Fara í innihald

Hveragerði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hveragerðisbær)
Hveragerðisbær
Hveragerði séð frá Hellisheiði
Hveragerði séð frá Hellisheiði
Skjaldarmerki Hveragerðisbæjar
Staðsetning Hveragerðisbæjar
Staðsetning Hveragerðisbæjar
Hnit: 63°59′57″N 21°12′24″V / 63.9992211°N 21.2065315°V / 63.9992211; -21.2065315
LandÍsland
KjördæmiSuðurkjördæmi
ÞéttbýliskjarnarHveragerði
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriGeir Sveinsson
Flatarmál
 • Samtals9 km2
 • Sæti62. sæti
Mannfjöldi
 (2024)
 • Samtals3.265
 • Sæti19. sæti
 • Þéttleiki362,78/km2
Póstnúmer
810
Sveitarfélagsnúmer8716
Vefsíðahveragerdi.is

Hveragerði er kaupstaður í vestanverðri Árnessýslu, staðsett undir Kömbum, rétt austan Hellisheiðar. Þéttbýlismyndun byrjaði með stofnun Mjólkurbús Ölfusinga sem hóf starfsemi 1930, en Hveragerðishreppur var stofnaður út úr Ölfushreppi árið 1946 og varð bær 1987. Hveragerði er stundum kallaður blómabærinn en þar er haldin hátíðin Blómstrandi dagar. Varmá, sem á upptök sín í Henglinum, rennur í gegnum bæinn. Íbúar eru nú 2.794 manns (mars 2021).

Upphaf byggðar

[breyta | breyta frumkóða]

Þorpsmyndun hófst í Hveragerði árið 1929, Hveragerðishreppur var stofnaður 1946 og varð bæjarfélag 1987.[1]

Hveragerði byggðist í landi Vorsabæjar í Ölfusi en nafnið var upphaflega á hverasvæði því sem er í bænum miðjum, sunnan og vestan kirkjunnar. Hveragerði er fyrst skráð í Fitjaannál laust fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í landskjálftum 1597. Af lýsingu Ölfushrepps árið 1703 eftir Hálfdan Jónsson lögréttumann á Reykjum má ætla að hverir hafi þá verið nýttir til baða, suðu og þvotta. Enn kemur Hveragerði við sögu árið 1844 þegar ákveðið var að flytja lögréttir Ölfusinga frá Hvammi í Borgarheiði við Hveragerði.

Byggðaþróun

[breyta | breyta frumkóða]

Íbúum í Hveragerði fjölgaði hægt fyrsta áratuginn og í árslok 1941 voru þeir um 140. Næstu árin fjölgaði þeim hratt og voru um 400 í árslok 1946, stofnári Hveragerðishrepps. Næstu áratugina fjölgaði íbúum mun hægar, voru um 530 í árslok 1950, 685 í árslok 1960 og 740 í árslok 1970. Á síðustu árum hefur fjölgunin verið örari og þá einkum áratuginn 1971-1980. Íbúar voru um 1245 í árslok 1980, 1600 í árslok 1992, 1813 í árslok 2000 og um 2.476 í árslok 2016.

Nýting hverahitans til suðu, baksturs, þvotta og húshitunar mun hafa laðað marga til búsetu í Hveragerði í upphafi. Matur var soðinn og brauð bökuð í gufukössum við hveri eða húshlið. Þvottur var þveginn við hverina eða í hitaþróm við húsvegg. Sveitafólk í Ölfusi hafði lengi nýtt hverina til þvotta og bakað rúgbrauð í heitum jarðvegi við hverina eins og örnefnið Brauðholur vitnar um. Sumarbústaðir voru margir einkum á stríðasárunum. Samkvæmt fasteignaskrá frá 1941 voru 37 íbúðarhús í Hveragerði og 19 sumarbústaðir. Sumarbústaðirnir voru vestan hverasvæðisins flestir við göturnar Laufskóga og Hverahlíð. Á stofnári Hveragerðishrepps 1946 var 91 íbúð skráð þar. En í árslok 2016 voru þær um 900 talsins.

