Samkynhneigð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Samkynhneigð nefnist það þegar einstaklingur laðast að einstaklingum af sama kyni og hann sjálfur. Það að vera samkynhneigður þýðir að maður laðast tilfinningalega og/eða kynferðislega af öðrum af sama kyni.

Samkynhneigðir karlmenn eru oft kallaðir hommar og samkynhneigðar konur lesbíur. Til eru fleiri kynhneigðir en samkynhneigð og gagnkynhneigð, og þekktust þar á meðal er tvíkynhneigð en þá laðast fólk af fleiri en einu kyni. Þá er til pankynhneigð, sem er stundum kölluð persónuhneigð, eikynhneigð eða asexual. Til eru endalaus hugtök yfir mismunandi kynhneigðir, enda er kynhneigð mjög einstaklingsbundin. Eigi skal rugla saman kynhneigð og kynvitund, en kynvitund segir til um hvort að einstaklingurinn upplifir sig sem karlkyns, kvenkyns eða eitthvað annað. Trans fólk eru einstaklingar sem eru með kynvitund aðra en það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu. Sumt trans fólk fer í kynleiðréttingarferli. Þau geta svo haft allskonar kynhneigðir.

Algengt samheiti yfir samkynhneigða, tvíkynhneigða, demihneigða, persónuhneigða, trans fólk og fleiri sem ekki falla undir hið gagnkynhneigða regluveldi er „hinsegin“.

Erfitt getur reynst að átta sig á kynhneigð sinni og tekur fólk oft mörg ár að gera sér fyllilega grein fyrir henni. Allir hafa rétt á því að velja sjálfir hvað þeir kjósa að kalla sína kynhneigð og getur ofbeldi falist í því að neita fólki um að lifa eftir sinni sannfæringu eða að neyða á það merkimiða sem það er ósammála. Samkynhneigð, eða að haga sér að öðru leyti ekki eftir reglum samfélagsins, verður enn þá fyrir miklum fordómum víðsvegar um heim og eru hatursglæpir allt of algengir gagnvart samkynhneigðu fólki.

Á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Til eru félög og samtök sem fjalla um málefni samkynhneigðra eða eru á vegum þeirra.

Samtökin 78 í Reykjavík[breyta | breyta frumkóða]

Samtökin 78 eru aðal baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi og eru staðsett á Suðurgötu 3 í Reykjavík. Samtökin halda úti opnu húsi alla fimmtudaga frá kl. 20:00 til 23:00. Ungliðahreyfingin er undirfélag Samtakanna 78 og þjónar því hlutverki að vera hinsegin félagsmiðstöð í samstarfi við Reykjavíkurborg, öll ungmenni á aldrinum 13 til 17 ára eru velkomin óháð búsetu. Félagsmiðstöðin er opin alla þriðjudaga frá kl. 19:30 til 22:00.

Hin - Hinsegin Norðurland[breyta | breyta frumkóða]

Fræðslu- og stuðningssamtök fyrir hinsegin fólk á Norðurlandi. Reglulegir fundir í Húsinu (3. hæð í félagsmiðstöðinni Rósenborg) alla þriðjudaga frá klukkan 19:30-21:30.

Q-félag hinsegin stúdenta á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Baráttufélag hinsegin stúdenta og fólks í háskólum Íslands. Félagið heldur úti vísindaferðum fyrir nema við Háskóla Íslands sem og opnu húsi í húsnæði Samtakanna 78 tvo föstudaga í mánuði.

Trans-Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Félag trans fólks á Íslandi. http://trans.samtokin78.is/ Frekari upplýsingar er að finna á síðu Samtakanna '78

Samkynhneigð til forna[breyta | breyta frumkóða]

Rómverski sagnaritarinn Tacitus segir frá því í riti sínu Germaníu að Germanar tíðkuðu að hegna mönnum fyrir ergi.

Fer refsing eftir afbrotunum: svikarar og liðhlauparar eru hengdir í trjám, en skræfur og ragmenni og fúllífismenn [þ.e. hommar] eru kæfðir í for og mýrarfenjum, en viðjum kastað yfir. Er þessi tvenns konar dauðarefsing til þess ætluð, annars vegar að vekja athygli á glæpunum, með því að sýna refsinguna, og hins vegar að fela smánina sjónum manna. (Þýð. Páll Sveinsson).

