Hellisheiði
- Þessi grein fjallar um heiðina á Suðurlandi, en nafnið getur líka átt við Hellisheiði á Austurlandi.
Hellisheiði er heiði sunnan Henglafjalla, sem markast af Hurðaráss frá Núpafjalli, Hengladalaá í austri, en Litla- og Stóra-Skarðsmýrarfjalli í norðri. Í vestur nær hún að Reykjafelli og Lakahnúkum og í suður frá Hverahlíð að Hlíðarhorni og um Hurðarásvötn að Hurðarási. Kambar taka við þar sem hallar niður í Ölfus að austanverðu. Heiðin er víðast eldbrunnin og hraunin eru að mestu vaxin mosa og lyngi. Yngsta hraunið er talið hafa runnið frá 6 km langri sprungu árið 1000. Um Hellisheiði er fjallvegur milli Hveragerðar og Reykjarfells, sem Suðurlandsvegur (Þjóðvegur 1) liggur um. Heiðin er 374 metra há.
Vegur hefur legið um heiðina um aldir. Gamla hraungatan sem liggur yfir heiðina fór niður af henni vestan megin í Hellisskarði upp af Kolviðarhóli. Akvegur var fyrst gerður um heiðina um aldamótin 1900 og lá vegurinn þá niður af heiðinni austanmegin niður Kambana í ótal beygjum og hlykkjum. Vegurinn var lagaður til á fjórða áratugnum og hélst í því vegstæði þar til ákveðið var að fara í að gera fullkominn malbikaðan veg yfir heiðina, sem lagður var á árunum 1970-1972. Vegurinn var þá byggður upp með klifurreinum í brekkum sem þóttu nýstárlegar á Íslandi á þeim árum. Á árunum 2013-2015 er áætlað að fara í að breikka veginn um heiðina í 2+1 veg og aukaakrein bætt við veginn í Kömbunum á leið niður.
Skíðaskálinn í Hveradölum er staðsettur nálægt veginum þar sem hann liggur um Hveradalabrekku. Leiðin um Þrenglsaveg er yfirleitt snjólétt og því er hún notuð sem varaleið að vetri. Enginn hellir er á Hellisheiði og ekki er vitað hví hún heitir svo.
Sjá einnig
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Grein um Hellisheiði á www.nat.is Geymt 19 september 2010 í Wayback Machine Lesin 29.8.2013