Fara í innihald

Borís Jeltsín

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Borís Jeltsín
Борис Ельцин
Forseti Rússlands[a]
Í embætti
10. júlí 1991 – 31. desember 1999
Forsætisráðherra
VaraforsetiAleksandr Rútskoj (1991–1993)
EftirmaðurVladímír Pútín
Forseti Æðstaráðs rússneska sovétlýðveldisins
Í embætti
29. maí 1990 – 10. júlí 1991
ForveriVítalíj Vorotníkov (sem forseti forsætisnefndar Æðstaráðsins)
EftirmaðurRúslan Khasbúlatov
Aðalritari flokksnefndar Kommúnistaflokksins í Moskvu
Í embætti
23. desember 1985 – 11. nóvember 1987
ForveriVíktor Gríshín
EftirmaðurLev Zajkov
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1. febrúar 1931
Bútka, Sverdlovsk, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
Látinn23. apríl 2007 (76 ára) Moskvu, Rússlandi
DánarorsökHjartaáfall
ÞjóðerniRússneskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn (eftir 1991)
Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna (1961–1990)
MakiNaína Jeltsína (g. 1956)
Börn2
StarfForseti
Þekktur fyrirFyrsti forseti Rússlands eftir fall Sovétríkjanna
Undirskrift

Borís Níkolajevítsj Jeltsín (rússneska: Борис Николаевич Ельцин) (1. febrúar 1931 – 23. apríl 2007) var fyrsti forseti Rússlands frá 1991 til 1999. Hann átti þátt í að leiða mótmæli gegn valdaránstilraun harðlínumanna gegn Míkhaíl Gorbatsjov 18. ágúst 1991 sem leiddi til falls Sovétríkjanna. Í forsetatíð hans var reynt að koma á nauðsynlegum efnahagsumbótum og innleitt markaðshagkerfi sem leiddi til óðaverðbólgu. Jeltsín og nánir samstarfsmenn hans voru auk þess ásakaðir fyrir víðtæka spillingu. Á þeim tíma náðu ólígarkarnir öllum völdum í viðskiptalífi landsins. Árið 1999 gerði hann Vladímír Pútínforsætisráðherra og lýsti því yfir að hann vildi að Pútín yrði eftirmaður sinn. Þann 31. desember sagði hann svo af sér og Pútín tók við embættinu fram að forsetakosningum 26. mars 2000 þar sem hann sigraði í fyrstu umferð. Hann lést 23. apríl 2007, 76 ára að aldri.

Æska[breyta | breyta frumkóða]

Borís Jeltsín fæddist þann 1. febrúar árið 1931 í þorpinu Bútka skammt frá Sverdlovsk í Úralfjöllum. Foreldrar hans voru smábændur og Borís var eitt þriggja barna þeirra. Þegar kýr fjölskyldunnar dó árið 1935 flutti fjölskyldan til Perm þar sem faðir Borísar fékk vinnu sem byggingaverkamaður. Þau bjuggu þar í sameignarskála og urðu að sofa á gólfinu. Jeltsín ólst upp við fátæklegar aðstæður í Perm og hlaut litla en haldgóða grunnmenntun. Á unga aldri missti Jeltsín tvo fingur þegar hann reyndi að taka í sundur handsprengju sem hann hafði stolið ásamt tveimur vinum sínum.[1]

Stjórnmálaferill í Sovétríkjunum[breyta | breyta frumkóða]

Jeltsín lauk námi í Úral-tækniskólanum og vann síðan sem byggingarverkfræðingur í fjórtán ár, þar til hann var beðinn um að taka sæti í héraðsstjórn Kommúnistaflokksins í Sverdlovskfylki. Jeltsín þótti dugnaðarmikill í því starfi og því bauð sovéski leiðtoginn Leoníd Brezhnev honum starf flokksritara á Sverdlovsk-svæðinu.[2] Hann var á þessum tíma tryggur sovéska stjórnkerfinu og hreyfði ekki við mótbárum þegar hann fékk árið 1977 skipun um að láta rífa húsið þar sem Nikulás 2. keisari og fjölskylda hans höfðu verið tekin af lífi.[1]

