Fara í innihald

Seltjarnarnes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 12. júní 2021 kl. 00:52 eftir Bjarki S (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. júní 2021 kl. 00:52 eftir Bjarki S (spjall | framlög)
Seltjarnarnesbær
Seltjarnarneskirkja séð frá sjó
Seltjarnarneskirkja séð frá sjó
Skjaldarmerki Seltjarnarnesbær
Staðsetning
Staðsetning
Hnit: 64°09′10″N 21°59′23″V / 64.15278°N 21.98972°V / 64.15278; -21.98972
LandÍsland
KjördæmiSuðvesturkjördæmi
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriÁsgerður Halldórsdóttir
Flatarmál
 • Samtals2 km2
 • Sæti62. sæti
Mannfjöldi
 (2024)
 • Samtals4.572
 • Sæti12. sæti
 • Þéttleiki2.286/km2
Póstnúmer
170, 172
Sveitarfélagsnúmer1100
Vefsíðahttp://www.seltjarnarnes.is/

Seltjarnarnes er nes á suð-vesturhluta Íslands, sunnan Kollafjarðar. Yst á nesinu er sveitarfélagið Seltjarnarnesbær (áður Seltjarnarneshreppur), sem er minnsta sveitarfélag Íslands að flatarmáli. Íbúar eru 4710 (mars 2021).

Lýsing

Nesið er láglent, hæst ber Valhúsahæð, 31 m yfir sjávarmáli. Ströndin er vogskorin og hefur orðið töluvart landrof á nesinu af sjógangi, bæði við Gróttu og einnig við Seltjörn, sem áður var tjörn eins og nafnið bendir til en er nú vík. Aftur á móti var Bakkatjörn áður vogur en var lokað og breytt í tjörn um 1960. Varnargarðar hafa verið hlaðnir víðast hvar við ströndina til að verjast ágangi sjávar. Bæði Grótta og Bakkatjörn eru friðlýstar og þar er fjölskrúðugt fuglalíf.

Saga

Seltjarnarneshreppur hinn forni náði frá Gróttu, sem þá var breitt nes en ekki eyja, að Elliðaám og austur með þeim til fjalla. Hreppurinn náði þvert yfir nesið, frá Kollafirði suður í Skerjafjörð og einnig yfir eyjarnar Akurey, Engeyog Viðey á Kollafirði. Ein af jörðunum á nesinu var Reykjavík en þar var stofnaður kaupstaður árið 1786 sem skyldi verða nýr höfuðstaður Íslands. Staðarmörk kaupstaðarins í Reykjavík voru færð út nokkrum sinnum á 19. og 20. öld þannig að Seltjarnarneshreppur náði nú aðeins yfir lítið svæði yst á nesinu og einnig jörðina Kópavog fyrir sunnan Reykjavík. Allnokkrar jarðir voru á Seltjarnarnesi (m.a. Nes við Seltjörn) og var þar stundaður hefðbundinn búskapur en einnig var töluverð útgerð frá nesinu.

Eftir að Lambastaðaland byggðist upp um og eftir síðari heimsstyrjöldina var ákveðið að byggðin yst á nesinu yrði sérstakt sveitarfélag og skilin frá byggðinni í Kópavogi sem eiunnig var í vexti. Hinn nýi Seltjarnarneshreppur var stofnaður um áramótin 1947-1948. Seltjarnarnes fékk kaupstaðarréttindi 29. mars 1974. Nú eru bæjarmörk Seltjarnarness og Reykjavíkur um Eiðisvík að norðan og Lambastaðamýri að sunnan. Árið 1978 var svo gerð enn ein breytingin á mörkum Seltjarnarness og Reykjavíkur þegar eyjarnar þrjár á Kollafirði voru færðar undir Reykjavíkurborg.[1]

Stjórnmál

Núverandi bæjarstjórnarmeirihluti er skipaður Sjálfstæðisflokknum og hefur svo verið um áratuga skeið. Sigurgeir Sigurðsson var sveitarstjóri og síðan bæjarstjóri á Seltjarnarnesi í 37 ár, eða frá 1965 til 2002. Jónmundur Guðmarsson tók við af honum en nú gegnir Ásgerður Halldórsdóttir starfi bæjarstjóra.

