Alfreð Gíslason (þjálfari)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alfreð.

Alfreð Gíslason (f. 7. september 1959) er íslenskur handknattleiksmaður og þjálfari þýska landsliðsins í handbolta.

Alfreð er fæddur og uppalinn á Akureyri og þar hóf hann keppnisferil sinn með KA en lék síðar með KR um tíma. Hann lék alls 190 leiki með íslenska landsliðinu í handknattleik og skoraði alls 542 mörk í leikjunum. Hann hóf feril sinn í atvinnumennsku erlendis árið 1983 með liðinu Tusem Essen í Þýskalandi en þar var hann til ársins 1988. Síðar spilaði hann með Bidasoa á Spáni frá 1989-1991.

Þegar leikmannsferli Alfreðs lauk snéri hann sér að þjálfun. Hann þjálfaði KA í sex ár og gerði liðið að Íslandsmeisturum árið 1997, bikarmeisturum 1995 og 1996 og deildarmeisturum árið 1996. Frá 1997 - 1999 stýrði hann liðinu VfL Hameln í þýsku úrvalsdeildinni en tók síðar við SC Magdeburg og stýrði því frá 1999 - 2006. Alfreð var landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta frá 2006 - 2008 og stýrði liðinu á HM 2007 og á EM 2008.

Hann tók við þýska liðinu Gummersbach árið 2006 og stýrði því til ársins 2008. Hann tók við Kiel í kjölfarið og þjálfaði liðið í ellefu ár eða til ársins 2019. Alfreð gerði liðið sex sinnum að þýskum meisturum, sex sinnum að bikarmeisturum og stýrði liðinu tvívegis til sigurs í Meistaradeild Evrópu.[1] Í febrúar árið 2020 tók Alfreð við starfi þjálfara þýska landsliðsins í handbolta.[2]

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Alfreð var kjörinn Íþróttamaður ársins árið 1989 og var fjórum sinnum valinn þjálfari ársins í fyrstu deild þýska handboltans. Árið 2002 þegar hann þjálfaði Magdebourg og árin 2009, 2012 og 2019 er hann þjálfaði Kiel.[3] Alfreð var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2014 fyrir framlag sitt til íþrótta og árið 2019 var hann útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ.


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ka.is, „Alfreð Gíslason í Heiðurshöll ÍSÍ“ (skoðað 16. janúar 2019)
  2. Kristjana Arnarsdóttir, „Alfreð Gíslason tekur við Þýskalandi“, ruv.is (skoðað 9. febrúar 2020)
  3. Mbl.is, „Alfreð kveður sem þjálfari ársins“ (skoðað 16. janúar 2019)