Frá árinu 1981 átti Jeltsín sæti í miðstjórn kommúnistaflokksins og hafði þar umsjá með stjórn byggingarmála.[3] Á meðan Jeltsín var flokksritari í Sverdlovsk kynntist hann og vingaðist við Míkhaíl Gorbatsjov, sem varð leiðtogi Sovétríkjanna árið 1985. Gorbatsjov gerði Jeltsín að leiðtoga kommúnistaflokksins í Moskvu og veitti honum jafnframt sæti aukafulltrúa í stjórnmálanefnd flokksins. Í þessari stöðu hafði Jeltsín aðgang að æðstu valdaklíkum Sovétríkjanna og naut allra tilheyrandi fríðinda. Að eigin sögn vandi hann sig aldrei við þann lífstíl og fór á þessum tíma að efast um kommúníska stjórnarstefnu.[1]

Sem leiðtogi kommúnistaflokksins í Moskvu ræktaði Jeltsín ímynd sína sem „maður fólksins“ með því að notast við almenningssamgöngur og fara sjálfur til að versla í matvöruverslunum. Hann gagnrýndi forvera sinn, Víktor Gríshín, fyrir óstjórn í borginni og lét árið 1986 reka meirihluta borgarráðsfulltrúa og embættismanna sem tengdust Gríshín. Jeltsín náði miklum vinsældum meðal Moskvubúa með því að gagnrýna forréttindi flokkselítunnar og lélega almenningsþjónustu og með átökum sínum gegn spillingu, áfengis- og fíkniefnaneyslu.[3]

Í stjórn kommúnistaflokksins varð Jeltsín einn sýnilegasti stuðningsmaður umbótastefnu Gorbatsjovs (glasnost og perestrojka). Jeltsín var hins vegar enn róttækari umbótasinni en Gorbatsjov og fannst breytingarnar í frjálslyndisátt ganga bæði of skammt og of hægt. Vegna þessarar róttækni Jeltsíns komst hann upp á kant við íhaldssamari meðlimi í stjórn flokksins, sér í lagi aðstoðarritarann Jegor Lígatsjov. Á fundi stjórnmálanefndarinnar þann 21. október sauð upp úr þegar Jeltsín flutti eldræðu þar sem hann gagnrýndi Lígatsjov og bandamenn hans fyrir að standa í vegi umbótanna og beindi jafnframt gagnrýni að Gorbatsjov. Lígatsjov svaraði Jeltsín fullum hálsi og Gorbatsjov tók jafnframt afstöðu gegn Jeltsín, sem hann sakaði um að hafa sett persónulegan metnað ofar flokkshagsmunum. Jeltsín sagði í kjölfarið upp sæti sínu í stjórnmálanefndinni.[3]

Eftir að Jeltsín hrökklaðist úr flokksforystunni hlaut hann starf í byggingarráðuneytinu og var almennt talin pólitískt dauður. Þegar fyrstu frjálsu þingkosningar Sovétríkjanna voru haldnar árið 1989 gaf Jeltsín hins vegar kost á sér til þingsætis í Moskvukjördæmi og vann sigur á móti frambjóðanda Kommúnistaflokksins með 89% atkvæða. Jeltsín varð í kjölfarið leiðtogi þingflokks stjórnarandstæðinga og myndaði bandalag við aðra umbótasinna á borð við Andrej Sakharov, Anatolíj Sobtsjak og Gavríll Popov.[1]

Jeltsín sagði sig úr kommúnistaflokknum í júlí árið 1990 og var kjörinn forseti æðstaráðs rússneska sovétlýðveldisins í júní.[4] Hann lýsti í kjölfarið yfir fullveldi Rússlands undan Sovétríkjunum þann 12. júní.[5] Með upphefð Jeltsíns var verulega grafið undan valdagrundvelli Gorbatsjovs, sem hafði þá gerst forseti Sovétríkjanna.[6]

Forseti Rússlands (1991–1999)[breyta | breyta frumkóða]

Borís Jeltsín þann 22. ágúst 1991.

