Rómversk-kaþólska kirkjan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kaþólsk trú)

Rómversk-kaþólska kirkjan eða kaþólska kirkjan er stærsta trúfélag heims[1] og langstærsta kristna kirkjudeildin. Orðið kaþólska kemur úr gríska orðinu καθολικός kaþolikos sem þýðir „almenn“ eða „það sem gildir um alla tíma“ og vilja margar aðrar kirkjudeildir einnig eigna sér þetta hugtak

Samtals voru um 1,3 milljarður manna skírðir til kaþólskrar trúar í heiminum árið 2018 en það er um sjötti hluti íbúa jarðar.[2] Á Íslandi voru skráðir um 15.000 safnaðarfélagar árið 2023.[3] Rómversk-kaþólska kirkjan telur sig vera beinan erfingja fyrstu kristnu söfnuða postulanna tólf og sérlega heilags Péturs. Hún samanstendur af 23 kirkjudeildum, hver með sína helgisiði. Sú stærsta er hin latneska eða vestræna kirkja, og þá eru 22 austrænar kirkjudeildir sem allar líta á páfann í Róm sem leiðtoga og yfirmann sem og læriföður sinn í siðfræðilegum og andlegum efnum.[4] Páfinn er einnig þjóðhöfðingi minnsta ríkis í heimi, Vatíkansins.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Róðukross, í kaþólskum sið er algengara að nota kross með líkneski af líkama Jesú en hreint krossmerki

Kaþólska kirkjan álítur sig vera þann söfnuð sem Jesús stofnaði gegnum postulana Pétur og Pál og hefur alla tíð haldið því fram að hún sé eina kristna kirkjan sem byggi á boði Jesú sem fram kemur í Mattheusarguðspjalli, 16:18-19. Samkvæmt hefð kirkjunnar stofnaði Pétur postuli sjálfur fyrsta söfnuð kristinna manna í Róm og samkvæmt sömu hefð var hann grafinn þar sem nú stendur Péturskirkjan.

Kristnir menn voru um aldir ofsóttir af stjórnvöldum Rómaveldis þar til að Konstantínus mikli veitti íbúum ríkisins trúfrelsi árið 313. Samkvæmt hefð kirkjunnar tók hann skírn á dánarbeði og hefur verið nefndur fyrsti kristni keisarinn. Aldirnar eftir breiddist hinn latneski siður um alla Vestur- og Norður-Evrópu og um 1500 kristnuðust síðustu svæði Skandínavíu og Eystrasaltslandanna. Meðal germanskra þjóða áttu latnesku kristniboðarnir í harðri samkeppni við fylgjendur Aríusar en unnu sigur á þeim er yfir lauk. Til að byrja með var lítil miðstjórn meðal hinna kristnu safnaða þó að rómverski keisarinn væri að nafninu yfirmaður kirkjunnar. Kirkjuþing, þar sem saman komu biskupar og helstu trúarspekingar samtímans, komu saman nokkrum sinnum til að taka ákvarðanir um stefnur og strauma er fylgja skyldi. Á þessum tíma mótaðist guðfræði kirkjunnar, sérstaklega af Tómasi frá Aquino, og jafnframt festist skipulag kirkjunnar meðal annars með tilkomu klausturreglnanna.

Klofningur Rómaveldis í Austur- og Vestur-Rómarríki á 5. öld leiddi meðal annars af sér að kirkjan skiptist í austur- og vesturhluta. Biskupinn í Róm hafði aukið völd sín smám saman og varð embætti hans að því sem kallað er Páfaríkið. Páfinn krafðist þess að allar kristnar kirkjur viðurkenndu embætti hans sem leiðtoga og yfirmann kristni. Austurkirkjurnar neituðu að sætta sig við það og sökuðu latnesku kirkjuna um rangtúlkanir á ýmsum trúaratriðum. Kirkjusundrungin varð algjör árið 1054 þegar sendimaður páfa skildi eftir bannlýsingu á patríarkanum í Konstantínópel á altarinu í Ægisif. Enn verra verð sambandið þegar krossfarar í fjórðu krossferðinni 1204 rændu og rupluðu Konstantínópel. Allt frá þeim tíma hafa kaþólska kirkjan og rétttrúnaðarkirkjan verið aðskildar þó samtöl og samskipti milli þeirra hafi verið tekin upp að nýju á síðustu áratugum.

