Tékkóslóvakíska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tékkóslóvakíska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
Íþróttasamband(Tékkneska: Fotbalová asociace České republiky; FAČR) Knattspyrnusamband Tékkóslóvakíu
ÁlfusambandUEFA


Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
4-1 gegn Belgíu, 24. júní., 1919
Stærsti sigur
7-0 gegn Konungsríki Serba, Króata og Slóvena, 28. ág. 1920; 7-0 gegn Konungsríki Serba, Króata og Slóvena, 28. okt. 1925.
Mesta tap
3-8 gegn Ungverjalandi, 19. sept. 1937; 0-5 gegn Skotlandi, 8. des. 1937; 0-5 gegn Ungverjalandi, 30. apríl 1950; Ungverjalandi, 19. okt. 1952; Austurríki, 19. júní 1954

Tékkóslóvakíska karlalandsliðið í knattspyrnu var fulltrúi Tékkóslóvakíu í knattspyrnu og var stjórnað af knattspyrnusambandi landsins á árunum 1920 til 1993. Tékkóslóvakar voru löngum í hópi sterkari knattspyrnuþjóða Evrópu, urðu Evrópumeistarar árið 1976 og léku tvisvar til úrslita í heimsmeistarakeppninni. Eftir 1993 var landinu skipt í tvennt og landslið Tékklands og Slóvakíu hófu að keppa hvort undir sínum merkjum.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fram að lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar var landsvæðið sem síðar myndaði Tékkóslóvakíu hluti af Austurríki-Ungverjalandi. Árið 1903 tefldi héraðið Bæheimur fram eigin landsliði og lék nokkra leiki, einkum við Ungverjaland, til ársins 1908 þegar Bæheimi var vikið úr Alþjóðaknattspyrnusambandinu að kröfu austurríska knattspyrnusambandsins. Líta má leiki bæheimska landsliðsins sem undanfara tékkóslóvakíska landsliðsins.

Byrjað með látum[breyta | breyta frumkóða]

Tékkóslóvakía var stofnsett árið 1918 í tengslum við sundurlimun Austurríkis-Ungverjalands. Fyrsti landsleikur hinnar nýju þjóðar var gegn Belgum á árinu 1919, þótt knattspyrnusambandið sjálft væri ekki stofnað fyrr en ári síðar. Tékkóslóvakía mætti til leiks á ÓL í Antwerpen 1920. Þátttaka þeirra reyndist söguleg.

Tékkóslóvakía byrjaði með látum og vann 7:0 sigur á Konungsríki Serba, Króata og Slóvena í fyrsta leik, að viðstöddum einungis 600 áhorfendum ef marka má heimildir. Því næst tóku við stórir sigrar á Norðmönnum og Frökkum. Í úrslitaleiknum voru mótherjarnir heimamenn Belga. Leikmenn Tékkóslóvakíu voru afar ósáttir við frammistöðu 65 ára gamals dómara leiksins sem þeir töldu draga taum heimamanna. Að lokum sauð upp úr og undir lok fyrri hálfleiks ákvað liðið að ganga af velli í mótmælaskyni og mun það vera eina dæmið um slíkt í úrslitaleik stórmóts í knattspyrnu. Fyrir vikið var Tékkóslóvakíu vísað úr keppni og fengu leikmennirnir ekki silfurverðlaun.

Fjórum árum síðar mætti Tékkóslóvakía aftur til leiks á ÓL í París en féll úr leik í 16-liða úrslitum. Liðið var ekki á meðal þátttakenda í Amsterdam 1928 og sat heima þegar fyrsta heimsmeistarakeppnin fór fram í Úrúgvæ, líkt og flestar aðrar Evrópuþjóðir.

Silfur á Ítalíu[breyta | breyta frumkóða]

Tékkóslóvakía tryggði sér þátttökuréttinn á HM 1934 með því að slá granna sína Pólverja úr leik í forkeppni. Þegar til Ítalíu var komið stóð liðið sig vonum framar. Í fyrstu umferð var Rúmenum rutt úr vegi, 2:1. Í fjórðungsúrslitum sóttu Svisslendingar af krafti en Tékkóslóvakía herjaði þó út 3:2 sigur.

Í undanúrslitunum skoraði Oldřich Nejedlý þrennu í 3:1 sigru á Þjóðverjum, en hann varð markakóngur mótsins með fimm mörk. Heimamenn voru mótherjarnir í úrslitunum þar sem Tékkóslóvakía komst yfir þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka en Ítalir jöfnuðu metin tíu mínútum síðar og skoruðu loks sigurmarkið í framlengingu.

