Fara í innihald

Eldstöð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Eldfjall)
Eldgos á jarðflekamótum

Eldstöð er jarðfræðilegur landslagsþáttur (oftast fjall, þá kallað eldfjall) þar sem hraun eða í tilfelli lághitaeldstöðva, rokgjarnt efni gýs, eða hefur gosið. Þá rofnar jarðskorpan. Fjölmargar eldstöðvar eru þekktar á reikistjörnum og tunglum í sólkerfinu, margar þeirra mjög virkar. Á jörðinni á þetta sér stað á flekamótum og á svokölluðum heitum reitum, en Hawaii eyjaklasinn myndaðist til dæmis yfir einum slíkum. Rannsókn eldstöðva kallast eldfjallafræði.

Kīlauea, Hawaii, aðalgígurinn, 2008

Hæsta þekkta eldfjall heims er Ólympusfjall á Mars, og er það jafnframt hæsta fjall í heimi sem vitað er um. Virkasta eldfjall jarðarinnar er Kilauea eldfjallið á Hawaii.

Eldfjöll gefa frá sér gös eins og vatnsgufu, koldíoxíð, brennisteinstvíoxíð og brennisteinsvetni. Einnig spúa þau hrauni og gjósku. Hraun flokkast til að mynda í apalhraun og helluhraun. Gjóska myndast þegar heitar lofttegundir sprengja upp kviku í gosrásinni. Einnig getur vatn tætt kvikuna. Þá þeytast litlar agnir á ógnarhraða upp úr gíg. (Sjá gjóskugos og sprengigos.)

Mismunandi afbrigði eru til af eldstöðvum. Dæmi:

  • Eldkeila er mynduð af megineldstöð sem gýs reglulega úr kvikuhólfi. Þá hleðst upp fjall með tímanum. Dæmi: Hekla og Etna.
  • Dyngja myndast í löngum gosum og er kvikan þynnri og dreifist smám saman í skjaldarform; liggjandi skjöld. Dæmi: Skjaldbreiður og eldstöðvar á Havaí. Kvikan kemur þá djúpt úr möttlinum.
  • Sprungugos/Gjallgígur: Á eldstöðvakerfum eins og á Reykjanesskaga og við Kröflu geta sprungur opnast á stóru svæði.
  • Troðgos myndast við meginlönd þegar seig kvika treður sér upp gosrás en fer ekki langt.
  • Sigketill eða askja myndast þegar eldstöð fellur saman þegar kvikuhólfið undir tæmist.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.