Sumarólympíuleikarnir 1920

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Plakat Ólympíuleikanna í Antwerpen.

Sumarólympíuleikarnir 1920 voru haldnir í Antwerpen í Belgíu á tímabilinu 20. apríl til 12. september. Evrópa var í sárum eftir fyrri heimsstyrjöldina, en þrátt fyrir það var ákveðið vorið 1919 að halda leikana í Antwerpen.

Aðdragandi og skipulagning[breyta | breyta frumkóða]

Upphaflega áttu Ólympíuleikarnir 1920 að fara fram í Búdapest í Ungverjalandi, en Amsterdam og Lyon höfðu einnig falast eftir að halda þá. Eftir stríðið voru Þýskaland og bandalagsríki þeirra úr fyrri heimsstyrjöldinni beitt refsiaðgerðum. Því var Þjóðverjum, Austurríkismönnum, Ungverjum, Búlgörum og Tyrkjum meinuð þátttaka á Ólympíuleikunum.

Belgum var falin umsjón leikanna með rétt rúmlega árs fyrirvara og var það sagt í virðingarskyni við þær fórnir sem belgíska þjóðin hafði fært í stríðinu. Vegna hins skamma fyrirvara reyndist ekki unnt að ráðast í mikla mannvirkjagerð og voru flest íþróttamannvirki ýmist reist til bráðabirgða eða látið nægja að lappa upp á þau sem fyrir voru. Ólympíuleikvangur var þó reistur í flýti og er hann í seinni tíð heimavöllur knattspyrnuliðsins K.F.C. Germinal Beerschot.

Skipulagsnefnd Ólympíuleikanna í Antwerpen varð gjaldþrota í kjölfar þeirra. Fyrir vikið eru minni upplýsingar varðveittar um skipulag og rekstur en um ýmsa aðra leika. Lokaskýrsla leikanna kom ekki út fyrr en 37 árum síðar og höfðu þá ýmis gögn tapast.

Keppnisgreinar[breyta | breyta frumkóða]

Keppt var í 154 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn[breyta | breyta frumkóða]

Nedo Nadi vann til fimm gullverðlauna á leikunum og setti þar með met.

Keppt var í 29 greinum frjálsíþrótta. Þar af unnu Bandaríkjamenn og Finnar til níu verðlauna hvor þjóð.

Frakkinn Joseph Guillemot sigraði í 5.000 metra hlaupi og varð annar í 10.000 metrunum, þrátt fyrir að lungu hans hefðu stórskaðast af völdum sinnepsgass í heimsstyrjöldinni.

Hinn 23 ára gamli Paavo Nurmi frá Finnlandi kom fram á sjónarsviðið og hlaut þrjú gull og eitt silfur í langhlaupum.

Ítalski skylmingakappinn Nedo Nadi vann til fimm gullverðlauna á leikunum. Það var met sem stóð allt þar til Mark Spitz sigraði í sjö greinum á Ólympíuleikunum 1972.

Svíinn Oscar Swahn vann til silfurverðlauna í skotfimi, 72 ára að aldri. Hann er elsti verðlaunahafinn í sögu Ólympíuleikanna ef frá eru taldar listgreinar. Hann hugðist keppa aftur á leikunum 1924, en komst ekki vegna veikinda.

Belgar verða seint taldir til mestu íþróttaþjóða Evrópu. Þeir unnu þó til fjórtán gullverðlauna á leikunum, þar af átta í bogfimi.

Tennisspilarinn Suzanne Lenglen var einn fyrsti kveníþróttamaðurinn til að öðlast frægð á við karlkyns keppendur.

Bandaríski táningurinn Aileen Riggin sigraði í dýfingum af þriggja metra bretti. Hún var þá nýorðin fjórtán ára gömul.

Hnefaleikakappinn Eddie Eagan frá Bandaríkjunum vann til gullverðlauna í hnefaleikakeppninni. Tólf árum síðar endurtók hann leikinn í bobsleðakeppninni á Vetrarólympíuleikunum í Lake Placid. Hann er því einn örfárra manna sem unnið hafa til verðlauna á bæði sumar- og vetrarleikum og sá eini sem hlotið hefur gull á þeim báðum.

Knattspyrnukeppnin var söguleg og endaði í illdeilum. Landslið hins nýstofnaða ríkis Tékkóslóvakíu komst í úrslitaleikinn eftir að hafa sigrað alla andstæðinga sína með miklum mun. Í úrslitum mætti liðið heimamönnum Belga. Belgar komust í 2:0 og þegar einn leikmaður Tékkóslóvakíu var rekinn út af á 40. mínútu gekk allt liðið af velli til að mótmæla dómgæslunni í leiknum. Tékkum var í kjölfarið vikið úr keppni. Fyrr í keppninni komu Norðmenn mjög á óvart með því að slá út breska liðið, sem talið hafði verið sigurstranglegt.