Eftir að rússneska sovétlýðveldið lýsti yfir fullveldi var stefnt að kosningum til nýs embætti forseta Rússlands. Stofnun embættisins var liður í samkomulagi um aukna sjálfsstjórn lýðveldanna sem enn voru hluti af Sovétríkjunum. Þegar forsetakosningarnar voru haldnar í júní 1991 vann Jeltsín afgerandi sigur og varð þannig fyrsti þjóðkjörni þjóðhöfðingi Rússlands.[7]

Fall Sovétríkjanna[breyta | breyta frumkóða]

Á dögunum 19. til 21. ágúst árið 1991 reyndu harðlínumenn innan Kommúnistaflokksins að fremja valdarán gegn Gorbatsjov, sem var settur í stofufangelsi í sumarhúsi sínu á Krímskaga. Aðgerðir valdaránsmannanna voru hins vegar illa skipulagðar og ósamhæfðar. Í Moskvu fylkti Jeltsín almenningi að baki sér til að mótmæla valdaráninu. Mótmælendur fjölmenntu að Hvíta húsinu í Moskvu, þar sem rússneska þingið hafði aðsetur, og Jeltsín klifraði þar upp á skriðdreka og flutti fræga ræðu fyrir Moskvubúa. Valdamiklir herforingjar, þar á meðal Aleksandr Lebed, hetja úr stríðinu í Afganistan, lýstu yfir stuðningi við Jeltsín frekar en valdaránsmennina eða Gorbatsjov. Að lokum fór valdaránið út um þúfur en Gorbatsjov var rúinn pólitískum völdum og Jeltsín stóð eftir óskoraður sem eiginlegur leiðtogi Rússa.[8]

Þann 8. desember 1991 fundaði Jeltsín með Leoníd Kravtsjúk, forseta Úkraínu, og Stanislav Sjúskevitsj, leiðtoga Hvíta-Rússlands, í Minsk, og gaf með þeim út yfirlýsingu um að Sovétríkin væru ekki lengur til. Þeirra í stað yrði stofnað Samveldi sjálfstæðra ríkja, sem yrði laustengt efnahagsbandalag.[9] Á jóladag 1991 sagði Gorbatsjov svo loks formlega af sér sem leiðtogi Sovétríkjanna og sovéski fáninn var dreginn niður af húni við Kreml í síðasta sinn. Jeltsín var þaðan af forseti rússneska sambandslýðveldisins.[8]

Efnahagsstefna[breyta | breyta frumkóða]

Á stjórnartíð sinni réðst Jeltsín í róttækar efnahagsumbætur sem fólu í sér stórfellda einkavæðingu, afreglun og gjaldfellingu. Þessar stefnur höfðu ekki tilætluð áhrif og stuðluðu þess í stað að útbreiddu atvinnuleysi og óstjórnlegri verðbólgu. Efnahagur Rússlands skrapp næstum saman um helming frá 1991 til 1999 en fámennur hópur olígarka komst hins vegar til áhrifa og hagnaðist á breytingunum.[10] Jeltsín glataði vinsældum sínum þegar leið á forsetatíð hans vegna efnahagsóstjórnarinnar og margir Rússar misstu trú á frjálslynda lýðræðinu sem þeir höfðu bundið vonir við undir lok Sovéttímans.[11]

Deilur við þingið og stjórnarkreppan 1993[breyta | breyta frumkóða]

Jeltsín stofnaði aldrei sérstakan stjórnmálaflokk í kringum stefnumál sín. Þetta stuðlaði að því að hann hafði ekki stuðning vísan á rússneska þinginu (dúmunni) og lenti brátt í deilum við þingmenn, sem margir höfðu áður átt aðild að kommúnistaflokknum. Upphafsár Jeltsíns á forsetastól eftir fall Sovétríkjanna einkenndust af baráttu hans til að marka skýrari skil milli verksviða framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins og auka þannig eigin völd á kostnað þingsins. Jeltsín vildi halda þjóðaratkvæðagreiðslu til að færa tiltekin völd frá þingi til forseta en þingforsetinn Rúslan Khasbúlatov neitaði að fara að ósk hans.[12] Deilur þeirra leiddu til stjórnarkreppu í september 1993 þegar Jeltsín beitti forsetatilskipun til að leysa upp þingið og boða til nýrra kosninga. Khasbúlatov og bandamenn hans töldu Jeltsín brjóta gegn stjórnarskrá landsins með þessum gerningi og hvöttu Rússa til að mótmæla forsetanum. Samkvæmt stjórnarskránni átti forsetinn að segja af sér samhliða þingrofi og varaforsetinn, sem þá var Aleksandr Rútskoj, átti að taka við forsetaembætti til bráðabirgða fram að kosningum, en Jeltsín fór ekki eftir þessu.[13]

Jeltsín á góðri stundu með Bill Clinton Bandaríkjaforseta í Washington.

