Sjö ára stríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sjö ára stríðið

Málverk af orrustunni við Kunersdorff eftir Alexander von Kotzebue.
Dagsetning17. maí 175615. febrúar 1763 (6 ár, 8 mánuðir, 4 vikur og 1 dagur)
Staðsetning
Niðurstaða Sigur bresk-prússnesk-portúgalska bandalagsins.
Breyting á
yfirráðasvæði

Engin breyting á landsvæði í Evrópu.

Stríðsaðilar

Konungsríkið Stóra-Bretland
Írókesasambandið
Prússland
Portúgal (frá 1762)
Braunschweig-Wolfenbüttel

Hesse-Kassel
Schaumburg-Lippe

Konungsríkið Frakkland
Heilaga rómverska ríkið
Fáni Rússlands Rússland
Spánn

Fáni Svíþjóðar Svíþjóð (1757–62)
Mógúlveldið (frá 1757)
Leiðtogar

Georg 2. (til 1760)
Georg 3.

William Pitt
Friðrik mikli
Loðvík 15.
María Teresa
Fáni Rússlands Elísabet (til 1762)
Fáni Rússlands Pétur 3. (1762)
Karl 3.
Fáni Svíþjóðar Adolf Friðrik
Mannfall og tjón
160.000 látnir
180.000 látnir
80.000 liðhlaup
33.000 almennir borgarar drepnir

350,000+

  • 200.000 látnir
  • 80.000 handsamaðir
  • 70.000 liðhlaup

373,588

  • 32.622 drepnir á vígvellinum
  • 93.404 látnir úr sárum eða af sjúkdómum
  • 19.592 týndir
  • 17.388 bæklaðir
  • 70.000 særðir
  • 78.360 handsamaðir
  • 62.222 liðhlaup
Stríðsaðilar í sjö ára stríðinu. Blátt er Bretland, Prússland og Portúgal, ásamt nýlendum í Ameríku og Asíu. Grænt er aðallega Frakkland, Austurríki og Rússland, ásamt nýlendum í öðrum álfum, en einnig Spánn og Svíþjóð.

Sjö ára stríðið var stórstyrjöld Evrópuríkja á 18. öld. Það var háð 1756-1763 og lauk með friðarsamkomulaginu í París og í Hubertusburg. Stríðsaðilar voru Bretland og Prússland, ásamt nokkrum smærri bandamönnum annars vegar, og Frakkland, Austurríki, Rússland, Svíþjóð, ásamt nokkrum smærri bandamönnum hins vegar. Í stríðinu var aðallega barist í Evrópu, en einnig var tekist á í Norður-Ameríku og úti á höfunum. Stríðinu lauk með nær óbreyttri ríkjaskipan í Evrópu. Hins vegar urðu miklar breytingar á nýlendum í Ameríku og Asíu. Sjö ára stríðið var fyrsta styrjöldin sem háð var í fleiri heimsálfum, enda kallaði Winston Churchill stríðið „fyrstu heimstyrjöldina“. Oft er litið á þetta stríð sem framhald á austurríska erfðastríðinu sem háð var 1740-48.

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Friðrik mikli konungur Prússlands var miðpunktur sjö ára stríðsins.

Austurríska erfðastríðinu lauk með friðarsamningunum í Aachen. En samningarnir tóku ekki tillit til þess að Prússland hafði hertekið Slesíu, sem áður tilheyrði Austurríki (en er suðvestasti hluti Póllands í dag). Á þeim 8 árum sem liðu milli friðarsamningana í Aachen og sjö ára stríðsins reyndi Austurríki að endurheimta Slesíu með því að einangra Prússland pólitískt. Það tókst nokkurn veginn, enda voru Bretar þeir einu sem gengu í bandalag við Prússland. Georg 2., konungur Bretlands, var á þessum tíma einnig þjóðhöfðingi Hannover sem tengdist Prússlandi. Austurríki aftur á móti fann sterka bandamenn í Frakklandi og Rússlandi. Rússland var á þessum tíma með útþenslustefnu og sá tækifæri til landvinninga til vesturs. Frakkar gátu ekki hugsað sér að sitja hjá þegar Bretar færu í stríð í Evrópu, enda voru þessar þjóðir erkióvinir. Þar að auki hófst landnemastríð milli breskra og franskra landnema í Norður-Ameríku þegar árið 1754, jafnvel þó að ekkert formlegt stríð hafi verið á milli landanna.