Ölfushreppur byggði þinghús í Hveragerði árið 1930 að Breiðumörk 25. Veitingasala var í þinghúsi Ölfushrepps frá 1931 og þar hefur verið hótel meira og minna frá 1947. Þá var skyrgerð Mjólkurbús Ölfusinga einnig starfrækt í húsinu.‍ Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsasmíðameistara ríkisins, sem teiknaði margar af frægustu byggingum landsins eins og Hallgrímskirkju og Þjóðleikhúsið. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsasmíðameistara ríkisins.‍ Skyrgerðin var sú fyrsta sinnar gerðar hérlendis og var skyr aðalframleiðsluvara Mjólkurbús Ölfusinga. Fyrsta jógúrtin sem var framleidd á Íslandi kom sömuleiðis frá gömlu skyrgerðinni og var seld undir nafninu heilsumjólk. 2016 hófst skyrgerð að nýju í húsinu þegar veitingastaðurinn Skyrgerðin tók til starfa.[2]

Skyrgerðin var sú fyrsta sinnar gerðar hérlendis og var skyr aðalframleiðsluvara Mjólkurbús Ölfusinga. Fyrsta jógúrtin sem var framleidd á Íslandi kom sömuleiðis frá gömlu skyrgerðinni og var seld undir nafninu heilsumjólk.

Með setningu fræðslulaganna árið 1907 hófst skólastarf á vegum ríkisins. Þá voru skólahús reist á Kotströnd og Hjalla í Ölfusi. Skólinn á Kotströnd fluttist fljótlega að Sandhóli og þegar Þinghúsið var byggt í Hveragerði árið fluttist skólahald þangað. Árið 1937 var stofnaður heimavistarskóli í Hveragerði þegar keypt var húsið Egilsstaðir er áður hafði verið barnaheimili Oddfellow-reglunnar. Árið 1943 var keyptur skólabíll og síðan þá hefur skólinn verið heimangönguskóli. Árný Filippusdóttir byggði húsið Hverabakka og rak þar kvennaskóla 1936-56. Haustið 1947 var elsti hluti núverandi aðalbyggingar  tekinn í notkun. Haustið 1972 var skólanum skipt í tvær aðskildar stofnanir, Barnaskólann og Gagnfræðaskólann í Hveragerði og urðu skólastjórar þá tveir. Þegar Gagnfræðaskólinn var stofnaður haustið 1965 var efri hæð sundlaugarinnar í Laugaskarði tekin á leigu fyrir þrjá bekki Gagnfræðaskólans. Fyrsti bekkur var í barnaskólahúsinu. Í janúar 1973 fluttust allir bekkir Gagnfræðaskólans í leiguhúsnæði að Breiðumörk 2. Árið 1988 var viðbygging við gamla barnaskólann tekin í notkun og skólinn var sameinaður á ný í eina stofnun.[3]

Ungmennafélag Ölfusinga var stofnað árið 1934. Ungmennafélag Hveragerðis og Ölfus setti á stofn skafmiðahappdrættið Ferðaþristinn í lok árs 1987 og átti ágóðinn m.a. að fara í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði. Kostnaður við happdrættið varð þó mun meiri en reiknað hafði verið með og salan minni en vonir stóðu til. Erfiður rekstur happdrættisins varð til þess að árið 1992 var UFHÖ tekið til gjaldþrotaskipta og er eitt fárra íþróttafélaga á landinu sem hafa farið í þrot. Sama ár, nánar tiltekið 28. mars 1992, var nýtt íþróttafélag stofnað í Hveragerði, Íþróttafélagið Hamar.[4]

Sundlaugin í Laugaskarði var tekin í notkun 1938. Það var Ungmennafélag Ölfushrepps sem beitti sér mest fyrir því að laugin yrði gerð og lögðu félagsmenn fram ómælda sjálfboðavinnu. Þeim bættist góður liðsauki þegar Lárus Rist sundkappi fluttist til Hveragerðis árið 1936 og má segja að hann hafi tekið forystu við uppbyggingu laugarinnar og réði meðal annars staðarvali en laugin er í skjólsælli hvilft sem veit gegn suðri, norðan Varmár við veginn að Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi. Í hvilftinni rann lækur sem auðvelt var að stífla til að útbúa sundlaug. Hveravatn ofan af Reykjum var nýtt til að verma laugina. Læknum er enn í dag veitt í stokki við hlið laugarinnar og enn er laugin hituð með jarðvarma. Laugarkerið var byggt í tveimur áföngum, sá fyrri var 12x25 metrar og var tekinn í notkun árið 1938, en síðari hlutinn árið 1945 og laugin þá orðin 12x50 metrar og sú fyrsta hérlendis í þeirri lengd. Í henni æfði íslenska landsliðið í sundi allt til 1966 þegar Laugardalslaugin í Reykjavík kom til sögunnar.[5]

