Fara í innihald

Sundhöll Reykjavíkur

Hnit: 64°08′30″N 21°55′13″V / 64.1417°N 21.9203°V / 64.1417; -21.9203
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sundhöllin)
Sundhöll Reykjavíkur.

Sundhöll Reykjavíkur er sundlaug við Barónstíg í miðborg Reykjavíkur. Sundhöllin var vígð 23. mars 1937 og var byggð fyrir 650 þúsund krónur.[1] Byggingin var hönnuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Einn helsti hvatamaður að byggingu laugarinnar var Jónas Jónsson frá Hriflu, en árið 1927 hafði Alþingi samþykkt heimild til að gera sundkennslu að skyldunámsgrein í skólum.[2] Ólafur Kalstað Þorvarðsson varð árið 1936 fyrsti forstjóri Sundhallarinnar. Um áratugaskeið var Sundhöllin helsta kennslu- og æfingalaug Reykjavíkur. Þar er skólasund Austurbæjarskóla og sundnámskeið og æfingar á vegum sunddeildar KR. Árið 2013 var ákveðið að reisa útisundlaug við Sundhöllina ásamt nýjum inngangi, nýjum kvennaklefa og útiklefum. Heba Hert­ervig, Karl Magnús Karls­son og Ólaf­ur Óskar Ax­els­son hjá VA Arki­tekt­um hönnuðu útilaugina sem var opnuð í desember 2017.

Í Sundhöll Reykjavíkur er 25 metra löng innilaug með fjórum brautum og 4 metra dýpi þar sem hún er dýpst. Grynnri endi laugarinnar er afmarkaður sem barnalaug, en við dýpri endann eru tvö stökkbretti. Hærra brettið er 2,75 metra hátt. Útilaugin er 25 metra löng með fimm brautum og 0,8 til 1,8 metra dýpi. Heitir pottar eru bæði út af innilaug á 2. hæð og við útilaugina. Þar eru líka vaðlaug og kaldur pottur, gufubað og útiklefar. Á þaki búningsklefa innilaugarinnar er kynjaskipt aðstaða til sólbaða sem snýr í suður.

Skemmtanir[breyta | breyta frumkóða]

Sundhöll Reykjavíkur var frá upphafi notuð fyrir skemmtikvöld og sýningar af ýmsu tagi. Á laugardagskvöldum var þar kveikt á marglitum ljóskösturum til að skapa stemningu.

Á 10. áratugnum voru stundum tónleikar í Sundhöllinni. Unglist, listahátíð ungs fólks í Reykjavík, var líka oft með viðburði þar. Eftir aldamótin 2000 var tekið upp á því að vera þar með kvikmyndasýningar, bæði einar sér og í tengslum við kvikmyndahátíðir.

Í öðrum miðlum[breyta | breyta frumkóða]

Sundhöllin kemur fyrir stuttlega í heimildarmyndinni Reykjavík vorra daga eftir Óskar Gíslason frá 1946, en þar eru aðallega myndskeið frá gömlu Laugardalslauginni. Sundhöllin er helsta sögusvið myndbands GusGus við lagið „Believe“ frá 1995 og heimildamyndarinnar Höllin eftir Héðin Halldórsson frá 2010. Í báðum tilvikum eru flísalögðu búningsklefarnir og nýklassískur arkitektúr innilaugarinnar áberandi.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Sundhöllin“. Morgunblaðið. 24 (68): 2. 1937.
  2. „Synt og syndgað mót lögum“. Morgunblaðið. 77 (35): C 31. 1990.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

64°08′30″N 21°55′13″V / 64.1417°N 21.9203°V / 64.1417; -21.9203