Björgvin Halldórsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Plata Björgvins, Þó líði ár og öld

Björgvin Helgi Halldórsson (stundum kallaður Bó Halldórs; f. 16. apríl 1951) er íslenskur söngvari, frægastur fyrir að syngja popplög og ballöður sem mörg hafa náð gríðarlegum vinsældum á Íslandi. Hann var valinn „poppstjarna ársins“ þann 1. október 1969.

Björgvin fæddist í Hafnarfirði. Fyrsta hljómsveit hans var Bendix. Hann var þó ekki lengi í þeirri hljómsveit heldur tók við söngnum í Flowers þegar Jónas R. Jónsson hætti. Björgvin hefur síðan meðal annars verið plötusnúður og söngvari í Ævintýri, Brimkló og HLH-flokknum. Á ferli sínum sem tónlistarmaður hefur hann flutt og hljóðritað mörg frumsamin lög sem og tökulög. Meðal þeirra eru sígild lög á borð við dúettinn Þú komst með jólin til mín, Gullvagninn og Þó líði ár og öld.

Árið 1995 var Björgvin framlag Íslands til söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þar sem hann flutti lagið Núna. Dóttir Björgvins, poppsöngkonan Svala Björgvins, var svo framlag Íslands árið 2017.

Auk þess að vera söngvari starfar Björgvin sem þulur og er rödd Stöðvar 2. Hver jól heldur hann tónleikana Jólagestir Björgvins. Hann sér um sjónvarpsþættina Jólastjarna Björgvins þar sem börn og unglingar keppa í söng í von um að fá að syngja á Jólagestum.

Björgvin var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu í janúar 2011 fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.