Atvinnuþróun

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta tilraun til þurrabúðarlífs í Hveragerði tengist byggingu ullarverksmiðju við Reykjafoss í Varmá árið 1902. Vatnshjól og reimdrif knúðu vélar hennar og árið 1906 var sett upp lítil vatnsknúin rafstöð til ljósa og gatan að þjóðvegi við Ölfusréttir upplýst ári síðar, fyrsta götulýsing í dreifbýli á Íslandi. Reykjafossverksmiðjan var rekin til 1912 og árið 1915 var hún rifin nema grunnurinn sem enn sést.

Samvinnufélag um Mjólkurbú Ölfusinga var stofnað 1928, 45 ha lands keyptir og var hverasvæðið þar í. Mjólkurstöðvarhús var byggt sumarið 1929 að Breiðumörk 26 og sama sumar risu tvö fyrstu íbúðarhúsin, Varmahlíð og sumarhús í Fagrahvammi þar sem ylrækt hófst í Hveragerði. Mjólkurbúið nýtti jarðhita frá Bakkahver til framleiðslu sinnar auk rafmagns frá Varmárvirkjun sem reist var 1929 um 260m ofan Reykjafoss. Mjólkurbúið var starfrækt til 1938 en húsin standa enn og eru í dag m.a. nýtt af Grunnskólanum í Hveragerði.

Íslenska ríkið keypti jörðina Reyki ofan Hveragerðis árið 1930 og starfrækti þar berklahæli til 1938[6]. Ári seinna hóf Garðyrkjuskóli ríkisins starfsemi að Reykjum og fyrstu garðyrkjumennirnir voru útskrifaðir vorið 1941. Margir þeirra og verkamenn úr Fagrahvammi reistu garðyrkjustöðvar í Hveragerði. Í Hveragerði voru sjö garðyrkjustöðvar starfræktar 1940 og voru orðnar tuttugu talsins árið 1950. Þar efldist mjög blómarækt á fimmta áratugnum. Íbúar Reykjavíkursvæðis byrjuðu snemma að heimsækja Hveragerði til að kaupa garðyrkjuafurðir. Þetta er enn eitt sérkenna bæjarins einkum snemma sumars þegar kaupendur sumarblóma fylla þar götur. Úr þeim jarðvegi spratt m.a. Blómaskáli Paul Michelsens þar sem nú er verslunin Blómaborg og garðyrkjustöðin Eden, stofnuð 1958, sem var einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins um árabil. Eden brann til grunna þann 22. júlí 2011.

Verslun hófst í Hveragerði árið 1938. Kaupfélag Árnesinga hóf verslunarrekstur í Hveragerði 1944 og rak lengi útibú við Breiðumörk í Hveragerði í húsnæði því sem nú hýsir verk- og myndmenntakennslu Grunnskólans í Hveragerði. Sparisjóður Hveragerðis og nágrennis hóf starfsemi árið 1962 en fimm árum síðar yfirtók Búnaðarbanki Íslands sparisjóðinn og hefur rekið útibú í Hveragerði síðan. Georg Michelsen hóf brauðgerð í Hveragerði 1946 og var fyrirtækið, Hverabakarí, að Heiðmörk 35 starfrækt um árabil

Árið 1950 byrjaði Landspítalinn rekstur leirbaða í Hveragerði og Náttúrulækningafélag Íslands hóf starfsemi heilsuhælis árið 1955.

Sýslunefnd Árnessýslu keypti árið 1952 tvö hús fyrir aldraða og samdi við Gísla Sigurbjörnsson á Grund um rekstur þeirra. Það varð vísirinn að Dvalarheimilinu Ási/Ásbyrgi.

