Haraldur Þorleifsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Haraldur Ingi Þorleifsson (f. 2. ágúst 1977) er íslenskur athafnamaður og stofnandi stafræna hönnunarfyrirtækisins Ueno.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Haraldur er fæddur í Reykjavík og foreldrar hans eru Anna Jóna Jónsdóttir (1956-1988) búningahönnuður og Þorleifur Gunnlaugsson (f. 1955) dúklagningameistari og fyrrverandi borgarfulltrúi.

Haraldur er í hjónabandi með Margréti Rut Eddudóttur myndlistarkonu og eiga þau tvö börn.[1]

Menntun og störf[breyta | breyta frumkóða]

Hann gekk í Melaskóla og Hagaskóla, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, er með BA gráðu í heimspeki, BS gráðu í viðskiptafræði og stundaði meistaranám í hagfræði.[1] Hann er sjálfmenntaður í grafískri hönnun sem hefur verið hans helsti starfsvettvangur.

Að námi loknu starfaði Haraldur sjálfstætt að ýmsum hönnunarverkefnum. Hann fluttist til New York árið 2006 og starfaði þar hjá litlu vefhönnunarfyrirtæki. Árið 2008 snéri hann aftur til Íslands og starfaði m.a. fyrir Íslenska erfðagreiningu og CCP. Eftir bankahrunið 2008 hóf hann aftur að starfa sjálfstætt og starfaði m.a. að hönnunarverkefnum fyrir Google og fleiri erlend stórfyrirtæki.[1]

Ueno[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2014 stofnaði Haraldur stafræna hönnunarfyrirtækið Ueno. Vöxtur fyrirtækisins varð mikill á skömmum tíma og meðal viðskiptavina þess voru stórfyrirtæki á borð við Google, Samsung, Microsoft, Economist, YouTube, Airbnb, Apple, Facebook og Uber.[1]

Árið 2021 seldi Haraldur Ueno til Twitter og við söluna varð hann starfsmaður Twitter. Kaupverðið hefur ekki fengist uppgefið en talið er að það hafi hlaupið á milljörðum króna. Við söluna samdi Haraldur við Twitter um að stærstur hluti kaupverðsins yrði greiddur með launagreiðslum svo Haraldur gæti greitt skatta af sölunni á Íslandi. Hann sagðist með því vilja leggja sitt af mörkum til að greiða í sameiginlega sjóði og styðja þannig við íslenskt heilbrigðis,- mennta- og velferðarkerfi sem hafði gert honum kleift að dafna og njóta heilbrigðisþjónustu og menntunar.[2][3]

Samfélagsleg verkefni[breyta | breyta frumkóða]

Haraldur hefur stutt við bakið á ýmsum samfélagslegum verkefnum. Hann var helsti styrktaraðili og hvatamaður að verkefninu Rampa upp Reykjavík árið 2021. Verkefnið fólst í því að setja upp 100 rampa við fyrirtæki og verslanir í Reykjavík til að auðvelda aðgengi fyrir hjólastóla[4] en Haraldur hefur notað hjólastól frá því hann var 25 ára gamall vegna meðfædds vöðvarýrnunarsjúkdóms.[1] Árið 2022 kynnti Haraldur verkefnið Römpum upp Íslands sem felst í því að koma upp 1000 römpum víðsvegar um landið fyrir árið 2026.[5]

Hann hefur einnig vakið athygli fyrir að bjóðast til að styðja efnalitlar barnafjölskyldur í aðdraganda jóla og einnig fyrir að bjóðast til að greiða lögfræðikostnað í meiðyrðamálum sem Ingólfur Þórarinsson tónlistamaður höfðaði.[6]

Árið 2022 stóð hann að stofnun Hafnarhaus, aðstöðu fyrir listafólk í Hafnarhúsinu í Reykjavík.[7]

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2021 hlaut Haraldur hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands fyrir verkefnið Römpum upp Reykjavík[8] og árið 2022 var hann sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að nýsköpun og samfélagsmálum.[9]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Mannlif.is, „Lífið er alltof flókið til þess að það geti alltaf allt verið upp á við“ Sótt 8. júlí 2022.
  2. Visir.is, „Stóð við sitt og hefur greitt um hálfan milljarð í skatta“ Sótt 8. júlí 2022.
  3. Kjarninn.is, „Seldi fyrirtækið sitt til Twitter og ætlar að greiða alla skatta af sölunni á Íslandi“ Sótt 8. júlí 2022
  4. Frettabladid.is, „ „Rampa upp“ Reykjavík með 100 nýjum römpum“ Sótt 8. júlí 2022.
  5. Visir.is, „Ætla að rampa upp Ísland með 1000 römpum“ Sótt 8. júlí 2022.
  6. Frettabladid.is, „Halli vill styðja barnafjölskyldur og biður um reikningsnúmer“ Sótt 8. júlí 2022
  7. Reykjavik.is, „Haraldur opnar Hafnarhaus, hús skapandi greina“ Sótt 8. júlí 2022.
  8. Ruv.is, „Haraldur fékk hvatningarverðlaun ÖBÍ“ Sótt 8. júlí 2022.
  9. Mbl.is, „Haraldur frumsýnir fálkaorðuna“ Sótt 8. júlí 2022.