Fara í innihald

Heiðni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heimur ása og vana

Heiðni er mest notað um oft frekar óskipulagða trú og trúarbrögð fyrri tíma sem nú eru flest horfin. Á Íslandi er það fyrst og fremst notað um trú norrænna manna áður en þeir tóku upp kristna trú. Heiðni á Íslandi er oftast kölluð ásatrú en það er tiltölulega ungt hugtak sem kom ekki fram fyrr en á 19. öld.

Ásatrú er þó ekki bundin við æsi eina heldur hvaða goð eða vættir sem er innan norrænnar goðafræði og þjóðtrúar, svo sem landvættir, álfa, dísir, vani, jötna, dverga og aðrar máttugar verur eða forfeður. Margir ásatrúarmenn líta frekar á ásatrú sem sið eða lífsstíl heldur en bein trúarbrögð, trúa á mátt sinn og megin og jafnframt á lífið sjálft.[1]

Áður fyrr kölluðu kristnir menn flesta sem voru annarrar trúar heiðingja. Þannig ritar Guðbrandur Þorláksson í þýðingu sinni á Musculis bænabók 1597: „en ekki í hjá Gyðingum, Tyrkjum eður öðrum heiðingjum“.[2] Í samtímafrásögnum af Tyrkjaráninu er iðulega talað um þá sem heiðingja.[2]

Heiðni á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi merkir heiðni yfirleitt trúarbrögðin sem talið er að meirihluti norrænna manna hafi aðhyllst áður en kristni var tekin upp á Norðurlöndum. Heiðni er líka kölluð hin norræna trú eða hinn forni siður. Landnáma og Íslendinga sögur eru mikilvægustu heimildirnar um heiðinn sið á Íslandi. Orðið heiðni er talið merkja að vera heiður eða skýr eins og skýlaus himinn, eða að trúarbrögðin séu trú heiðarbúa.

Líf eftir dauða

[breyta | breyta frumkóða]

Dauðir menn eru í heiðni ýmist taldir búa á meðal lifandi eða fara til Heljar eða í Valhöll. Ólíkar hugmyndir um þetta skýrist af því að í heiðni voru engin embætti sem samsvara biskupum eða páfa og hugmyndafræðinni því ekki miðstýrt. Menn litu einnig á það sem framhaldslíf að vera til í minningum eftirlifenda því að „orðstír deyr aldrei“ eins og segir í Hávamálum. Lík voru brennd eða grafin. Þar sem Íslendingasögur segja frá greftrun heiðinna er langoftast um að ræða að líkin séu lögð í haug. Á Íslandi hafa ekki fundist brunakuml ólíkt því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndum. Á Íslandi hafa fundist fimm bátakuml. Vopn hafa fundist í gröfum karla en meira ber á skrautgripum í gröfum kvenna. Einnig voru ýmis áhöld fyrir daglegt líf í gröfunum. Tilgangurinn með mununum er að hjálpa hinum dauðu að lifa góðu lífi í öðrum heimi. Á Dalvík fannst grafreitur með fjórtán kumlum í einni þyrpingu. Auk þrettán manna voru grafnir sjö hestar og fjórir hundar í reitnum. Í Mývatnssveit var meðal annarra hluta teningur og margar töflur eða taflmenn úr hvaltönn eða rostungstönn. Töflur af þessari gerð voru notaðar í tafli sem kallað er hnefatafl.

Heiðni eftir kristnitökuna

[breyta | breyta frumkóða]

Litlar sem engar heimildir eru til um goðadýrkun né blót á tímabilinu eftir kristnitökuna. Þó mátti samkvæmt kristnitökulögunum blóta goð á laun sem hugsanlega skýrir þennan skort á heimildum. Náttúrudýrkun aftur á móti lifði áfram og að einhverju leyti enn í dag, eins og ýmsar heimildir er að finna um í kirkjulögum, þjóðsögum og þjóðháttum síðari alda.