Fyrirtækið Kjörís hf. var stofnað 1969[7]. Stofnendur fyrirtækisins voru Gylfi og Bragi Hinrikssynir ásamt Hafsteini, Guðmundi og Sigfúsi Kristinssonum. Frumkvöðlar að stofnun Kjöríss voru Hafsteinn, mjólkurtæknifræðingur, og Gylfi, véltæknifræðingur. Forveri Kjöríss var Ostagerðin hf sem Hafsteinn rak í tvö ár í Hveragerði frá 1966.

Tívolíið í Hveragerði tók til starfa 1986 í 6.000 fermetra húsnæði gegnt Eden í Austurmörk. Þar var meðal annars boðið upp á klessubíla, draugahús, bátatjörn og skotbakka auk þess sem ýmsir skemmtikraftar létu ljós sitt skína á uppákomum í Tívolíinu. Tívolíið naut gríðarlegra vinsælda á fyrstu árunum í rekstri en með tilkomu bresks farandtívolís sem hóf að venja komur sínar til landsins í byrjun tíunda áratugarins fóru rekstrarerfiðleikar að gera vart við sig. Tívolíið lokaði vorið 1994.[8] Þá um sumarið opnaði markaðstorg í húsinu að fyrirmynd Kolaportsins en Hveragerðisbær var þá orðinn eigandi húsnæðisins.[9] Þá var gamla bátatjörnin nýtt sem bleikjuveiðitjörn þar sem renna mátti fyrir fisk og greiða fyrir ef á biti.[10] Fyrir jólin 1995 opnaði jólaland í húsinu en varð skammlíft.[11] Nokkrir hreppar í Rangárvallarsýslu sameinuðust um kaup á húsinu árið 1998. Húsinu var þrískipt og notað til byggingar fjölnotahúss í Þykkvabæ, mótssals Hvítasunnukirkjunnar að Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð og reiðhallar að Gaddstaðaflötum við Hellu.[12][13][14]

Fjölbreytilegar tilraunir til nýtingar jarðvarma í atvinnurekstri einkenna atvinnusögu Hveragerðis og enn nýta öll gróðurhús í bænum auk t.d. Kjöríss jarðvarma til starfsemi sinnar.

Seinni heimsstyrjöld

[breyta | breyta frumkóða]

Seinni heimsstyrjöld setti nokkurn svip á Hveragerði enda reisti breski flugherinn sinn fyrsta flugvöll hérlendis eftir hernám nokkuð nærri þorpinu eða að Kaldaðarnesi í Flóa. Að auki reistu Bretar Camp Cameron á Núpafjalli vestur af Hveragerði en þar var loftvarnarbyssa sem vakti yfir Kaldaðarnesflugvelli.

Hveragarðurinn

Hveragerði er í austurjaðri gosbeltis sem liggur frá Reykjanesi um Þingvelli og norður Langjökul. Gosbeltið er framhald Mið-Atlantshafshryggjarins sem þarna gengur á land. Annað gosbelti liggur síðan frá Vestmannaeyjum um Vatnajökul og norður í Öxarfjörð. Í gosbeltunum er mikil framleiðsla á kviku sem kemur upp í eldgosum eða storknar neðanjarðar og myndar hitagjafa jarðhitasvæðanna. Eitt slíkra jarðhitasvæða er kennt við Hengil og er Hveragerði í eldri hluta þess.

Jarðhitasvæðum á Íslandi er skipt í háhita- og lághitasvæði eftir uppruna og hitastigi. Hiti í háhitasvæðum er yfir 200ºC á eins km dýpi og er Hengill eitt þeirra. Jarðskjálftar eru eitt af einkennum jarðhitasvæða. Háhitasvæðið í Hengli er ævagamalt, að öllum líkindum nokkur hundruð þúsund ára, og er elsti hluti þess í Hveragerði. Þar var hverasvæðið löngum farartálmi og til lítilla nota þótt alltaf þætti ferðamönnum það forvitnilegt. Einkum fannst þeim mikið til um goshverina, Litla-Geysi sem nú er horfinn og Grýlu sem enn skvettir úr sér.[15]

Hverasvæðið í miðbænum

[breyta | breyta frumkóða]