Þingið neitaði að hætta störfum eftir að Jeltsín rauf þing með þessum hætti. Þess í stað lýsti það yfir vantrausti gegn Jeltsín og sór Rútskoj í embætti sem starfandi forseta rússneska sambandslýðveldisins en Jeltsín brást við með því að senda hermenn til að leysa upp þingið með valdi. Þetta leiddi til tíu daga átaka í Moskvu í september og október 1993.[14][15][16] Eftir að þingið hafði verið leyst upp á þennan hátt hélt Jeltsín þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sínar í desember 1993 og voru þær naumlega samþykktar.[17] Með stjórnarskrárbreytingunum jukust völd forsetaembættisins verulega, en stuðningsmenn Jeltsíns og umbóta hans hlutu hins vegar ekki gott gengi í þingkosningum sem haldnar voru samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni.[18]

Stríðin í Téténíu[breyta | breyta frumkóða]

Í desember 1994 sendi Jeltsín hermenn inn í Téténíu til að endurheimta þar rússnesk yfirráð og hóf þannig fyrra Téténíustríðið, sem einnig hefur verið kallað „stríð Jeltsíns.“ Á sovéttímanum hafði Téténía verið sjálfsstjórnarsvæði innan rússneska sovétlýðveldisins, en við hrun Sovétríkjanna höfðu Téténar lýst yfir stofnun sjálfstæðs ríkis. Stjórn Jeltsíns viðurkenndi ekki sjálfstæði Téténíu og sagðist nú vilja „skakka leikinn“ vegna fjölmargra skæra og mannrána á svæðinu.[19]

Jeltsín og stjórn hans bjuggust við því að auðvelt yrði að vinna sigur á téténsku sjálfstæðissinnunum og að sigurinn myndi vonandi auka vinsældir Jeltsíns heima fyrir. Téténar veittu hins vegar harða mótspyrnu og fylktu sér að baki téténska forsetanum Dzhokhar Dúdajev í baráttu fyrir vörn föðurlandsins. Rússneski herinn réðist inn í téténsku höfuðborgina Grozníj á gamlársdag 1994 og varpaði fjölda sprengja á hana. Eftir tveggja mánaða bardaga neyddust téténskar hersveitir til að hörfa frá Grozníj í lok febrúar 1995, en þá hafði borgin orðið fyrir verulegum skemmdum auk þess sem bæði þúsundir rússneskra hermanna og almennra téténskra borgara höfðu látið lífið.[20]

Þrátt fyrir hernám Grozníj héldu Téténar áfram mótspyrnu gegn rússneska hernum á næstu árum. Rússar héldu áfram sprengjuherferðum gegn téténsku landsbyggðinni og drápu fjölda óbreyttra borgara. Þann 7. apríl 1995 lögðu rússneskir hermenn þorpið Samashkí í rúst og drápu um 300 manns, meðal annars með eldvörpum.[20] Mannfallið í Téténíu og fréttir af grimmd rússneska hersins höfðu neikvæð áhrif á vinsældir Jeltsíns heima fyrir og spilltu fyrirætlunum hans um nánari sambönd við vestrænar stofnanir eins og Atlantshafsbandalagið og Evrópuráðið.[21]

Fyrra Téténíustríðinu lauk árið 1996 þegar Aleksandr Lebed, öryggismálastjóri Jeltsíns, samdi um frið við Téténa með friðarskilmálum sem gáfu Téténíu sjálfstæði að flestu leyti nema að nafninu til.[19]

Seinna Téténíustríðið hófst árið 1999, á síðasta ári Jeltsíns í forsetaembætti. Rússar lýstu friðarsamningana frá 1996 ógilda eftir að skæruliðasveitir undir stjórn Shamíls Basajev og Ibn al-Khattab gerðu árásir á rússneska sjálfsstjórnarlýðveldið Dagestan og komu nokkrum þorpum þar undir wahabíska stjórn. Til að réttlæta stríðið var einnig vísað til hryðjuverkaárása sem gerðar höfðu verið á íbúðablokkir í Moskvu og Volgodonsk sem Rússar sögðu téténska íslamista bera ábyrgð á. Hernaðurinn í Téténíu var enn yfirstandandi þegar Jeltsín lét af forsetaembætti í lok ársins 1999.[19]

Forsetakosningarnar 1996[breyta | breyta frumkóða]

Jeltsín á kosningafundi árið 1996.

