Laddi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Laddi
FæðingarnafnÞórhallur Sigurðsson
Fædd(ur) 20. janúar 1947 (1947-01-20) (72 ára)
Fáni Íslands Hafnarfjörður, Ísland
Önnur nöfn Laddi
Ár virk(ur) 1970 - nú
Börn Marteinn
Ívar
Þórhallur
Gunnar Þór Sigurðsson
Helstu hlutverk
Doktor Saxi
í Heilsubælið (1986)
Salómon
í Stella í orlofi (1986)
Theódór Ólafsson
í Magnús (1989)
Salómon
í Stella í framboði (2002)

Þórhallur Sigurðsson (fæddur 20. janúar 1947), best þekktur sem Laddi, er íslenskur leikari, söngvari, tónskáld og skemmtikraftur. Hann hefur gefið út plötur, leikið í kvikmyndum og tekið þátt í miklum fjölda skemmtiþátta sem handritshöfundur og leikari, t.d Heilsubælinu, Imbakassanum og Spaugstofunni Einnig hefur hann leikið í mörgum Áramótaskaupum og tekið þátt í að semja þau. Hann hefur skapað fjöldann allan af karakterum sem margir kannast við og nægir að nefna Eirík Fjalar, Saxa lækni, Skúla rafvirkja, Magnús bónda, Ho Si Mattana, Elsu Lund, Martein Mosdal og svo mætti lengi telja. Kvikmyndir sem hann hefur leikið í eru t.d Stella í orlofi, Stella í framboði, Magnús, Regína, Íslenski draumurinn, Jóhannes, Ófeigur gengur aftur og fleiri. Einnig hefur hann starfað mikið í leikhúsi, en frægustu hlutverk hans á þeim vettvangi eru líklega Fagin í Óliver Twist og Tannlæknirinn í Litlu Hryllingsbúðinni.

Laddi var í tvíeykinu Halla og Ladda ásamt bróður sínum Haraldi Sigurðssyni. Þeir bræður nutu gríðarlegra vinsælda á áttunda áratug tuttugustu aldar, þóttu ómissandi í skemmtiþáttum í sjónvarpi og gáfu út nokkrar hljómplötur með tónlist og gamanmálum. Þekktasta plata þeirra er líklega "Látum eins og ekkert C", sem þeir gerðu ásamt Gísla Rúnari Jónssyni.

Laddi hóf tónlistarferil sinn sem trommari í hljómsveitinni "Föxum". Í seinni tíð hefur hann samið fjölda laga og mörg þeirra hafa náð vinsældum, t.d. Sandalar, Austurstræti og Búkolla, en útgefin lög hans og textar skipta tugum. Hann starfaði um tíma með hljómsveitinni "Brunaliðinu", en mest af tónlistarefni hans hefur komið út á sólóplötum eins og "Einn voða vitlaus" og "Deijó", auk þess sem það er að finna á fjölmörgum safnplötum.

Á níunda áratugnum stofnuðu Halli og Laddi HLH-flokkinn ásamt Björgvini Halldórssyni. Flokkurinn stældi útlit og tónlistarstíl rokktímans milli 1950 og '60 og átti nokkra sívinsæla smelli eins og "Riddari götunnar", "Seðill" og "Í útvarpinu heyrði lag".

Laddi tók þátt í stofnun Spaugstofunnar 1985 og starfaði með þeim hóp fyrstu árin. Hann hefur einnig skotið upp kollinum í þáttum Spaugstofunnar í seinni tíð, oftast sem gestaleikari, en veturinn 2013-'14 tók hann þátt í heilli þáttaröð á Stöð 2. Hann hefur talsett mikinn fjölda teiknimynda og kvikmynda og má þar nefna Aladdín, Konung ljónanna, Mulan, Wreck it Ralph, Frosinn, Brakúla og margar fleiri. Þó var það ef til vill eftirtektarverðast þegar hann talsetti allar teiknimyndirnar um Strumpana einn síns liðs.

Laddi á fjóra syni: Martein, Ívar, Gunnar Þór og Þórhall, sem vann keppnina "Fyndnasta mann Íslands" árið 2007.

Árið 2007 setti Laddi upp sýninguna "Laddi 6-tugur" í Borgarleikhúsinu til að fagna sextugsafmæli sínu. Í byrjun áttu bara að vera 4 sýningar en vegna mikillar aðsóknar varð sýningin ein vinsælasta grínsýning sem sett hefur verið upp á Íslandi. Sex árum var sýningin "Laddi lengir lífið" sett upp í Hörpu. Þar sló Laddi enn á nýja strengi, afhjúpaði sjálfan sig og fortíð sína og leyfði áhorfendum að skyggnast inn í sálarlíf mannsins sem hafði skemmt þeim svo vel í öll þessi ár.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þetta æviágrip sem tengist leikurum og Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.