Fara í innihald

Hollenska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hollenska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
ÍþróttasambandKoninklijke Nederlandse Voetbalbond (Konunglegt Knattspyrnusamband Hollands)
ÁlfusambandUEFA
ÞjálfariRonald Koeman
FyrirliðiVirgil van Dijk
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
6 (22. des. 2022)
1 [1] ((ágúst–september 2011)1)
36 (ágúst 2017)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
1–4 gegn Belgíu í Antwerp, Belgíu 30. apríl 1905
Stærsti sigur
11–0 gegn San Marino Eindhoven Hollandi 2. september 2011
Mesta tap
12-2 gegn áhugamannaliði Englands, Darlington Englandi 21. desember 1907
Heimsmeistaramót
Keppnir10 (fyrst árið 1934)
Besti árangur2. sæti HM 1974 , HM 1978 , HM 2010

Hollenska karlalandsliðið í knattspyrnu, oft kallað Oranje, spilar fyrir hönd Hollands á alþjóðlegum vettvangi, og lýtur stjórn hollenska knattspyrnusambandsins, Koninklijke Nederlandse Voetbalbond (KNVB). Liðið vann EM-gull árið 1988 og vann þrisvar silfurverðlaun á heimsmeistaramótunum 1974, 1978 og 2010. Á gullaldarárunum í kringum 1970 var liðið þekkt fyrir að spila sókndjarfan og skemmtilegan fótbolta og var það oft kallað "Clockwork Orange" fyrir skemmtilegt samspil sitt.

Holland og Belgía léku fjóra leiki á árunum 1901 til 1904, en enginn þeirra telst fullgildur landsleikur þar sem belgíska liðið hafði í öllum tilvikum á að skipa einum eða fleiri leikmönnum frá Bretlandseyjum. Árið 1905 tókst liðunum loks að mæta í fullgildum landsleik sem lauk með 4:1 sigri Hollendinga eftir framlengingu.

Á Ólympíuleikunum 1908 og 1912 sendu Hollendingar lið til leiks og höfnuðu í bæði skiptin í þriðja sæti, en knattpyrnukeppnin á þessum mótum var afar laus í reipunum og liðin sem þar kepptu oft fjarri því að vera skipuð sterkustu leikmönnum sinna þjóða. Enn hrepptu Hollendingar bronsverðlaunin á ÓL 1920, en það skýrðist af því að Tékkóslóvakíu var vikið úr keppni eftir að hafa gengið af velli í úrslitaleiknum.

Fyrstu heimsmeistaramótin

[breyta | breyta frumkóða]
Hollenska liðið á æfingu fyrir HM 1934.

Alþjóðaknattspyrnusambandið skilgreindi knattspyrnukeppnir ÓL í París 1924 og í Amsterdam 1928 sem heimsmeistaramót. Áhuginn á keppninni jókst og gæðin sömuleiðis. Á Parísarleikunum unnu Hollendingar góða sigra á Rúmenum og Írum áður en þeir mættu heimsmeistaraefnum Úrúgvæ í undanúrslitum. Holland náði forystunni með marki Kees Pijl en tapaði að lokum 2:1. Þetta var þó naumasti sigur Suður-Ameríkumannanna í keppninni. í bronsleiknum töpuðu Hollendingar svo fyrir Svíum í framlengdum leik.

Fjórum árum síðar voru Hollendingar á heimavelli, en mættu ríkjandi meisturum Úrúgvæ þegar í fyrstu umferð og töpuðu 2:0. Úrúgvæ bar að lokum sigur af hólmi í keppninni og uppskar hluterk gestgjafa á fyrsta heimsmeistaramótinu árið 1930. Hollendingar voru í hópi þeirra fjölmörgu Evrópuþjóða sem treystu sér ekki í ferðalagið til Suður-Ameríku, en mættu til leiks fjórum árum síðar á á Ítalíu 1934. Þar féll liðið naumlega úr keppni gegn Sviss í fyrstu umferð, 3:2. Aftur komst liðið í úrslitakeppnina í Frakklandi 1938 en tapaði aftur í fyrstu umferð, í það skiptið 3:0 gegn Tékkóslóvakíu. Þetta reyndist vera síðasta heimsmeistaramót Hollendinga til ársins 1974.