Svíar áttu fjóra efstu menn í keppni í nútíma fimmtarþraut. Sænskir íþróttamenn einokuðu raunar þessa keppnisgrein og unnu gullverðlaunin í fimm fyrstu skiptin sem keppt var í henni á Ólympíuleikum.

Franska tenniskonan Suzanne Lenglen vann til gullverðlauna í einliðaleik og tvenndarleik. Hún var fyrsta stórstjarnan úr röðum kvenkyns tennisspilara og fékk viðurnefnið „gyðjan“, La Divine, í frönskum blöðum. Hún gerðist síðar atvinnutennisleikari í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamaðurinn Jack Kelly vann til tveggja gullverðlauna í róðrarkeppni leikanna. Hann var faðir leikkonunnar Grace Kelly .

Bretar sigruðu í póló-keppninni. Meðal keppenda í breska liðinu var John Wodehouse 3ji jarlinn af Kimberley. Frændi hans var rithöfundurinn P. G. Wodehouse og er jarlinn sagður fyrirmyndin að hinni vinsælu persónu Bertie Wooster í bókum hans.

Þátttaka Íslendinga á leikunum[breyta | breyta frumkóða]

Vestur-íslensku ísknattleiksmennirnir á skipsfjöl á leiðinni á Ólympíuleikana 1920.

Í ljósi nýfengins fullveldis var mikill áhugi meðal Íslendinga að taka þátt í Ólympíuleikunum. Alþingi veitti Íþróttasambandi Íslands styrk til keppnisfarar og stóð til að íslensk glíma yrði sýningargrein á sama hátt og í Stokkhólmi 1912.

Flugkappinn Frank Fredrickson var fyrirliði Fálkanna. Hann gerðist síðar atvinnumaður í íþróttinni og vann Stanley-bikarinn, eftirsóttasta verðlaunagrip ísknattleiksmanna.

Babb kom í bátinn þegar í ljós kom að Ólympíuferðin myndi rekast á við fyrirhugaða Íslandsför Kristjáns X Danakonungs sumarið 1920. Konungur óskaði eftir að fá að sjá glímu og vildu forystumenn íþróttamála tryggja að bestu keppendur landsins væru til reiðu. Var Ólympíuförin því blásin af, sem reyndist mistök því konungur neyddist til að fresta ferð sinni um eitt ár og kom ekki fyrr en sumarið 1921.

Jón Kaldal var um þessar mundir búsettur í Kaupmannahöfn og lagði stund á langhlaup og ljósmyndun. Honum stóð til boða að keppa fyrir hönd Dana í 5.000 metra hlaupi á leikunum og neyddist til að þiggja boðið eftir að ÍSÍ kvað afdráttarlaust upp úr um það að ekki stæði til að senda keppendur til Antwerpen. Jón var fjarri sínu besta og komst ekki upp úr undanriðlum.

Íslendingar áttu fleiri óbeina fulltrúa á leikunum en Jón Kaldal. Keppt var í tveimur greinum vetraríþrótta: listdans á skautum og ísknattleik. Lið Winnipeg Falcons mætti til leiks í ísknattleikskeppninni fyrir hönd Kanada, en liðið hafði fyrr á árinu unnið Allen-bikarinn, sem var landskeppni kanadískra áhugamannaliða.

Nær allir leikmenn liðsins komu úr röðum Vestur-Íslendinga og höfðu sumir þeirra töluverð tengsl við upprunalandið. Þannig hélt fyrirliðinn Frank Fredrickson beint til Íslands að leikunum loknum, þar sem hann starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Íslands.

Lið Fálkanna stóð uppi sem sigurvegari í ísknattleikskeppninni og vann alla þrjá leiki sína án teljandi vandræða. Til að minnast þessara fyrstu Ólympíumeistara í sögu íþróttagreinarinnar skartar íslenska ísknattleikslandsliðið mynd af fálka.

Verðlaunaskipting eftir löndum[breyta | breyta frumkóða]

Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1 Fáni Bandaríkjana Bandaríkin 41 27 27 95
2  Svíþjóð 19 20 25 64
3  Bretland 15 15 13 43
4  Finnland 15 10 9 34
5  Belgía 14 11 11 36
6  Noregur 13 9 9 31
7 Ítalía 13 5 5 23
8  Frakkland 9 19 13 41
9 Holland 4 2 5 11
10  Danmörk 3 9 1 13
11 Suður-Afríka 3 4 3 10
12 Kanada 3 3 3 9
13  Sviss 2 2 7 11
14 Eistland 1 2 0 3
15 Brasilía 1 1 1 3
16 Fáni Ástralíu Ástralía 0 2 1 3
17  Japan 0 2 0 2
17 Spánn 0 2 0 2
19 Grikkland 0 1 0 1
19 Lúxemborg 0 1 0 1
21 Tékkóslóvakía 0 0 2 2
22 Nýja Sjáland 0 0 1 1
Alls 156 147 136 439