Á 11. og 12. öld átti kaþólska kirkjan í mikilli vörn í Suður-Evrópu gegn katörum sem töldu páfann vera Antikrist og náðu miklu fylgi, sérlega í norður Ítalíu, norður Spáni og suður Frakklandi. Það var ekki fyrr en 1209 að kaþólska kirkjan náði yfirhöndinni með Albingensakrossferðinni.

Á seinni hluta 13. aldar fór pólitískt vald kirkjunnar í Evrópu dvínandi þegar lénsherrar fengu meiri völd og kröfðust yfirráða yfir kirkjunni á sínu svæði og gerðu jafnvel eignir kirkjunnar upptækar.

Kenningar Lúthers og Kalvíns og þau siðaskipti sem af þeim leiddi á fyrri hluta 16. aldar urðu til þess að kaþólska kirkjan hvarf af sjónarsviðinu á stórum hluta norður Evrópu og átti í vök að verjast víðar. Kaþólska kirkjan safnaðist til endurreisnar með kirkjuþinginu í Trentó 1545-1563. Kirkjan var endurskipulögð, nýjar klausturreglur voru stofnaðar, meðal annarra Jesúítareglan og allt ytra starf kirkjunnar varð herskárra að yfirbragði. Kaþólsk trú breiddist út um lönd Rómönsku Ameríku, Afríku, Indlands og suðaustur Asíu með nýlenduherrum Spánar og Portúgals.

Annað Vatíkanþingið (1962–1965) olli straumhvörfum í afstöðu kaþólsku kirkjunnar til nútímasamfélags og annarra kirkna og trúarbragða. Þetta þing er allmennt álitið hafa verið eitt af mikilvægustu skrefunum í sögu kaþólsku kirkjunnar og jafnframt einn af þýðingarmestu atburðum í trúarheimi 20. aldar. Á þinginu deildu frjálslyndir og íhaldssamir um hvort kirkjan ætti að umbreytast til að mæta samkeppni nútímans eða endurvekja og styrkja hefðirnar. Að þinginu loknu hefur kirkjan leitast eftir bættum samskiptum við aðrar kristnar kirkjur og tekur mikinn þátt í ökumenísku starfi. Helgisiðum kirkjunnar var einnig breytt á þinginu og má nú meðal annars nota önnur tungumál en latínu við messu. Þrátt fyrir að margt í ytra starfi kirkjunnar hafi breyst stóðu trúarkenningar hennar óhreyfðar.

Trúarkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Vulgataútgáfa Biblíunnar

Grundvallarkenningar kaþólsku kirkjunnar byggja á Nikeu trúarjátningunni og Postullegu trúarjátningunni. Kaþólska kirkjan er sammála rétttrúnaðarkirkjunum og mótmælendakirkjum að kenningin um Heilaga þrenningu sé þungamiðja trúarinnar. En öfugt við þær hinar kirkjudeildirnar leggja kaþólikkar áherslu á mikilvægi kirkjunnar sem stofnun Jesú og haldið frá trúarvillum af innblæstri frá Heilögum anda og þar með nauðsynleg þáttur í frelsun manna. Sakramenti kaþólsku kirkjunnar eru sjö: Skírnin, altarissakramentið, ferming, hjónavígsla, prestsvígsla, sakramenti sjúkra og sakramenti iðrunar (skriftir). Sakramenti kirkjunnar er verknaður sem táknar nærveru Krists og eru þau óafturkallanleg fyrir Guði. Það er trúarleg ástæða þess að kaþólska kirkjan leyfir ekki hjónaskilnaði.

Kennivald kirkjunnar byggir á þremur máttarstólpum, Biblíunni (Scripturis Sacris), hefð kirkjunnar (Traditione apostolica) og túlkunarmætti páfa (Magisterium Ecclesiae).

Kaþólska kirkjan telur heilög þau rit sem er að finna í latnesku svo kallaðri Vulgata útgáfu af Biblíunni frá 5. öld.

