Skógarþröstur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skógarþröstur
Skógarþröstur á Íslandi 2011 Söngurⓘ
Skógarþröstur á Íslandi 2011
Söngur
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Spörfuglar (Passeriformes)
Ætt: Þrestir (Turdidae)
Ættkvísl: Turdus
Tegund:
T. iliacus

Tvínefni
Turdus iliacus
Linnaeus, 1766

Skógarþröstur (fræðiheiti: Turdus iliacus) er spörfugl af ætt þrasta sem verpir í furu- og birkiskógum og á freðmýrarsvæðum í Norður-Evrópu og Asíu.

Þrastarhreiður á Þingvöllum. Skógarþrestir verpa oft á jörðu.

Skógarþrösturinn lifir aðallega á skordýrum og ormum á varptímanum en á öðrum tímum árs lifir hann mikið á berjum og fræjum. Hreiður þrasta eru oftast í runnum eða á jörðu. Þeir safnast oft saman í stóra hópa að haust- og vetrarlagi. Skógarþrestir verpa sjaldan í Bretlandi og á Írlandi en algengt er að þeir hafi þar vetursetu. Hann er að mestu leyti farfugl en á Íslandi heldur stór hópur þeirra til allt árið.

Útlitseinkenni[breyta | breyta frumkóða]

Skógarþröstur er meðalstór spörfugl, móbrúnn að ofan á höfði, baki, vængjum og stéli en ljósgulur og hvítur að framan með dökkbrúnum rákum og blettum á bringu. Áberandi eru kremhvítu rákirnar ofan við augun og rauðbrúnu hliðarnar. Goggurinn er gulleitur með dökkum brodd. Fæturnir eru eru ljósbrúnir að lit. Kynin eru eins í útliti og óaðgreinanleg.

Meðallengd skógarþrasta er um 20-24 cm og breidd vænghafs milli 33 og 35 cm. Þyngd er milli 50 og 75 g. Sú deilitegund skógarþrasta sem finna má á Íslandi er í stærri kantinum[1][2].

Útbreiðsla og kjörlendi[breyta | breyta frumkóða]

Skógarþröstur verpur í Evrópu og Asíu, langleiðina til Kyrrahafs. Varpsvæði skógaþrasta ná frá Íslandi og Skotlandi (vestustu mörk), og austur um Skandinavíu, Eystrasaltið og Rússland um það bil að 165°E. Undanfarin ár hafa útbreiðslumörk tegundarinnar stækkað aðeins, bæði í Austur Evrópu þar sem skógarþrösturinn verpur nú í norðurhluta Úkraínu, og einnig á suðurhluta Grænlands þar sem tegundin nam land árin 1990-1991[2][1].

Skógarþröstur er algengur á Íslandi og er útbreiddur á láglendi um land allt[3]. Skógarþröstur er að mestu farfugl og fer til Vestur-Evrópu á haustin, mest til Bretlands, Írlands, Frakklands og Pýreneaskaga[4]. Veturseta fer þó vaxandi og sjást nú þúsundir fugla í árlegum vetrarfuglatalningum Náttúru­fræðistofnunar, einkum í þéttbýli suðvestanlands [3].

Skógarþröstur er láglendisfugl og verpur þéttast í skógvistum, 46,4 pör/km², lúpínu, 21 par/km², og ræktarlandi, 9,1 par/km² [5]. Mesti varpþéttleiki skógarþrasta sem mælst hefur á Íslandi er í birkiskógi á Héraði á Austurlandi (373 pör/km²) og í blönduðu gróðurlendi í Fossvogskirkjugarði (369 pör/km²)[6][7]. Þessar mælingar á varpþéttleika skógarþrasta á Íslandi eru jafnframt þær hæstu í heimi.

Söngur[breyta | breyta frumkóða]

Karlfuglinn syngur breytilegt lag. Skógarþrestir hafa mjög greinilegar svæðisbundnar mállýskur í söng, þ.e. stofnar á tilteknu svæði hafa áþekkan söng eða söngmynstur.[8]

Söngur skógarþrastar skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn og samanstendur af nokkrum upphafsþáttum yfirleitt í hækkandi eða lækkandi tíðni. Þessir þættir geta ýmist verið skýrir tónar, eða flöktandi í tónhæð ("trill"). Eftir upphafsþættina fylgir seinni hluti söngsins sem er mun hraðari og breytilegri í byggingu og mynstri (ýmist kallað muldur eða skvaldur). Svæðisbundnu mállýskuna er að finna í upphafsstefi söngsins. Þannig er upphafserindi söngsins eins hjá tilteknum fugl og innan hans mállýskusvæðis en muldrið er mjög breytilegt. Útbreiðslusvæði mállýsku er breytilegt í stærð en í skóglendi í Noregi er meðalstærð þessara mállýskuhverfa um 41.5 km²[8].

Rófrit (e. spectrogram) sem sýnir dæmi um söngbyggingu skógarþrastar á Höfuðborgarsvæðinu. Hugtök eru merkt inn á mynd.

Flokkunarfræði[breyta | breyta frumkóða]

Tegundinni var fyrst lýst af Carl Linnaeus í 10.útgáfu af flokkunarriti hans Systema Naturae árið 1758 undir sama tegundanafni (Turdus iliacus)[9]

Meðal skógarþrasta finnast tvær undirtegundir:[2][1]

  • Turdusi liacus sp. iliacus, sem lýst var af Carl Linnaeus og verpur á meginlandi Evrasíu.
  • Turdus iliacus sp. coburni, sem verpur á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Einstaklingar þessarar undirtegundar eru aðeins stærri og dekkri en aðrir skógarþrestir.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 del Hoyo, J.; Elliott, A., & Christie, D., eds. (2005). Handbook of the Birds of the World Vol. 10. ISBN 84-87334-72-5.
  2. 2,0 2,1 2,2 Snow, D. W. & Perrins, C. M. (1998). The Birds of the Western Palearctic Concise Edition. ISBN 0-19-854099-X.
  3. 3,0 3,1 Kristinn Haukur Skarphéðinsson (Október 2018). „Skógarþröstur (Turdus iliacus)“. Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt Júní 2022.
  4. Jóhann Óli Hilmarsson. „Skógarþröstur“. Fuglavefur. Sótt Júní 2022.
  5. Kristinn Haukur Skarphéðinsson; og fleiri (2016). Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. (PDF).
  6. Nielsen, Ó. K. (2003). Skógvist: Mófuglar og skógfuglar á Héraði 2002. Náttúrufræðistofnun Íslands.
  7. Hulda Elísabet Harðardóttir (2019). Breeding biology of Icelandic thrushes. Háskólaprent.
  8. 8,0 8,1 Bjerke, T.K.,; Bjerke, T.H., (1981). Song dialects in the Redwing Turdus iliacus. Ornis Scandinavica.
  9. Linnaeus, Carl (1758). Systema naturae per regna tria naturae, secundum classes, ordines, genera, species, cum characteribus, differentiis, synonymis, locis. Tomus I. Editio decima, reformata (in Latin). Holmiae. (Laurentii Salvii). p. 168.
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
Wikilífverur eru með efni sem tengist
  Þessi fuglagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.