Karlalandslið Serbíu og Svartfjallalands í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karlalandsliðið Serbíu og Svartfjallalands í knattspyrnu
Merki landsliðsins
Íþróttasamband(Serbneska: Cрбија и Црна Гора) Knattspyrnusamband Serbíu og Svartfjallalands
ÁlfusambandUEFA


Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
0-2 gegn Brasilíu, 23. des., 1994
Stærsti sigur
8-1 gegn Færeyjum, 6. okt. 1996
Mesta tap
0-6 gegn Argentínu, 16. júní, 2006

Karlalandslið Serbíu og Svartfjallalands í knattspyrnu var fulltrúi Serbíu og Svartfjallalands á árunum 1992 til 2006 þegar ríkjasambandið var leyst upp og serbneska og svartfellska landsliðið voru stofnsett. Besti árangur liðsins var fjórðungsúrslit í Evrópukeppni. Frá 1992-2003 lék liðið undir nafni Sambandslýðveldisins Júgóslavíu.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Sambandsríkið Júgóslavía var stofnað þann 28. apríl 1992, en vegna alþjóðlegs samskiptabanns á íþróttasviðinu gat landslið hins nýja ríkis ekki keppt sinn fyrsta leik fyrr en á Þorláksmessu árið 1994 þegar liðið tapaði 2:0 fyrir Brasilíu í Porto Alegre. Vegna bannsins gat liðið ekki tekið þátt í forkeppni HM 1994 og það sama gilti um EM 1996.

Fyrsta stórmótið (1998)[breyta | breyta frumkóða]

Serbía og Svartfjallaland höfnuðu í öðru sæti síns forriðils fyrir HM 1998 á eftir Spánverjum. Það þýddi umspilsleiki gegn Ungverjum sem unnust ótrúlega auðveldlega, 12:1 samanlagt.

Fyrsta leiknum á mótinu í Frakklandi lauk með 1:0 sigri á liði Írans. Þessu næst mættu Serbar og Svartfellingar Þjóðverjum og náðu tveggja marka forystu en þýska liðið náði að jafna 2:2. Í lokaleik riðilsins mætti Serbía og Svartfjallaland liði Bandaríkjanna og náði forystunni í byrjun leiks. Fleiri mörk fylgdu ekki í kjölfarið og mátti liðið því sætta sig við annað sætið í riðlinum.

Mótherjarnir í 16-liða úrslitum voru Hollendingar. Allt stefndi í framlengingu þar sem staðan var 1:1 en á þriðju mínútu uppbótartíma skoraði Edgar Davids sigurmark Niðurlendinga sem komust þar með áfram í fjórðungsúrslitin.

Fjórðungsúrslit á EM (2000)[breyta | breyta frumkóða]

Serbía og Svartfjallaland dróst í forriðil EM 2000 í Hollandi og Belgíu ásamt með Króötum. Viðureignirnar voru pólitískt merkingarþrungnar og lauk báðum með jafntefli. Króatar sátu þó eftir í riðlinum á meðan Serbía og Svartfjallaland hrepptu toppsætið.

Riðill Serba og Svartfellinga fór fram í Hollandi og voru andstæðingarnir í fyrsta leik annað gamalt sambandslýðveldi, Slóvenía. Slóvenska liðið, sem fyrirfram var talið það langlakasta í keppninni, náði 3:0 forystu eftir um klukkutíma leik. Úrslitin virtust ráðin en á sex mínútna tímabili skoraði Serbía og Svartfjallaland þrívegis og urðu lokatölur 3:3 jafntefli.

Næstu mótherjar voru Norðmenn. Savo Milošević skoraði eina markið snemma leiks og Serbar og Svartfellingar voru komnir í kjörstöðu í riðlinum. Lokaleikurinn gegn Spáni varð æsispennandi. Serbía og Svartfjallaland náði 3:2 forystu þegar stundarfjórðungur var til leiksloka og virtist ætla að tryggja sér toppsætið og fella um leið spænska liðið úr keppni. Tvö spænsk mörk á fimmtu og sjöundu mínútu uppbótartíma sneru taflinu við. Heppileg úrslit í viðureign Noregs og Slóveníu tryggðu þó Serbum og Svartfellingum sætið í fjórðungsúrslitunum. Þegar þangað var komið sá liðið aldrei til sólar og tapaði 6:1 fyrir Hollendingum, þar sem Milošević náði að klóra í bakkann í blálokin með eina markinu.

Svanasöngurinn (2002-2006)[breyta | breyta frumkóða]

Fílabeinsströndin tryggir sér sigurinn í síðasta landsleik Serbíu og Svartfjallalands.

Forkeppnir næstu tveggja stórmóta, HM 2002 og EM 2004 ollu báðar vonbrigðum og Serbía og Svartfjallaland sátu heima. Liðið var hins vegar á meðal þátttakenda á HM 2006 í Þýskalandi.

Óhætt var að tala um martraðardrátt í keppninni enda var riðill Serbíu og Svartfjallalands kallaður „dauðariðillinn“. Sem fyrr reyndust Hollendingar illir viðureignar og unnu 1:0 sigur í fyrsta leik og möguleikarnir á að komast í næstu umferð orðnir takmarkaðir. Í næsta leik hrundi leikur Serbíu og Svartfjallalands til grunna þegar Argentínumenn unnu auðveldan 6:0 sigur þar sem Lionel Messi skoraði sitt fyrsta HM-mark.

Svo virtist sem Serbum og Svartfellingum ætlaði að takast að bjarga ærunni í lokaleik sínum gegn liði Fílabeinsstrandarinnar og voru komnir í 2:0 eftir tuttugu mínútur. Afríkumennirnir komu hins vegar kröftuglega til baka og unnu 3:2 sigur. Þetta reyndist síðasti landsleikur Serbíu og Svartfjallalands en skömmu síðar var ríkjasambandið leyst upp og lönin tvö fóru að spila hvort undir sínum merkjum.