Fara í innihald

Faraó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dæmigerð mynd af faraó í fullum skrúða, með nemes (höfuðklút), gervihökutopp og klæddur í skrautlegt pils.

Faraó (úr fornegypsku: pr-`3 „mikið hús“) er titill sem venja er að nota um konunga Egyptalands hins forna. Upphaflega kom orðið fyrir í samsettum titlum með vísun til konungshallarinnar eins og í smr pr-`3, „hirðmaður hins mikla húss“. Á tímum átjándu konungsættarinnar var farið að nota orðið til að ávarpa konunginn, sem annars er nswt á fornegypsku. Löngu síðar, á þriðja millitímabilinu, var þetta orð líklega borið fram *par-ʕoʔ sem varð φαραώ í forngrísku og pharaō í latínu. Brátt myndaðist hefð fyrir því að nota orðið sem titil allra konunga Egyptalands hins forna, hvort sem þeir ríktu fyrir eða eftir tíma átjándu konungsættarinnar.

Í Egyptalandi hinu forna erfðist konungstitillinn yfirleitt í kvenlegg og menn urðu konungar vegna tengsla sinna við konungbornar konur. Í fyrstu var litið svo á að konungurinn væri sonur kýrgyðjunnar Bat og síðar Haþor en síðar komst hefð á að líta á hann sem líkamning fálkaguðsins Hórusar á jörðu meðan hann lifði, og Ósíriss eftir að hann dó. Þegar dýrkun Ósíriss og Ísisar varð áberandi varð konungurinn að tengilið dauðlegra manna við Ósíris sem sameinaðist honum eftir dauða sinn.