Fara í innihald

Míkhaíl Gorbatsjov

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Mikhail Gorbatsjoff)
Míkhaíl Gorbatsjov
Михаи́л Горбачёв
Forseti Sovétríkjanna
Í embætti
15. mars 1990 – 25. desember 1991
VaraforsetiGennadíj Janajev
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
Í embætti
10. mars 1985 – 24. ágúst 1991
ForveriKonstantín Tsjernenko
EftirmaðurVladímír Ívashko (starfandi)
Forseti Æðstaráðs Sovétríkjanna
Í embætti
25. maí 1989 – 15. mars 1990
ForveriHann sjálfur sem forseti forsætisnefndar Æðstaráðsins
EftirmaðurAnatolíj Lúkjanov
Forseti forsætisnefndar Æðstaráðs Sovétríkjanna
Í embætti
1. október 1988 – 25. maí 1989
ForveriAndrej Gromyko
EftirmaðurHann sjálfur sem forseti Æðstaráðsins
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. mars 1931(1931-03-02)
Prívolnoje, Stavropolfylki, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
Látinn30. ágúst 2022 (91 árs) Moskvu, Rússlandi
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna (1952–1991)
MakiRaísa Gorbatsjova (g. 1953; d. 1999)
Börn1
HáskóliRíkisháskólinn í Moskvu
StarfStjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1990)
Undirskrift
Vefsíðagorby.ru

Míkhaíl Sergejevítsj Gorbatsjov (rússneska: Михаи́л Серге́евич Горбачёв; framburður: /mɪxaˈiɫ sɪrˈgejɪvɪtʃ gərbaˈtʃof/) (fæddur 2. mars 1931 í Privolnoje, látinn 30. ágúst 2022) var rússneskur stjórnmálamaður sem var síðasti leiðtogi Sovétríkjanna, frá 1985-1991.

Gorbatsjov gekk í Kommúnistaflokk Sovétríkjanna árið 1952, kvæntist Raísu í september 1953, fór fyrir sendinefnd Sovétríkjanna í Belgíu 1972-1974, kom til fundar við Ronald Reagan á Íslandi 1986. Við dauða Konstantín Tsjernenko varð Gorbatsjov aðalritari sovéska kommúnistaflokksins þann 11. mars 1985, þar sem hann reyndi að breyta pólitísku kerfi Sovétríkjanna og dreifa efnahag landsins betur.

Hann reyndi að breyta ásýnd flokksins með glasnost (opnun) og perestrojka (endurskipulagning) en talið er að það hafi orðið kommúnistaflokknum að falli og þar með valdið sundrungu Sovétríkjanna. Ólíkt fyrirrennurum sínum sendi hann ekki sovéskar herdeildir til að kveða niður frelsisbaráttu íbúa Mið-Evrópu 1989. Hann meinaði ekki þýsku ríkjunum sameiningu 1990 og hlaut friðarverðlaun Nóbels 1990. Hann var andvígur sundrungu Sovétríkjanna 1991. Hann var settur í þriggja daga stofufangelsi af harðlínumönnum í ágúst 1991. Hann sagði af sér embætti 25. desember 1991.[1]

Míkhaíl Gorbatsjov fæddist bændasonur í þorpinu Prívolnoje í Stavropol Krai í suðvesturhluta Rússlands.[2] Fjölskylda hans var hálf rússnesk og hálf úkraínsk. Faðir hans, Sergej Andrejevítsj Gorbatsjov, var bóndi á sameignabóndabýli sem barðist í seinni heimsstyrjöldinni og móðir hans, María Pantelejevna Gorbatsjova, vann á sameignabóndabýli eða Kolkhoz.

Gorbatsjov ólst mestmegnis upp hjá afa sínum og ömmu áður en hann byrjaði í skóla. Þar gekk honum mjög vel og varð fljótt mjög áhugasamur um það að læra og hafði áhuga á öllu nýju sem hann lærði. Hann hafði sérstaklega mikinn áhuga á leiklist. Leiklistahópurinn sem hann var í setti einu sinni upp leikrit sem þau ferðuðust milli bæja og þorpa með, sýndu fyrir smá aur og notuðu gróðann í að kaupa 35 skópör handa fátækustu börnunum í skólanum sem höfðu þurft að vera berfætt fram að því.[3]

