Encyclopædia Britannica
Alfræðiorðabókin Britannica (enska: Encyclopædia Britannica ) er elsta alfræðiorðabókarútgáfan á ensku um almenn málefni. Greinar hennar eru almennt taldar áreiðanlegar, nákvæmar og vel skrifaðar.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Upphaflega var alfræðiorðabókin gefin út í Edinborg af prentaranum Colin Macfarquhar og leturgrafaranum Andrew Bell. Fyrsta útgáfan var í þremur bindum sem komu út, eitt á ári, 1768 til 1771. Ritið seldist vel og þegar komið var að fjórðu útgáfunni árið 1809 voru bindin orðin tuttugu. Á áttunda áratug nítjándu aldar flutti útgáfan frá Edinborg til London og varð hluti af samsteypu dagblaðsins The Times. Eftir elleftu útgáfu Britannicu, árið 1911, flutti hún á ný, nú til Chicago, þar sem hún komst í eigu Sears verslanafyrirtækisins. Hún er enn staðsett í Chicago, en síðan 1996 hefur eigandinn verið svissneski milljarðamæringurinn Jacqui Safra sem á líka Merriam-Webster orðabókina. Síðasta útgáfan kom út í 32 bindum árið 2010.
Í mars árið 2012 var tilkynnt að prentútgáfu ritsins yrði hætt en áfram yrði hugað að þróun Encyclopædia Britannica Online.
Samningur við Íslenska ríkið
[breyta | breyta frumkóða]Þann 20. apríl 1999 gerði Björn Bjarnason fyrir hönd menntamálaráðuneytis Íslands samning við Encyclopedia Britannica International Ltd þess efnis að öll íslensk IP-net fengju aðgang að vefútgáfu alfræðiorðabókarinnar gegn ákveðnum skilyrðum, sem sett voru fram í samningnum. Gilti hann til 30. apríl 2000 og borgaði ráðuneytið 10,000 sterlingspund, eða rúmlega eina milljón íslenskra króna fyrir.
Þetta var í fyrsta skipti sem slíkur aðgangur hafði verið keyptur fyrir heilt land, en slíkir samningar eru oftast gerðir við einstaka skóla, þá oftast mennta- eða háskóla. Verðið sem einstaklingur þarf að borga fyrir ársaðgang að alfræðiorðabókinni á vefnum er 40 pund. Miðað við það fékk menntamálaráðuneytið um 99,9 prósenta afslátt ef borið er saman við að íbúar landsins hefðu allir keypt aðgang sjálfir.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Vefsíða Encyclopædia Britannica
- Útgáfa Britannica sem Ísland hefur fullan aðgang að
- Skönnuð útgáfa af Encyclopædia Britannica frá árinu 1911
- Hluti 1911 útgáfunnar hjá Project Gutenberg.
- Samingur menntamálaráðuneytisins við Encyclopedia Britannica International Ltd
- Fréttatilkynningin „Aðgangur Íslendinga að alfræðiorðabókinni Encyclopædia Britannica“ frá menntamálaráðuneytinu
- Tölur um aðsókn frá íslenskum IP-netum að Britannica