Jeltsín bauð sig fram til endurkjörs í fyrstu forsetakosningum Rússlands frá falli Sovétríkjanna árið 1996. Helsti andstæðingur hans í kosningunum var Gennadíj Zjúganov, frambjóðandi Kommúnistaflokks rússneska sambandsríkisins, sem gagnrýndi Jeltsín án afláts fyrir hlutverk hans í hruni Sovétríkjanna og fyrir misheppnaðar efnahagsumbætur hans.[22] Jeltsín var þegar rúinn vinsældum árið 1996 og því voru kosningarnar taldar tvísýnar og Zjúganov mældist lengi með forskot á forsetann í skoðanakönnunum. Bandaríkin og hin Vesturveldin studdu endurkjör Jeltsíns opinskátt þar sem þau vildu ekki að kommúnistar kæmust aftur til valda í Rússlandi.[23]

Þrátt fyrir óvinsældir Jeltsíns bætti hann stöðu sína gagnvart Zjúganov nokkuð í aðdraganda kosninganna.[24] Í kosningunum þann 16. júní 1996 fékk Jeltsín 35% atkvæða en Zjúganov 32%. Þar sem enginn hlaut meirihluta atkvæða varð að kalla til annarrar kosningaumferðar í fyrsta og eina skipti í sögu Rússlands.[25] Í seinni kosningaumferðinni þann 3. júlí sigraði Jeltsín Zjúganov með um þrettán prósenta mun. Jeltsín naut aðstoðar bandarískra kosningaráðgjafa úr kosningateymi Bills Clinton Bandaríkjaforseta í baráttu sinni fyrir endurkjöri. Þeir beindu athygli kjósenda frá Jeltsín sjálfum og lögðu áherslu á að hann væri sá eini sem gæti komið í veg fyrir afturhvarf til kommúnisma.[26]

Deilt hefur verið um hvort Jeltsín hafi haft rangt við í forsetakosningunum. Árið 2012 sagði Dmítríj Medvedev, þáverandi forseti Rússlands, á fundi með fulltrúum rússnesku stjórnarandstöðunnar, um kosningarnar 1996: „Það leikur varla nokkur vafi á því hver vann kosningarnar. Það var ekki Borís Níkolajevítsj Jeltsín.“[27]

Upphefð Pútíns og afsögn Jeltsíns[breyta | breyta frumkóða]

Jeltsín var orðinn afar óvinsæll stjórnandi á síðustu árum sínum í embætti. Rússar kenndu honum um spillingu, slæmt efnahagsástand og áframhaldandi ófrið í Téténíu, auk þess sem almenn tilfinning var um að Rússland hefði glatað stórveldisstöðu sinni á alþjóðasenunni með falli Sovétríkjanna. Árið 1998 reið efnahagskreppa yfir Rússland sem leiddi til greiðslufalls á ríkisskuldum landsins og olli verulegum hræringum á alþjóðamörkuðum.[28]

Þar sem útséð þótti að Jeltsín myndi ekki gegna þriðja kjörtímabili sem forseti fóru bandamenn hans að svipast eftir sigurvænlegum frambjóðanda sem gæti tekið við af honum og hlíft valdaklíkunni við spillingarákærum.[29] Sagt er að ólígarkinn Borís Berezovskíj hafi fyrstur stungið upp á Vladímír Pútín, sem þá var forstjóri leyniþjónustunnar FSB, sem rétta manninum í starfið.[30]