Á HM í Frakklandi 1938 mætti liðið staðráðið í að byggja á árangrinum fjórum árum fyrr. Tékkóslóvakía byrjaði á að slá Hollendinga úr keppni en mættu þvínæst spútnikliði Brasilíu með Leônidas í broddi fylkingar. Liðin gerðu fyrst 1:1 jafntefli í viðureign sem varð alræmd fyrir ofbeldi og slagsmál. Tveimur dögum síðar mættust liðin á ný þar sem Suður-Ameríkumennirnir unnu 2:1 sigur.

Fastagestir á stórmótum[breyta | breyta frumkóða]

Tékkóslóvakíska knattspyrnusambandið treysti sér ekki til að senda lið í forkeppni HM 1950 enda ljóst að kostnaðurinn við að ferðast til Brasilíu yrði sligandi fyrir stríðshrjáð samfélag. Tékkóslóvakía var hins vegar meðal þátttökuliða á bæði HM 1954 og HM 1958. Liðið tapaði báðum leikjum sínum í Sviss en í Svíþjóð fjórum árum síðar gerði það jafntefli við Vestur-Þjóðverja og kjöldró Argentínumenn 6:1, en komst ekki upp úr riðlinum eftir tap í umspilsleik gegn Norður-Írum.

Um þessar mundir voru Tékkóslóvakar orðnir eitt af stórliðum Evrópu. Þeir fóru með sigur af hólmi í Miðevrópukeppninni sem fram fór á árunum 1955-60 og var keppni sex liða þar sem leikið var heima og heiman. Í öðru sæti var stjörnum prýtt lið Ungverja.

Tékkóslóvakía var meðal þeirra fjögurra landa sem komust í fyrstu úrlitakeppni EM sem fram fór í Frakklandi árið 1960. Liðið tapaði fyrir Sovétmönnum í undanúrslitum en lagði gestgjafana í bronsleiknum.

Á HM í Síle 1962 mætti Tékkóslóvakía enn og aftur með afar sterkt lið og var raðað í efri styrkleikaflokk evrópsku þátttökuþjóðanna. Tékkóslóvakía lagði Spánverja í fyrsta leik, 1:0 og gerði svo markalaust jafntefli við ríkjandi heimsmeistara Brasilíu og var það eina viðureignin í keppninni sem Brasilíumenn unnu ekki. Þessi úrslit þýddu að Tékkóslóvakía gat leyft sér að tapa fyrir Mexíkó í lokaleik riðilsins en komast samt áfram.

Í fjórðungsúrslitum vannst 1:0 sigur á nágrönnunum frá Ungverjalandi í hörkuleik og í undanúrslitunum voru Júgóslavar lagðir að velli, 3:1. Brasilíumenn reyndust of stór biti í úrslitaleiknum þótt Josef Masopust næði forystunni. Lokatölur voru 3:1 fyrir Brasilíu en Tékkóslóvakíka bætti silfurverðlaunum í sarpinn. Tveimur árum síðar hreppti Tékkóslóvakía önnur silfurverðlaun, í þar skiptið á ÓL í Tókýó, en kommúnistaríki Austur-Evrópu tóku þá keppni mun alvarlegar en kollegar þeirra á Vesturlöndum.

Slakað á klónni[breyta | breyta frumkóða]

Sjöundi áratugurinn endaði ekki eins vel hjá landsliði Tékkóslóvakíu og hann hafði byrjað. Landsliðið komst ekki í úrslitakeppni þriggja Evrópumóta í röð: 1964, 1968 og 1972. Í forkeppni HM 1966 féll Tékkóslóvakía úr leik fyrir rísandi stjörnum í Portúgal.

Árið 1970 komst lið Tékkóslóvakíu á HM í Mexíkó en sneri stigalaust heim. Það voru svo Skotar sem komu í veg fyrir að Tékkóslóvakía yrði meðal keppnisliða á HM í Vestur-Þýskalandi 1974.

Panenka og vítaspyrnan[breyta | breyta frumkóða]

EM 1976 var síðasta mótið þar sem aðeins fjögur lið komust í úrslitakeppni. Tékkóslóvakía fór erfiða leið í úrslitin í Júgóslavíu. Í riðlakeppninni voru Englendingar slegnir úr keppni og í fjórðungsúrslitum afði liðið betur gegn sterku liði Sovétmanna í tveimur viðureignum.

Gullaldarlið Hollendinga, sem tapaði hafði í úrslitum HM tveimur árum fyrr, var talið sigurstranglegast auk heimamanna. Tékkóslóvakía hafði þó betur gegn Hollendingum, 3:1 eftir framlengdan leiktíma. Í kjölfarið fór fyrirliðinn Johan Cruyff heim í fússi og lét ekki sjá sig í bronsleiknum. Tékkóslóvakía var hins vegar komin í úrslitin gegn heimsmeisturum Vestur-Þjóðverja.