Framvinda stríðsins[breyta | breyta frumkóða]

1756[breyta | breyta frumkóða]

Stríðsyfirlýsingar milli Breta og Frakka voru afhentar 18. maí, nærri tveimur árum eftir að átök hófust í Norður-Ameríku. Fyrstu átök í Evrópu hófust tveimur dögum seinna er Frakkar og Bretar háðu sjóorrustu við Menorca í Miðjarðarhafi. Hvorugur hafði betur, en Bretar hörfuðu til Gíbraltar. Í ágúst réðist Friðrik mikli með Prússaher sínum inn í Saxland og hertók það í hendingskasti. Þaðan ætlaði hann að hertaka Bæheim og þvinga Austurríki til uppgjafar. Þegar María Teresa sendi her til Bæheims, var barist við Lobositz. Þar sigruðu Prússar, en þeir náðu ekki að fylgja þessu eftir í það skiptið og hertaka Bæheim. Í Norður-Ameríku náðu Frakkar að hernema allt svæðið í kringum Ontaríóvatn.

1757[breyta | breyta frumkóða]

Orrustan við Kolin nálægt Prag. Þar áttust við prússar og Austurríkismenn

Friðrik 2. réðist inn í Bæheim í maí. Þann 6. maí var orrustan við Prag. Þar sigruðu Prússar Austurríkismenn, en þeir síðarnefndu náðu að loka sig inni í borginni. Prússar hófu umsátur um Prag þar til nýr austurrískur her nálgaðist í júní. Í orrustunni við Kolin sigruðu Austurríkismenn Prússa, sem urðu að hörfa og yfirgefa Bæheim. Í júní réðist franskur her inn í Hannover. Sökum þess að Friðrik mikli hafði hertekið Saxland, setti keisarinn Frans 1. frá Habsborg ríkisbann yfir honum. Keisaraher var sendur til Saxlands, en Prússar sigruðu þann her í orrustunni við Rossbach í Saxlandi. Austurríkismenn létu hins vegar kné fylgja kviði er þeir sigruðu Prússa í tveimur orrustum í Slésíu og náðu að hertaka hluta af gamla héraðinu á ný. Í austri réðust Rússar á borgirnar Memel og Königsberg. Þeir tóku Memel, en Prússar náðu að sigra Rússana við Königsberg. Eftir það drógu Rússar sig til baka og héldu Memel. Sami prússneski her fór síðan til Pommern, þar sem Svíar höfðu tekið nokkrar borgir. Prússar náðu að hrekja þá þaðan. Í árslok héldu Svíar aðeins Stralsund. Í desember blés Friðrik mikli til sóknar í Slésíu. Honum tókst að sigra Austurríkismenn og hertaka héraðið á ný. Engu að síður voru Prússar mjög aðþrengdir í árslok.

1758[breyta | breyta frumkóða]

Frakkar fagna sigri í Ticenderoga í Ameríku.

Í ársbyrjun hófu Rússar nýja sókn vestur og reyndu að sameinast Austurríkismönnum. Friðrik mikli sendi her frá Slésíu á vettvang og reyndi að koma í veg fyrir þetta. Í orrustunni við Zorndorf sló herjunum saman. Þar biðu Rússar ósigur og héldu sig eftir þetta í hæfilegri fjarlægð. Fyrir vikið voru fáir prússar í Slésíu og gengu Austurríksmenn á lagið. Þeir náðu að hertaka héraðið allt meðan prússar börðu á Rússum. Austurríkismenn reyndu meira að setja að ráðast inn í Saxland og sátu um borgina Dresden. En leiðangur þeirra var árangurslaus. Í vestri náði þýskur her frá Hannover að sigra Frakka, með hjálp Englendinga, í tveimur orrustum (við Rheinberg og við Krefeld). Frakkar voru hraktir vestur yfir Rínarfljót þrátt fyrir að vera miklu fjölmennari. Aðeins í Ameríku voru Frakkar sigursælir. Þeir sigruðu miklu fjölmennari enskan her í orrustunni við Ticenderoga.

1759[breyta | breyta frumkóða]

Sjóorrustan við Quiberonflóa milli Breta og Frakka.