Hann vann sjálfur á eins bóndabýlum og foreldrar sínir og gekk 15 ára til liðs við Komsomol sem var ungliðahreyfing kommúnista. Árið 1952 hóf Gorbatsjov lögfræðinám við háskólann í Moskvu og gerðist hluti af sovéska kommúnistaflokknum. Hann útskrifaðist með lögfræðigráðu 1955 og varð virkur þátttakandi í bæði Komsomol-hreyfingunni og innan kommúnistaflokksins. Meðan á lögfræðináminu stóð kynntist Gorbatsjov eiginkonu sinni, Raísu Títarenko, sem var ári yngri en hann og að læra heimspeki í sama skóla. Þau gengu í hjónaband 25. september 1953.[1]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Gorbatsjov flutti ásamt Raísu til Stavropolfylkis eftir útskrift úr háskóla og áttu þau eftir að dvelja þar næstu 23 árin. Gorbatsjov vann sig hratt upp metorðastigann í Kommúnistaflokknum í Stavropol og varð aðalritari fylkisdeildar flokksins árið 1970. Á árum sínum í Stavropol kynnti Gorbatsjov sér landbúnaðarmál og útskrifaðist árið 1967 með háskólagráðu í landbúnaðarvísindum.[4]

Forveri Gorbatsjovs sem aðalritari í Stavropol, Fjodor Kúlakov, hafði verið gerður landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Sovétríkjanna. Talið er að Kúlakov, sem pólitískur lærifaðir Gorbatsjovs, hafi komið nafni Gorbatsjovs á framfæri við stjórnvöld í Kreml á þessum tíma.[5]

Gorbatsjov vakti þjóðarathygli í fyrsta skipti árið 1977 þegar viðtal við hann um nýja uppskeruaðferð á korni í Stavropol var birt á forsíðu ríkisdagblaðsins Pravda.[5] Þegar Kúlakov lést árið 1978 var Gorbatsjov kjörinn arftaki hans sem landbúnaðarráðherra og flutti því til Moskvu ásamt fjölskyldu sinni. Árið 1979 hlaut Gorbatsjov sæti án atkvæðisréttar í stjórnmálanefnd Kommúnistaflokksins og árið á eftir varð hann fullgildur meðlimur í nefndinni.[6] Talið er að Leoníd Brezhnev, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, hafi valið Gorbatsjov sem eftirmann Kúlakovs vegna meðmæla frá Míkhaíl Súslov og Júríj Andropov, sem höfðu hrifist af Gorbatsjov sem aðalritara í Stavropol. Gorbatsjov var þá yngsti meðlimur stjórnmálanefndarinnar og 21 árum undir meðalaldri nefndarmanna.[5]

Þegar Brezhnev lést árið 1982 varð Andropov nýr aðalritari Kommúnistaflokksins. Gorbatsjov varð þá nánasti samstarfsmaður Andropovs og aðstoðaði hann í aðgerðum gegn spillingu innan sovéska stjórnkerfisins. Gorbatsjov skrifaði jafnframt ræður fyrir Andropov og mætti oft á fundi fyrir hönd hans þar sem Andropov var oft veikur.[7]

Aðalritari

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 11. mars valdi stjórnmálanefnd miðstjórnar flokksins lögfræðinginn Míkhaíl Gorbatsjov til þess að gegna starfi aðalritara innan Kommúnistaflokksins eftir andlát Konstantíns Tsjernenko. Hann hafði smátt og smátt unnið sér betri sess innan flokksins og þrátt fyrir fyrsta flokks einkunnir í lögfræðináminu hafði hann helgað líf sitt stjórnmálunum. Gorbatsjov minntist tíma Níkíta Khrústsjov sem tíma opnunar og bjartsýni, tilraunum til þess að endurbæta sovétkerfið, og leit á það sem skyldu sína að halda því áfram sem Khrústsjov hafði byrjað á. Í upphafi valdatíð hans hafði hann ómótaðar hugmyndir um hvernig skyldi umbylta kerfinu, en byrjaði á að reyna að koma aga á ríkisfjármálin og skipta út gömlum íhaldsmönnum fyrir unga og efnilega menn sem eins og hann vildu sjá breytingar á kerfinu.[8]

Hugmyndafræði

[breyta | breyta frumkóða]
Gorbatsjov (til hægri) ræðir við Ronald Reagan Bandaríkjaforseta á Höfða í Reykjavík árið 1986.

