Felix Bergsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Felix Bergsson
Fæddur
Felix Bergsson

1. janúar 1967 (1967-01-01) (57 ára)
Reykjavík, Ísland
Störf
 • Leikari
 • útvarpsmaður
 • söngvari
MakiBaldur Þórhallsson[1]
Tónlistarferill
Áður meðlimur íGreifarnir

Felix Bergsson (f. 1. janúar 1967) er íslenskur leikari, útvarpsmaður og söngvari. Hann var söngvari í hljómsveitinni Greifarnir. Hann hefur leikið í mörgum þekktum leikritum, stýrt sjónvarpsþáttum og verið fararstjóri íslenska hópsins í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Ævi og einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Felix fæddist í Reykjavík þann 1. janúar 1967. Foreldrar hans eru Bergur Felixsson og Ingibjörg Sigrún Guðmundsdóttir. Felix er elstur fjögurra systkina. Felix ólst upp á Blönduósi til 8 ára aldurs þar sem faðir hans var skólastjóri. Hann gekk svo í Melaskóla og Hagaskóla.[2][3]

Eiginmaður Felix er Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnálafræði. Sonur Felix er Guðmundur Felixson leikari og dóttir Baldurs er Álfrún Perla Baldursdóttir stjórnmálafræðingur.[2]

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Felix lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1987. Í kjölfarið hélt hann út í leiklistarnám við Queen Margaret College í Edinborg sem hann lauk árið 1991.[2][4] Hann fór í framhaldsnám í leiklist í Central School of Speech and Drama í London árin 1997 til 1998.[5]

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Greifarnir[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1986 gekk hann til liðs við Greifana sem söngvari hljómsveitarinnar, en þá var hann enn í námi við Verzlunarskóla Íslands. Hljómsveitin sigraði Músíktilraunir. Í kjölfarið kom út lagið „Útihátíð“ frá hljómsveitinnni sem naut mikilla vinsælda. Árið 1988 sagði hann skiliið við hljómsveitina.[3]

Leiklistarferill[breyta | breyta frumkóða]

Felix byrjaði ungur að leika og lék sitt fyrsta hlutverk í Þjóðleikhúsinu árið 1978 í leikritinu Krukkuborg þegar hann var 11 ára gamall.[6] Felix hefur frá útskrift komið víða við í íslensku leikhúslífi. Hann lék fyrstu árin jöfnum höndum í stóru leikhúsunum og með sjálfstæðum leikhúsum. Meðal hans helstu hlutverka eru Júngkærinn í Íslandsklukku Halldórs Laxness, Tony í West Side Story, Þór í Gauragangi, Nornin í Skilaboðaskjóðunni, Eddy í Blóðbræðrum, Fattur í Hatti og Fatti, Láki í Íslensku mafíunni, Hr. Rokk í Abbababb!, George í Kvetch, Jerry í Svikum og Ljóti andarunginn í Honk.[5]

Felix er meðal stofnenda leikhópsins Bandamanna, en sá hópur sýndi víða um heim á árunum 1992–2000. Þá stofnaði Felix leikhópinn Á senunni ásamt Kolbrúnu Halldórsdóttur árið 1998. Felix skrifaði og lék fyrsta verk hópsins, Hinn fullkomna jafningja, sem vakti feikilega athygli jafnt innanlands sem utan og varð meðal annnars hvati að stofnun Félags samkynhneigðra stúdenta við Háskóla Íslands.[7] Þá fékk leikhópurinn hin íslensku leiklistarverðlaun, Grímuna, fyrir sýningu ársins, Kvetch, árið 2003 og barnasýningu ársins, Abbababb! árið 2006. Af öðrum sýningum hópsins má nefna söngleikina Kabarett og Paris at night og barnaleikritið Ævintýrið um Augstein.

Felix hefur verið virkur í gerð sjónvarps og útvarpsefnis í þáttum eins og Slett úr klaufunum, Stundinni okkar, Fyrirgefðu, 6 til sjö, Bergsson og Blöndal, Gestir út um allt og Popppunktur. Þá hefur Felix stjórnað stórum sjónvarpsviðburðum eins og Íslensku tónlistarverðlaununum, Grímunni, Tónaflóði Rásar 2 á Arnarhóli og söfnunarþættinum Á allra vörum. Þá lék Felix í kvikmyndunum Íslenska draumnum, Karlakórnum Heklu og Strákunum okkar. Hann hefur skrifað barnabók byggða á Ævintýrinu um Augastein, fjögur leikrit sem ratað hafa á svið, sjónvarpsþætti, barnaefni og ótal dægurlagatexta. Hann hefur sent frá sér fjölmargar plötur í samstarfi við aðra og eina sólóplötu, Þögul nóttin.