Sjá nánar:

Menning

Nesstofa.

Lækningaminjasafn Íslands er til húsa í Nesstofu á Seltjarnarnesi, þar sem Bjarni Pálsson, fyrsti landlæknir Íslands, hafði aðsetur á síðari hluta 18. aldar. Nesstofa, sem er eitt af elstu steinhúsum landsins, er í umsjá safnsins og er þar einnig lyfjafræðisafn.

Á Seltjarnarnesi er aðsetur Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness sem er eina félag áhugamanna um stjörnuskoðun og stjörnufræði á Íslandi. Aðsetur félagsins er í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Uppi á þaki skólans er hvolfþak sem hýsir aðalsjónauka félagsins.

Um tíma var starfrækt sjálfstætt leikhús á Nesinu sem bar heitið Norðurpóllinn og var það til húsa í gömlu iðnaðarhúsnæði við Sefgarða en það hefur nú verið rifið. Leikhúsið var stofnað í janúar 2010 og frumsýndi á sínu fyrsta leikári 12 leiksýningar og hýsti meðal annars sýningar á Barnamenningarhátíð Reykjavíkurborgar.

Íþróttir

Á Seltjarnarnesi er starfrækt Íþróttafélagið Grótta sem nefnt er eftir eynni Gróttu. Félagið rekur fjórar deildir, knattspyrnudeild, handknattleiksdeild, fimleikadeild og kraftlyftingadeild. Fjöldi Íslandsmeistaratitla hefur unnist í öllum yngri flokkum félagsins.

Skólar

Stafræktir eru 2 skólar á Seltjarnarnesi. Þetta eru Mýrarhúsaskóli fyrir 1. til 6. bekk og Valhúsaskóli fyrir 7. til 10. bekk. Þeir voru sameinaður undir nafninu Grunnskóli Seltjarnarness, 1. ágúst árið 2004. Skólastarf fer fram í báðum skólum og eru nemendur í 1.-6 bekk í Mýrarhúsaskóla og nemendur 7.-10 bekk í Valhúsaskóla. Nemendur í grunnskólanum eru um 650.

Mýrarhúsaskóli er einn elsti skóli landsins en hann var stofnaður árið 1875. Hvatamaður að stofnum skólans var Ólafur Guðmundsson, útvegsbóndi í Mýrarhúsum. Ólafur hafði stundað sjósókn frá Vatnsleysuströnd og hafði kynnst skólahaldi þar. Fyrsti kennari skólans var Sigurður Sigurðsson. Fyrstu húsakynni skólans voru í Mýrarhúsum en fljótlega voru þrengsli farin að segja til sín og árið 1883 var nýtt skólahús úr hlöðnu grjóti tekið í notkun og vígt með viðhöfn. Næsta skólahús var byggt árið 1906 og stendur það enn og setur mikinn svip á umhverfi sitt. Húsinu hefur verið vel við haldið og er nýtt undir starfsemi Seltjarnarnesbæjar í dag. Árið 1960 flutti skólinn í nýtt og fullkomið skólahúsnæði sem síðan er búið að byggja við fjórum sinnum.

Valhúsaskóli var stofnaður út úr Mýrarhúsaskóla árið 1974 og starfaði því sjálfstætt í 30 ár. Ólafur H. Óskarsson var ráðgjafi skólanefndar Seltjarnarnesbæjar við hönnun og byggingu skólans. Hann ferðaðist víða, meðal annars erlendis, til að kynna sér hönnun skólabygginga og starfaði hann náið með arkitekt skólans. Ólafur var síðar ráðinn fyrsti skólastjóri Valhúsaskóla og gengdi því starfi frá 1974 til 1997.

Tilvísanir

  1. Lög nr. 30/1978 um lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og Seltjarnarneskaupstaðar.

Heimildir

  • Heimir Þorleifsson (1991). Seltirningabók. Seltjarnarnesbær.
  • „Vefur Seltjarnarnes. Skoðað 17. september 2010“.

Tenglar