Í sögu Jóns biskups helga segir frá því að hann reyndi að banna blót á 12. öld og daga tengda heiðnum mönnum og guðum. Um 1200 segir frá því í Jómsvíkingadrápu að algengur siður sé að sitja undir fossum til að leita æðri visku.

Árið 1844 fannst á Vestfjörðum mannslíkan af Frey, en það var fúið og óvíst hvenær það var búið til og ekki hægt að fullyrða að það hafi verið notað til að dýrka goðið. Svipuð skurðgoð fundust á síðari öldum í afskekktum héröðum í Noregi, svo sem Þelamörk og Setesdal fram til miðbiks 19. aldar.

Gjafir voru bornar að steinum á Íslandi fram til aldamótanna 1900. Enn þann dag í dag trúir margt fólk á álfasteina og álfahóla.

Í könnunum meðal nútíma Íslendinga kemur fram að margir eru að einhverju leyti vættatrúar. Um 5% hafa séð álfa eða huldufólk og um 16% hafa séð fylgjur. Um 38% hafa orðið varir við návist látins manns, þar af um 5% látinn maka sinn. Um 62% Íslendinga telja mögulegt að álfar og huldufólk séu til, en um 13% telja það óhugsandi.[3]

Frá aldamótum hefur verið stöðug og vaxandi fjölgun í Ásatrúarfélaginu en 1. janúar 2017 voru 3583 Íslendingar skráðir í félagið. Það er yfir 1% af þjóðinni og einsdæmi í okkar heimshluta. Á sama tíma eru félagsmenn trúfélaga íslams, búddisma, hindúisma og Bahá'í 2662 samtals.[4]

Norræn trú er í dag iðkuð á Íslandi og víða erlendis undir heitinu ásatrú. Ásatrúarfélagið er skráð trúfélag fyrir fylgjendur ásatrúar og einnig trúfélagið Reykjavíkurgoðorð sem er allfámennt. Ásatrúarmenn virða æsina og önnur goð og vættir í norrænni goðafræði og líta á sem vini sína fremur en að krjúpa fyrir þeim.

Á landnámsöld Íslands voru Þór, Óðinn og Freyr höfuðguðir Norðurlandabúa. Njörður var einnig tignaður. Þór var m.a. kallaður almáttugur sem þýðir mjög sterkur. Í Landnámu segir að nálægt þúsund íslenskir menn báru nafn með sem innihélt Þórs nafn, en einungis fjórir menn með Freys nafn.

Á Íslandi er 21 örnefni sem nafn á fjöllum, tindum og klettum með orðinu Goð. Fimm Goðafossar eru til á Íslandi. Goðin í heiðni eru ekki jafn voldug og Kristur er í kristni. Goðin stjórna ekki allri tilverunni en geta þó gripið inn í líf fólks. Goðin lúta örlögum líkt og fólk. Sumum var ætluð gæfa en öðrum ógæfa.

Sumar dýrategundir eru helgaðar ákveðnum guði. Svín og hestur eru helguð Frey. Þór á hafra og Óðinn hrafna. En þótt hestar teljist heilagir í ásatrú tíðkast það meðal heiðinna að borða hrossakjöt. Enn í dag trúa margir að hrafninn viti fyrir óorðna hluti og segi tíðindi líkt og hrafnar Óðins sögðu honum fréttir.

Orðin blóta og blessa þýða að dýrka guð og eru í raun sama orðið, hið síðarnefnda tökuorð úr ensku. Blótsstaðir eru kallaðir hof, hörgar eða vé. Örnefni sýna að blótsstaðir voru mjög útbreiddir á Norðurlöndunum. Af nöfnunum þremur sem notuð eru um blótsstaði hefur vé víðtækasta merkingu, og getur táknað alla blótsstaði ásamt öðrum helgistöðum. Hof kallast musteri goðanna. Hörgur þýðir hóll eða hæð úr grjóti. Nítján örnefni með orðinu hörg eru þekkt á Íslandi, 43 bæjarnöfn og yfir 80 örnefni innihalda orðið hof. Í Noregi innihalda 107 bæjarnöfn orðið hof. Á Hofsstöðum í Mývatnssveit hafa tóftir verið rannsakaðar sem sýna fram á að þar voru haldin blót. Að sunnanverðu var stór skáli yfir 36 metra langur og um 5,8 til 8,2 metra breiður.

