Fara í innihald

Gísli Brynjúlfsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gísli Brynjúlfsson, f. 3. sept. 1827, d. 29. maí 1888, var íslenskt skáld, norrænufræðingur og dósent við Kaupmannahafnarháskóla. Hann var einn af stofnendum tímaritsins Norðurfara, en það fjallaði um skáldskap og þjóðfélagsmál.

Ætt, uppruni og nám

[breyta | breyta frumkóða]

Gísli Brynjúlfsson var heitinn eftir föður sínum, Gísla Brynjúlfssyni, prófasti að Hólmum í Reyðarfirði, f. í Heydölum 25. ágúst 1794, d. 26. júní 1827, en að réttu var hann Gíslason. Brynjúlfsson varð að ættarnafni. Móðir hans var Guðrún Stefánsdóttir, Þórarinssonar á Grund í Eyjafirði, en Þórarinn var fæddur 24. ágúst 1754. Stúdent varð hann 1845 með 1. ágætiseinkunn. Hann tók 2. lærdómspróf ári seinna við Kaupmannahafnarháskóla með 2. einkunn, en í skólann innritaðist hann 23. október 1845, þá 18 ára að aldri. Hóf nám í lögfræði við lagadeild sama skóla, en skipti fljótlega yfir í norræn fræði og bókmenntir. Hann lauk þó ekki prófi í þessum greinum. Hann stundaði ritstörf, bæði bundið og óbundið mál, og voru ljóðmæli hans þekkt á Íslandi. Styrkþegi Árnasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn, varð hann 1848 og hélt því til ársins 1874, er hann var skipaður dósent við háskólann bókmenntum og sögu Íslands. Kona, g. 1855, Marie Nicoline Gerdtzen, af dönskum ættum. Þau hjón áttu enga afkomendur.[1]

Ritstörf og áhrif

[breyta | breyta frumkóða]

Tímaritið Norðurfari var stofnað 27. febrúar 1848 í Kaupmannahöfn. Stofnendur, auk Gísla Brynjúlfssonar, voru Benedikt Gröndal f. 6. október 1826, d. 2. ágúst 1907, og Jón Thoroddsen, f. 5. október 1818. Markmið Norðurfara var að endurspegla umræðu og sjónarmið stofnendanna og yngri kynslóðarinnar í skáldskap og þjóðfélagsmálum. Þeir þrír voru félagar í Fjölnisfélaginu, en Fjölnir kom ekki lengur út á þessum tíma. Fannst stofnendum að fleiri tímarit vantaði til umfjöllunar um málefni sem þeir vildu gjarnan vekja áhuga á, á Íslandi og hjá íslenskum stúdentum og menntamönnum í Kaupmannahöfn. Norðurfari var prentaður 16. maí 1848 og sendur til Íslands síðar í sama mánuði. Á meðan á undirbúningi stóð varð þeim félögum sundurorða þannig að Benedikt Gröndal skildi við hópinn. Voru þeir Gísli Brynjúlfsson og Jón Thoroddsen þá eftir sem sem útgefendur. Í þessari fyrstu útgáfu birtust frumsömd ljóð eftir Gísla, ferðasaga eftir Jón Thoroddsen, ljóð eftir Benedikt Gröndal, Jón Jónsson Norðmann og Guðnýju Jónsdóttur frá Klömbrum. Þar voru líka þýdd kvæði eftir Hóras og ensku skáldin Burns og Byron. Í ritinu er stjórnmálaritgerð eftir Gísla, þar sem hann ræðir ný áhrif frelsis og lýðræðis, og setur fram sýn á framtíðarskipulag og möguleika þjóðfélagsþróunar sem segi skilið við eldri gildi og venjur. Byltingarnar í Evrópu 1848 höfðu mikil áhrif á skrif hans um þessi efni. Þá er rætt um þörfina fyrir fleiri æðri skóla á Íslandi, og óbeint um þörfina fyrir íslenskan háskóla. Síðari árgangur Norðurfara kom út í maí 1849. Þar voru m.a. birtar greinar um endurreisn Alþingis og þróun íslenskra bókmennta undanfarin áratug. Aukin vitund um íslenskt þjóðerni, dýrkun á íslenskri fornöld og rómantík í skáldskap og þjóðfélagsumræðu voru mest áberandi öflin í Norðurfara. Þjóðfundurinn 1850 var framundan og margar tilllögur gerðar varðandi stjórnskipun og endurreist Alþingi. Kvæði og ljóðmæli voru í seinni árganginum eins og þeim fyrri, en sumt af þeim var gagnrýnt á þeim forsendum að þau væru stælingar á kveðskap Jónasar Hallgrímssonar.