Felix var formaður í Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, SL, árin 2002-2004, sat í stjórn Höfuðborgarstofu, samtakanna Blátt áfram og Mannréttindaráðs Reykjavíkur. Hann var varamaður í Velferðarráði Reykjavíkur og Menningar og ferðamálaráði og sat í verkefnisstjórnum Vetrarhátíðar og Landnámssýningarinnar í Austurstræti. Hann var einnig varamaður í Þjóðleikhúsráði.

Gunni og Felix[breyta | breyta frumkóða]

Felix og Gunnar Helgason gerðu leikna 24 þáttaröð fyrir RÚV, jóladagatalið Leitina að Völundi. Samstarf Gunna og Felix á sviði vettvangi barnaefnis er landsfrægt og hafa þeir félagar sent frá sér myndbandsspólur, geisladiska og hljóðsnældur með leiknu efni.

Eurovision[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2011 var Felix fjölmiðlafulltrúi íslenska hópsins, Vina Sjonna, í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Í kjölfarið, árið 2013, tók hann við þáttunum Alla leið hjá RÚV. Frá 2013 til 2015 var hann þulur RÚV í keppninni og tók hann við sem fararstjóri íslenska hópsins í keppninni árið 2017.[8][9] Frá 2021 hefur Felix setið í stýrihóp keppnnnar sem sér um sér um skipulag og tekur allar ákvarðanir fyrir keppnina.[10] Til stóð að hann myndi stýra þáttunum Alla leið á RÚV vorið 2024 og fara sem fararstjóri íslenska hópsins á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Malmö í Svíþjóð, en þegar eiginmaður hans, Baldur Þórhallsson, tilkynnti um forsetaframboð sitt dró Felix sig frá öllum störfum hjá RÚV.[11]

Ferill í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum[breyta | breyta frumkóða]

Ár Kvikmynd/Þáttur Hlutverk Athugasemdir og verðlaun
1987 Áramótaskaupið 1987
Stundin okkar Felix Lék á árunum 1994-96
1992 Karlakórinn Hekla Kórfélagi
2000 Íslenski draumurinn Nágranni
2005 Strákarnir okkar Dómari
2011 Þögul nóttin Söngur Hljómdiskur með textum Páls Ólafssonar

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Elma Rut Valtýsdóttir (6. september 2021). „Hittust fyrst á bóka­safni Sam­takanna 78: „Ég hélt hann ætlaði aldrei að hringja". visir.is. Sótt 23. mars 2024.
 2. 2,0 2,1 2,2 „Ljúfur með bros á vör“. Tímarit.is. Morgunblaðið. 31. desember 2016. Sótt 23. mars 2024.
 3. 3,0 3,1 Ragnarsdóttir, Sólrún Lilja (29. maí 2015). „Gagnrýndur fyrir að vera of „straight". Tímarit.is. DV. Sótt 23. mars 2024.
 4. „Queen Margaret University“. Times Higher Education (THE) (enska). 19. október 2021. Sótt 23. mars 2024.
 5. 5,0 5,1 „CV“. Felix Bergsson. 27. janúar 2012. Sótt 23. mars 2024.
 6. „Felix“. Felix Bergsson. 19. janúar 2012. Sótt 23. mars 2024.
 7. „Félag samkynhneigðra stúdenta stofnað“. Tímarit.is. Morgunblaðið. 20. janúar 1999. Sótt 23. mars 2024.
 8. Agnarsdóttir, Dóra Júlía (8. nóvember 2023). „Féll kylli­flatur fyrir Euro­vision eftir ára­tuga gagn­rýni - Vísir“. visir.is. Sótt 23. mars 2024.
 9. „Felix tekur við af Hrafnhildi í Eurovision“. RÚV. 20. mars 2013. Sótt 23. mars 2024.
 10. „Felix stýrir Euro­vision á næsta ári“. Hringbraut. 25. júní 2021. Sótt 23. mars 2024.
 11. Gunnarsson, Oddur Ævar (22. mars 2024). „Felix víkur og ó­vissa með Gísla Martein - Vísir“. visir.is. Sótt 23. mars 2024.
  Þetta æviágrip sem tengist leikurum og Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.