeild með 81 þingmann.[5] Þingmenn fulltrúadeildar eru kosnir til 4 ára í senn með hlutfallskosningu þar sem 5% atkvæða þarf til að listi fái fulltrúa á þingi. Landið skiptist í 14 kjördæmi sem fara saman við héruðin. Fulltrúaþingið, sem er arftaki Þjóðarráðs Tékklands, fer með sömu völd og sambandsþing Tékkóslóvakíu fór með áður. Öldungadeildarþingmenn eru kosnir í einmenningskjördæmum með tveimur umferðum. Einn þriðji öldungadeildarþingmanna er kosinn á hverju hausti. Þetta kerfi byggist á bandaríska kerfinu, nema hvað hvert kjördæmi er um það bil jafnstórt og tvær umferðir eru notaðar.

Fulltrúadeildin, neðri deild tékkneska þingsins.

Forseti Tékklands er formlegur þjóðhöfðingi landsins með takmörkuð völd, sem skipar forsætisráðherra, og aðra ráðherra samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Frá 1993 og 2012 var forsetinn kosinn af sameinuðu þingi til fimm ára í senn og mátti ekki sitja í meira en tvö kjörtímabil. Václav Havel og Václav Klaus sátu þannig báðir í 2 kjörtímabil. Frá 2013 hefur forseti verið kosinn í almennum kosningum.[6] Færð hafa verið rök fyrir því að með þessu hafi stjórarfarið fjarlægst þingræði og nálgast forsetaþingræði.[7]

Ríkisstjórn Tékklands fer með framkvæmdavaldið samkvæmt stjórnarskrá Tékklands. Forsætisráðherra Tékklands er stjórnarleiðtogi, en í stjórninni sitja auk hans ráðherrar og aðstoðarforsætisráðherra. Ríkisstjórnin ber ábyrgð gagnvart þinginu.[8] Forsætisráðherrann fer með stefnumörkun í utanríkis- og innanríkismálum og velur ráðherra.[9]

Í Tékklandi er atvinnuher. Hann mynda landher og flugher, auk varahermanna. Alls þjóna 25 þúsund menn í tékkneska hernum. Æðsti yfirmaður hersins er forsetinn. Tékkneskir hermenn hafa sinnt friðargæslu í nokkrum stórum verkefnum, svo sem í Bosníu, Kosóvó, Írak (aðeins til 2004) og Afganistan.

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Tékkland skiptist upp í þrettán héruð (tékkneska: Kraje, Kraj í eintölu) auk höfuðborgarinnar Prag.

Kort sem sýnir núverandi og söguleg héruð Tékklands.
(Bílnúmer) Hérað Höfuðstaður Íbúafjöldi (áætlaður 2004) Íbúafjöldi (áætlaður 2010)
A Höfuðborgarsvæði Prag (Hlavní město Praha) 1.170.571 1.251.072
S Mið-Bæheimur (Středočeský kraj) skrifstofur staðsettar í Prag 1.144.071 1.256.850
C Suður-Bæheimur (Jihočeský kraj) České Budějovice 625.712 637.723
P Plzeň (Plzeňský kraj) Plzeň 549.618 571.831
K Karlsbað (Karlovarský kraj) Karlovy Vary 304.588 307.380
U Ústí (Ústecký kraj) Ústí nad Labem 822.133 835.814
L Liberec (Liberecký kraj) Liberec 427.563 439.458
H Královéhradecký kraj Hradec Králové 547.296 554.370
E Pardubice (Pardubický kraj) Pardubice 505.285 516.777
M Olomouc (Olomoucký kraj) Olomouc 635.126 641.555
T Suður-Slésía (Moravskoslezský kraj) Ostrava 1.257.554 1.244.837
B Suður-Mæri (Jihomoravský kraj) Brno 1.123.201 1.152.819
Z Zlín (Zlínský kraj) Zlín 590.706 590.527
J Hálönd (Vysočina) Jihlava 517.153 514.805

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]

Austurríki-Ungverjaland iðnvæddist hratt en stóð þó Bretlandi og þýska ríkinu (Þýskalandi) nokkuð að baki enda hófst iðnaðaruppbygging þar síðar en í fyrrnefndum löndum og pólítískur óstöðugleiki í austurríska heimsveldinu árin fyrir stofnun keisaradæmisins Austurríkis-Ungverjalands hafði sín áhrif.

