Eindhoven

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Upplýsingar
Hérað: Norður-Brabant
Flatarmál: 88,84 km²
Mannfjöldi: 215.986 (31. des 2010)
Þéttleiki byggðar: 2.431/km²
Vefsíða: www.eindhoven.nl
Lega
Staðsetning Eindhoven í Hollandi

Eindhoven er stærsta borgin í héraðinu Norður-Brabant í Hollandi með 216 þúsund íbúa og er jafnframt fimmta stærsta borg Hollands. Eindhoven er mikil iðnaðarborg. Þar eru DAF-bílaverksmiðjurnar og Philips-iðnrisinn til húsa.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Eindhoven liggur við ána Dommel í suðausturhluta Hollands, aðeins steinsnar fyrir norðan belgísku landamærin. Næstu borgir eru Tilburg til norðvesturs (35 km), Hertogenbosch til norðurs (35 km), Nijmegen til norðausturs (60 km) og Turnhout í Belgíu til suðvesturs (45 km).

Fáni og skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Fáni Eindhoven sýnir fimm láréttar rendur, þrjár rauðar og tvær hvítar, ásamt tveimur lóðréttum röndum til vinstri, ein hvít og ein rauð. Láréttu rendurnar merkja bæina fimm sem sameinaðir voru í Eindhoven 1920, meðan lóðréttu rendurnar merkja borgina sjálfa. Fáninn var hannaður af arkítektinum Louis Kooken eftir sameiningu bæjanna. Skjaldarmerki borgarinnar er tvískipt. Til hægri er þrjú silfurhorn á rauðum grunni. Hornin eru merki Van Horne ættarinnar. Til vinstri er rautt ljón á silfurgrunni. Ljónið var merki hertoganna í Brabant. Efst er kóróna, sem stendur fyrir konungsríkið Holland. Elstu hlutar skjaldarmerkisins eru frá 1355 en núverandi merki var samþykkt 1923.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Óvíst er um tilurð heitisins. Sumir vilja meina að ein merkir endir og hoven bóndabær, þ.e. að upphaflega hafi verið bóndabýli á við endamörk Woensel, sem var fyrrum bær, en er nú horfinn. Allmargir bæir í Hollandi hafa endinguna –hoven.

Saga Eindhoven[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Bærinn myndaðist við samflæði ánna Dommel og Gender á verslunarleið sem lá frá Hollandi (sem hérað) til Brabant. Árið 1232 veitti Hinrik I af Brabant Eindhoven borgarréttindi. Þá var borgin ekki með nema um 170 hús innan um varnarveggi, en utan þeirra var lítið kastalavirki. Mikill rígur var milli Eindhoven og greifadæmisins Geldern. Þannig var borgin rænd og lögð í eyði af herjum Geldern 1486. Aðeins sex hús stóðu eftir uppi. Árið 1493 var lítill her frá Geldern aftur á ferðinni til að ræna og rupla. Þetta endurtók sig 1505 og 1508. Hins vegar var þá búið að reisa betri varnarmúra, þannig að borgin slapp við eyðileggingu en nærsveitir urðu illa úti. Enn voru herir Geldern á ferðinni 1528 en sökum betri varna borgarinnar urðu þeir frá að hverfa.

Sjálfstæðisstríð[breyta | breyta frumkóða]

Spánverjar sitja um og hertaka Eindhoven 1583

1543 hertók Maarten van Rossum borgina Eindhoven, en hann var á mála hjá Karli V. keisara. Brabant var þá orðið eign Habsborgar. Þegar Vilhjálmur af Óraníu nálgaðist með her, dró Maarten sig til baka. Enn syrti í álinn 1554 er stórbruni eyddi þrjá fjórðu hluta borgarinnar. Hún var endurreist með aðstoð Vilhjálms. Siðaskiptin urðu 1566 í Eindhoven og átti það eftir að draga dilk á eftir sér. Í sjálfstæðisstríði Hollands var Eindhoven hertekin af Spánverjum, sem ofsóttu kalvínista. Árið 1577 náði Vilhjálmur af Óraníu að frelsa borgina en féll Spánverjum aftur í hendur nokkru seinna. Þannig var borgin hernumin nokkru sinnum, ýmist af Hollendingum eða Spánverjum. Þegar Spánverjar tóku borgina í síðasta sinn 1583, eftir þriggja mánaða umsátur, rifu þeir niður alla borgarmúra. Eindhoven var ekki endanlega hluti Hollands fyrr 1629.