Útgáfa Norðurfara varð kveikja að aukinni umræðu á Íslandi um þau málefni sem timaritið setti á oddinn.[2]

Gísli Brynjúlfsson var kjörinn á þing fyrir Skagfirðinga 1858 og var á þingi 1859 til 1863. Hann sótti um stöðu sem prófessor í Lundi í Svíþjóð 1864 en hlaut ekki stöðuna, þrátt fyrir góð meðmæli ýmisra fræðimanna. Á Alþingi 1865 og og 1867 voru uppi tilllögur um stofnun íslensks kennaraembættis í Íslandssögu og íslenskri fornfræði, með aðsetri í Reykjavík, en ekkert varð úr því þá. Þessi umræða var talin að nokkru miðast við þann möguleika að Gísli Brynjúlfsson fengi starfið. Árið 1870 samþykkti heimspekideild Kaupmannahafnarháskóla styrk handa Gísla Brynjúlfssyni til að halda fyrirlestra um stjórnmálalega stöðu Íslands og Danmerkur, en fyrirlestrarnir áttu að styrkja samband og auka skilning milli landanna. Gísli sóttu um dósentsstöðu við háskólann 1873, en því var hafnað. Þó mælti heimspekideildin með því að Gísli héldi áfram fyrirlestrum sínum næstu árin. Hinn 24. apríl 1874 var Gísli settur sem aukadósent við skólann, með skyldu til að halda jafnframt fyrirlestra um sögu Íslands og bókmenntir á Íslandi og í Danmörku. Þetta var að hluta gert til að minnast þúsund ára byggðar á Íslandi 1874. Gísli sótti síðar um prófessorsembætti við heimspekideildina en fékk ekki. Heilsu hans fór hrakandi næstu árin, einkum 1883 og 1886 er hann var í veikindaleyfi. Árið 1887 fékk hann þriðja og síðasta leyfið frá störfum vegna heilsubrests og andaðist árið eftir. Gísli Brynjúlfsson var talinn góður fyrirlesari með víðtæka þekkingu, en hann átti ekki gott með að einbeita sér að neinu einu áhugamáli eða sviði lengi í einu, og því dreifðust kraftar hans víðar en ella hefði verið.[3]

  • Fyrir skál Kristjáns konungs hins níunda við þúsund ára hátíð Íslands í Kaupmannahöfn 7. ágúst 1874. Gísli Brynjúlfsson, Kaupmannahöfn 1874.
  • Dagbók í Höfn. Gísli Brynjúlfsson. Eiríkur Hreinn Finnbogason bjó til prentunar. Reykjavík. Heimskringla, 1952.
  • Magyarar og Ungaraland. Gísli Brynjúlfsson þýddi. Ljóðmæli Gísla Brynjúlfssonar 1891.
  • Nogle bemærkinger om "málaspjót", "málajárn" og de beslægtede ord. Gísli Brynjúlfsson. Annaler for nordisk oldkyndighed og historie, Kaupmannahöfn 1852.
  • Svava: Ýmisleg kvæði. Eftir Benedikt Gröndal, Gísla Brynjúlfsson, Steingrím Thorstensson. Kaupmannahöfn. Páll Sveinsson, 1860.
  • Ljóðmæli. Gísli Brynjúlfsson. Eiríkur Hreinn Finnbogason gaf út. Menningarsjóður. Reykjavík, 1955.
  • Ljóðmæli. Gísli Brynjúlfsson. 1891.
  • Prentað upp úr Fróða 19. apríl 1884. Gísli Brynjúlfsson. Akuryri 1884.
  • Tvö bréf til móður. Gísli Brynjúlfsson. Aðalgeir Kristjánsson bjó til prentunar. Ritmennt 2003.
  • Bannock-burn. Eptir Burns. Gísli Brynjúlfsson þýddi. Ljóðmæli Gísla Brynjúlfssonar, 1891.


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Bjarni Jónsson frá Unnarholti. Íslenskir Hafnarstúdentar. BS Bókaútgáfan Akureyri 1949.
  2. Aðalgeir Kristjánsson. „Gísli Brynjúlfsson og Norðurfari“.
  3. Aðalgeir Kristjánsson. „Háskólakennsla Gísla Brynjúlfssonar“.