Leoníd Kravtsjúk
Leoníd Kravtsjúk Леонід Кравчук | |
---|---|
Forseti Úkraínu | |
Í embætti 24. ágúst 1991 – 19. júlí 1994 | |
Forsætisráðherra | Vítold Fokín Valentyn Symonenko (starfandi) Leoníd Kútsjma Júkhym Zvjahílskyj (starfandi) Vítalíj Masol |
Forveri | Fyrstur í embætti |
Eftirmaður | Leoníd Kútsjma |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 10. janúar 1934 Żytyń, Póllandi (nú Velykyj Zjytyn, Rívnefylki, Úkraínu) |
Látinn | 10. maí 2022 (88 ára) München, Þýskalandi |
Þjóðerni | Úkraínskur |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn (1991–1994) Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna 1958–1991 Jafnaðarmannaflokkur Úkraínu 1994–2009 |
Maki | Antonína Mykhajlívna Mísjúra |
Börn | 1 |
Háskóli | Háskólinn í Kænugarði |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Leoníd Makarovytsj Kravtsjúk (f. 10. janúar 1934; d. 10. maí 2022) var úkraínskur stjórnmálamaður sem var fyrsti forseti Úkraínu. Kravtsjúk gegndi forsetaembættinu frá sjálfstæði Úkraínu undan Sovétríkjunum árið 1991 til ársins 1994, en þá tapaði hann endurkjöri gegn fyrrum forsætisráðherranum Leoníd Kútsjma. Kravtsjúk hafði áður verið stjórnmálamaður í sovéska kommúnistaflokknum og hafði verið meðal hvatamanna að því að Úkraína lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Í stjórnartíð Kravtsjúks létu Úkraínumenn af hendi öll kjarnorkuvopn sem höfðu verið skilin eftir í landinu við fall Sovétríkjanna.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Leoníd Kravtsjúk var kominn af smábændum í vesturhluta Úkraínu, nálægt borginni Rovno. Hann lauk meistaragráðu í stjórnmálafræði við Háskólann í Kænugarði og kleif metorðastigann innan sovéska kommúnistaflokksins. Árið 1990 varð Kravtsjúk forseti úkraínska þingsins með stuðningi kommúnistaflokksins.[1] Kravtsjúk var gjarnan talinn helsti hugmyndafræðingur Sovétmanna í Úkraínu og þótti á þeim tíma dyggur stuðningsmaður stjórnvalda í Kreml.[2]
Þegar Kravtsjúk varð þingforseti var hann þegar þjóðþekktur vegna sjónvarpsviðræðna sinna við fulltrúa úkraínskra þjóðernissinna á þingi. Kravtsjúk fjarlægðist brátt stjórnarstefnu kommúnistaflokksins og fór að leggja áherslu á að Úkraína ætti að hafa sjálfræði undan sovésku ríkisstjórninni í Moskvu. Kravtsjúk reyndi að gæta meðalhófs á milli kommúnista á þingi og þeirra sem vildu stefna að sjálfstæði Úkraínu.[1]
Hrun Sovétríkjanna og sjálfstæði Úkraínu
[breyta | breyta frumkóða]Í júlí 1990 stóð Kravtsjúk fyrir þeirri málamðiðlun að þingið lýsti yfir fullveldi úkraínska sovétlýðveldisins, sem fól í sér að úkraínsk lög myndu hafa forgang ef þau stönguðust á við lög Sovétríkjanna. Boris Jeltsín, forseti rússneska sovétlýðveldisins, hafði einnig lýst yfir fullveldi Rússlands undan Sovétríkjunum sama ár og þeir Kravtsjúk gerðu samning um að Úkraína og Rússland viðurkenndu fullveldi hvors annars.[1]
Þegar harðlínukommúnistar reyndu að fremja valdarán í Sovétríkjunum árið 1991 studdi Kravtsjúk í fyrstu ekki andófsaðgerðir Jeltsíns. Meðal annars hvatti hann fólk til að taka ekki þátt í allsherjarverkfallinu sem Jeltsín boðaði til að andmæla valdaránstilrauninni. Þegar ljóst var að valdaránið hefði misheppnast sagðist Kravtsjúk hins vegar hafa rifið flokksskírteini sitt á fyrsta degi þess.[1]
Eftir valdaránstilraunina var Míkhaíl Gorbatsjov, leiðtogi Kommúnistaflokksins, rúinn völdum. Þann 24. ágúst 1991 gaf úkraínska þingið út ályktun þar sem lýst var yfir fullu sjálfstæði Úkraínu og Kravtsjúk varð ákafur stuðningsmaður þeirrar ákvörðunar. Kravtsjúk hélt stuttu síðar í opinberar ferðir til Kanada og Bandaríkjanna til að ræða við leiðtoga þar í landi og jók þannig mjög hróður sinn heima í Úkraínu.[1] Í byrjun desember 1991 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Úkraínu þar sem um níutíu prósent landsmanna kusu að mynda sjálfstætt ríki. Í forsetakosningum sem haldnar voru samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni var Kravtsjúk kjörinn fyrsti forseti Úkraínu.[2]
