Fara í innihald

Alma Möller

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alma Möller
Landlæknir
Í embætti
1. apríl 2018 – 10. desember 2024
ForveriBirgir Jakobsson
EftirmaðurGuðrún Aspelund (sett)
Alþingismaður
frá  kjördæmi    þingflokkur
2024  Suðvestur  Samfylking
Persónulegar upplýsingar
Fædd24. júní 1961 (1961-06-24) (63 ára)
Siglufirði, Íslandi
StjórnmálaflokkurSamfylkingin
MakiTorfi Fjalar Jónasson
Börn2
HáskóliHáskóli Íslands
Lundarháskóli
Æviágrip á vef Alþingis

Alma Dagbjört Möller (f. 24. júní 1961) er íslenskur svæfinga- og gjörgæslulæknir sem var skipuð landlæknir árið 2018 og var fyrsta konan sem gegnir embættinu. Hún er nú þingmaður fyrir Samfylkinguna.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Alma fæddist á Siglufirði og foreldrar hennar eru hjónin Jóhann Georg Möller (1918-1997) verkstjóri og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins á Siglufirði og Helena Sigtryggsdóttir húsmóðir (1923-2024). Alma er yngst sex systkina[1] og er gift Torfa Fjalari Jónassyni hjartalækni[2] og eiga þau tvö börn. Bróðir Ölmu er Kristján Möller fyrrverandi ráðherra.[3]

Menntun og starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Hún ólst upp á Siglufirði en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1981, læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1988, sérfræðinámi í svæfingum og gjörgæslu við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð árið 1995 og prófi Evrópsku svæfingalæknasamtakanna árið 1996. Hún varði doktorsritgerð sína við Háskólann í Lundi árið 1999 og hefur einnig lokið meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu og hlotið sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun.[4] Skömmu eftir að hún tók við embætti landlæknis lauk hún diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.

Alma starfaði sem sérfræðingur við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð frá 1993-2002. Árið 2002 fluttist hún til Íslands og tók við starfi yfirlæknis á gjörgæsludeildum Landspítala í Fossvogi og við Hringbraut. Frá árinu 2014-2018 var hún framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala.[5] Þann 1. apríl 2018 tók Alma við embætti landlæknis og er fyrsta konan sem gegnir embættinu í 258 ára sögu þess.[6] Alma var einnig fyrsta konan sem starfaði sem þyrlulæknir Landhelgisgæslunnar en hún var þyrlulæknir frá 1990-1992.[7]

Alma var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu heilbrigðismála þann 17. júní 2020.[8]

Frá 2020 til 2022 var Alma áberandi í fjölmiðlum og upplýsingafundum vegna Kórónaveirufaraldursins sem þá gekk yfir. Þau Alma, Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason hlutu viðurnefnið „þríeykið“ í fjölmiðlaumfjöllun á tíma faraldursins.[9]

Þingferill

[breyta | breyta frumkóða]

Alma tilkynnti hinn 17. október 2024 að hún hygðist gefa kost á sér í alþingiskosningum sama ár fyrir Samfylkinguna.[10] Hún var kosin á þing.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Minningagreinar: Jóhann Georg Möller“, Morgunblaðið, 5. júlí 1997 (skoðað 13. mars 2020)
  2. Mbl.is, „Landlæknir færði fálkaunganum Kríu rjúpu“ (skoðað 13. mars 2020)
  3. „Lítt þekkt ættartengsl - Landlæknir og ráðherra“. DV. 14. mars 2020. Sótt 25. október 2024.
  4. „Doktorsvörn í læknisfræði“, Morgunblaðið, 14. janúar 2000 (skoðað 31. júlí 2019)
  5. Siglfirðingur.is, „Alma skipuð landlæknir“[óvirkur tengill] (skoðað 31. júlí 2019)
  6. Landlæknir.is, „Alma Dagbjört Möller tekin við embætti landlæknis“ Geymt 31 júlí 2019 í Wayback Machine (skoðað 31. júlí 2019)
  7. Mbl.is, „Notar læknagenin áfram“, (skoðað 13. mars 2020)
  8. Bjarni Pétur Jónsson (17. júní 2020). „Þríeykið fékk fálkaorðuna“. RÚV. Sótt 17. júní 2020.
  9. Andri Yrkill Valsson (14. apríl 2020). „Þríeykið fastur liður á óvissutímum - en ekki í dag“. RÚV. Sótt 19. október 2024.
  10. Kolbeinn Tumi Daðason (17. október 2024). „Alma Möller skellir sér í pólitíkina“. Vísir. Sótt 18. október 2024.