Andrej Gromyko
Andrej Gromyko Андрей Громыко | |
---|---|
Forseti forsætisnefndar Æðstaráðs Sovétríkjanna | |
Í embætti 27. júlí 1985 – 1. október 1988 | |
Forveri | Vasílíj Kúznetsov (starfandi) |
Eftirmaður | Míkhaíl Gorbatsjov |
Utanríkisráðherra Sovétríkjanna | |
Í embætti 15. febrúar 1957 – 2. júlí 1985 | |
Forsætisráðherra | Níkolaj Búlganín Níkíta Khrústsjov Aleksej Kosygín Níkolaj Tíkhonov |
Forveri | Dmítríj Shepílov |
Eftirmaður | Eduard Sjevardnadse |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 18. júlí 1909 Starje Gromykí, Mogílev-landstjóraumdæminu, rússneska keisaraveldinu (nú Hvíta-Rússlandi) |
Látinn | 2. júlí 1989 (79 ára) Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna |
Maki | Lídíja Grínevítsj (g. 1931) |
Börn | Anatolíj, Emílíja |
Andrej Andrejevítsj Gromyko (rússneska: Андрей Андреевич Громыко; hvítrússneska: Андрэй Андрэевіч Грамыка; 18. júlí 1909 – 2. júlí 1989) var sovéskur stjórnmálamaður og ríkiserindreki á tíma kalda stríðsins. Hann var utanríkisráðherra Sovétríkjanna í rúman aldarfjórðung, frá 1957 til 1985, og síðan þjóðhöfðingi landsins sem formaður forsætisnefndar Æðstaráðs Sovétríkjanna frá 1985 til 1988. Gromyko bar ábyrgð á mörgum mikilvægustu ákvörðunum í sovéskri utanríkisstefnu þar til hann settist í helgan stein árið 1988. Á fimmta áratugnum kölluðu vestrænir fjölmiðlar hann gjarnan „Hr. Njet“ vegna þess hve oft hann beitti neitunarvaldi Sovétríkjanna við Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Andrej Gromyko fæddist fátækur bændasonur í þorpinu Starje Gromykí í Hvíta-Rússlandi árið 1909.[1] Hann var átta ára gamall þegar kommúnistar tóku völdin í rússnesku byltingunni árið 1917.[2] Hann gekk í skóla í hvítrússnesku höfuðborginni Minsk og lagði þar stund á landbúnaðarhagfræði. Hann kynntist eiginkonu sinni, Lídíju Grínevítsj, á námsárum sínum og eignaðist með henni tvö börn.[1]
Gromyko hóf nám í diplómataskóla Kremlar árið 1938 og nam utanríkisfræði Sovétstjórnarinnar í eitt ár. Hann hlaut síðan starf í sendiráði Sovétríkjanna í Bandaríkjunum og flutti því ásamt konu sinni og börnum til Washington. Skjótur frami Gromykos skýrðist að nokkru leyti af þeim mikla fjölda embættismanna sem höfðu látið lífið í hreinsunum Stalíns.[1] Árið 1943 var sovéski sendiherrann, Maksím Lítvínov, kallaður heim og Gromyko var því hækkaður í tign og gerður nýr sendiherra. Sem slíkur mætti hann á Dumbarton Oaks-ráðstefnuna fyrir hönd Sovétmanna næsta ár.[2]
Árið 1946 varð Gromyko fyrsti fastafulltrúi Sovétríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Gromyko gegndi þessu embætti í tvö ár og beitti á þeim tíma neitunarvaldi Sovétríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 25 sinnum, sem leiddi til þess að honum áskotnaðist uppnefnið „Herra Njet“.[1]
Þegar Andrej Vyshínskíj tók við af Vjatsjeslav Molotov sem utanríkisráðherra Sovétríkjanna árið 1949 var Gromyko gerður varamaður hans í ráðuneytinu. Þar sem Vyshínskíj var heilsuveill fór Gromyko í reynd með málefni ráðuneytisins oftar en ekki á upphafsdögum kalda stríðsins. Gromyko var síðar gerður sendiherra Sovétmanna í Bretlandi og var enn staðsettur þar þegar Jósef Stalín lést árið 1953.[1]
