Fara í innihald

Farúk Egyptalandskonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Ætt Múhameðs Alí Konungur Egyptalands
Ætt Múhameðs Alí
Farúk Egyptalandskonungur
Farúk
فاروق الاول
Ríkisár 28. apríl 1936 – 26. júlí 1952
SkírnarnafnFarúk bin Ahmed Fúad bin Ismail bin Ibrahim bin Múhameð Alí bin Ibrahim Agha
Fæddur11. febrúar 1920
 Kaíró, Egyptalandi
Dáinn18. mars 1965 (45 ára)
 Capri, Ítalíu
GröfAl-Rifa'i-moskan, Kaíró, Egyptalandi
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Fúad 1.
Móðir Nazli Sabri
DrottningarFarida (g. 1938; skilin 1948)
Narriman Sadek (g. 1951; skilin 1954)
BörnFerial, Fosía, Faría, Fúad

Farúk (11. febrúar 1920 – 18. mars 1965) var næstsíðasti konungur Egyptalands og tíundi þjóðhöfðingi landsins af ætt Múhameðs Alí. Hann tók við af föður sínum, Fúad 1., sem konungur þann 28. apríl árið 1936 og ríkti til 26. júlí árið 1952, en þá var honum steypt af stóli og nýfæddur sonur hans, Fúad 2., gerður konungur í hans stað. Farúk lést þrettán árum síðar í útlegð á Ítalíu. Systir Farúks, Fosía, var fyrsta eiginkona Múhameðs Resa Pahlavi Íranskeisara.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Farúk var sonarsonarsonarsonur albanska aðalsmannsins Múhameðs Alí, sem hafði stofnað konungsætt í Egyptalandi á 19. öld. Á unglingsárum sínum stundaði Farúk nám í Woolwich-hernaðarskólanum í Bretlandi. Faðir Farúks lést þegar hann var sextán ára og Farúk var krýndur nýr konungur Egyptalands árið 1936, við góðar undirtektir bæði alþýðunnar og yfirstéttarinnar. Eftir krýningu sína ávarpaði nýi konungurinn þjóð sína í útvarpinu, og var þetta í fyrsta sinn sem egypskur þjóðhöfðingi gerði slíkt. Sem konungur reyndi Farúk, líkt og faðir hans hafði gert, að styrkja völd krúnunnar gagnvart Wafd-flokknum sem þá var að brjótast til áhrifa í Egyptalandi.

Farúk naut í byrjun stjórnartíðar sinnar talsverðra vinsælda vegna trúrækni sinnar. Hann stóð gegn hinum veraldarsinnaða Wafd-flokki og reiddi sig á stuðning Bræðralags múslima og annarra trúarlegra stjórnmálahreyfinga sem vildu að Egyptalandi væri stjórnað í samræmi við íslömsk gildi.

Farúk lifði hátt og naut lystisemda þeirra sem fylgdu því að vera konungur. Þrátt fyrir að eiga þegar mikið landflæmi, margar hallir og heilan bílaflota fór konungurinn ungi oft í verslunarferðir til Evrópu og vakti oft hneykslun þegna sinna með óhóflegri eyðslusemi sinni.

Í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar var Farúk jákvæður gagnvart Öxulveldunum en vegna samnings sem hann hafði gert við Breta árið 1936 kaus hann þó að styðja bandamenn óformlega þegar stríðið braust út.

Þann 6. nóvember árið 1943 slasaðist Farúk í bílslysi og var aldrei framar samur. Haft var fyrir satt að persónuleiki hans hefði breyst eftir slysið og jafnvel að slysið hefði verið byrjunin á hnignunarferli hans.[1]

Á stríðsárunum var Farúk mikið gagnrýndur fyrir óhófsemi sína og nautnahyggju. Margir Egyptar urðu honum argir þegar hann hafði ljósin kveikt í konungshöll sinni í Alexandríu á meðan öll önnur hús í borginni voru rafmagnslaus vegna loftárása Þjóðverja og Ítala. Þar sem Bretar höfðu haldið uppi hernámi í Egyptalandi frá 19. öld voru margir Egyptar, líkt og Farúk sjálfur, hlynntir Þjóðverjum og Ítölum og líkaði illa að landið tæki ekki afstöðu gegn bandamönnum. Formlega séð var Egyptaland hlutlaust þar til á síðasta ári styrjaldarinnar, og Farúk neitaði að gera ítalska erindreka og aðra starfsmenn brottræka úr landinu.