Endurreisn eftir stríð

[breyta | breyta frumkóða]

Hollenskt samfélag varð fyrir miklum búsifjum á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Sömu sögu var að segja um knattspyrnuíþróttina í landinu, en staða hennar veiktist enn frekar vegna tregðu hollenska knattspyrnusambandsins við að heimila atvinnumennsku. Holland skráði hvorki lið til keppni á HM 1950 né í forkeppni HM 1954 og sömu sögu má segja um fyrstu Evrópukeppnina 1960.

Atvinnuknattspyrnumennska var tekin upp í Hollandi árið 1954 eftir harðar deilur. Í kjölfarið tóku hollensk félagslið að eflast jafnt og þétt. Gengi landsliðsins var þó brösótt á köflum. Það komst ekki upp úr forkeppnum HM 1958 og 1962 og féll úr leik í undankeppni EM 1964 gegn Lúxemborg, sem lengi var talið lágpunkturinn í hollenskri landsliðssögu.

Árið 1965 tók Rinus Michels við stjórnartaumunum hjá sínu gamla félagið Ajax. Hann kynnti til sögunnar nýja nálgun með sókndjörfum fótbolta, sem skilaði Ajax-liðinu þegar í fremstu röð heima fyrir, því næst í Evrópu með Johan Cruyff í broddi fylkingar. Sú bylting átti fljótlega eftir að skila sér í hollenska landsliðið.

Draumaliðið

[breyta | breyta frumkóða]
Cruyff vonsvikinn í lok úrslitaleiks Hollendinga og Vestur-Þjóðverja 1974.

Eftir áratuga bið tókst Hollendingum að tryggja sér sæti í úrslitakeppni HM 1974 í Vestur-Þýskalandi. Leiðin þangað var þó ekki auðfarin. Hollendingar og Belgar gerðu tvö markalaus jafntefli í innbyrðisleikjunum og unnu aðrar viðureignir. Holland fór áfram á markatölu og munaði þar mikið um 8:1 sigur þeirra á Íslendingum. Þjálfarinn František Fadrhonc frá Téekóslóvakíu stýrði liðinu í forkeppninni en fékk ekki að fylgja því í úrslitin, þar sem knattspyrnusambandið ákvað að semja við Rinus Michels sem tekið hafði við Barcelona að loknum árunum sínum hjá Ajax.

Hollendingar heilluðu knattspyrnuunnendur með spilamennsku sína í Vestur-Þýskalandi og voru taldir sigurstranglegastir nánast frá fyrstu stundu. Liðið vann Úrúgvæ og Búlgari í riðlakeppninni og gerði jafntefli við Svía. Mótherjarnir skoruðu ekkert mark í leikjunum þremur, en Ruud Krol varð fyrir því óláni að setja sjálfsmark.

Í milliriðli fóru Hollendingar létt með Argentínu, 4:0 og unnu þvínæst Austur-Þjóðverja 2:0 og Brasilíu með sama mun í hreinum úrslitaleik um hvort liðið myndi mæta heimamönnum í úrslitum.

Holland byrjaði úrslitaleikinn með látum og Johan Neeskens kom sínum mönnum yfir úr vítaspyrnu í blábyrjun. Eftir því sem á leið missti hollenska liðið vindinn úr seglunum. Vestur-Þjóðverjar unnu sig aftur inn í leikinn og höfðu loks betur 2:1. Vonbrigði Hollendinga urðu mikil og er oft vísað til liðs þeirra sem eins besta landsliðs sem ekki hafi tekist að verða heimsmeistari. Hollenskir fjölmiðlar vildu þó margir leita blóraböggla vegna tapsins og var t.a.m. talsvert fjallað um skemmtanalíf leikmanna, sem sumir töldu hafa verið óþarflega mikið meðan á mótinu stóð.

