Levi Eshkol
Levi Eshkol לֵוִי אֶשְׁכּוֹל | |
---|---|
Forsætisráðherra Ísraels | |
Í embætti 26. júní 1963 – 26. febrúar 1969 | |
Forseti | Zalman Shazar |
Forveri | David Ben-Gurion |
Eftirmaður | Golda Meir |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 25. október 1895 Orativ, rússneska keisaradæminui (nú Úkraínu) |
Látinn | 26. febrúar 1969 (73 ára) Jerúsalem, Ísrael |
Þjóðerni | Ísraelskur |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn |
Maki | Rivka Maharshak (1922–1927) Elisheva Kaplan (1930–1959) Miriam Zelikowitz (1964–1969) |
Trúarbrögð | Gyðingdómur |
Börn | Noa, Dvora, Tamma, Ofra |
Starf | Skæruliði, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Levi Eshkol (25. október 1895 – 26. febrúar 1969) var ísraelskur stjórnmálamaður sem var þriðji forsætisráðherra Ísraels. Hann var forsætisráðherra frá árinu 1963 þar til hann lést úr hjartaáfalli árið 1969. Eshkol var einn af stofnendum ísraelska Verkamannaflokksins og hafði áður gegnt ýmsum mikilvægum embættum, meðal annars embætti varnarmálaráðherra (1963–1967) og fjármálaráðherra (1952–1963).
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Levi Eshkol fæddist árið 1895 í þorpi nálægt Kænugarði, sem þá var hluti af rússneska keisaraveldinu. Á unga aldri var Eshkol virkur í hreyfingum síonista. Hann flutti til Palestínu (sem þá var undir stjórn Tyrkjaveldis) árið 1914 og hóf þar störf sem landbúnaðarverkamaður. Hann gekk í Gyðingahersveit sem barðist ásamt Bretum gegn Tyrkjum í fyrri heimsstyrjöldinni.[1] Hann var einn af skipuleggjendum helstu stofnana fyrstu byggða Gyðinga í Palestínu og varð féhirðir stjórnmálaflokksins Hapoel Hatzair og landbúnaðarmiðstöðvar gyðinga.
Árið 1929 var Eshkol kjörinn formaður landnámsnefndar innan síonistaþingsins og var einn af skipuleggjendum margvíslegrar uppbyggingar í gyðingasamfélaginu. Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi var Eshkol staddur þar og var honum því falið að fá þýska Gyðinga til að flytja sem mest af fjármagni sínu til Palestínu. Meðal annars gekk þetta út á að kaupa þýskar landbúnaðarvélar, láta senda þær til Palestínu og leggja andvirði þeirra í banka þar. Nasistar gerðu Eshkol brottrækan úr Þýskalandi vegna þessara aðgerða.[1] Árið 1937 stofnaði Eshkol vatnsveitufyrirtækið Mekorot og var forstjóri þess til ársins 1951.
Meðfram þessum störfum kleif Eshkol upp metorðastigann í verkalýðs- og stjórnmálahreyfingum Gyðinga í Palestínu. Þegar Ísraelsríki var formlega stofnað árið 1948 varð Eshkol varnarmálaráðherra og frá 1948–1963 var hann formaður landnámsnefndar Ísraela. Hann var kjörinn á annað Knesset-þingið árið 1951 og varð landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Davids Ben-Gurion sama ár.
Eshkol var útnefndur forsætisráðherra eftir afsögn Ben-Gurions árið 1963. Hann leiddi síðan Verkamannaflokkinn til sigurs í kosningum til sjötta Knesset-þingsins árið 1965 og leiddi ríkisstjórn landsins næstu sex árin. Stuttu eftir að hann tók við embætti gerði hann nokkrar mikilvægar breytingar. Meðal annars batt hann enda á herstjórn yfir ísraelskum aröbum. Hann fór einnig í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna og var fyrsti leiðtogi Ísraelsríkis sem var formlega boðið í heimsókn í hvíta húsið.
Á forsætisráðherratíð Eshkols börðust Ísraelar í sex daga stríðinu árið 1967 og unnu stórsigur gegn arabískum nágrannaþjóðum sínum.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Eshkol er snjall samningamaður“. Tíminn. 12. júní 1963. Sótt 3. mars 2019.
Fyrirrennari: David Ben-Gurion |
|
Eftirmaður: Golda Meir |