Perestrojka

[breyta | breyta frumkóða]

Á flokksþingi kommúnistaflokksins í febrúar 1986 lét Gorbatsjov fyrst til skara skríða. Perestrojka varð orð fundarins en það þýddi endurskipulag og skyldi nota til þess að umbylta samfélaginu og efnahag landsins. Einstaklingsframlag var ekki lengur bannorð og var fólki gefið leyfi til þess að stofna eigin fyrirtæki, en það hafði lengi verið bannað í Sovétríkjunum. Ef efnahagurinn átti að taka við sér yrði að leyfa litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem ekki væru í eigu ríkisins, að blómstra. Vinna þurftu bug á þeirri firringu að almenningur ætti ekki að fá að taka þátt í stjórnun ríkisins og koma frekar valdinu til fólksins með lýðræði og félagslegu jafnrétti. Umskiptin virtust erfið þar sem fara þurfti inn að innsta kjarna kerfisins til þess að hægt væri að hafa áhrif og hvatti elítan þar til mikilla andstöðu.

Perestrojka hafði ekki tilætluð áhrif og á stjórnarárum Gorbatsjovs var stöðugur samdráttur í efnahagslífinu. Bent hefur verið á ýmsar ástæður fyrir þessu, meðal annars að Gorbatsjov hafi ekki getað notfært sér til fullnustu eða beinlínis litið fram hjá tækjum sem voru nauðsynleg til að framkvæma endurbæturnar sem hann vildi. Skortur á nauðsynjavörum varð daglegt brauð fyrir sovéska borgara og vinsældir Gorbatsjovs minnkuðu því stöðugt.[9]

Það var svo ekki fyrr en 1988 sem Gorbatsjov kynnti stefnu sína Glasnost eða opnun samfélagsins. Sú aðgerð taldi Gorbatsjov að myndi auka gegnsæi allra ríkisstofnanna og koma á upplýsingafrelsi. Aftur lenti hann í eins mótstöðu og með perestroiku-stefnuna en mótstaðan var núna ekki bara hjá forréttindafólki heldur líka hjá þjóðernissinnum, harðlínukommúnistum og fleiri hópum.

Fall Gorbatsjovs og Sovétríkjanna

[breyta | breyta frumkóða]

Við fall Berlínamúrsins árið 1989 jukust vandamál Gorbatsjov. Landið var á barmi borgarastyrjaldar, var að leysast upp í frumeindir sínar og menn voru ráðþrota á öllum vígstöðvum, þar sem kommúnismanum var smátt og smátt sópað frá völdum um alla Austur-Evrópu. Sovétríkin voru nú á barmi hruns og var skuldinni skellt á Gorbatsjov. Það skipti ekki máli að vandamálið ætti upptök sín í upphafi áttunda áratugsins en ekki 1985, heldur bara það að fólki hefði ekki liðið svo illa í marga áratugi.

Í júní árið 1991 var keppinautur Gorbatsjovs, Borís Jeltsín, kosinn nýr forseti Rússlands innan rússneska sovétlýðveldisins og hafði Gorbatsjov þá misst nánast öll völd sem forseti Sovétríkjanna, en þeirri stöðu hafði hann sinnt síðan 1990.[10]

Í ágúst 1991 reyndi hópur harðlínumanna að steypa Gorbatsjov af stóli til þess að hægt væri að snúa við þeirri þróun sem hann hafði komið af stað og var hann settur í stofufangelsi við Svartahaf.[11] Valdaránið misheppnaðist algjörlega en í upplausnarástandinu sem skapaðist á meðan Gorbatsjov var fangi var það Jeltsín sem fylkti almenningi að baki sér. Eftir valdaránstilraunina var Gorbatsjov alfarið rúinn völdum og Jeltsín stóð uppi sem raunverulegur leiðtogi Rússlands.[9] Þann 8. desember 1991 fundaði Jeltsín með Leoníd Kravtsjúk, forseta Úkraínu, og Stanislav Sjúskevitsj, leiðtoga Hvíta-Rússlands, í Minsk, og gaf með þeim út yfirlýsingu um að Sovétríkin væru ekki lengur til.[12]

Þrátt fyrir að vera enn forseti Sovétríkjanna að nafninu til var Gorbatsjov orðinn forseti án ríkis. Þann 25. desember 1991 var sovéski fáninn tekin niður af Kreml í síðasta skiptið og Gorbatsjov sagði formlega af sér sem forseti Sovétríkjanna.[13]