Allt nema gull

[breyta | breyta frumkóða]

Michels sagði skilið við landsliðið um senn strax að loknu heimsmeistaramótinu. George Knobel tók við keflinu og tókst honum að koma liðinu í úrlitakeppni EM 1976 upp úr ógnarsterkum forriðli, sem innihélt bæði Ítali og Pólverja. Því næst slógu þeir úr erkifjendur sína Belga í umspilseinvígi eftir 5:0 sigur í Rotterdam.

Úrslitaleikur Hollendinga og Argentínuman na á HM 1978.

Þegar í úrslitakeppnina í Júgóslavíu var komið fór allt í háa loft milli þjálfarans og leikmanna. Hollendingar töpuðu í undanúrslitum fyrir meistaraefnum Tékkóslóvaka. Eftir leikinn fór Cruyff til síns heima og hirti ekki um að leika þriðja sætis leikinn gegn liði heimamanna. Hann vannst en bronsið var Hollendingum engin huggin og Knobel var láttinn taka pokann sinn.

Líkt og fjórum árum fyrr voru Hollendingar í riðlli með bæði Belgum og Íslendingum í forkeppni HM 1978 og komust fyrirhafnarlítið áfram. Keppnin var haldin í Argentínu, sem margir Hollendingar gagnrýndu vegna mannréttindasjónarmiða. Johan Cruyff sat heima af persónulegum ástæðum, sem margir töldu þó að snerust um pólitík. Austurríkismaðurinn Ernst Happel stýrði liðinu í úrslitakeppninni sem einkenndist af miklum deilum og ósamlyndi. Hollendingar voru ósannfærandi í byrjun og máttu sætta sig við annað sætið í riðlinum á eftir Perú. Landið fór að rísa í milliriðlinum sem hófst á stórsigri á Austurríkismönnum, þá kom jafntefli gegn Vestur-Þjóðverjum og loks baráttusigur á Ítölum. Þegar í spennuþrunginn úrslitaleikinn var komið reyndust heimamenn hins vegar sterkari og aðra heimsmeistarakeppnina í röð komu Hollendingar heim með silfurpening um hálsinn.

Eyðimerkurganga

[breyta | breyta frumkóða]

Hollendingar voru meðal átta keppnisliða í úrslitum EM 1980 en komust ekki áfram úr riðlakeppninni. Þetta reyndist síðasta úrslitakeppni hollenska liðsins um hríð. Holland mátti sætta sig við fjórða sæti síns riðils í forkeppni HM á Spáni 1982.

Íslendingar reyndust örlagavaldar hollenska liðsins í forkeppni EM 1984. Íslenska liðið, sem fékk einungis þrjú sitg í riðlinum náði óvænt 1:1 jafntefli á Laugardalsvelli sem reyndist dýrkeypt því Holland og Spánn enduðu með jafnmörg stig, þar sem spænska liðið komst áfram á markatölu eftir ótrúlegan 12:1 sigur á Möltu í lokaleik, þar sem Hollendinga grunaði raunar að fiskur lægi undir steini.

Ungverjar tryggðu sér sætið á HM í Mexíkó 1986 á kostnað Hollendinga sem þurftu að fara í umspilsleiki við Belga þar sem hvort lið vann sinn heimaleikinn en Belgar fóru áfram á mörkum skoruðum á útivelli.

Evrópumeistarar

[breyta | breyta frumkóða]

Hollendingar fóru taplausir í gegnum forkeppni EM 1988 og mættu til Vestur-Þýskalands undir stjórn Rinus Michels sem tekinn var við liðinu á ný eftir nokkurt hlé. Holland tapaði fyrsta leik sínum á móti Sovétríkjunum en eftir það héldu þeim engin bönd. Liðið vann sigra á Englendingum og Írum. Í undanúrslitum vannst sætur sigur á heimamönnum Þjóðverja þar sem Marco van Basten skoraði 2:1 sigurmark í blálokin.

Van Basten var svo í aðalhlutverki í úrslitaleiknum þar sem mótherjarnir voru Sovétmenn á nýjan leik. Eftir að Ruud Gullit kom hollenska liðinu yfir eftir um hálftíma leik skoraði Van Basten með mögnuðu skoti úr þröngu færi. Hollendingar voru Evrópumeistarar og hrepptu þar með sinn fyrsta stóra titil.

