Skógrækt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Beykiskógur í Slóveníu
Sitkagreni á Íslandi.

Skógrækt á við ræktun, stjórnun og nýtingu skóga. Skógarnir nýtast til framleiðslu timburs, pappírs og annarra vara. Í íslensku samhengi á skógrækt við gróðursetningu trjáa, landgræðslu og stjórnun ílendra skóga. Einnig nýtast þeir til útivistar.

Saga skógræktar á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf skipulagðrar skógræktar á Íslandi má rekja til Furulundsins á Þingvöllum árið 1898. Þar voru Danir frumkvöðlar. Sama ár keypti ríkið tvo höfuðskóga Íslands, Hallormsstaðaskóg og Vaglaskóg, til að forða þeim frá eyðingu. Með lögunum var Skógræktin stofnuð. Agner F. Kofoed-Hansen var ráðinn skógræktarstjóri fyrstur manna og tók hann til starfa 15. febrúar 1908.

Árið 1930 var Skógræktarfélag Íslands stofnað á Þingvöllum. Á næstu árum voru skógræktarfélög stofnuð víða um land. Árið 1933 kom Hákon Bjarnason heim frá skógfræðinámi í Danmörku og var ráðinn framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands. Hans fyrsta verk var að stofnsetja gróðrarstöðina í Fossvogi sem var í rekstri á vegum Skógræktarfélags Íslands og síðan Skógræktarfélags Reykjavíkur í um 70 ár. Það sama ár barst til Íslands hálft kíló af lerkifræi frá Rússlandi. Því var sáð á Hallormsstað og plönturnar sem upp af fræinu uxu gróðursettar í Atlavíkurlund og Guttormslund 1937 og 1938. Árin 1937-1938 bárust einnig ungplöntur allmargra tegunda frá gróðrarstöðvum í Noregi. Mörgum þeirra var komið fyrir í nýrri gróðrarstöð Skógræktarinnar í Múlakoti í Fljótshlíð.

Hákon Bjarnason tók við af Kofoed-Hansen sem skógræktarstjóri 1935. Í seinni heimsstyrjöldinni lokuðust samskiptaleiðir til Noregs en opnuðust til vesturheims. Skógræktarstjóri notfærði sér það til að koma á samböndum við Alaska. Þaðan barst á stríðsárunum allmikið sitkagrenifræ og nokkurt fræ af öðrum tegundum ásamt fyrstu græðlingum alaskaaspar.

Fyrir 1960 var skógarfura öll meira eða minna að drepast vegna furulúsar. Þetta var mikið áfall því miklar vonir höfðu verði bundnar við þessa furutegund. Annað áfall kom svo 9. apríl 1963 þegar gerði mikið hret eftir óvenjuleg og langvarandi hlýindi. Mikið drapst af trjám á Suðurlandi. Furulúsin og aprílhretið höfðu þau áhrif að verulega dró úr gróðursetningu.

Árið 1977 tók Sigurður Blöndal við af Hákoni Bjarnasyni sem skógræktarstjóri og hafði Hákon þá gegnt starfinu í 42 ár.

Á 9. áratugnum var Skógrækt ríkisins heimilt að veita styrki til skógræktar á bújörðum á bestu skógræktarsvæðum landsins. Nokkrar jarðir á Norður-, Vestur- og Suðurlandi, auk jarða á Héraði utan Fljótsdals tóku þátt í nytjaskógrækt og námu styrkirnir 80% af stofnkostnaði.

Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir (1980-1996), var mikill stuðningsmaður skógræktar og gróðursetti opinberlega tré við Þingvallaþjóðgarð.

Árið 1990 tók Jón Loftsson við af Sigurði Blöndal sem skógræktarstjóri. Það ár var ákveðið með lögum að færa aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins frá Reykjavík til Egilsstaða. Sama ár hófst verkefnið Landgræðsluskógar á vegum Skógræktarfélags Íslands, Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Verkefnið var hugarfóstur Sigurðar Blöndals og fólst í því að safna peningum frá fyrirtækjum svo hægt væri að auka plöntuframleiðslu. Plönturnar yrðu síðan afhendar samkvæmt samningum til skógræktarfélaga og annarra aðila sem sæju um gróðursetningu. Plönturnar skyldu einkum gróðursettar í rýrt og rofið land og skógarnir yrðu opnir almenningi til útivistar.