Þótt Egyptaland væri sjálfstætt að nafninu til á valdatíð Farúks nutu Bretar enn verulegra áhrifa og mörgum þótti sjálfstæðið aðeins vera á pappírnum. Farúk vildi sanna fyrir þegnum sínum að Egyptaland væri frjálst og fullvalda ríki með því að vera stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum, sem áttu að taka við af Þjóðabandalaginu eftir stríðið. Þar sem aðeins aðildarþjóðum bandamanna var boðið á ráðstefnuna í San Francisco sem lagði drög að Sameinuðu þjóðunum lýsti Farúk formlega yfir stríði gegn Þýskalandi og Japan þann 26. febrúar árið 1945.[2]

Fall og útlegð Farúks[breyta | breyta frumkóða]

Á síðustu valdaárum Farúks náði spilling í egypskri stjórnsýslu fordæmalausum hæðum.[3] Spillingin, auk breska hernámsins og ósigurs arabaþjóðanna í stríði gegn Ísrael árið 1948 leiddi til þess að Farúk varð verulega óvinsæll og var síðan loks steypt af stóli í herforingjabyltingu þann 23. júlí árið 1952. Byltingarforingjarnir, hershöfðingjarnir Gamal Abdel Nasser og Múhameð Naguib, neyddu Farúk til að segja af sér og gerðu nýfæddan son hans, Fúad 2., konung í hans stað. Hinn barnungi Fúad var konungur að nafninu til í um ár eftir að Farúk sagði af sér, en síðan lýstu byltingarmennirnir yfir stofnun egypsks lýðveldis og endalokum konungdæmisins.

Þegar byltingarmennirnir fóru í gegnum hallir Farúks eftir að honum var steypt af stóli fundu þeir safn af gersemum sem Farúk hafði sankað að sér á valdatíð sinni. Meðal þess sem vakti mesta athygli af eigum konungsins var gríðarmikið safn af klámmyndum sem konungurinn hafði safnað saman og var sagt stærsta safn klámmynda í heimi.[4]

Farúk var rekinn í útlegð frá Egyptalandi og bjó á næstu árum fyrst í Mónakó, en síðan á Ítalíu, í Róm og á eyjunni Capri. Farúk hlaut mónakóskan ríkisborgararétt árið 1959.[5] Konungurinn fyrrverandi hélt áfram bóhemlifnaði sínum í útlegðinni og var tíður gestur á evrópskum veitingahúsum og spilavítum þar til hann lést árið 1965.

Fjölskylda og einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Þann 20. janúar árið 1938 kvæntist Farúk egypskri aðalskonu að nafni Safinaz Zulficar í Kaíró. Hún tók sér nafnið Farída þegar hún varð drottning Egyptalands þar sem hefð var fyrir því að allir meðlimir konungsfjölskyldunnar hefðu sömu upphafsstafi. Farúk og Farída eignuðust þrjár dætur: Prinsessurnar Ferial, Fosíu og Fadíu. Farúk skildi við Farídu þann 19. nóvember árið 1948 og fann henni það til saka að hafa aðeins fært honum dætur en engan son til þess að erfa krúnuna.[6]

Farúk kvæntist annarri drottningu sinni, kaupmannsdóttur að nafni Narriman Sadek, árið 1951. Haft var fyrir satt að Farúk hefði aðeins séð hana einu sinni áður en hann ákvað að kvænast henni og að hann hefði slitið trúlofun hennar við egypskan embættismann svo hann gæti sjálfur fengið að eiga hana fyrir konu.[7] Hjónin eignuðust einn son, Fúad, árið 1952. Þau skildu eftir að Farúk var rekinn í útlegð og sviptur krúnu sinni.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Caroline Kurhan, Le roi Farouk, un destin foudroyé, Delphine Froment, lesclesdumoyenorient.com, 13 juin 2013.
  2. Jean Bach-Thai (1957). Chronologie des relations internationales de 1870 à nos jours. Éditions des relations internationales. bls. 176.
  3. Les Pharaons de l'Egypte moderne, Arte, 201.
  4. William Stadiem (1991). Too Rich: The High Life and Tragic Death of King Farouk. Carroll & Graf Pub. bls. 328. ISBN 0-88184-629-5.
  5. „Août 1952 - Farouk, un roi en exil“ (franska). parismatch.com. 2012. Sótt 21. mars 2019.
  6. „Fall Farúks“. Fálkinn. 22. ágúst 1952. Sótt 21. mars 2019.
  7. „Farouk I“. Samvinnan. 1. maí 1951. Sótt 21. mars 2019.


Fyrirrennari:
Fúad 1.
Konungur Egyptalands
(28. apríl 193626. júlí 1952)
Eftirmaður:
Fúad 2.