Hveragerði dregur nafn sitt af hverasvæðinu í bænum miðjum. Þjóðleiðin forna yfir Hellisheiði og inn á Suðurland lá nærri hverasvæðinu og umferð þar um talsverð. Árið 1906 féll ferðamaður í hver einn á svæðinu og hlaut af bana. Hefur hverinn síðan borið nafnið Manndrápshver. Atvikið varð til þess að sett var upp lítil vatnsknúin rafstöð í Varmá til að skaffa rafmagn til raflýsingar leiðarinnar nærri hverasvæðinu. Þetta var fyrsta rafknúna götulýsing landins í dreifbýli.[16] Aðrir nafntogaðir hverir á svæðinu eru Bláhver en hann er nefndur eftir lit vatnsins. Ruslahver (einnig þekktur sem Önnuhver) hafði um árabil verið notaður sem ruslagryfja og dregur nafn sitt af því að hann lifnaði við í jarðskjálfta 1947 og þeytti öllu ruslinu úr sér. Dynkur heitir hver sem áður var aðeins lítið gufuauga en eftir Suðurlandsskjálftann 2000 umbreyttist hann í talsvert öflugan leirhver.

Göngustígur, sem gengur af heimamönnum undir nafninu Drullusundið, liggur þvert yfir hverasvæðið en svæðið norðan stígsins er nú kulnað. Drulllusundið tengir saman miðbæinn og efra þorpið. „Áður en Drullusundið var hellulagt myndaðist á gönguleiðinni, einkum í vætu, drullusvað og af því dregur stígurinn nafn sitt. Heppilegasti fótabúnaðurinn var þá gúmmístígvél, sem áttu það til að festast í leðjunni svo erfitt gat reynst að komast þurrum fótum yfir,“ skrifaði Gunnar Benediktsson, rithöfundur og hreppsnefndarmaður, þegar hann lýsti ástandi samgöngumála í Hveragerði um miðja tuttugustu öldina.[17]

Nýting jarðhitans

[breyta | breyta frumkóða]

Jarðhitanýting hefur alla tíð verið grunnur byggðar á staðnum. Íbúar nýttu hitann til suðu, baksturs, þvotta og húshitunar og átti greitt aðgengið sinn þátt í að laða fólk til búsetu í bænum. Dæmi voru þó um það að jarðhitinn væri ekki nýttur til húshitunar í upphafi byggðar en svo komust flestir upp á lagið með að útbúa eigin einfalda hitaveitu úr næsta nálæga hver. Vatnið var leitt heim gegnum rör eða tréstokka að þró við húsvegginn. Í þrónni voru pottofnar og hringrás vatnsins notuð til þess að flytja varmann í ofnana innandyra.[18]

Jarðhiti í Hveragerði var fyrst nýttur í einhverjum mæli við Mjólkurbú Ölfusinga um 1930. Árið 1940 var fyrsta jarðhitaholan boruð og gufan leidd í gróðurhúsið í Fagrahvammi. Þessi hola var 54 m djúp en er nú horfin.

Hitaveita Hveragerðis

[breyta | breyta frumkóða]

Framtakssamir einstaklingar í Hveragerði boruðu á fyrstu árum byggðar á staðnum borholur til einkanota. Allra fyrstu borholurnar í Hveragerði áttu það þó sammerkt að endast illa – með einni undantekningu – svonefnd Höskuldarhola að Bláskógum 6 en hún var boruð á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar eða í lok hennar. Árið 1950 dugði hún átta heimilinum að Bláskógum og Heiðmörk fyrir heitu vatni og gufu. Nafnið fékk hún eftir einum eigenda sinna, Höskuldi Björnssyni listmálara. Ástæður fyrir endingarskorti fyrstu holanna voru aðallega reynsluleysi og bortækni með of litla getu fyrir kraft holanna og innihald þeirra.[19]

Þegar Hveragerðishreppur var nýstofnaður stóð hann fyrir því haustið 1946 að láta bora fyrstu jarðhitaholuna í eigu hreppsins. Sú var boruð niður á 49m dýpi á Hverasvæðinu. Hveragerðishreppur og landbúnaðarráðuneytið gerðu samning þann 16. maí 1952 um jarðhitanýtingu sem tryggði einkaleyfi á dreifingu og sölu á heitu vatni og gufu innan sveitarfélagsins. 1953 var svo Hitaveita Hveragerðis formlega stofnuð. Einkaleyfi Hitaveitu Hveragerðis hefur þó aldrei útilokað aðra í Hveragerði frá því að nota sína eigin borholu. Þannig hefur Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands frá vori 1967 hitað hús sín með orku frá eigin borholum en HNLFÍ var fyrstu árin viðskiptavinur hitaveitunnar.[19]