Forn-Grikkjum þótti ekki tiltölumál að leggja lag sitt við yngissveina og sögðu þá hæfa til ásta en konur til undaneldis.[1] Rómverjar höfðu almennt ekki horn í síðu homma þótt þeir væru ekki eins frjálslyndir og Grikkir í þessum efnum eins og ráða má af orðlaginu hjá Tacitusi. Skáld á borð við Catullus, Tibullus og Martialis ortu til ástmanna sinna og drógu ekkert undan. Sumir Rómverjar virðast þó hafa bendlað samkynhneigð við Grikki og útlendinga og ekki þótt slíkar hneigðir til fyrirmyndar.

Að koma út (úr skápnum)[breyta | breyta frumkóða]

Margt fólk sem laðast að fólki af sama kyni „kemur út úr skápnum“ (eða einfaldlega „kemur út“), eins og það er stundum kallað, á einhverjum tímapunkti í lífinu. Þetta er vegna þess að samfélagið gerir ráð fyrir því að allir séu gagnkynhneigðir frá fæðingu nema annað komi fram. Mikilvægur hluti réttindabaráttu hinsegin fólks er að berjast gegn þessum skaðlegu hugmyndum. Oftast er því lýst í þremur tímabilum. Fyrsta tímabilið er að „þekkja sjálfa/n sig,“ og uppgötvun eða ákvörðun þess að einstaklingurinn sé opinn fyrir sambandi við manneskju af sama kyni. Þessu er oft lýst sem að koma út fyrir sjálfum sér. Næsta tímabil felur í sér ákvörðunina að segja öðrum frá, það er að segja fjölskyldu, vinum, vinnufélögum og svo framvegis. Þetta getur gerst allt frá unga aldri, um 11 ára, og upp í fertugs aldurinn og eldri. Þriðja skeiðið felur meira í sér að lifa almennt og opinskátt sem samkynhneigður einstaklingur í sínu samfélagi. Benda má á að gagnkynhneigt fólk þarf vanalega ekki að ganga í gegnum sama ferli.

Réttindabarátta sam-, tví-, fjölkynhneigðra og trans fólks[breyta | breyta frumkóða]

Undanfarna áratugi hefur réttindabarátta sam-, tví-, og fjölkynhneigðra tekið stakkaskiptum. Í hinum vestræna heimi er það oft tengt Stonewall mótmælunum árið 1969, þegar átök brutust út við Stonewall barinn í New York borg. Á Íslandi var það Hörður Torfason sem vann mikið frumkvöðlastarf þegar hann opinberaði samkynhneigð sína. Í kjölfarið varð hann fyrir miklum fordómum og fluttist brott af Íslandi um tíma. Árið 2010 var gifting fólks af sama kyni lögleidd af íslenska ríkinu, og sést þar hversu langt baráttan hefur náð að ganga. Engu að síður er mikið sem á eftir að vinna í - sam- og tvíkynhneigt fólk verður ennþá fyrir fordómum, hefur skort á fyrirmyndum í samfélaginu, ennþá er gert ráð fyrir því að fólk sé gagnkynhneigt þangað til annað komi fram, og svo er kynhneigð fólks sett í samband við kyngervi þeirra, þ.e. karlmenn sem eru ekki taldir nógu karlmannlegir oft kallaðir hommar, og sama um konur sem eru ekki taldar nógu kvenlegar. Tengist þetta feðraveldinu og öðrum kúgunarkerfum.

Á Íslandi er staða hinsegin fólks nokkuð góð, og samkynhneigðir mega ganga í hjónaband og njóta fullra lagalegra réttinda. Félagslegum réttindum og samþykki innan samfélagsins er þó enn ábótavant, og eru fordómar og illgjörvi á hlut hinsegin fólks enn til staðar.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geir Þ. Þórarinsson. „Var algengt að Forngrikkir ættu í ástarsamböndum við unga drengi?“. Vísindavefurinn 24.10.2007. http://visindavefur.is/?id=6865. (Skoðað 26.8.2008).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist

Íslensk félög, hópar og samtök[breyta | breyta frumkóða]

Alþjóðleg samtök[breyta | breyta frumkóða]