Trúarhefð kirkjunnar hefur margar uppsprettur, þær helstu byggja á munlegum sögnum postulanna og aðrar á ritum kirkjufeðranna. Einn mikilvægasti þáttur hefðarinnar er postullega erfðakenningin (Successio apostolica). Samkvæmt henni er ein meginforsenda túlkunarréttar kirkjunnar að embætti hennar hafa gengið gegnum vígslu í beinan arf mann fram af manni frá postulunum fram til okkar tíma.

Pétur postuli málaður af Masaccio 1425

Túlkunarmátt páfa er þannig lýst í Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar: „Það verkefni að túlka Orð Guðs með sönnum hætti hefur einvörðungu verið falið kennsluvaldi kirkjunnar, það er að segja, páfanum og þeim biskupum sem eru í samneyti við hann“.[5] Þetta vald fær páfinn vegna þess að hann er beinn erfingi Péturs postula. Kirkjan er, eins og sagt er í ritningunni, „líkami Krists“ (Efesusbréfið 1:22-23 og Rómverjabréfið 12:4-5) og kaþólska kirkjan kennir að hún sé ein og óskipt samfélag allrar trúaðra bæði á jörðu og á himni. Þess vegna er einungis til ein sönn, opinber og áþreifanleg kirkja, ekki margar. Jesús, sem stofnaði þessa kirkju upprunalega ásamt þeim Pétri og hinum postulunum, veitti Pétri það vald að kenna og varðveita trúna.

Dýrlingar[breyta | breyta frumkóða]

Dýrlingar eru mikilvægur þáttur í trúarkenningum kaþólsku kirkjunnar og eru eins konar milligöngumenn milli guðs og manna. Þeir eru taldir njóta sérstakrar blessunar Guðs og á þá má heita. Þeir einir eru dýrlingar í augum kaþólsku kirkjunnar sem teknir hafa verið formlega í dýrlingatölu. Fyrstu dýrlingar kirkjunnar voru píslarvottar sem voru píndir og teknir af lífi fyrir trú sína í árdaga kristninnar. Á seinni öldum hefur kirkjan tekið menn í dýrlingatölu eftir stranga rannsókn á verðleikum. Rannsóknin er framkvæmd eftir reglum sem hafa verið til síðan á 10. öld. Hún hefst með því að frásögur um kraftaverk tengd áheitum á væntanlegan dýrling og dýrlingshæfni viðkomanda er rannsökuð af næsta biskupi. Sérstök nefnd guðfræðinga í Vatíkaninu metur skýrslu biskupsins og fer með málið í sérstakan dómstól til að leiða í ljós hvort tvö kraftaverk að minnsta kosti hafi átt sér stað, eftir dauða viðkomandi, fyrir milligöngu hans frá himnaríki. Eftir það getur páfi tekið hann í dýrlingatölu, og er það nefnt að kanónísera. Í rómversk-kaþólsku kirkjunni eru Þorlákur helgi Þórhallsson verndardýrlingur Íslands[6]

Skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Péturskirkjan í Róm

Kaþólska kirkjan er miðstýrð alþjóðasamtök sem er óháð ríkjum og landamærum. Yfirmaður kirkjunnar er biskupinn í Róm, páfinn. Nýr páfi er valinn úr röðum kardínála samkvæmt sérstakri reglu. Páfinn velur kardinála úr röðum biskupa sér til aðstoðar og hafa margir þeirra hlutverk sem svipar til ráðherra í veraldlegum ríkisstjórnum.

Skipulag kirkjunnar er þannig að undir páfastól og þingi kardínála stjórna erkibiskupar hver sínu umdæmi. Undir hverjum erkibiskup eru biskupar sem stjórna kirkjusóknum með einum eða fleir prestum. Í kaþólsku kirkjunni geta einungis karlmenn þjónað sem sem prestar, byggir sú kenning á tilvitnun í bréf Páls postula til Kórintumanna „skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir.“[7] Í latneskum sið geta einungis ókvæntir karlmenn sem leggja stund á skírlífi verið prestar eða gegnt hærri embættum í kirkjunni. Hinar svo kölluðu austurlensku kaþólsku kirkjur heimila hins vegar að prestar (sem einungis eru karlmenn) séu kvæntir.