Forseti Úkraínu (1991–1994)
[breyta | breyta frumkóða]Þann 8. desember 1991 fundaði Kravtsjúk með Jeltsín og Stanislav Sjúskevitsj, leiðtoga Hvíta-Rússlands, í Minsk, og gaf með þeim út yfirlýsingu um að Sovétríkin væru ekki lengur til. Þeirra í stað yrði stofnað Samveldi sjálfstæðra ríkja, sem yrði laustengt efnahagsbandalag.[3] Úkraína gekk hins vegar að endingu aldrei í Samveldið, meðal annars vegna andstöðu Úkraínumanna um það að herafli allra aðildarríkja þess yrði settur undir eina yfirstjórn.[4]
Kravtsjúk átti í stirðu sambandi við ríkisstjórn Rússlands á forsetatíð sinni, meðal annars vegna deilna um það hvort sovéskum kjarnorkuvopnum sem höfðu verið staðsett í Úkraínu skyldi skilað til Rússlands. Rússar og Úkraínumenn deildu jafnframt um eignarhald á Svartahafsflotanum, sem Kravtsjúk vildi fá undir stjórn Úkraínumanna en Jeltsín vildi að færi undir sameiginlega herstjórn Samveldis sjálfstæðra ríkja.[5] Að endingu sömdu Rússar og Úkraínumenn um það flotanum yrði skipt milli ríkjanna með samkomulagi í ágúst 1992.[6] Árið 1994 samdi Kravtsjúk við Jeltsín og Bill Clinton Bandaríkjaforseta um að um 1.600 kjarnorkuvopnum sem voru staðsett í Úkraínu yrði skilað til Rússlands.[7] Í staðinn féllust Rússar á að viðurkenna sjálfstæði, fullveldi og landamæri Úkraínu og ábyrgjast öryggi landsins ásamt Bretum og Bandaríkjamönnum.[8][9]
Á valdatíð sinni fór Kravtsjúk sér hægt í því að koma á umbótum í efnahagskerfi og draga úr miðstýringu efnahagsins. Landsframleiðsla Úkraínu dróst saman eftir hrun Sovétríkjanna og verðbólga jókst. Þrátt fyrir dvínandi vinsældir bauð Kravtsjúk sig fram til endurkjörs í forsetakosningum sem haldnar voru árið 1994. Í kosningabaráttunni skírskotaði Kravtsjúk til úkraínskrar þjóðernishyggju og uppskar með því mikið fylgi í vesturhluta landsins. Andstæðingur hans, fyrrum forsætisráðherrann Leoníd Kútsjma, lagði áherslu á róttækari efnahagsumbætur og bætt samskipti við Rússa og hlaut með því yfirgnæfandi fylgi í austurhéruðum Úkraínu sem nægðu honum til að sigra Kravtsjúk með um átta prósenta atkvæðamun í seinni umferð kosninganna.[10]
Ferill að lokinni forsetatíð
[breyta | breyta frumkóða]Í aðdraganda úkraínsku byltingarinnar 2014 gaf Kravtsjúk út sameiginlega yfirlýsingu ásamt eftirmönnum sínum á forsetastól, Leoníd Kútsjma og Víktor Júsjtsjenko, um stuðning þeirra við kröfur mótmælenda gegn stjórn Víktors Janúkovytsj.[11]
Kravtsjúk lést þann 10. maí árið 2022.[12]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Hugmyndafræðingurinn sem sneri frá villu síns vegar“. Morgunblaðið. 3. desember 1991. bls. 28.
- ↑ 2,0 2,1 Guðmundur Halldórsson (8. desember 1991). „Úkraína á útleið“. Morgunblaðið. bls. 24.
- ↑ „Sovétríkin horfin út af landakortinu“. Tíminn. 10. desember 1991. bls. 8-9.
- ↑ „Ágreiningur forystumanna Samveldis sjálfstæðra ríkja: Úkraínumenn mótfallnir“. mbl.is. 10. desember 1991.
- ↑ „Samveldi sjálfstæðra ríkja: Deilan um Svartahafsflotann stigmagnast“. 10. janúar 1992.
- ↑ „Samkomulagi náð um Svartahafsherflotann“. Morgunblaðið. 5. ágúst 1992. bls. 29.
- ↑ „Kravtsjúk harðlega gagnrýndur“. mbl.is. 21. janúar 1994.
- ↑ Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (27. febrúar 2022). „Fjögurra daga stríð en átta ára stríðsástand“. Vísir. Sótt 10. apríl 2022.
- ↑ Þórgnýr Einar Albertsson (24. febrúar 2022). „Eilíf togstreita á milli austurs og vesturs“. RÚV. Sótt 10. apríl 2022.
- ↑ Magnús Torfi Ólafsson (16. júlí 1994). „Nýju forsetarnir mæna vonaraugum til Moskvu“. Dagblaðið Vísir. bls. 14.
- ↑ Guðsteinn Bjarnason (7. desember 2013). „Veigra sér við að styggja Rússa“. Fréttablaðið. bls. 56.
- ↑ „Fyrsti forseti Úkraínu látinn“. mbl.is. 10. maí 2022. Sótt 2022 11. maí.
Fyrirrennari: Fyrstur í embætti |
|
Eftirmaður: Leoníd Kútsjma |