Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla 1974
Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla 1974 eða HM 1974 var haldið í Vestur-Þýskalandi dagana 13. júní til 7. júlí. Þetta var níunda heimsmeistarakeppnin. Heimamenn urðu heimsmeistarar eftir sigur á Hollendingum í úrslitaleik. Keppt var um nýjan verðlaunagrip en Brasilíumenn höfðu unnið þann fyrri til eignar á HM 1970.
Val á gestgjöfum[breyta | breyta frumkóða]
Á FIFA-þinginu árið 1966 var tekin ákvörðun um staðsetningu keppnanna árin 1974, HM 1978 og HM 1982. Fyrir lá að fyrsta og síðasta keppnin yrðu í Evrópu en miðkeppnin í Norður- eða Suður-Ameríku. Auk Vestur-Þjóðverja höfðu Spánverjar, Ítalir og Hollendingar lýst áhuga á að halda mótið 1974. Tvær síðarnefndu þjóðirnar drógu sig til baka og í kjölfarið ákváðu Spánverjar að gera slíkt hið sama gegn loforði um stuðning við að fá mótið 1982. Vestur-Þýskaland varð því sjálfkjörið í hlutverk gestgjafa.
Lukkudýr[breyta | breyta frumkóða]
Tip & Tap voru einkennistákn keppninnar. Það voru tveir teiknimyndadrengir í treyju sem svipaði til búnings þýska landsliðsins með skammstöfunina WM74 áletraða.
Þátttökulið[breyta | breyta frumkóða]
Sextán þjóðir mættu til leiks frá fimm heimsálfum.
|