Jeltsín útnefndi Pútín nýjan forsætisráðherra í ágúst árið 1999 og lýsti því jafnframt yfir að hann vildi að Pútín yrði eftirmaður sinn á forsetastól.[31] Seinna Téténíustríðið hófst á svipuðum tíma og Pútín varð forsætisráðherra og hann náði fljótt vinsældum meðal Rússa með óbilgirni sinni gagnvart Téténum. Á gamlársdag 1999 sagði Jeltsín óvænt af sér sem forseti og Pútín varð þannig starfandi forseti Rússlands fram að kosningum. Eitt af því fyrsta sem Pútín gerði í forsetaembætti var að veita Jeltsín og bandamönnum hans sakaruppgjöf til að vernda þá gegn hugsanlegri lögsókn.[32]

Dauði[breyta | breyta frumkóða]

Borís Jeltsín lést úr hjartaslagi á sjúkrahúsi í Moskvu þann 23. apríl 2007, þá 76 ára gamall. Vladímír Pútín lýsti yfir þjóðarsorg á útfarardegi Jeltsíns tveimur dögum síðar.[33]

Áfengisvandi Jeltsíns[breyta | breyta frumkóða]

Jeltsín var alræmdur fyrir óhóflegan drykkjuskap og fyrir að birtast oft ölvaður við opinberar athafnir. Í endurminningum sínum frá árinu 1997 minntist lífvörður Jeltsíns, Aleksandr Korzhakov, þess meðal annars að Jeltsín hefði drukkið sig fullan í heimsókn hjá Bill Clinton Bandaríkjaforseta í Washington í september 1994.[34] Ómögulegt hafi verið að halda víni frá Jeltsín þrátt fyrir að hann ætti við alvarlega hjartagalla að stríða. Á leiðinni heim til Rússlands var áætlað að Jeltsín hefði viðkomu á Írlandi til að funda með Albert Reynolds forsætisráðherra. Í fluginu olli ofdrykkjan því hins vegar að Jeltsín féll í dá vegna hjartaslags. Því varð Reynolds að bíða í fjörutíu mínútur á meðan flugvél Jeltsíns hringsólaði yfir Shannon-flugvelli svo hægt væri að gefa Jeltsín lyf og öndunarhjálp. Þegar Jeltsín náði meðvitund krafðist hann þess að fá samt að hitta Reynolds en fylgdarlið hans neitaði að hleypa honum úr vélinni og sendi hans í stað aðstoðarforsætisráðherrann Oleg Soskovets.[35]

Bill Clinton sagði síðar frá því að þegar Jeltsín kom í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna árið 1995 hafi leyniþjónustumenn komið að Jeltsín blindfullum og á nærbuxunum fyrir utan bústað sinn í Hvíta húsinu, þar sem hann var að reyna að ná leigubíl svo hann gæti fengið sér pizzu.[36]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

