Fara í innihald

Lækningaminjasafn Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lækningaminjasafn Íslands var stofnað árið 2007 og var ætlað að verða miðstöð safnastarfsemi á sviði lækna- og heilbrigðisvísinda. Seltjarnarnesbær var stofnandi safnsins og byggði hús í sem ætlað var að hýsa safnið. Safnið flutti hins vegar aldri í nýbygginguna og var það formlega lagt niður árið 2013 og munir þess færðir í vörslu Þjóðminjasafns Íslands.

Saga Lækningaminjasafnsins

[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndina að Lækningaminjasafni Íslands má rekja til Jóns Steffensen (1905-1991) prófessors í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands en hann átti sér þann draum að lækningaminjasafni yrði komið upp í Nesstofu á Seltjarnarnesi. Árið 1982 ánafnaði hann öllum eigum sínum og konu sinnar Kristínar Björnsdóttur Steffensen til Læknafélags Íslands með því skilyrði að gjöfinni yrði varið óskiptri til frágangs og innréttingar á framtíðarhúsnæði fyrir muni Nesstofusafnsins og að eignunum skyldi að öðru leyti varið til hagsbóta fyrir Nesstofusafn eftir viðhorfum sem fram komu í bréfi Jóns til menntamálaráðherra árið 1972. Gjöfin var afar rausnarleg og var einbýlishús þeirra hjóna að Aragötu 3 í Reykjavík, bókasafn þeirra, fjöldi lækningaáhalda og annarra muna tengdra læknavísindum meginuppistaða gjafarinnar.[1]

Áður en Lækningaminjasafnið var formlega stofnað var það deild innan Þjóðminjasafnsins undir heitinu Nesstofusafn og aðstoðaði Jón starfsfólk Þjóðminjasafnsins við skráningu munanna.[2] Sýningaraðstaða Nesstofusafns var formlega opnuð almenningi í Nesstofu árið 1992 en þá þegar var ljóst að safnið þyrfti stærra rými.[3]

Árið 1997 var ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um byggingu nýs húss sem skyldi rísa á lóð við Nesstofu. Áform um nýbygginguna voru hins vegar lögð til hliðar um nokkurra ára skeið en fjárfest var í gömlu iðnaðarhúsnæði í nágrenni Nesstofu sem ætlað var að hýsa safnkostinn tímabundið. Það var svo árið 2007 sem Lækningaminjasafn Íslands var formlega stofnað og í stofnskrá safnsins kom fram að Seltjarnarnesbær væri skilgreindur eigandi þess en rekstarkostnaður myndi skiptast á milli bæjarins og ríkisins.[4]

Húsnæði safnsins

[breyta | breyta frumkóða]

Bygggarðar 7

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2000 festi Læknafélag Íslands kaup á gömlu iðnaðarhúsnæði við Bygggarða 7 á Seltjarnarnesi. Húsnæðið var skammt frá Nesstofu og áformaði félagið að nýta það undir starfsemi Nesstofusafns þar til varanlegt húsnæði yrði reist. Félagið afhenti ríkissjóði húsnæðið til eignar og hafði Þjóðminjasafn Íslands umsjón með því allt þar til Lækningaminjasafn Íslands var formlega stofnað árið 2007 en þá hafði húsnæðið að Bygggörðum verið selt og voru fjármunirnir hluti af stofnkostnaði við nýbyggingu safnsins að Safnatröð.[2]