Margir kallaðir: fáir útvaldir

[breyta | breyta frumkóða]

Sem ríkjandi Evrópumeistarar voru Hollendingar taldir sigurstranglegir á HM í Ítalíu 1990. Þar skoraði liðið hins vegar ekki nema tvö mörk í riðlakeppninni og varpa þurfti hlutkesti um hvort þeir eða Írar hlytu annað sætið í riðlinum. Írar urðu heppnari með mótherja og Holland féll úr leik gegn heimsmeistaraefnum Þjóðverja í 16-liða úrslitum sem vakti helst athygli fyrir útistöður milli Frank Rijkaard og Rudi Völler sem báðir voru reknir útaf með skömm í 2:1 sigri þýska liðsins.

Ekki tókst heldur að verja titilinn á EM í Svíþjóð 1992. Holland hafnaði á toppi síns riðils eftir góðan sigur á Þjóðverjum og virtist eiga vísa leið í úrslitin þar sem sömu lið myndu mætast. Raunin varð hins vegar sú að Svíar slógu þýska liðið úr leik og Hollendingar töpuðu fyrir Dönum í vítaspyrnukeppni í sinni undanúrslitaviðureigninni.

Þegar komið var á HM í Bandaríkjunum 1994 voru Hollendingar í öðru sæti heimslista FIFA. Eftir að hafa hafnað í efsta sæti síns riðils slógu Hollendingar lið Íra úr leik í 16-liða úrslitum en mættu því næst heimsmeistaraefnum Brasilíu í æsilegri viðureign í fjórðungsúrslitum sem lauk með 3:2 sigri þeirra síðarnefndu. Aftur féllu Hollendingar úr leik á EM í Englandi 1996 tveimur árum seinna, í það skiptið í vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli gegn Frökkum.

Guus Hiddink var þjálfari hollenska liðsins á EM 1996 og hann stýrði því einnig á HM í Frakklandi 1998. Holland komst auðveldlega upp úr forriðlinum og sló því næst úr leik lið Serba og Svertfellinga. Sigurmark frá Dennis Bergkamp á lokamínútunni gegn Argentínu kom Hollandi í undanúrslitin. Þar voru mótherjarnir Brasilíumenn. Patrick Kluivert náði að knýja fram framlengingu með jöfnunarmarki undir lokin en í vítaspyrnukeppni reyndust Suður-Ameríkumennirnir sterkari. Hollendingar töpuðu því næst bronsleiknum á móti Króötum.

Gestgjafar og fleiri bronsverðlaun

[breyta | breyta frumkóða]

Hollendingar og Belgar deildu hlutverki gestgjafa á EM 2000, fyrsta stórmótinu sem skipt var á milli tveggja þjóða. Hollendingar unnu forriðil sinn í Amsterdam og Rotterdam á fullu húsi stiga og skutu m.a. heimsmeisturum Frakka aftur fyrir sig. Hollenska liðið efndi til flugeldasýningar gegn liði Seerbíu og Svartfjallalands í átta liða úrslitum og vann 6:1. Í undanúrslitum gerði liðið hins vegar markalaust jafntefli við Ítali og tapaði svo í vítaspyrnukeppni.

Afleitt gengi í forkeppni HM 2002 gerði það að verkum að Hollendingar þurftu að sitja heima á stórmóti í fyrsta sinn um langa hríð.

Hollendingar þurftu að fara í gegnum umspil til að komast á EM 2004. Í úrslitakeppninni í Portúgal komst liðið upp úr riðlakeppninni og sló því næst Svía úr leik í vítakeppni, en tapaði loks fyrir heimamönnum í undanúrslitum, 2:1.

HM 2006 fór fram í Þýskalandi. Holland var í þriðja sæti á heimslistanum þegar dregið var í riðla og komst áfram úr dauðariðli keppninnar sem innihélt bæði Argentínu og Fílabeinsströndina. Í 16-liða úrslitum reyndust Portúgalir hins vegar of sterkir andstæðingar.