Tæknilegur rekstur Hitaveitu Hveragerðis gekk sjaldnast snuðrulaust fyrir sig, fyrst og fremst vegna þess að holurnar skiluðu ekki aðeins efnaríku heitu vatni heldur og einnig gufu í bland. Tæring og útfelling var mikil í kerfinu sem og í holunum sjálfum og þær þurfti flestar að bora út ekki sjaldnar en annað hver ár.[19]

Fyrstu árin var einfalt dreifikerfi í gróðurhúsunum en tvöfalt kerfi fyrir íbúðarhúsin. Við íbúðarhúsin var yfirleitt forhitari í þró við húsvegginn. Um 1955 voru forhitarar í tveimur samstæðum settir upp á sjálfu Hverasvæðinu. Önnur samstæðan var fyrir austurhluta þorpsins en hin var fyrir vesturhlutann. Einnig var gróðurhúsunum komið yfir á tvöfalt kerfi. Fimmtán árum seinna var það kerfi varla orðið á vetur setjandi og úr varð að skipta því út fyrir gufuskilju og safngeymi sem voru byggð við Stigagil vestan í Reykjafjalli 1972 og tekin í notkun ári seinna. Í gufuskiljunni skildist gufan frá og 100 °C heitt vatnið rann þaðan í safngeyminn sem rúmaði að minnsta kosti 100 rúmmetra. Safngeymirinn stóð það hátt í landinu að vatnið rann undan hallanum til þorpsins. Enn var útfelling þó vandamál og stíflaðar heimtaugar tíðar. Haustið 1978 var brugðið á það ráð að breyta til þannig að bæði gufan og vatnið fóru inn á gufuskiljuna en aðeins gufan fór í safngeyminn og hitaði þar upp kalt vatn í kjörhita húshitunarvatns fyrir dreifikerfið. Útfellingarnar hurfu ekki eins og dögg fyrir sólu en voru nokkru minni en áður og af annarri efnasamsetningu.[19]

1997 komst fyrsta varmaskiptistöðin af þremur í gagnið. Fyrst þá var mögulegt að koma á viðunandi mælingu á heitavatnsnotkun í húshitun í Hveragerð en vegna útfellinga gekk erfiðlega að mæla nákvæmlega vatnið úr holunum. Það endurspeglaðist í gjaldskrá Hitaveitu Hveragerðis en fyrstu árin var rukkað eftir upphituðum rúmmetrum í húsi og kostaði þá hver rúmmetri 2 kr. á ári. Síðar var farið að innheimta eftir fermetragjaldi upphitaðra eigna.[19]

Alls voru í nafni Hitaveitu Hveragerðis boraðar 16 borholur frá 1946 til 2001.[19]

Árið 2001 ákvað bæjarstjórn Hveragerðis að athuga möguleikann á sölu Hitaveitu Hveragerðis.[20] Þremur árum seinna var hún svo seld til Orkuveitu Reykjavíkur.[21] Árið 2010 hófu svo Hveragerðisbær og OR viðræður um að bæjarfélagi keypti hitaveituna til baka.[22] Ekkert kom þó út úr þeim viðræðum og hitaveitan er enn í eigu OR.

Suðurlandsskjálftar

[breyta | breyta frumkóða]

Suðurlandsskjálftinn 2008

[breyta | breyta frumkóða]

Suðurlandsskjálftinn 2008 var í raun tveir skjálftar sem riðu yfir nær samtímis, eða með þriggja sekúndna millibili, þann 29. maí kl. 15:45 og hafði mun meiri áhrif í Hveragerði en skjálftarnir 2000 enda miklum mun nær bænum. Vægisstærð skjálftanna var um 6,3 stig. Fyrri skálftinn átti upptök sín undir Ingólfsfjalli en sá seinni nærri bænum Krossi u.þ.b. 2km suðaustur af Hveragerði.

