Harrý og Heimir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Harrý og Heimir var útvarpsleikrit sem var flutt á útvarpstöðinni Bylgjunni. Höfundar voru Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason, sem einnig léku öll hlutverkin í þáttunum.

Þáttaraðirnar um einkaspæjarann Harrý Rögnvalds og hinn hundtrygga aðstoðarmann hans, Heimi Schnitzel, urðu tvær; ein ellefu þátta (24-30 mín) 1988 til 1989 og einn fjörutíu þátta (7 mín) árið 1993. Báðar þáttaraðirnar hafa komið út á geisladiskum hjá Senu, sú fyrri undir titlinum Harrý og Heimir, Með öðrum morðum, en síðari útgáfan heitir Harrý og Heimir, Morð fyrir tvo.

Árið 2009 frumsýndi Borgarleikhúsið leikritið Harrý og Heimir - með öðrum morðum eftir Karl Ágúst, Örn og Sigurð sem léku jafnframt aðalhlutverkin, en leikritið er unnið upp úr fjörutíu þátta útvarpsleikritsseríunni. Höfundarnir þrír voru jafnframt leikstjórar sýningarinnar, en Kristín Eysteinsdóttir aðstoðaði við uppsetninguna. Leikmynd og búningar voru eftir Snorra Frey Hilmarsson. Skömmu fyrir frumsýningu var hljóðmynd leikritsins stolið. Sýningin gekk í tvö leikár og var sýnd bæði í Reyjavík og á Akureyri. Sjónvarpsupptaka af sýningunni hefur verið sýnd á Stöð 2 og einnig gefin út á DVD.

Sumarið 2013 var tekin upp kvikmyndin Harrý og Heimir, Morð eru til alls fyrst og var hún frumsýnd um páskana 2014.