Fara í innihald

Björn Zoëga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Björn Zoëga (f. 26. apríl 1964) er bæklunarskurðlæknir, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, og núverandi forstjóri Karólínska sjúkra­húss­ins í Svíþjóð.

Ævi og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Björn er fæddur 26. apríl 1964 í Reykjavík. Ættarnafnið Zoëga má rekja til Danans Jóhannesar Zoëga sem fluttist til landsins 1787.[1] Björn útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík 1984. Hann lærði læknisfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1990. Hann fékk doktorsgráðu frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð 1998.[2]

Björn lék körfuknattleik fyrir Val í Úrvalsdeild karla á árunum 1982 til 1990.[3] Með Val varð hann Íslands- og bikarmeistari árið 1983 en einnig lék hann í úrslitum Úrvalsdeildarinnar árin 1984 og 1987.[4][5] Björn lék einnig 7 leiki fyrir yngri landslið Íslands[6] og starfaði sem liðslæknir íslenska karlalandsliðsins í körfubolta á Evrópumeistaramóti karla árið 2015.[5]

Björn sat í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, 1990 til 1991.

Hann lærði bæklunarskurðlækningar við Sahlgrenska háskjólasjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð og fékk sérfræðingsleyfi 1996. Hann var yfirlæknir hryggjarskurðdeildar bæklunardeildar á Sahlgrenska frá 1999 til 2002.[7]

Hann var yfirlæknir skurðstofu Landspítalans í Fossvogi frá 2002[8] og sviðstjóri skurðlækningasviðs spítalans frá 2005.

Björn var ráðinn framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum 2009 til 2013.[9] Áður hafði hann leyst af sem fram­kvæmda­stjóri lækn­inga frá 2007.[7]

Hann var forstjóri Landspítalans frá 2010 til 2013.[9] Áður hafði hann leyst af sem forstjóri frá apríl til október 2008.[7] Björn var formaður Knattspyrnufélagsins Vals 2014-15.[10]

Frá 2016 hefur hann starfað fyrir sænsku heilbrigðissamsteypuna GHP, sem rekur spítala og heilsugæslustöðvar á Norðurlöndunum og í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hann var forstjóri hryggjarskurðdeilda þeirra í Stokkhólmi og Gautaborg. Frá 2017 - 2019 var hann aðalframkvæmdastjóri lækningasviðs GHP [11] en í upphafi árs 2019 var tilkynnt um ráðningu Björns í stöðu forstjóra Karólínska sjúkra­húss­ins í Svíþjóð og tók hann við því starfi um vorið.[12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Nýjar bækur. Morgunblaðið, 7. júlí 2000.
  2. Læknar á Íslandi. Útgáfufyrirtækið Þjóðsaga, 2000. Gunnlaugur Haraldsson ritstýrði.
  3. „Gamla ljósmyndin: Spítalaforstjórinn“. www.mbl.is. Sótt 3. júní 2024.
  4. Runólfur Trausti Þórhallsson (12. júlí 2023). „Sjáðu þegar Björn Zoëga kom úr stúkunni og kippti Ólafi Kristófer aftur í lið“. Vísir.is. Sótt 13. júlí 2023.
  5. 5,0 5,1 „Landsliðinu til halds og trausts“. Morgunblaðið. 10. september 2015. bls. 44. Sótt 13. desember 2021 – gegnum Tímarit.is.Einkennismerki opins aðgangs
  6. „Unglinga- og drengjalandsleikir“. kki.is. Icelandic Basketball Association. Sótt 13. desember 2021.
  7. 7,0 7,1 7,2 Björn áfram lækn­inga­for­stjóri. Morgunblaðið, 12. febrúar 2009.
  8. Björn Zoëga sviðsstjóri lækninga á skurðlækningasviði. Fréttabréf Landspítalans, 8. apríl 2005.
  9. 9,0 9,1 Björn Zoëga læt­ur af störf­um. Morgunblaðið, 27. september 2013.
  10. Ármannsson, Bjarki. „Björn Zoëga nýr formaður Vals - Vísir“. visir.is. Sótt 22. mars 2021.
  11. Ráðinn aðalframkvæmdastjóri lækningasviðs. Viðskiptablaðið, 2. nóvember 2017.
  12. „Björn Zoëga tekur við sem forstjóri Karólínska“. Fréttablaðið. 29. janúar 2019.