Karíbar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karíbafjölskylda á mynd eftir John Gabriel Stedman frá 1818.

Karíbar eða Kalinagóar eru frumbyggjar Litlu-Antillaeyja í Karíbahafi, sem dregur nafn sitt af þeim. Hugsanlega eru þeir afkomendur Kalína sem búa á norðurströnd meginlands Suður-Ameríku, en þeir töluðu óskylt aravakískt tungumál, injeri.

Þegar Spánverjar komu til Nýja heimsins voru Karíbar ríkjandi þjóð á eyjum Karíbahafsins. Þeir bjuggu á öllum Kulborðseyjum, Dóminíku, og hugsanlega á syðstu Hléborðseyjum. Hugsanlega ruddu þeir úr vegi eða lögðu undir sig Aravaka sem bjuggu á eyjunum fyrir árið 1200, af fornleifum að dæma.

Í upphafi nýlendutímans höfðu Karíbar orð á sér fyrir að vera herskáir og Evrópumenn héldu því fram að þeir stunduðu mannát. Fjöldi Karíba á eyjunum hrundi eftir komu Evrópumanna þangað, bæði vegna átaka, þrælahalds og sjúkdóma. Nokkur hundruð afkomendur þeirra búa enn á eyjunum og víðar og um 3000 Karíbar búa á Dóminíku. Svartir Karíbar eða Garífúnar eru afkomendur Karíba og þræla frá Afríku á eyjunni Sankti Vinsent. Síðasti Karíbinn sem talaði injeri sem móðurmál lést á 4. áratug 20. aldar.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.