Fara í innihald

Charles G. Dawes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Charles Gates Dawes)
Charles G. Dawes
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
4. mars 1925 – 4. mars 1929
ForsetiCalvin Coolidge
ForveriCalvin Coolidge
EftirmaðurCharles Curtis
Persónulegar upplýsingar
Fæddur27. ágúst 1865
Marietta, Ohio, Bandaríkjunum
Látinn23. apríl 1951 (85 ára) Evanston, Illinois, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiCaro Blymyer (g. 1889)
HáskóliMarietta-háskóli
Háskólinn í Cincinnati
AtvinnaStjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1925)
Undirskrift

Charles Gates Dawes (27. ágúst 1865 – 23. apríl 1951) var bandarískur stjórnmálamaður, erindreki og herforingi úr Repúblikanaflokknum. Hann var varaforseti Bandaríkjanna frá 1925 til 1929 á forsetatíð Calvins Coolidge. Dawes hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1925 ásamt Austen Chamberlain fyrir að vinna að gerð Dawes-áætlunarinnar, sem auðveldaði Þjóðverjum að halda áfram greiðslu stríðsskaðabóta vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Charles Dawes útskrifaðist með gráðu í lögfræði úr Háskólanum í Cincinnati og hóf lögfræðistörf í Lincoln í Nebraska árið 1887. Hann gegndi síðar ýmsum embættum í bönkum og í fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna. Árið 1902 bauð Dawes sig fram á öldungadeild Bandaríkjaþings en náði ekki kjöri.

Dawes barðist í fyrri heimsstyrjöldinni og náði tign fylkishershöfðingja. Dawes vann meðal annars sem formaður innkauparáðs herveita Johns J. Pershing hershöfðingja í Frakklandi.

Árið 1921 útnefndi Warren G. Harding Bandaríkjaforseti Dawes í embætti framkvæmdastjóra bandarísku fjárlagaskrifstofunnar. Árið 1923 varð Dawes formaður nefndar sem falið var að endurákvarða skaðabótaupphæð Þjóðverja vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar. Fjárhagsvandi Þýskalands var Bandaríkjamönnum áhyggjuefni þar sem mikið af bandarískum skuldabréfum var í umferð í Evrópu og greiðslufall þar kom því til með að hafa áhrif á bandarískan efnahag. Nefndin var jafnan kennd við hann og kölluð Dawes-nefndin. Samið var um svokallaða Dawes-áætlun, sem gerði ráð fyrir stígandi afborgunum í fimm ár. Fimmta árið átti upphæðin að nema tveimur og hálfum milljarði, sem skyldi síðan vera lágmarksupphæð næstu greiðsluárin. Greiðslurnar þaðan af átti að reikna út samkvæmt sérstakri velmegunarvísitölu. Bandaríkin veittu Þjóðverjum 800 milljóna gullmarka lán fyrsta árið.[1] Dawes hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1925 fyrir að semja Dawes-áætlunina og létta þannig á spennu milli Evrópuþjóðanna.[2]

Þann 5. nóvember árið 1924 var Dawes kjörinn varaforseti Bandaríkjanna í framboði Calvins Coolidge Bandaríkjaforseta. Dawes tók við embættinu þann 4. mars 1925. Sem varaforseti átti Dawes í ágreiningi við Coolidge um ýmis málefni. Dawes talaði fyrir samþykkt lagafrumvarps sem átti að leysa úr landbúnaðarkreppu með því að láta ríkið kaupa afurðir af bændum og selja þær á erlendum mörkuðum en Coolidge var mjög mótfallinn frumvarpinu og beitti neitunarvaldi sínu gegn því eftir að það var samþykkt á bandaríska þinginu.[3] Coolidge bauð sig ekki fram til endurkjörs árið 1928 en til tals kom að Dawes yrði varaforsetaefni á ný í framboði Herberts Hoover. Á landsþingi Repúblikanaflokksins lýsti Coolidge hins vegar yfir að hann myndi líta á það sem móðgun ef Dawes yrði endurútnefndur varaforsetaefni flokksins og því var Charles Curtis að endingu útnefndur varaforseti í framboði Hoovers.[4]

Eftir varaforsetatíð Dawes útnefndi Herbert Hoover hann sendiherra til Bretlands. Dawes gegndi því embætti til ársins 1932 en sneri síðan heim til Bandaríkjanna og hóf störf í banka- og fjármálageiranum. Hann vann í nærri tvo áratugi sem stjórnarformaður bankans City National Bank and Trust Co.[5] Dawes lést á heimili sínu í Illinois árið 1951 úr kransæðastíflu.[6]

Dawes var einnig þekktur píanóleikari og tónskáld. Árið 1912 samdi hann verkið Melody in A Major, sem hefur síðar verið leikið af tónlistarmönnum á borð við Tommy Edwards, Van Morrison, Cliff Richard og Elton John.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Skuldamál Evrópu. Iðunn. 1. júlí 1929.
  2. Davis, Jr., Henry Blaine (1998). Generals in Khaki. Raleigh, NC: Pentland Press, Inc. bls. 103. ISBN 1571970886.
  3. „Charles G. Dawes, 30th Vice President (1925–1929)“. US Senate. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2014. Sótt 2. febrúar 2017.
  4. Mencken, Henry Louis; George Jean Nathan (1929). The American Mercury. bls. 404.
  5. „Dawes, Charles Gates – Biographical Information“. Biographical Directory of the United States Congress. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. september 1999. Sótt 17. janúar 2018.
  6. „Charles G. Dawes, Ex-Vice President, Dies (April 24, 1951)“. Afrit af upprunalegu geymt þann febrúar 2, 2017. Sótt apríl 16, 2020.
  7. Dawes, Charles Gates. Melody [in A major] for violin with piano acc. Chicago: Gamble Hinged Music, 1912.


Fyrirrennari:
Calvin Coolidge
Varaforseti Bandaríkjanna
(4. mars 19254. mars 1929)
Eftirmaður:
Charles Curtis