Eftir dauða Stalíns varð Molotov utanríkisráðherra á ný og hann kallaði Gromyko strax heim til starfa í ráðuneytinu. Molotov var hins vegar leystur úr embætti eftir að Níkíta Khrústsjov hafði tryggt völd sín sem nýr leiðtogi Sovétríkjanna og Gromyko varð því nýr utanríkisráðherra árið 1957.[1]
Gromyko naut ekki mikilla áhrifa á stjórnartíð Khrústsjovs, sem tók sjálfur flestar mikilvægar ákvarðanir í utanríkismálum. Khrústsjov mun hafa sagt um Gromyko að hann gæti skipað honum að girða niður um sig buxurnar og setjast með beran rassinn á ís og að Gromyko myndi hlýða. Talið er að Gromyko hafi ekki fengið að vita um fyrirætlanir Khrústsjovs um að koma fyrir kjarnaeldflaugum á Kúbu árið 1962, sem leiddi til Kúbudeilunnar við Bandaríkin.[3] Gromyko var með í ráðum í Berlínardeilunni og átti hlut að máli þegar Berlínarmúrinn var reistur árið 1961. Hann tók jafnframt þátt í samningu fjórveldasáttmálans um stöðu Berlínar um áratugi síðar.[4]
Khrústsjov var sviptur völdum árið 1964 en Gromyko var áfram utanríkisráðherra og áhrif hans jukust til muna eftir leiðtogaskiptin. Eftirmaður Khrústsjovs, Leoníd Brezhnev, studdist við ráð Gromykos í mun meiri mæli og árið 1973 hlaut Gromyko sæti í stjórnmálanefnd Kommúnistaflokksins.[3] Á stjórnartíð Brezhnevs tók Gromyko þátt í mótun „slökunarstefnunnar“ (détente) og í skipulagningu Helsinkiráðstefnunnar 1975.[4] Vegna sérhæfingar Gromykos var þó sjaldan bent á hann sem mögulegt leiðtogaefni til að taka við af Brezhnev.[5]
Gromyko hélt áfram sem utanríkisráðherra eftir að Brezhnev lést árið 1982. Í mars 1983 var hann jafnframt skipaður einn af þremur aðstoðarforsætisráðherrum í stjórn Níkolaj Tíkhonov forsætisráðherra.[6]
Eftir að Míkhaíl Gorbatsjov, sem Gromyko hafði stutt, varð leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins árið 1984 lét hann fljótt skipta um utanríkisráðherra og setti Eduard Sjevardnadse, leiðtoga flokksdeildar kommúnistaflokksins í Georgíu, í embættið.[1] Næsta ár tók Gromyko þess í stað við embætti forseta forsætisnefndar Æðstaráðs Sovétríkjanna, sem gerði hann lögformlega að æðsta manni ríkisins en dró í reynd nokkuð úr beinum völdum hans.[7][8]
Gromyko gegndi forsetaembættinu til ársins 1988 en þá ákvað Gorbatsjov að gerast sjálfur þjóðhöfðingi. Gromyko missti jafnframt sæti sín í stjórnmálanefnd og miðstjórn flokksins og settist í helgan stein. Hann lést næsta ár, 79 ára gamall.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 Kristófer Svavarsson (7. júlí 1989). „Andrej Gromyko: In memoriam“. Þjóðviljinn. bls. 6.
- ↑ 2,0 2,1 „Gromyko: Rússnesk þruma í UNO“. Samvinnan. 1. febrúar 1946. bls. 23.
- ↑ 3,0 3,1 Þórarinn Þórarinsson (6. mars 1982). „Utanríkisráðherra í aldarfjórðung“. Tíminn. bls. 5.
- ↑ 4,0 4,1 „Gromyko 75 ára“. Dagblaðið Vísir. 18. júlí 1984. bls. 10.
- ↑ Lilja K. Möller (26. september 1981). „Gromyko, hinn miskunnarlausi og fyndni utanríkisráðherra Sovétríkjanna“. Dagblaðið. bls. 10-11.
- ↑ 6,0 6,1 „Litríkur ferill stjórnmálamanns“. Dagblaðið Vísir. 4. júlí 1989. bls. 10.
- ↑ Þórarinn Þórarinsson (27. júlí 1986). „Gromyko virðist hafa veruleg áhrif að tjaldabaki í Kreml“. Tíminn. bls. 16.
- ↑ Þórir Guðmundsson og Hannes Heimisson (4. júlí 1985). „Úr sendimannsstöðu í forsetastól“. Dagblaðið Vísir. bls. 28.
Fyrirrennari: Dmítríj Shepílov |
|
Eftirmaður: Eduard Sjevardnadse | |||
Fyrirrennari: Vasílíj Kúznetsov (starfandi) |
|
Eftirmaður: Míkhaíl Gorbatsjov |