Iðnbylting[breyta | breyta frumkóða]

DAF-bílarnir eru smíðaðir í Eindhoven

Þegar Frakkar hertóku Holland 1795 varð Eindhoven enn fyrir skemmdum og eyðilögðust mörg hús af völdum Frakka. Á tímum iðnbyltingarinnar um miðja 19. öld óx borgin mjög. Grafnir voru skipaskurðir sem tengdust við Eindhoven 1843. Borgin fékk járnbrautartengingu 1866-70. Fyrsti stóri iðnaðurinn hófst er Gerard og Anton Philips stofnuðu ljósaperufyrirtæki í borginni 1891 en það varð brátt að iðnrisanum Philips. Íbúafjöldinn jókst verulega. 1815 voru íbúar aðeins 2.300. Árið 1920 voru þeir orðnir tæplega 48 þúsund, 1925 tæplega 64 þúsund og 1935 hafði þeim fjölgað í yfir 100 þúsund. Til að gera borginni mögulegt að stækka svona mikið voru fimm bæir sameinaðir Eindhoven (Woensel, Tongelre, Stratum, Gestel en Blaarthem og Strijp). Við það fékkst mikið byggingaland. 1928 var bílaverksmiðjan DAF stofnuð í Eindhoven og er það enn stærsta bílaframleiðandi Hollands.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Íbúar Eindhoven við götuna Stratumseind fagna bandamönnum, sem nýbúnir eru að frelsa borgina. Myndin er tekin 19. september 1944.

Eindhoven var hernumin af Þjóðverjum 1940, eins og landið allt. 18. september 1944 varð borgin fyrir loftárásum bandamanna, en þá réðust bandamenn inn í borgina til að tryggja yfirráð yfir brúm sem þar voru. Loftárásirnar skemmdu stóran hluta borgarinnar. Aðgerðin kallaðist Operation Market Garden. Aðgerðin heppnaðist ekki að fullu, því bandamenn voru stöðvaðir við borgina Arnhem. Á hinn bóginn var Eindhoven frelsuð í aðgerðinni, því Þjóðverjar voru endanlega hraktir burt þaðan. Við enduruppbyggingu í miðborginni eftir stríð voru mörg gömul hús fjarlægð, þannig að Eindhoven er mjög nýtískuleg á að líta. Sökum mikils iðnaðar óx borgin enn og varð að fimmtu stærstu borg Hollands á áttunda og níunda áratugnum. Enn er verið að bæta við íbúðahverfum á nýrri öld, er gamli flugvöllurinn Welshap var færður til að rýma fyrir nýju svæði til uppbyggingar.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Frá bílasýningunni Pole Position Eindhoven

Helstu viðburðir í borginni Eindhoven:

 • Ísstyttuhátíð (IJssculpturenfestival) í desember/janúar
 • Karneval í febrúar/mars
 • Fiesta del Sol tónlistarhátíðin í júní
 • Bílasýningin Pole Position Eindhoven í júní
 • Loftbelgjahátíðin Eindhoven Ballooning í júlí
 • Park Hilaria skemmtigarður í ágúst (hálf milljón gestir árlega)
 • Ljósahátíðin Lichtjesroute til minningar um frelsun borgarinnar 18. september 1944
 • Hönnunarhátíðin Dutch Design Week í október
 • Ljósahátíðin GLOW Festival í október/nóvember, en þá eru ýmsar byggingar upplýstar

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er PSV Eindhoven sem 21 sinni hefur orðið hollenskur meistari (síðast 2008), 8 sinnum bikarmeistari (síðast 2005), einu sinni Evrópubikarmeistari 1978 og einu sinni sigrað Meistaradeild Evrópu 1988 (sigraði þá Benfica Lissabon í vítaspyrnukeppni). Af fyrrverandi þekktum leikmönnum félagsins má nefna Ruud Gullit, Romário, Ronaldo og Ruud van Nistelrooy. Eiður Smári Guðjohnsen lék með félaginu tímabilið 1995-96. PSV er einnig með úrvalslið í sundi og sundknattleik. Hinn margfaldi heims- og ólympíumeistari í sundi, Pieter van den Hoogenband, er uppruninn í sundliðinu.

Eindhoven Marathon er Maraþonhlaupið í borginni. Það hefur verið haldið árlega síðan 1990. Síðan 1999 hefur sigurvegarinn í karlaflokki ávallt verið frá Kenía.

Í Eindhoven er stærsti hjólabrettagarður Evrópu, kallaður Area 51 (Skatepark), enda þrífst lífleg hjólbrettamenning í borginni.

HM í borðtennis var haldið í Eindhoven 1999.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Eindhoven viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Vísindasafnið Evoluon

Lítið er um gamlar byggingar vegna loftárása seinna stríðs. Nær öll miðborgin hefur verið endurnýjuð í nýtísku stíl.

 • Evoluon er vísindasafn sem Philips iðnrisinn lét reisa 1966. Byggingin lítur helst út eins og fljúgandi furðuhlutur og er það helsta tákn borgarinnar. Safnið var gríðarlega vinsælt, en þegar önnur vísindasöfn opnuðu í öðrum borgum í Hollandi fór gestum snarfækkandi. Í dag er safnið lokað og hefur húsinu verið breytt í ráðstefnuhöll.
 • Jóriskirkjan er hæsta kirkjubygging í Eindhoven, en turninn er 88 metra hár. Hún var reist 1884-85 og er friðuð.
 • Katrínarkirkjan er kaþólsk kirkjan í miðborginni. Hún var reist 1861-67 og er 70 metra há. Í loftárásum seinna stríðs skemmdist kirkjan talsvert, meðal annars eyðilögðust flestir gluggar. Síðan 1972 er kirkjan friðuð

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Eindhoven“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. júní 2011.