Safnatröð 5

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1997 stóðu Menntamálaráðuneytið, Þjóðminjasafn Íslands og Læknafélag Íslands að hugmyndasamkeppni að nýrri byggingu fyrir lækningaminjasafn við Nesstofu á Seltjarnarnesi og báru teikningar arkitektanna Ásdísar Helgu Ágústsdóttur og Sólveigar Berg hjá Yrki arkitektum sigur úr bítum.[5] Nokkur bið varð á því að framkvæmdir hæfust en í september árið 2007 undirrituðu fulltrúar frá Seltjarnarnesbæ, Menntamálaráðuneytinu, Læknafélagi Íslands, Læknafélagi Reykjavíkur og Þjóðminjasafni Íslands samning um byggingu og rekstur Lækningaminjasafns Íslands. Byggingin var fjármögnuð með fjárframlagi úr ríkissjóði, frá Seltjarnarnesbæ, Læknafélagi Íslands og Læknafélagi Reykjavíkur.[6] Fyrsta skóflustungan var tekin í september 2008.[5] Seltjarnarnesbær áformaði að byggingin myndi einnig nýtast undir aðra menningartengda starfssemi bæjarins en rekstur og stjórn safnsins í hinu nýja húsnæði átti alfarið að verða í höndum bæjarins.[7] Áætlað var að byggingu hússins yrði lokið árið 2009[8] en bankahrunið haustið 2008 setti strik í reikninginn og fóru framkvæmdirnar langt fram úr fjárhagsáætlunum.

Í árslok 2012 rann samningur um byggingu og rekstur hússins út og taldi Seltjarnarnesbær sér ekki lengur fært að standa við sinn hluta samningsins og neitaði að endurnýja hann.[9] Í desember 2012 tilkynnti bærinn menntamálaráðuneytinu að hann myndi ekki bera ábyrgð á húsinu eftir 1. janúar 2013 og segja má að þá hafi langt óvissutímabil um framtíð hússins hafist og sér ekki fyrir endan á því. Árið 2013 var Lækningaminjasafnið formlega lagt niður og munir í eigu þess runnu á nýjan leik til Þjóðminjasafns Íslands.[10]

Hús Lækningaminjasafnsins á Seltjarnarnesi er enn óklárað og hafa Seltjarnarnesbær og íslenska ríkið staðið í deilum um skiptingu framkvæmdakostnaðar og í desember árið 2018 auglýsti bærinn húsið til sölu.[11]

Forstöðumenn Lækningaminjasafnsins

[breyta | breyta frumkóða]

Á fyrstu árum Nesstofusafns hafði Kristinn Magnússon fornleifafræðingur og deildarstjóri hjá Þjóðminjasafni Íslands umsjón með safninu[2] en árið 2008 var Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir sagnfræðingur ráðin af Seltjarnarnesbæ til að gegna stöðu safnstjóra Lækningaminjasafns Íslands.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar frá apríl 2014 um Lækningaminjasafn Íslands[óvirkur tengill] (sótt 10. september 2019).

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hi.is, „Verðmætt safn um heilbrigði og velferð þjóðarinnar“ (skoðað 10. september 2019)
  2. 2,0 2,1 2,2 „Bygggarðar 7 keyptir fyrir Nesstofusafn“, Morgunblaðið, 17. ágúst 2000 (skoðað 10. september 2019)
  3. „Nesstofusafn opnað í vor“, Tíminn, 8. febrúar 1992 (skoðað 10. september 2019)
  4. Læknabladid.is, „Framtíð Lækningaminjasafnsins í uppnámi“ (skoðað 10. september 2019)
  5. 5,0 5,1 Ruv.is, „Seltjarnarnes vill selja Lækningaminjasafn“ (skoðað 9. september 2019)
  6. Högni Óskarsson og Óttar Guðmundsson, „Dramatísk saga lækningaminjasafns“, Visir.is, (skoðað 9. september 2019)
  7. Vb.is, „Lækningaminjasafn Íslands mun rísa við Nesstofu“ (skoðað 10. september 2019)
  8. Steinþór Guðbjartsson, „Lækningaminjasafn Íslands við Nesstofu“ Morgunblaðið, 28. september 2007 (skoðað 9. september 2019)
  9. Læknabladid.is, „Verður Lækningaminjasafn á Seltjarnarnesi að veruleika?“ (skoðað 9. september 2019)
  10. Mbl.is, „Munir renna til Þjóðminjasafns“ (skoðað 9. september 2019)
  11. Mbl.is, „Synd að húsið sé tómt“ (skoðað 10. september 2019)