Iðnaður varð sérstaklega öflugur í vestanverðu keisaradæminu og varð Prag í Bæheimi ein helsta þungamiðja þeirrar þróunar. Þannig varð svæðið sem nú nefnist Tékkland að einu af meginiðnaðarsvæðum Evrópu. Í austurhluta Austurríkis-Ungverjalands varð landbúnaður hins vegar ráðandi. Helstu framleiðsluvörur voru iðnvélar, stál og járn, kol, textíll og vefnaðarvörur, vopn og hergögn, efnavörur og margt fleira. Iðnaðurinn nútímavæddist í takt við tímann og gaf öðrum ekkert eftir og var til dæmis hafin bílaframleiðsla þar upp úr aldamótunum, 1901. Bæheimur og Mæri voru kjarni alls iðnaðar Austuríkis-Ungverjalands þar til það veldi leystist upp.

Í fyrri heimsstyrjöldinni var iðnaður svæðisins nýttur til hergagnaframleiðslu þar sem Austuríki-Ungverjaland barðist við hlið Þjóðverja við bandamenn. Brestir voru þó komnir í ríkjasambandið Austurríki-Ungverjaland og leið það undir lok í stríðslok.

Eftir stríðið varð Tékkóslóvakía til sem sjálfstætt ríki í fyrsta sinn þegar Bæheimur, Mæri og Slóvakía, sem voru áður héruð í Austuríki-Ungverjalandi runnu saman í eitt ríki. Landið fékk stærstan hluta iðnaðar heimsveldisins fyrrverandi í sinn hlut og varð því eitt af öflugri iðnríkjum Evrópu og á því byggði landið ágætt gengi sitt á millistríðsárunum. Kreppan mikla á þriðja áratug 20. aldar fór ekki framhjá Tékkóslóvakíu frekar en öðrum löndum hins vestræna heims. Iðnaðarframleiðsla dróst saman og atvinnuleysi jókst. Mun alvarlegri og dekkri ský hrönnuðust þó upp á sjóndeildarhringnum, sérstaklega þó í vestri en einnig í austri þó torræðari væru. Tékkóslóvakía varð fyrsta fórnarlamb seinni heimsstyrjaldarinnar í Evrópu og varð það áður en sú styrjöld hófst opinberlega enda var landinu fórnað fyrir ímyndaðan frið á samningaborði alþjóðlegra stjórnmála.

Þjóðverjar hernámu meginhluta landsins 1938 – 1939 og afgangnum var skipt milli nágrannanna. Iðnaðarmáttur Tékkóslóvakíu var þegar settur í fulla vinnu fyrir þýsku hervélina og framleiddi gríðarlegt magn vopna allt stríðið svo sem skriðdreka, vélbyssur og fallbyssur. Vinnuafl þræla, bæði heimamanna og erlendra „verkamanna“ eða Fremdarbeiter eins og þeir voru kallaðir, var mikið notað við þessa framleiðslu. Margir lifðu þá vinnu ekki af enda aðbúnaður og meðferð skelfileg. Vopnaframleiðslan stöðvaðist ekki að fullu fyrr en við uppgjöf Þjóðverja vorið 1945 en þá hrúguðust upp óveðurskýin eina ferðinna enn og nú á austurhimni þar sem Tékkóslóvakía lenti á áhrifasvæði Sovétríkjanna, en líkt og áður voru það örlög sem ákveðin voru við samningaborð stórveldanna á Jalta-ráðstefnunni. Við tóku nokkur ár óvissu í landinnu sem var þó fljótlega eytt.

Þegar kommúnistar tóku yfir Tékkóslóvakíu árið 1948 var nokkurt jafnvægi milli hinna ýmsu þátta hagkerfisins. Iðnaður var þó þungamiðja atvinnulífsins enda landið eitt það iðnvæddasta í Evrópu þó enn væru Tékkóslóvakar að sjálfsögðu að súpa seyðið af seinni heimsstyrjöldinni líkt og aðrar þjóðir álfunnar. Eftir að kommúnistar tóku völdin lögðu þeir höfuðáherslu á þungaiðnað umfram aðra þætti atvinnulífsins svo sem landbúnað og framleiðslu almennra neitendavara. Margar helstu atvinnugreinar þjóðarinnar höfðu verið þjóðnýttar að hluta eða öllu leyti fyrir yfirtöku kommúnista og héldu þeir því áfram. Svo var komið, um árið 1950, að svo til allt efnahagslíf þjóðarinnar hafði verið þjóðnýtt og hélst það svo allt þar til kommúnistastjórnin féll í flauelsbyltingunni 1989. Vorið í Prag hafði að sjálfsögðu ákveðinn áhrif á iðnað líkt og aðra hluti þjóðfélagsins en varði svo stutt að engar meiriháttar breytingar höfðu komist í framkvæmd þegar það var kæft í fæðingu.