Þetta ár þurrkaðist Prússland nær út. Rússar og Austurríkismenn reyndu aftur að sameina lið sitt og tókst það að þessu sinni rétt austan við Frankfurt an der Oder. Friðrik mikli hafði dregið lið sitt frá Saxlandi til að mæta þeim. Í stórorrustunni við Kunersdorf 12. ágúst biðu prússar hins vegar mikinn ósigur og leystist prússneski herinn algerlega upp. Leiðin til Berlínar var greið. Í þokkabót réðist keisaraherinn inn í Saxland og hertók það nær algerlega. Endalok Prússlands voru í sjónmáli, en bæði Rússar og Austurríkismenn höfðu orðið fyrir miklu mannfalli. Þar að auki hófst deila milli þeirra, sem endaði með því að Rússar drógu sig til baka og Austurríkismenn fóru til Saxlands til að sameinast keisarahernum. Friðrik mikli hafði alvarlega íhugað að segja af sér og fremja sjálfsmorð. En hið glataða tækifæri óvina hans að taka Berlín bjargaði Prússlandi. Friðrik mikli sagði sjálfur í bréfi til bróður síns að þetta hefði verið „kraftaverk í þágu húss Brandenborgar“. Ljósi punkturinn var að Frakkar höfðu beðið mikinn ósigur fyrir Hannover í orrustunni við Minden og dregið sig til baka. Þess í stað ráðgerðu þeir að ráðast inn í England og söfnuðu herjum sínum saman í hafnarborgum sínum. Ráðagerð þessi fór hins vegar út um þúfur er Bretar sigruðu Frakka í tveimur sjóorrustum. Sú fyrri fór fram við Lagos suður undan Portúgal og hina síðari við Bay de Quiberon við suðurströnd Bretagne. Í Ameríku höfðu Bretar betur gegn Frökkum. Þetta ár hertóku þeir nær allt Kanada.

1760[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1760 var annað erfitt ár fyrir Prússland, sem þó náði að rísa úr öskunni. Eftir mikinn ósigur fyrir Austurríkismönnum í Slésíu, réðist Friðrik mikli inn í Saxland og freistaði þess að endurheimta Dresden. Í þeirri atlögu skemmdist miðborg Dresden talsvert. Meðan á þessu stóð fóru fram tvær stærri orrustur milli Frakka og Hannover, sem endaði með einum sigri fyrir hvorri fylkingu. Engar breytingar áttu sér hins vegar stað þar. Frakkar náðu ekki að brjótast austur og sameinast Austurríki. Þegar Austurríkismenn sendu nýjan her til Dresden, sem sameinaðist austurríska hernum frá Slesíu, ákvað Friðrik mikli að safna öllum sínum herjum saman og mæta Austurríkismönnum í stórorrustu. Hún fór fram í 15. ágúst við borgina Liegnitz. Þar unnu Prússar stórsigur, þrátt fyrir að vera talsvert fáliðaðri. Samtímis þessu hafði keisaraherinn aftur tekið Saxland og Rússar höfðu hafið skærusókn til vesturs og rænt og ruplað í Berlín. Í orrustunni við Torgau náði Friðrik mikli aftur að sigra Austurríkismenn. En aðstæður voru afar erfiðar fyrir prússa. Rússar höfðu hertekið Austur-Prússland, Austurríki stjórnaði Slésíu og keisaraherinn réði yfir Saxlandi. Þar að auki höfðu Svíar aftur hafið útrás og tekið stóran hluta af Pommern. Í Ameríku höfðu Bretar náð betri og betri tökum á aðstæðum. Þeir náðu að hrekja Frakka burt úr lendum sínum og luku hernámi Kanada. Franskur sigur við Sainte-Foy í Quebec breytti engu þar um. Þegar Montreal féll var allt Kanada á valdi Breta.

1761[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1761 var rólegasta stríðsárið í styrjöldinni. Prússneski herinn lokaði sig inni í virkinu Bunzelwith í norðurhluta Slésíu. Þar réðust Austurríkismenn og Rússar á þá, en fengu ekki unnið virkið. Síðsumars voru Rússar orðnir óþolinmóðir og ákváðu að fara austur og búa sig undir komandi vetur. Á leiðinni hertóku þeir borgina Kolberg, síðustu hafnarborg Prússa við Eystrasalt. Þá yfirgáfu Prússar virkið og börðu á Svíum í Pommern. Svíar voru lánlausir og voru hraktir til baka til Stralsund. Frakkar voru máttlausir í vestri og gátu sig hvergi hreyft. Það kom ekki síst til af því að fjárhagur þeirra gekk til þurrðar. Bretar höfðu lagt hafnbann á Frakkland og sjóher þeirra sá um að einangra franskar hafnir. Þann 25. desember gerðist það að Elísabet keisaraynja lést í Rússlandi. Eftirmaður hennar varð Pétur 3. Rússakeisari sem var mjög vilhallur Prússum. Hann dýrkaði Friðrik mikla og datt ekki í hug að eiga í stríði við hann. Hann gerði friðarsamning við Friðrik og þar með voru Rússar úr leik. Auk þess átti Pétur 3. milligöngu um friðarsamning milli Prússa og Svía.

