Fara í innihald

Stefán Jónsson (1905 - 1966)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessi grein fjallar um rithöfundinn Stefán Jónsson. Til er aðgreiningarsíða um aðra sem heita Stefán Jónsson.

Stefán Jónsson (fæddur árið 1905, látinn árið 1966.) var rithöfundur og kennari og er líklegast hvað þekktastur fyrir kvæði sín og sögur, ætluð börnum og unglingum, og má þar helst nefna Guttavísur og Hjaltabækurnar þrjár, Sagan hans Hjalta litla, Mamma skilur allt og Hjalti kemur heim.

Verk[breyta | breyta frumkóða]

Guttavísur eða Sagan af Gutta litla, sem flestir Íslendingar kannast við, kom fyrst út árið 1938 í hefti ásamt nokkrum öðrum kvæðum en áður hafði Stefán sent frá sér smásöguna Konan á klettinum og hlotið fyrir hana fyrstu verðlaun í smásagnakeppni Eimreiðarinnar árið 1933. Hann hlaut sömu verðlaun árið 1940 fyrir smásöguna Kvöld eitt í september. Af öðrum verkum Stefáns má nefna smásagnasafnið Við morgunsól (1966), skáldsögurnar Vinir vorsins (1941) og Óli frá Skuld (1957) og myndskreytta barnakvæðið En hvað það var skrýtið (1949). Stefán skrifaði tvær skáldsögur fyrir fullorðna, Sendibréf frá Sandströnd (1960) og Vegurinn að brúnni (1962).

Verk Stefáns eru talin njóta mikillar sérstöðu innan bókmennta fyrir börn og unglinga og fullorðnir kunna ekki síður að meta þau. Þótt hann hafi skrifað barna- og unglingasögur notaðist hann alltaf við eðlislægt raunsæi sitt. Á sínum tíma sætti Stefán þó nokkurri gagnrýni þar sem persónur hans þóttu ekki alltaf vera gott fordæmi eða hegða sér á hátt sem þótti til eftirbreytni og fyrirmyndar. Stefán náði hins vegar að snerta mannlegar hliðar lesenda sinna og hélt því ætíð fram og skrifaði ósjaldan í formála bóka sinna að honum þætti varasamt þegar barnasögur væru hreinn barnaskapur. Hann leitaðist við að segja börnum sögur sem gerðu þau að þenkjandi manneskjum og að sama skapi höfða til barnsins í þeim fullorðnu.

Stefán var giftur Önnu Aradóttur.

Kvæðið- En hvað það var skrýtið - er eftir Pál J. Árdal (1955)- en - En hvað það var skrítið - eftir Stefán Jónsson (1949)

Útgefin verk Stefáns Jónssonar[breyta | breyta frumkóða]

Skáldsögur

 • Vinir vorsins (1941)
 • Skóladagar (1942)
 • Björt eru bernskuárin (1948)
 • Sagan hans Hjalta litla (1948)
 • Margt getur skemmtilegt skeð (1949)
 • Mamma skilur allt (1950)
 • Hjalti kemur heim (1951)
 • Fólkið á Steinshóli (1954)
 • Hanna Dóra (1956)
 • Óli frá Skuld (1957)
 • Sendibréf frá Sandströnd (1960)
 • Börn eru besta fólk (1961)
 • Vegurinn að brúnni (1962)
 • Sumar í Sóltúni (1963)
 • Vetur í Vindheimum (1964)

Smásögur

 • Konan á klettinum (1936)
 • Á förnum vegi (1941)
 • Raddir úr hópnum (1945)
 • Barnabókin (1946)
 • Dísa frænka og feðgarnir á Völlum (1952)
 • Hlustað á vindinn (1955)
 • Þegar skáldin deyja (1958)
 • Við morgunsól (1966)

Ljóð

 • Sagan af Gutta litla og sjö önnur ljóð (1938)
 • Hjónin á Hofi (1940)
 • Það er gaman að syngja (1942)
 • Lítil bók um dýrin (1947)
 • En hvað það var skrítið (1949)
 • Stafabók barnanna (1949)
 • Aravísur og ýmsar fleiri (1957)

Leikrit

 • Grámann í Garðshorni (1946)
 • Verkfallið (1946)
 • Gestirnir (1946)

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]