Stóriðnaður fékk mikinn stuðning á 6. áratugnum en með því fylgdi að mikið var um úrgang og verksmiðjurnar voru ekki nægilega vel staðsettar til þess að geta nýtt allt það sem landið og fólkið í landinu hafði upp á að bjóða. Þrátt fyrir að starfsfólkið væri vel þjálfað og duglegt þá voru hvatir til vinnu og stjórnunar litlar. Það leiddi til minni veltu, minni framleiðslu og lélegri vara. Hagkerfið hrundi því að nokkru leyti á sjöunda áratugnum og þrátt fyrir ýmsar ráðstafanir og tilraunir til umbóta þá náðist ekki fullnægjandi árangur.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn aðstoðaði Tékkland árið 1989 að byggja upp innviðina á ný. Með því byrjaði iðnaður að dafna og erlendir fjárfestar fjárfestu í iðnaði. Iðnaður í Tékklandi var að einkavæðast.

Árið 1995 voru mýmörg fyrirtæki einkavædd sem leiddi til þess að um 80% af öllum iðnaði í Tékklandi var kominn úr ríkiseign. Þó hafði tékkneska ríkið enn nokkra stjórn á stál-, fjarskipta- og orkuiðnaði í gegnum fyrirtækið CEZ Group, en það á um það bil 96 fyrirtæki og hefur starfsemi í allmörgum löndum svo sem Austurríki, Póllandi, Serbíu, Tyrklandi og átta öðrum. Það því eitt stærsta ríkisrekna fyrirtæki í Evrópu. Einkavæðing CEZ Group átti að hefjast árið 2001 en þá stóð fyrirtækið undir 41% af vergri landframleiðslu og veitti 35% af fólki í Tékklandi atvinnu. En vegna efnahagslegrar niðursveiflu var hætt við það. Nú árið 2012 er enn verið að hugsa um hvort einkavæða eigi fyrirtækið.

Tékkland er nú með eitt iðnvæddasta hagkerfi í Mið- og Austur-Evrópu. Þessi iðnstyrkur er arfleifð frá 19. öld þegar Bæheimur og Mæri voru iðnaðarhéröð í austurríska-ungverska keisaradæminu. Íbúar Tékklands eru vel menntaðir og innviðir Tékklands mjög þróaðir.

Helstu atvinnugreinar

[breyta | breyta frumkóða]
Skoda-bílar á sýningu í Leipzig 1980

Helstu atvinnugreinar Tékklands eru: bílaiðnaður, smíði véla, járn- og stálframleiðsla, járnvinnsla, raftæki, vefnaður, gler, kristall, postulín, vopnaframleiðsla, keramik og auðvitað bjórbruggun. Helstu landbúnaðarafurðir Tékklands eru: sykurrófur, kartöflur, hveiti og humlar. Eins og með mörg ríki í Mið-Evrópu er mikil hagvöxtur fólginn í eftirspurn og erlendri fjárfestingu.

Bílaiðnaður

[breyta | breyta frumkóða]

Í Tékklandi voru framleiddir 465.268 bílar árið 2001 en framleiðslan er nú að ná um einni milljón bíla á ári. Meira en 800 fyrirtæki eru beintengd framleiðslu bíla í Tékklandi. Verg ársframleiðsla greinarinnar er um 9-10% af landsframleiðslu. Af bílaframleiðendum sem framleiða eitthvað eða allt í ökutækin í Tékklandi má nefna Skoda, TPCA (Toyota Peugeot Citroën Automobile), Hyundai, Tatra, Irisbus Iveco og Avia Ashok Leyland.

Orkuiðnaður

[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt hagstofu Tékklands er 65,4% af rafmagni landsins búið til með gufu. Gufan er ekki jarðhiti heldur búin til með því að hita vatn með brennslu kola og annarra efna. 30% af rafmagninu er framleitt með kjarnorku en einungis 4,6% með endurnýtanlegum orkugjöfum svo sem fallvatni. Mikið er notað af gasi í Tékklandi en það kemur með pípum frá Rússlandi og Noregi. Tvöfalt meira er notað af gasi en rafmagni í iðnaði.

