Halla Tómasdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Halla Tómasdóttir (fædd í Reykjavík 11. október 1968) er rekstrarhagfræðingur, kennari og fyrirlesari á alþjóðavettvangi. Hún bauð sig fram til kjörs forseta Íslands árið 2016.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Halla ólst upp í Kópavogi en er ættuð af Ströndum þar sem móðir hennar, Kristjana Sigurðardóttir, þroskaþjálfi ólst upp og úr Skagafirði þar sem faðir hennar, Tómas Björn Þórhallsson, pípulagningameistari og síðar húsvörður við Sunnuhlíð var alinn upp. Halla er önnur í röð þriggja systra, en systur hennar Helga og Harpa starfa báðar á leikskóla. Halla var í sveit í Skagafirðinum sem barn og vann í fiski í Neskaupstað og á Djúpavogi á unglingsárunum. Halla hefur búið, starfað og lært í Bandaríkjunum, Bretlandi og á Norðurlöndum. Halla er jafnvíg á íslenska og enska tungu, talar góða spænsku og dönsku og getur bjargað sér á öðrum Norðurlandamálum og þýsku. Halla er gift Birni Skúlasyni eiga þau saman tvö börn.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Halla útskrifaðist með Verslunarskólapróf frá Verslunarskóla Íslands árið 1986. Hún var skiptinemi í Bandaríkjunum og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Halla lauk BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og mannauðsmál frá Auburn University í Alabama þar sem hún útskrifaðist með láð. Því næst lauk hún MBA gráðu með áherslu á alþjóðleg samskipti og tungumál frá Thunderbird School of Global Management þar sem hún útskrifaðist með hæstu einkunn og var valin “Chancellor’s Scholar” og “Outstanding Management Student”. Halla stundaði um nokkura ára skeið nám til doktorsgráðu við Cranfield University í Bretlandi þar sem hún lagði stund á rannsóknir í leiðtogafræði.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Að loknu námi í Bandaríkjunum starfaði Halla við mannauðsmál og stjórnun hjá Pepsi og M&M/Mars. Eftir 10 ára dvöl í Bandaríkjunu kom hún aftur til Íslands þar sem hún starfaði sem mannauðsstjóri hjá Íslenska útvarpsfélaginu í eitt ár áður en hún ákvað að ganga til liðs við Háskólann í Reykjavík, sem þá var nýstofnaður. Þar kom hún að uppbyggingu skólans, setti á fót Stjórnendaskóla og Símenntun HR og kenndi nemendum á öllum aldri umbreytingastjórnun og stofnun og rekstur fyrirtækja. Þar leiddi hún einnig verkefnið Auður í krafti kvenna þar sem hún hvatti í senn konur til að virkja sína krafta og samfélagið til að skynja þau verðmæti sem felast í því að virkja bæði konur og karla til sköpunar og góðra verka.

Halla tók við stöðu framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs árið 2006 en sagði þar upp störfum árið 2007 til að stofna Auði Capital með það að markmiði að koma með aðra og mannlegri nálgun inní fjármálageirann. Fyrirtækið komst skaðlaust í gegnum efnahagshrunið árið 2008 en í kjölfar hrunsins tók Halla virkan þátt í umræðum og verkefnum sem snéru að uppbyggingu Íslands. Halla var einn af 9 stofnendum Mauraþúfunnar sem hrinti í framkvæmd Þjóðfundinum árið 2009, þar sem slembiúrtak íslensku þjóðarinnar kom saman í Laugardalshöll til að ræða þau grunngildi og þá framtíðarsýn sem myndi varða leið uppbyggingar í kjölfar hrunsins.

Undanfarin misseri hefur Halla starfað að mestu erlendis en þar hefur hún m.a. verið virkur þátttakandi í umræðu um þróun fjármálageirans, en hún er ötull talsmaður þess að við horfum til víðari skilgreiningar á arðsemi og horfum ekki bara til fjárhagslegs arðs heldur einnig áhrifa á samfélagið og umhverfið. Hún vill virkja konur til áhrifa á öllum sviðum samfélagsins og sjá fleiri frumkvöðla að störfum, ekki síst þá sem hafa það að leiðarljósi að leysa samfélagsleg mein og skapa þannig verðmæti bæði fyrir sig og sitt samfélag. Hún hefur haldið fyrirlestra og tekið þátt í samtölum um þessi mál út um allan heim á vettvangi háskóla, fyrirtækja og félagasamtaka sem og á ráðstefnum á borð við TED, Clinton Global Initiative, Women in the World og European Investment Conference.

Árið 2015 skipulagði Halla alþjóðlegu jafnréttisráðstefnuna WE (Women Empowerment) í Hörpu. Þar komu stjórnmálamenn, leiðtogar í viðskiptalífinu, fræðimenn og fleiri saman og leituðu leiða til raunverulegra framfara þegar kemur að jafnrétti kynjanna.

Halla hefur m.a. hlotið FKA viðurkenninguna, jafnréttisviðurkenningu Kópavogs og árið 2009 var hún ásamt Kristínu Pétursdóttur valin kvenfrumkvöðull Evrópu af Cartier, McKinsey og INSEAD.

Forsetaframboð[breyta | breyta frumkóða]

Halla tilkynnti um framboð sitt til forseta Íslands 17. mars 2016. Halla leggur áherslu á innleiðingu þeirra gilda sem þjóðin sameinaðist um á Þjóðfundinum 2009. Það eru gildin heiðarleiki, jafnrétti, réttlæti og virðing. Halla leggur einnig áherslu á að Ísland haldi áfram að vera í fararbroddi í jafnréttismálum og verði fyrsta landið til að brúa kynjabilið.