Hollendingar byrjuðu með látum á EM 2008 og unnu sterkan forriðil með Ítölum og Frökkum á fullu húsi stiga. Eftir góða byrjun virtist liðið líklegt til stórafreka en lenti óvænt í vandræðum gegn Rússum í fjórðungsúrslitum og féll úr leik eftir 3:1 tap í framlengingu.

Velgengni á HM

[breyta | breyta frumkóða]
Hollenska liðið fyrir úrslitaleikinn á HM 2010.

Hollendingar komu sterkir til leiks á HM í Suður-Afríku 2010. Liðið var, ásamt Argentínu, það eina til að fara í gegnum riðlakeppnina á fullu húsi stiga. Við tóku 2:1 sigrar á Slóvökum og gegn Brasilíumönnum í stórleik fjórðungsúrslitanna. Í undanúrslitum lögðu Hollendingar svo lið Úrúgvæ að velli 3:2 í hörkuleik. Úrslitaleikurinn gegn Spánverjum þótti afar grófur og ekki sérlega vel leikinn. Fjórtán gul spjöld voru gefin, tvöfalt meira en gamla metið í úrslitaleik. Markalaust var í venjulegum leiktíma og allt benti til að grípa þyrfti til vítaspyrnukeppni þegar Andrés Iniesta skoraði sigurmarkið þegar um fimm mínútur voru eftir af framlengingunni. Enn og aftur máttu Hollendingar sætta sig við silfurverðlaun.

Á haustmánuðum 2011 komst Holland í toppsæti heimslista FIFA í fyrsta og eina skiptið í sögunni. Nokkuð góðar vonir voru því bundnar við EM 2012 sem fram fór í Póllandi og Úkraínu. Uppskeran varð hins vegar sár vonbrigði. Eftir töp gegn Dönum og Þjóðverjum í fyrstu tveimur leikjunum voru allar vonir um að komast áfram úr sögunni og hollenska liðið endaði á að tapa öllum leikjunum þremur.

Louis van Gaal stýrði liðinu á HM í Brasilíu 2014 og var stjóratíð hans stormasöm. Væntingarnar voru hófstilltar áður en til Brasilíu var komið enda hafði árangurinn í æfingaleikjum ekki verið upp á marga fiska og liðið skriðið niður heimslistann. Flestum að óvörum unnu Hollendingar 5:1 stórsigur á heimsmeisturum Spánar í fyrsta leik og unnu þeir að lokum riðil sinn á fullu húsi stiga. Í 16-liða úrslitum unnu Hollendingar Mexíkó 2:1 og því næst Kosta Ríka í vítaspyrnukeppni í fjórðungsúrslitum. Aftur þurfti að grípa til vítakeppni í undanúrslitum gegn Argentínu, en þar höfður Suður-Ameríkumennirnir betur. Holland tryggði sér að lokum bronsverðlaunin eftir 3:0 sigur á vængbrotnu liði heimamanna.

Setið heima

[breyta | breyta frumkóða]

Silfur- og bronsverðlaunin á HM reyndust ekki stökkpallur fyrir frekari afrek hollenska liðsins. Þátttökuliðum var fjölgað á EM 2016 í Frakklandi en hollenska liðið mátti sátta sig við fjórða sætið í sínum undanriðli á meðan Íslendingar komust beint í úrslitakeppnina. Holland lenti m.a. með Förkkum og Svíum í undanriðli fyrir HM í Rússlandi 2018. Frakkar hirtu toppsætið og Svíar komust í umspil á betri markatölu en hollenska liðið.