Klausturreglur[breyta | breyta frumkóða]

Teresusystur, nunnur í reglu Kærleiksboðberanna

Eitt af einkennum kaþólsku kirkjunnar sem aðgreinir hana frá mótmælendakirkjum eru klausturreglurnar. Þær eru fjölmargar og eru mjög mismunandi í uppbyggingu og starfi. Klausturreglur karlmanna eru nefndar munkaklaustur og kvenna nunnuklaustur. Í klaustri vígja meðlimir líf sitt Guði og afneita veraldlegu lífi. Sumar reglur krefjast þess að meðlimir einangri sig frá umheiminum en aðrar að meðlimir stundi líknarstörf, kennslu eða trúboð. Sameiginlegt er þeim öllum að krefjast þess að meðlimir afneiti öllu kynlífi til þess að geta helgað sig trúarkölluninni.

Nánast allar klausturreglurnar eiga sér rætur innan þriggja mikilvægra tímabila í sögu kirkjunnar. Það fyrsta tilheyrir þeim tíma er kirkjan var að komast í fastar skorður og eiga þær reglur sem þú uxu fram rætur að rekja til einsetumanna frumkristni. Þær helstu er reglur Ágústínusar og Benedikts. Næsta tímabil er frá 11. til 13. öld þegar katarar og aðrar trúarhreyfingar sóttu mjög á kirkjuna, þó uxu fram reglur fransiskana og cisterciana sem lögðu áherslu á meinlæta líf en einnig dómeníkana sem gegndu mikilvægu hlutverki í ofsóknum á hendur þeim sem álitnir voru villutrúar. Siðaskipti mótmælenda voru aðalástæða þess að Jesúítareglan ásamt öðrum reglum uxu fram á 16. öld.

Kaþólska kirkjan á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Kaþólska kirkjan á sér langa sögu á Íslandi og var um tíma bönnuð eftir siðaskiptin.

Nú er það annað fjölmennasta trúfélagið á Íslandi og eru um 4% landsmanna meðlimir, margir þeirra pólskir og filippeyskir innflytjendur.

Kaþólska eða katólska[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður A. Magnússon, rithöfundur og þýðandi, skrifaði grein í Skírni 1992, þar sem hann fjallaði um íslenskan rithátt grískra orða. Í greininni segir hann það ósið Íslendinga að skrifa katólskur í stað kaþólskur og þykir miður að menn þrjóskist enn við slíkan rithátt. Helgi Hálfdánarson, þýðandi skrifaði grein sama ár í Morgunblaðið og fjallaði þar um grein Sigurðar og var að mörgu ósammála. Þar talar hann einnig um orðið kaþólikki og segir: „Hitt er þó enn verra, að þeir sem játa katólska trú eru einatt kallaðir kaþólikkar. Ekki leynir sér útlenskan á bak við þetta tvöfalda k, sem gerir orðið með afbrigðum kauðalegt og óvirðulegt, eins og svo mörg tökuorð sem bera útlenskuna utan á sér. Eðlilegast er, að katólskir menn séu á íslensku nefndir katólar og trú þeirra katólska“.[8] Algengara er að skrifa kaþólska með þ-i.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Yfirlit yfir helstu trúflokka í heiminum“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. mars 2015. Sótt 8. maí 2007.
  2. Statistical Yearbook of the Church 2004, Libreria Editrice Vaticana
  3. „Mannfjöldi eftir trú og lífsskoðunarfélögum 1998-2023“. Hagstofan. Sótt 10. júlí 2023.
  4. Lumen gentium, chapter III
  5. http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html Trúfræðslurit Kaþólsku Kirkjunnar, óopinber útgáfa í þýðingu Reynis K. Guðmundssonar
  6. „Maríukirkja - Prédikun“. mariu.kirkju.net. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. janúar 2022. Sótt 6. apríl 2022. Þorlákur biskup Þórhallsson verndardýrlingur Íslands á vef Maríukirkju.
  7. 1. Korintubréf 14:33-38, Biblían
  8. Morgunblaðið 1992[óvirkur tengill]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]