 1. Embættið hét forseti rússneska sovétlýðveldisins frá 10. júlí til 25. desember 1991.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Guðmundur Halldórsson (7. október 1990). „Jeltsín á uppleið“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
 2. „Maðurinn sem lagði heimsveldi að fótum sér“. Dagblaðið Vísir. 24. ágúst 1991. bls. 12-13.
 3. 3,0 3,1 3,2 Guðmundur Halldórsson (22. nóvember 1987). „Fall Yeltsins“. Morgunblaðið. bls. 20-21.
 4. „Dýrlingur eða lýðskrumari?“. Alþýðublaðið. 2. júní 1990. bls. 8-9.
 5. „Fulltrúaþingið í Rússlandi lýsir yfir fullveldi“. mbl.is. 13. júní 1990.
 6. „Upphefð Borís Jeltsíns eykur óvissu um framtíð Gorbatsjovs“. Morgunblaðið. 30. maí 1990. bls. 24.
 7. Guðmundur Halldórsson (16. júní 1991). „Ný bylting í Rússlandi?“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
 8. 8,0 8,1 Gunnar Hólmsteinn Ársælsson (8. janúar 2015). „Hverjar voru helstu ástæðurnar fyrir hruni Sovétríkjanna?“. Vísindavefurinn. Sótt 7. apríl 2024.
 9. „Sovétríkin horfin út af landakortinu“. Tíminn. 10. desember 1991. bls. 8-9.
 10. „Maðurinn sem setti Sovétríkin á sorphaug sögunnar“. Viðskiptablaðið. 24. apríl 2007. Sótt 29. mars 2022.
 11. Eiríkur Bergmann (2021). Þjóðarávarpið: Popúlísk þjóðernishyggja í hálfa öld. Reykjavík: JPV útgáfa. bls. 167-168. ISBN 978-9935-29-078-6.
 12. Steingrímur Sigurgeirsson (14. mars 1993). „Lífróður Jeltsíns“. Morgunblaðið. bls. 14.
 13. „Herinn heitir hlutleysi en Clinton styður Jeltsín“. Morgunblaðið. 22. september 1993. bls. 1; 20.
 14. Dagur Þorleifsson (5. október 1993). „Aðdragandi átakanna við Hvíta húsið“. Tíminn. bls. 11.
 15. Dagur Þorleifsson (9. október 1993). „„Valdaráðuneytin" og hermenn á bandi Jeltsíns“. Tíminn. bls. 8.
 16. „Valdabarátta Jeltsíns Rússlandsforseta og þingsins“. Morgunblaðið. 23. september 1993. bls. 24-25.
 17. Bjarni Guðbjörnsson (17. desember 1993). „„Lýðræðislegt" valdarán Jeltsíns“. Vikublaðið. bls. 6.
 18. „Vopnin snerust í höndum Jeltsíns“. Tíminn. 14. desember 1993. bls. 5.
 19. 19,0 19,1 19,2 Guðmundur Ólafsson (27. september 2004). „Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa?“. Vísindavefurinn. Sótt 23. mars 2024.
 20. 20,0 20,1 Vera Illugadóttir (7. apríl 2017). „Í ljósi sögunnar - Téténía“. RÚV. Sótt 31. mars 2022.
 21. „Rússar egna gildrur fyrir fjallabúa“. Tíminn. 7. febrúar 1995. bls. 7.
 22. „Boðar ný Sovétríki undir hamar og sigð“. Dagblaðið Vísir. 20. apríl 1996. bls. 44.
 23. Anna Lilja Þórisdóttir (16. mars 2018). „Ekki um eiginlega kosningabaráttu að ræða í Rússlandi“. Morgunblaðið. bls. 18.
 24. „Harmar samstöðuskort lýðræðisafla“. Morgunblaðið. 15. júní 1996. bls. 16.
 25. Ásgeir Sverrisson (3. júlí 1996). „Þátttaka talin ráða úrslitum“. Morgunblaðið. bls. 15.
 26. „Bandarískir ráðgjafar lykilmenn í kosningabaráttu Jeltsíns“. Morgunblaðið. 11. júlí 1996. bls. 23.
 27. Simon Shuster (24. febrúar 2012). „Rewriting Russian History: Did Boris Yeltsin Steal the 1996 Presidential Election?“ (enska). Time. Sótt 31. mars 2022.
 28. „Áhyggjur af greiðslugetu Rússlands“. mbl.is. 24. október 2008. Sótt 1. apríl 2022.
 29. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (16. mars 2022). „Úr leyniþjónustunni í forsetahöllina“. Vísir. Sótt 16. mars 2022.
 30. Jón Ólafsson (9. janúar 2015). „Hvað getið þið sagt mér um Vladimír Pútín?“. Vísindavefurinn. Sótt 23. mars 2024.
 31. „Krónprinsinn Vladímír Pútín“. Dagblaðið Vísir. 10. ágúst 1999. bls. 8.
 32. Þorvaldur Gylfason (18. desember 2003). „Rússland, Rússland“. Fréttablaðið. bls. 22.
 33. Steinþór Guðbjartsson (24. apríl 2007). „Bera Boris Jeltsín vel söguna“. Morgunblaðið. bls. 14.
 34. „Lífvörður Jeltsíns leysir frá skjóðunni“. Morgunblaðið. 17. ágúst 1997. bls. 6.
 35. „Þjónninn hafði varla undan að fylla glasið“. Dagblaðið Vísir. 16. ágúst 1997. bls. 27.
 36. Þórður Snær Júlíusson (6. júlí 2014). „Jeltsín, Reagan og Michael Douglas á HM“. Kjarninn. Sótt 31. mars 2022.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Rússlands
(10. júlí 199131. desember 1999)
Eftirmaður:
Vladímír Pútín