Holland komst aftur í úrslitakeppni á EM 2020 sem frestaðist þó um ár vegna Covid-faraldursins. Hollendingar byrjuðu með látum og unnu þrjá fyrstu leiki sína, en féllu svo úr leik gegn Tékkum í 16-liða úrslitum. Á HM í Katar 2022 töldust Hollendingar heppnir að lenda í riðli með slöku liði heimamanna og nældu sér í toppsætið. Því næst slógu þeir Bandaríkjamenn úr leik, 3:1. Fjórðungsúrslitaviðureignin gegn heimsmeistaraefnum Argentínu varð æsileg. Argentína náði 2:0 forystu en Wout Weghorst jafnaði metin með tveimur mörkum, því seinna á 11. mínútu uppbótartíma. Argentínumenn höfðu svo betur í vítaspyrnukeppni líkt og gerst hafði átta árum fyrr.

Leikmannahópur

[breyta | breyta frumkóða]

desember 2022, fyrir HM 2022

Markverðir

[breyta | breyta frumkóða]

Sóknarmenn

[breyta | breyta frumkóða]

EM í knattspyrnu

[breyta | breyta frumkóða]
Ár Gestgjafar Árangur
EM 1960  Frakkland Tóku ekki þátt
EM 1964  Spánn Tóku ekki þátt
EM 1968  Ítalía Tóku ekki þátt
EM 1972  Belgía Tóku ekki þátt
EM 1976  Júgóslavía Brons
EM 1980  Ítalía Riðlakeppni
EM 1984  Frakkland Tóku ekki þátt
EM1988  Þýskaland Gull
EM 1992  Svíþjóð Brons
EM1996  England 8 liða úrslit
EM 2000  Belgía &  Holland Brons
EM 2004  Portúgal Brons
EM 2008  Austurríki &  Sviss 8 liða úrslit
EM 2012  Pólland &  Úkraína Riðlakeppni
EM 2016  Frakkland Tóku ekki þátt
EM 2021 Fáni ESBEvrópa 16. liða úrslit
EM 2024  Þýskaland Undanúrslit
Ár Gestgjafar Árangur
HM 1930 Fáni ÚrúgvæÚrúgvæ Tóku ekki þátt
HM 1934  Ítalía 16 liða úrslit
HM 1938  Frakkland 16 liða úrslit
HM 1950  Brasilía Tóku ekki þátt
HM 1954  Sviss Tóku ekki þátt
HM 1958  Svíþjóð Tóku ekki þátt
HM 1962  Síle Tóku ekki þátt
HM 1966 Fáni EnglandsEngland Tóku ekki þátt
HM 1970 Fáni MexíkósMexíkó Tóku ekki þátt
HM 1974  Þýskaland Silfur
HM 1978 Fáni ArgentínuArgentína Silfur
HM 1982  Spánn Tóku ekki þátt
HM 1986 Fáni MexíkósMexíkó Tóku ekki þátt
HM 1990  Ítalía 16 liða úrslit
HM 1994  Bandaríkin 8. liða úrslit
HM 1998  Frakkland 4. sæti
HM 2002  Suður-Kórea &  Japan Tóku ekki þátt
HM 2006  Þýskaland 16 liða úrslit
HM 2010  Suður-Afríka Silfur
HM 2014  Brasilía Brons
HM 2018  Rússland Tóku ekki þátt
HM 2022  Katar 8. liða úrslit
Robin van Persie er markahæsti leikmaður í sögu Hollands með 50 mörk.

Flestir leikir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Wesley Sneijder: 134
  2. Edwin van der Sar: 130
  3. Frank de Boer: 112
  4. Rafael van der Vaart: 109
  5. Giovanni van Bronckhorst: 106
  6. Dirk Kuyt: 104
  7. Robin van Persie: 102
  8. Phillip Cocu: 101
  9. Arjen Robben: 96
  10. John Heitinga: 87
  11. Clarence Seedorf 87

Flest mörk

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Robin van Persie: 50
  2. Klaas-Jan Huntelaar: 42
  3. Patrick Kluivert: 40
  4. Dennis Bergkamp: 37
  5. Arjen Robben: 37
  6. Faas Wilkes: 35
  7. Ruud van Nistelrooy: 35
  8. Abe Lenstra: 33
  9. Johan Cruyff: 33
  10. Wesley Sneijder: 87


  1. „Netherlands Ranking“. 2. maí 2019. Afrit af upprunalegu geymt þann 2 maí 2019. Sótt 13 janúar 2020.