Friðarverðlaun Nóbels

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1990 fékk Míkhaíl Gorbatsjov friðarverðlaun Nóbels. Gorbatsjov var mikilvægur hluti í því að koma á betri samskiptum milli austurs og vesturs og betrumbæta þannig alþjóðleg samskipti til muna. Hann kom á ákveðinni sátt milli Banda-og Sovétríkjanna með kröftugum friðarviðræðum við þáverandi forseta þeirra Ronald Reagan og mætti segja að hann hafi leyft austurblokkinni að leysast upp. Á valdatíð hans hafði hröð framleiðsla fyrir kjarnorkuvopna kapphlaupið farið dalandi og erjur milli landa minnkað. Valnefnd friðarverðlaunanna gaf það út í október 1990 að þrátt fyrir að margir hefðu haft áhrif á þessar framfarir, hefði Gorbatsjov á svo víðtækan og umfangsmikinn hátt haft áhrif að hann ætti helst skilið viðurkenninguna og heiðurinn af verðlaununum. Með stefnu sinni um Glasnost hafði honum tekist opna hið sovéska samfélag, bæði að innan sem og út á við, sem leiddi til styrkingu alþjóðlegs trausts. Fannst nefndinni Gorbatsjov hafa haft svo mikil áhrif á alþjóðleg friðarmál að það myndi veita möguleika á því að alheims þjóðfélagið gæti frekar byrjað að vinna úr sínum erjum tengdum hugmyndafræði, trúarbrögðum og annarskonar menningarlegum mun.[14]

Míkhaíl Gorbatsjov lést þann 30. ágúst árið 2022, þá 91 árs gamall. Hann lést á sjúkrahúsi í Moskvu eftir langvarandi veikindi.[15]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Biography“. gorby.ru (enska). Heimasíða Míkhaíls Gorbatsjov. Sótt 8. desember 2013.
  2. Kristján Kristjánsson (10. mars 1990). „Mikhail Gorbatsjov: Maðurinn sem breytti heiminum“. Alþýðublaðið. bls. 7-8.
  3. „Mikhail Gorbachev“ (enska). Encyclopaedia Britannica. Sótt 8. desember 2013.
  4. „Hver er maðurinn Gorbatsjov og hver er saga hans og ferill? Fyrri hluti“. Tíminn. 2. febrúar 1988. bls. 10.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Hver er maðurinn Gorbatsjov og hver er saga hans og ferill? Seinni grein“. Tíminn. 3. febrúar 1988. bls. 6-7.
  6. Steingrímur Sigurgeirsson (29. desember 1991). „Síðasti Kremlarbóndinn bregður búi“. Morgunblaðið. bls. 12-15.
  7. Anna Larsdotter (19. júní 2009). „Hann ruddi veginn að falli múrsins“. Dagblaðið Vísir. bls. 42.
  8. „Bóndasonurinn frá Stavropol“. Dagblaðið Vísir. 11. október 1986. bls. 55-56.
  9. 9,0 9,1 Gunnar Hólmsteinn Ársælsson (8. janúar 2015). „Hverjar voru helstu ástæðurnar fyrir hruni Sovétríkjanna?“. Vísindavefurinn. Sótt 7. apríl 2024.
  10. „Upphefð Borís Jeltsíns eykur óvissu um framtíð Gorbatsjovs“. Morgunblaðið. 30. maí 1990. bls. 24.
  11. „Gorbachev tekinn í gíslingu“. Lifandi saga. 31. ágúst 2022. Sótt 8. mars 2023.
  12. „Sovétríkin horfin út af landakortinu“. Tíminn. 10. desember 1991. bls. 8-9.
  13. Karl F. Thorarensen. „Rússneska hagkerfið 1970-2010“ (PDF). Skemman. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 03-05 2016. Sótt 2013.
  14. „The Nobel Peace Prize 1990“ (enska). 15. október 1990. Sótt 8. desember 2013.
  15. „Mik­haíl Gor­batsjov er látinn“. mbl.is. 30. ágúst 2022. Sótt 31. ágúst 2022.


Fyrirrennari:
Konstantín Tsjernenko
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
(1985 – 1991)
Eftirmaður:
Vladímír Ívashko
(starfandi)