Malbik á þjóðvegi eitt og fleiri vegum flettist upp, hús stórskemmdust, persónulegir munir og húsgögn lágu eins og hráviði út um öll gólf á fjölda heimila í Hveragerði og nærsveitum. Flöskur í Vínbúðinni í Hveragerði þeyttust út á gólf og brotnuðu í mél svo áfengi flæddi um gólf.[23] Grjóthrun varð í hlíðum Reykjafjalls ofan Hveragerðis sem og í Hamrinum og hnullungar rúlluðu alla leið niður á jafnsléttu. Þá mynduðust sprungur nálægt fjallsbrúnum Reykjafjalls. [24]

Fjöldahjálparstöð var opnuð í Grunnskólanum og þá ók lögregla um bæinn með gjallarhorn og bað fólk um að halda sig utandyra.[25]

Jarðhitavirkni færðist talsvert úr stað en hverasvæðið í miðbæ Hveragerðis kulnaði talsvert við skjálftann. Aftur á móti færðist mikill vöxtur í svæði norðvestur af Garðyrkjuskóla Ríkisins að Reykjum sem áður hafði haft heldur hægt um sig.[26]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. „Hveragerði | Ágrip af sögu Hveragerðisbæjar“. www.hveragerdi.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. janúar 2020. Sótt 29. janúar 2020.
 2. „Skyrgerðin“. www.skyrgerdin.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. janúar 2020. Sótt 30. janúar 2020.
 3. „Saga skólans“. Grunnskólinn í Hveragerði. Sótt 29. janúar 2020.
 4. „Söguferðir í Hveragerði / Hveragerði Sightseeing“. www.facebook.com. Sótt 29. janúar 2020.
 5. „Hveragerði | Íþróttir og útivist“. www.hveragerdi.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. janúar 2020. Sótt 29. janúar 2020.
 6. „Garðyrkjuskóli ríkisins að Reykjum í Ölfusi“. www.mbl.is. Sótt 29. janúar 2020.
 7. „Sagan“. Kjörís. Sótt 29. janúar 2020.
 8. „Manst þú eftir tívolíinu í Hveragerði?“. DV. 20. október 2018. Sótt 30. janúar 2020.
 9. „Hveragerði Tívolíhúsið til sölu veragerðisbær auglýsir nú Tívolíhúsið þar í b“. www.mbl.is. Sótt 30. janúar 2020.
 10. „Mikil bleikjuveiði er í "Smugunni" í Hveragerði Í Hveragerði gefst nú ungum sem“. www.mbl.is. Sótt 30. janúar 2020.
 11. „50% krafna verði greiddar“. www.mbl.is. Sótt 30. janúar 2020.
 12. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 30. janúar 2020.
 13. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 30. janúar 2020.
 14. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 30. janúar 2020.
 15. „Hveragerði | Hverasvæðið í miðbænum“. www.hveragerdi.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. janúar 2020. Sótt 29. janúar 2020.
 16. „Hveragerði | Hverasvæðið í miðbænum“. www.hveragerdi.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. janúar 2020. Sótt 29. janúar 2020.
 17. „„Allir þekkja Drullusundið““. www.mbl.is. Sótt 29. janúar 2020.
 18. Sveinn Þórðarson og Þorgils Jónasson. „Um hitaveitur á Íslandi“ (PDF).
 19. 19,0 19,1 19,2 19,3 19,4 19,5 Þorgils Jónasson. „Borholur í Hveragerði“ (PDF).
 20. „Hitaveita Hveragerðis til sölu“. www.mbl.is. Sótt 29. janúar 2020.
 21. „Orkuveita Reykjavíkur kaupir Hitaveitu Hveragerðis“. www.mbl.is. Sótt 30. janúar 2020.
 22. gconvert (21. september 2010). „Kaupverð gæti verið nálægt milljarði króna“. sunnlenska.is. Sótt 29. janúar 2020.
 23. brynjolfurthor (29. maí 2018). „Tíu ár frá Suðurlandsskjálftanum“. RÚV (enska). Sótt 29. janúar 2020.
 24. „Sprungur í Reykjafjalli austan Hveragerðis | Íslenskar orkurannsóknir“. www.isor.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. janúar 2020. Sótt 29. janúar 2020.
 25. „Lögreglan keyrir um með gjallarhorn í Hveragerði - Vísir“. visir.is. Sótt 29. janúar 2020.
 26. „Skýrsla Almannavarna vegna jarðskjálfta á Suðurlandi 29. maí 2008“.