Gjaldmiðill

[breyta | breyta frumkóða]

Fram til 1918 var austurríska krónan gjaldmiðill í landinu. Þegar Tékkóslóvakía var stofnuð sem ríki var búinn til nýr gjaldmiðill, tékkóslóvakíska krónan. 1993 klofnaði landið í Tékkland og Slóvakía. Tékkland tók þá upp eigin mynt, tékknesku krónuna. 1 króna eru 100 Haleru (þýska: Heller). Þegar Tékkland gekk í Evrópusambandið var ætlunin að innleiða evruna árið 2010. Af þessu hefur þó ekki orðið enn þá en stjórnin hefur skuldbundið sig til að taka upp evruna á allra næstu árum.

Alls búa 10,5 milljónir í Tékklandi, þar af 75% þeirra í borgum. Þéttleikinn er 130 íbúar á km2, sem er talsvert undir meðallagi í Evrópu. Rúmlega 90% þjóðarinnar eru Tékkar. 3,7% eru Mærar (íbúar frá Mæri), en þessir þjóðflokkar voru ekki aðgreindir fyrr en 1980. 3,9% eru útlendingar og fer þeim ört fjölgandi. Stærsti hópur útlendinga eru Úkraínumenn (1,2%), síðan Slóvakar, Víetnamar, Rússar og Pólverjar.

Sökum þess að Tékkland tilheyrði Austurríki í langan tíma ganga flestar borgir í landinu einnig undir þýskum heitum. Stærstu borgir landsins:

Röð Borg Þýskt heiti Íbúar Hérað
1 Prag (Praha) Prag 1,2 milljónir Höfuðborgarsvæðið
2 Brno Brünn 371 þúsund Suður-Mæri
3 Ostrava Ostrau 306 þúsund Suður-Slésía
4 Plzeň Pilsen 169 þúsund Plzeň
5 Liberec Reichenberg 101 þúsund Liberec
6 Olomouc Olmütz 100 þúsund Olomouc
7 Ústí nad Labem Aussig an der Elbe 95 þúsund Ústí
8 České Budějovice Budweis 94 þúsund Suður-Bæheimur
9 Hradec Králové Königgrätz 94 þúsund Králové
10 Pardubice Pardubitz 90 þúsund Pardubice
11 Havířov - 82 þúsund Suður-Slésía
12 Zlín Zlin 75 þúsund Zlín
13 Kladno - 69 þúsund Mið-Bæheimur
14 Most Brüx 67 þús Ústí

59% allra landsmanna eru ekki skráðir í nein trúfélög og er það eitt hæsta hlutfall heims. 26% landsmanna eru kaþólikkar, 7% eru í rétttrúnaðarkirkjunni en afgangurinn greinist í kirkjur mótmælenda. Eftir heimsstyrjöldina síðari voru kristnar kirkjur teknar eignarnámi. Áætlað er að endurgreiða skaðann sem þær urðu fyrir og á það að verða gert í síðasta lagi 2013.

Opinbert tungumál Tékklands er tékkneska, sem er indóevrópskt tungumál af ætt vesturslavneskra tungumála. Tólf önnur tungumál eru opinberlega viðurkennd sem móðurmál minnihlutahópa í Tékklandi. Það eru slóvakíska, romani, úkraínska, pólska, þýska, gríska, ungverska, rússneska, rútenska, búlgarska, króatíska og serbneska.

Eftir fyrri heimstyrjöldina blómstraði kvikmyndaiðnaðurinn í Tékklandi. Margar kvikmyndir voru gerðar eða um áttatíu á ári. Svo var sjöundi áratugurinn gullöld kvikmyndagerðarinnar. Film and Television School of the Academy of Performing Arts (FAMU) einn elsti skóli sinnar tegundar í Evrópu var stofnaður í Prag og tvær tékkneskar myndir unnu Óskarinn fyrir bestu erlendu myndina. Nú flykkjast margir erlendir aðilar til Tékklands bæði til að taka upp myndir þar vegna minni kostnaðar og einnig til að kynna sér nýjar tékkneskar kvikmyndir.

Tónlist og bókmenntir

[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsir þekktir tónlistarmenn eru frá Tékklandi. Frá 19. öldinni eru nöfn eins og Bedřich Smetana og Antonín Dvořák heimsþekkt. Af þekktum rithöfundum má nefna Franz Kafka og Milan Kundera.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðaríþrótt Tékka er íshokkí. Landsliðið hefur nokkrum sinnum orðið heimsmeistari, síðast 2010. 1998 urðu Tékkar Ólympíumeistarar á vetrarleikunum í Nagano í Japan. Aðrar vetraríþróttir eru einnig hátt skrifaðar, svo sem skíðaíþróttir. Miðstöð skíðaíþrótta í landinu er Liberec í norðurhluta Bæheims en þar fór meðal annars fram heimsbikarmótið í norrænum greinum 2009.