Með tilkomu nýrra verkefna jókst árleg gróðursetning í landinu úr um einni milljón plantnaárið 1989, í ríflega þrjár og hálfa milljón árið 1998. Mest var gróðursett af rússalerki öll árin, með birki í öðru sæti og stafafuru í því þriðja.

Árið 2000 voru sett lög um landshlutaverkefni í skógrækt og voru Héraðs- og Austurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, og Skjólskógar á Vestfjörðum stofnaðir á grundvelli þeirra. Þá áttu bændur um land allt loks kost á að fá ríkisframlög til skógræktar á sínum jörðum.

Verkefnið Hekluskógar hófst árið 2006 í sameiginlegri umsjón Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins og varð sjálfstætt verkefni 2008. Er það metnaðarfyllsta einstaka nýskógræktarverkefni hingað til, með það að markmiði að koma upp birkiskógi á um 90.000 ha eyðilands í nágrenni Heklu til að draga úr foki eftir öskufall. [1]

Hinn 1. júlí 2016 voru skógræktarstofnanir ríkisins sameinaðar undir heitinu Skógræktin. Í þessa nýju stofnun runnu saman Skógrækt ríkisins og svokölluð Landshlutaverkefni í skógrækt, Héraðs- og Austurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, og Skjólskógar á Vestfjörðum.

Nú hefur Skógræktin í sinni umsjón 53 lendur, þ.e. þjóðskóga. Skógarnir eru opnir öllum, um allt land að undanskildum Vestfjörðum.[2] Tilgangur íslenskrar skógræktar er þrískiptur: að gera jarðir sem áður voru ónýttar nothæfar, að græða land til að klæða rýr eða illa gróin svæði og að endurheimta birkiskóga til að verja land fyrir jarðvegseyðingu.[3]

Þröstur Eysteinsson var skipaður skógræktarstjóri frá og með 1. janúar 2016 og lét Jón Loftsson af störfum í árslok 2016. [4]

Á landinu eru yfir 60 skógræktarfélög. [5]

Nytjaskógrækt[breyta | breyta frumkóða]

Helstu nytjategundir í skógrækt á Íslandi eru rússalerki, sitkagreni, stafafura og alaskaösp.[6]

Tegundir og útbreiðsla á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Um 80% til 90% trjátegunda sem notaðar hafa verið í skógrækt á Íslandi síðustu áratugi eru birki, rússalerki, sitkagreni, stafafura og alaskaösp.[7] Ýmsar aðrar trjátegundir hafa verið reyndar. [8] Í skógunum sem ræktaðir hafa verið frá byrjun 20. aldar standa nú um 56 milljónir trjáa á 37.900 hekturum.[9]

Tíu tegundir hafa náð 20 metrum og fimm tegundir um 18 metrum [10].

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. maí 2018. Sótt 16. janúar 2021.
  2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. janúar 2017. Sótt 16. janúar 2021.
  3. „Skógræktarverkefni“. Skógrækt ríkisins. Sótt 7. maí 2015.
  4. Þröstur Eysteinsson skipaður í embætti skógræktarstjóra Geymt 25 apríl 2016 í Wayback Machine Skoðað 15. desember 2015
  5. Fréttablaðið 2011, 15. janúar bls. 26.[óvirkur tengill]
  6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. maí 2018. Sótt 16. janúar 2021.
  7. http://www.skog.is/index.php?option=com_content&view=article&id=180%3Atrjategundir&
  8. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. maí 2018. Sótt 16. janúar 2021.
  9. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 16. janúar 2021.
  10. Tíu teg­und­ir trjáa í 20 metra klúbb­inn og fleiri eru á leiðinni Mbl.is skoðað 24. okt. 2020
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.