Baldur Þórhallsson
Baldur Þórhallsson | |
---|---|
Fæddur | Baldur Þórhallsson 25. janúar 1968 Selfoss, Ísland |
Menntun |
|
Störf | Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands |
Maki | Felix Bergsson[1] |
Baldur Þórhallsson (f. 25. janúar 1968) er íslenskur fræðimaður. Hann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, rannsóknastjóri Rannsóknaseturs um smáríki og Jean Monnet Chair í Evrópufræðum.[2] Hann hefur sérhæft sig í rannsóknum á smáríkjum í Evrópu og verið gestakennari við fjölda erlendra háskóla.[3][4] Baldur var frambjóðandi í forsetakosningunum 2024 og er einnig einn af eigendum Hellanna við Hellu ehf.[5]
Æskuár
[breyta | breyta frumkóða]Baldur fæddist á Selfossi þann 25. janúar 1968. Foreldrar hans eru Þórhallur Ægir Þorgilsson og Þorbjörg Hansdóttir. Hann ólst upp á bænum Ægissíðu á bökkum Ytri-Rangá. Baldur lauk grunnskóla á Hellu.[4]
Menntun
[breyta | breyta frumkóða]Baldur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1988.[4] Árið 1991 útskrifaðist hann með BA-gráðu úr stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Í kjölfarið hélt hann út í nám við Háskólann í Essex í Englandi þaðan sem hann útskrifaðist með MA-gráðu í stjórnmálum Vestur-Evrópu árið 1994. Árið 1999 lauk hann doktorsgáðu í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Essex.[2][4]
Í BA námi sínu við HÍ tók hann virkan þátt í starfi stúdentahreyfingarinnar Vöku. Árið 1999 var hann einn af stofnendum Félags samkynhneigðra stúdenta við HÍ og hefur tekið virkan þátt í réttindabaráttu hinsegin fólks.[4]
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Baldur endurreisti Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands árið 2002 og stofnaði í leiðinni Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands.[3] Einnig stofnaði hann Sumarskóla Rannsóknaseturs um smáríki sem hefur starfað frá 2003. Árið 2008 settist hann í stjórn Félagsstofnunnar stúdenta. Árið 2014 varð hann deildarforseti stjórnmálafræðideildar HÍ.[4]
Árin 2009-2013 var hann varaþingmaður fyrir Samfylkinguna.[4]
Framboð til forseta
[breyta | breyta frumkóða]Þann 4. mars 2024 fyrir miðnætti ákvað Gunnar Helgason náinn vinur Baldurs og Felix að skora á Baldur að bjóða sig fram til forseta. Þetta kom fram í Facebook-hópnum Baldur og Felix – alla leið. Á sólarhring höfðu rúmlega tíu þúsund manns skráð sig á stuðningssíðuna.[6] Degi síðar sagði Baldur að hann og Felix myndu leggja enn betur við hlustir[7] og ný skoðanakönnun sýndi að fólk var jákvætt fyrir framboði.[8]
Þann 20. mars 2024 ákvað Baldur að bjóða sig fram til forseta í forsetakosningunum 2024.[9] Hann endaði með 8,4% fylgi og í 5. sæti frambjóðenda.
Einkalíf
[breyta | breyta frumkóða]Baldur er giftur leikaranum Felix Bergssyni.[1] Þeir búa í Reykjavík og eiga tvö börn, Guðmund Felixson sviðslistamann og Álfrúnu Perlu Baldursdóttur stjórnmálafræðing.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Elma Rut Valtýsdóttir (6. september 2021). „Hittust fyrst á bókasafni Samtakanna 78: „Ég hélt hann ætlaði aldrei að hringja"“. visir.is. Sótt 12. mars 2024.
- ↑ 2,0 2,1 „Baldur Þórhallsson - Professor | University of Iceland“. english.hi.is. Sótt 12. september 2022.
- ↑ 3,0 3,1 „Hvaða rannsóknir hefur Baldur Þórhallsson stundað?“. Vísindavefurinn. Sótt 11. mars 2024.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 4,6 4,7 „Hefur sérhæft sig í smáríkjum Evrópu“. Morgunblaðið. 25.01.2018. bls. 62.
- ↑ „Hellarnir við Hellu“. Rangárþing ytra. Sótt 12. mars 2024.
- ↑ „Tíu þúsund manna Facebookhópur hvetur Baldur til forsetaframboðs“. RÚV. 16. mars 2024.
- ↑ „Munu leggja enn betur við hlustir“. Vísir. 5. mars 2024.
- ↑ „Íslendingar jákvæðir gagnvart Baldri á Bessastaði“. Morgunblaðið. 5. mars 2024.
- ↑ Baldur Þórhallsson býður sig fram til forseta Rúv, sótt 20. mars 2024