Knattspyrna er einnig vinsæl íþrótt. Úrvalsdeildin heiti Gambrinus-deild og er með 16 lið. Landsliðið hefur síðustu ár verið að gera það gott á alþjóða vettvangi. Á EM 1996 í Englandi komst liðið í úrslit en tapaði leiknum fyrir Hollandi. Liðið hefur einu sinni komist í lokakeppni HM, árið 2006 í Þýskalandi, en komst ekki upp úr riðlakeppninni. Meðan Tékkóslóvakía var og hét komst liðið tvisvar í úrslit en tapaði báðum leikjum. Fyrst 1934 fyrir Ítalíu, síðan 1962 fyrir Brasilíu. Af þekktum tékkneskum leikmönnum má nefna Milan Baroš (Galatassaray), Jan Koller (lengst af hjá Borussia Dortmund) og markmanninn Petr Čech hjá Chelsea.

Í kappakstursbrautinni Automotodrom Brno er keppt í alþjóðlegum kappakstri.

Budweis-bjór

Tékknesk matargerð einkennist af kjötréttum, sérstaklega svínakjöti. Landið er þó þekktara fyrir bjórframleiðsu, en bjór er ein helsta útflutningsvara landsins. Tékkar framleiða á einum ársfjórðungi um 15.263 hektólítra af bjór og af þeim eru um 2.903 milljón hektólítrar fluttir út. Helstu kaupendur tékknesks bjórs eru Þjóðverjar, Slóvakar og Rússar. Þær borgir sem helst brugga bjór eru Plzeň og České Budějovice en þekktustu tegundirnar eru nefndar eftir borgunum (Pilsner og Budweis). Tékkar drekka hlutfallslega mestan bjór á mann í heimi.

Í Tékklandi eru svipaðir helgidagar og í öðrum ríkjum Mið- og Vestur-Evrópu. Athygli vekur þó að uppstigningardagur og gamlársdagur eru ekki helgidagar í landinu. Opinberir helgidagar í Tékklandi:

Dags. Helgidagur Ath.
1. janúar Þjóðhátíð Tékkland stofnað 1. janúar 2003
Að vori Páskar Tveir dagar
1. maí Verkalýðsdagurinn
8. maí Frelsisdagur Stríðslokadagur heimstyrjaldarinnar síðari
5. júlí Dagur heilags Kyrills og heilags Meþóds Kyrill og Meþód kristnuðu landið á 9. öld
6. júlí Dagur Jans Hus Dagurinn sem Jan Hus var brenndur á báli 1415
28. september Dagur tékkneska ríkisins Dauðadagur heilags Wenzels 929 eða 935, verndardýrlingur Tékklands
28. október Dagur Tékkóslóvakíu Stofndagur Tékkóslóvakíu 1918
17. nóvember Baráttudagur fyrir frelsi og lýðræði Stúdentamótmælin 1938 og 1989
24. desember Aðfangadagur
25. desember Jóladagur
26. desember Annar í jólum

Auk ofangreindra helgidaga er haldið upp á nokkra aðra daga en aðeins í vissum landshlutum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Alþýðublaðið, 01.06.1939
  2. Alþýðublaðið, 17.08.1939
  3. Alþýðublaðið, 19.03.1940
  4. Morgunblaðið, 14.06.1992
  5. „The Constitution of the Czech Republic – Article 16“. Czech Republic. Afrit af uppruna á 3. september 2015. Sótt 8. ágúst 2015.
  6. „Klaus signs Czech direct presidential election implementing law“. Czech Press Agency. 1. ágúst 2012. Afrit af uppruna á 16. janúar 2013. Sótt 7. nóvember 2012.
  7. Hloušek, Vít (11. mars 2015). „Is the Czech Republic on its Way to Semi-Presidentialism?“. Baltic Journal of Law & Politics. 7 (2): 95–118. doi:10.1515/bjlp-2015-0004. ISSN 2029-0454.
  8. „Members of the Government“. Government of the Czech Republic. Afrit af uppruna á 31. ágúst 2015. Sótt 8. ágúst 2015.
  9. „Prime Minister“. Government of the Czech Republic. Afrit af uppruna á 4. mars 2016. Sótt 8. ágúst 2015.