Norræna húsið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Séð vestur yfir Reykjavík úr turni Hallgímskirkju, Norræna húsið fyrir miðri mynd

Norræna húsið er stofnun hýst í samnefndu húsi í Vatnsmýrinni í Reykjavík, sem á að stuðla að samvinnu og efla tengsl Íslands og hinna Norðurlandanna.

Byggingin var hönnuð af finnska arkitektinum Alvar Aalto, fullbyggð 1968 og opnuð almenningi þann 24. ágúst sama ár. Þar má finna bókasafn, veitingastaðinn AALTO Bistro og sali, sem leigðir eru til sýninga-, ráðstefnu- og fundahalda - auk ýmissa annara viðburða allan ársins hring. Húsið er opið alla daga vikunnar og almennt enginn aðgangseyrir að neinum viðburðum sem Norræna húsið sjálft stendur fyrir. Rekstur hússins er greiddur sameiginlega af Norrænu ráðherranefndinni. Norrænir sendikennarar við Háskóla Íslands hafa skrifstofur í Norræna húsinu. Á fyrstu árum Norræna hússins voru oft kennslustundir í húsinu hjá nemendum við Háskóla Íslands sem voru að læra dönsku, sænsku, norsku eða finnsku.

Fram að þessu hefur Norræna húsið skipulagt og haft frumkvæði af margvíslegum menningarviðburðum og sýningum.

Norræna húsið er bæði bakhjarl og þátttakandi í helstu menningarviðburðum Íslands s.s Kvikmyndahátíð í Reykjavík, Bókmenntahátíð Reykjavíkur, Iceland Airwaves, Listahátíð Reykjavíkur og Norræna tískutvíæringnum en Norræna húsið átti frumkvæðið að þeim viðburði.

Í Norræna húsinu er einnig að finna einstakt bóksafn, sem lánar út bókmenntir eingöngu á norrænum tungumálum, verslun með norræna hönnun og matvöru, sýningarsali og tónleika/kvikmyndasal. Auk þess er í húsinu veitingastaðurinn AALTO Bistro ( [1] ) sem rekinn er af Sveini Kjartanssyni sem meðal annars hefur unnið sjónvarpsþætti og bækur um matargerð.

Á bókasafni Norræna hússins er að finna bækur og blöð frá Norðurlöndunum. Þar er einnig hægt að fá lánaðar hljóðbækur og DVD myndir og hlaða niður rafbókum í gegnum heimasíðu safnsins. Í safninu er einnig Artótek með grafíkmyndum eftir norræna listamenn, sem hægt er að fá að láni. Barnahellir í bókasafninu er sérsniðinn að þörfum yngri kynslóðarinnar og fjölskyldum þeirra.

Forstjóri Norræna hússins síðan 1. janúar 2015 er Mikkel Harder fæddur 1967 í Danmörku.

Í kjölfar Alþingiskosninga vorið 2009 fóru viðræður um myndun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fram í Norræna húsinu.[1]

Tengt efni[breyta]

Tengill[breyta]

Tilvísanir[breyta]