Tékkóslóvakía komst í 2:0 í úrslitunum eftir aðeins 25 mínútna leik, en þýska liðið minnkaði muninn fljótt og náði loks að jafna í blálokin. Markalaust varð í framlengingunni. Í fyrsta sinn í sögunni þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni í úrslitaleik stórmóts. Vestur-Þjóðverjar misnotuðu fjórðu spyrnu sína og Antonín Panenka gat því tryggt sigurinn með því að skora úr sinni spyrnu. Þvert á fyrirmæli þjálfara sinna ákvað Panenka að skjóta á mitt markið í trausti þess að markvörðurinn myndi stökkva í annað hvort hornið. Fífldirfskan borgaði sig. Tékkóslóvakía varð Evrópumeistari og víða um lönd var farið að tala um Panenka-mörk þegar vítaspyrnur voru framkvæmdar með þessum hætti.

Þriðjungur leikmannahópsins í meistaraliðinu 1976 kom úr herbúðum Slovan Bratislava og leikmenn frá Slóvakíu voru óvenju fyrirferðarmiklir í landsliðinu á þessum árum. Engu að síður er hefð fyrir því að líka frekar á tékkneska en ekki slóvakíska landsliðið sem arftaka sögu og arfleifðar Tékkóslóvakíu á knattspyrnusviðinu.

Bættist á verðlaunahilluna[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1980 var farsælt fyrir fótboltann í Tékkóslóvakíu. Á Ólympíuleikunum í Moskvu tókst liðinu loks að næla í gullverðlaunin eftir sigur á Austur-Þýskalandi í úrslitum. Fyrr um sumarið hafði Tékkóslóvakía unnið til bronsverðlauna á EM á Ítalíu, sem var orðin átta liða úrslitakeppni. Tékkóslóvakía hafnaði á eftir Vestur-Þjóðverjum en á undan Hollendingum og Grikkjum í riðlakeppninni. Annað sætið gaf bronsleik á móti heimamönnum sem endaði í vítakeppni eftir 1:1 jafntefli. Skorað var úr sautján fyrstu spyrnunum uns ítalskur leikmaður missté sig og Tékkóslóvakar fengu bronsið. Liðið átti þó aldrei eftir að komast aftur í úrslitakeppni EM.

Eftir að hafa mitekist að komast á HM 1978, aftur eftir keppni við Skota, mætti Tékkóslóvakía til leiks á Spáni 1982, full sjálfstrausts. Útkoman var vonbrigði. Tékkóslóvakía skoraði bara tvö mörk í leikjunum þremur, bæði vítaspyrnur frá Panenka og þar með var ævintýrið á enda.

Tékkóslóvakía lenti í sannkölluðum dauðariðli í forkeppni HM 1986 og endaði í fjórða sæti, sem var langlakasti árangur landsins í undankeppnum stórmóta. Betur gekk fjórum árum síðar og Tékkóslóvakía mætti með ungt og efnilegt lið á HM á Ítalíu. Stórsigur á Bandaríkjunum í fyrsta leik, 5:1, sló tóninn og Tékkóslóvakía komst vandræðalítið í úrslitakeppnina.

Í 16-liða úrslitum beið Tékkóslóvakíu lið Kosta Ríka. Tomáš Skuhravý skoraði þrennu í 4:1 sigri en hann varð einmitt næstmarkahæsti leikmaður keppninnar. Í fjórðungsúrslitum reyndust heimsmeistaraefni Vestur-Þjóðverja ofjarlar liðs Tékkóslóvakíu og unnu 1:0.

Í miðri forkeppni HM 1994 klofnaði Tékkóslóvakía í tvö ríki. Í stað þess að draga sig úr keppni var ákveðið að ljúka keppni í forriðlinum undir merkjum „sameiginlegs liðs Tékka og Slóvaka“. Í lokaumferðinni lenti liðið í hreinum úrslitaleik við Belga í Brussel þar sem sameiginlega liðið þurfti sigur til að tryggja sér farseðilinn til Bandaríkjanna. Niðurstaðan varð markalaust jafntefli í viðureign sem jafnframt telst síðasti kappleikur tékkóslóvakíska landsliðsins, 17. nóvember árið 1993.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

Heimsmeistarakeppnin

  • 2. sæti (2): 1934, 1962

Evrópukeppnin

  • Meistarar (1): 1976
  • 3. sæti (2); 1960, 1980

Ólympíuleikar

  • Meistarar (1): 1980
  • 2. sæti (1): 1964

Miðevrópukeppnin

  • Meistarar (1): 1955-60
  • 2. sæti (1): 1927-30, 1948-53