1762[breyta | breyta frumkóða]

Strax í janúar 1762 lýsti Bretland Spáni stríð á hendur. Í kjölfarið varð Portúgal þátttakandi í stríðinu, en þeir gerðu samning við Bretland. Spánverjar réðust því inn í Portúgal og náðu að taka borgina Almeida. Bretar sendu liðsauka og náði hann að hefta framrás Spánverja. Í júlí var Pétur 3. myrtur og Katrín mikla tók við stjórnartaumum í Rússlandi. Hún sagði upp friðarsamningnum, en hélt þó friðinn. Þegar Friðrik mikli var laus við Rússa og Svía tók hann aftur til við að berjast við Austurríkismenn. Hann sigraði þá í orrustu í Slésíu og aftur við Freiberg í Saxlandi. Þannig náði hann báðum héruðunum aftur á sitt vald. Orrustan við Freiberg var jafnframt síðasta orrusta þessara landa. Í júní reyndu Frakkar mikla framrás í vestri. Þeir biðu hins vegar mikla ósigra í tveimur orrustum og voru hraktir vestur yfir Rínarfljót. Frakkar voru í mikilli neyð þar sem hafnbann Breta skilaði miklum árangri. Stríðsvilji þeirra þvarr og hvarf alveg þegar fréttist af miklum ósigri gegn Bretum við Nýfundnaland.

Friðarsamningarnir í París 1763[breyta | breyta frumkóða]

Lítið var barist þetta ár. Allir stríðsaðilar voru þreyttir og þar sem Prússar höfðu full yfirráð yfir Slésíu, var ekki mikill vilji til að halda stríðsrekstri áfram. 10. febrúar voru friðarsamningar gerðir í París milli Frakka og Spánverja annars vegar og Breta og Portúgala hins vegar. Hinn óumdeildi sigurvegari var Bretland, en Bretar náðu að halda Frökkum niðri í Evrópu og náðu auk þess stórum frönskum nýlendum í Ameríku á sitt vald, bæði Kanada og svæði austan Mississippi. Frakkar misstu einnig allar nýlendur sínar á Indlandi til Bretlands. Auk þess urðu Spánverjar að afhenda Bretum Flórída, sem á þessum tíma var afar fámenn. Bretar fengu ennfremur franskar nýlendur í Afríku, þ.e. Senegambíu (sem í dag eru ríkin Senegal og Gambía). Síðastnefnda svæðið komst aftur í eigu Frakklands þegar Bretar töpuðu frelsisstríði Bandaríkjanna 1783.

Friðarsamningarnir í Hubertusburg 1763[breyta | breyta frumkóða]

Hubertusburg í Saxlandi.

Þann 15. febrúar hittust Prússar og stríðsaðilar úr austri í kastalanum Hubertusburg í Saxlandi. Þar sömdu Prússar, Saxar og Austurríkismenn frið (Rússar og Svíar voru áður búnir að semja). Prússar fengu að halda Slésíu og Austurríki missti allt tilkall til héraðsins. Prússar samþykktu að yfirgefa Saxland og láta það land í friði í framtíðinni. Friðrik mikli samþykkti sem kjörfursti að velja son Maríu Teresu sem næsta keisara Heilaga rómverska ríkisins.

Eftirmáli[breyta | breyta frumkóða]

Við þessa friðarsamninga voru landamæri í Evrópu þau sömu og áður og aðstæður voru því sem næst óbreyttar. Hins vegar höfðu öll þátttökuríkin veikst talsvert, enda höfðu þau barist í fleiri ár. Frakkland stóð verst að vígi. Herir þeirra höfðu engu áorkað og landið hafði veikst mikið af hafnbanni Breta. Aðstæður almennings versnuðu og lögðu grunninn að frönsku byltingunni 26 árum seinna. Bretar voru óyggjandi sigurvegarar stríðsins. Þeir voru mesta siglingaveldi heims og unnu gríðarmikil landsvæði í Ameríku. Prússland var einnig nokkurs konar sigurvegari, en sigur þeirra var frekar varnarsigur. Þótt keisaradæmið væri í framhaldinu í höndum Habsborgara (sem réði í Austurríki), þá liðu ekki nema um 40 ár þar til það var lagt niður.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]