Þegar fórnir voru færðar í blótum kallaðist blóðið hlaut. Hlaut er skylt orðinu hlutur í hlutkesti. Blóðið var notað við spágerð. Bænir voru þuldar á meðan fórnir voru færðar. Varðveisla hofanna var í höndum hofgyðja og til þeirra áttu allir bændur að gjalda hoftoll.

Í ásatrú er stundum signað hamarsmark til að heiðra Þór líkt og í kristni er signaður kross. Drykkir í blótum kallast full en það er talið merkja 'skál', 'drykkjarílát' eða 'öl í horni', samanber að á fornensku merkir ful(l) ‘bikar’. Ef til vill er orðið dregið af 'fullt drykkjarker'.[5] Sumir halda að orðið tengist því að vera 'fullur', þ.e. undir áhrifum áfengis, en sú skýring á sér enga stoð. Menn strengdu heit í veislum og drukku full um leið. Menn sóru eiða og kölluðu bölvun yfir sig ef þeir rufu eiðana. Algengast var að vinna eiða við hluti sem stóð fólki næst í daglegu lífi. Þessi venja hélst á kristnum tímum. Í sumum tilfellum gerðu heil byggðarlög sameiginleg heit, ef hallæri bar að höndum.

Hólmgöngur og stofnun fóstbræðralags tíðkuðust á blótum. Fóstbræðralag var stofnað með því að taka blóð úr þeim sem bundust, hræra saman í mold, sverja eið um að hefna fóstbræðra sem bróður síns og nefna öll goðin sem vitni.

Nýfædd börn eru ausin vatni um leið og þeim er gefið nafn, líkt og lýst er meðal annars í Rígsþulu og ýmsum Íslendingasögum. Í Grágás segir að barn sem fæðist lifandi og tekur við mat fái þá um leið erfðarétt.

Orðið heilagur er skylt heill og heilbrigði og merkir gæfu. Þetta er eitt af mörgum orðum sem kristni tók upp úr heiðnum sið.

Hávamál í Eddukvæðum, eða orð Óðins, innihalda heilræði og leiðarljós í lífinu fyrir þá sem aðhyllast norræna heiðni. Í Hávamál er að finna heilræði um hvernig takast skal á við lífið með einföldum hætti. Hafa þak yfir höfuðið, vera fjárhagslega sjálfstæður, eiga mat, elska og vera elskaður, þar er tekin afstaða með vinnu, visku og vináttu. Menn eiga að taka vel á móti gestum en varast hættur o.s.frv.

Eins og títt er meðal þeirra sem aðhyllast fjölgyðistrú lúta kennisetningar norrænnar heiðni ekki miðstýringu eða „rétttrúnaði“. Enginn þarf að gangast undir annarra manna kennisetningar. Sumir leita eftir vináttusambandi við æsi og vani, aðrir eiga samskipti við álfa, dísir, stokka og steina eða jafnvel eigin vitund. Goðin og vættirnar eru í hugum margra myndlíking sem við þekkjum innra með okkur eða í vinum, samstarsfólki og ættingjum. Þau eru þá afl sem veitir frið og styrk. Goðin eru hvorki fullkomin né alvitur.

Siðurinn snýst um að lifa lífinu þannig að fólki líði sem best. Að vera í sátt við sjálfan sig og aðra. Helstu gildi og dyggðir í norrænni heiðni eru virðing, ábyrgð og heiðarleiki. Ábyrgð felst í því að taka ábyrgð á sjálfum sér, ættingjum og vinum, samfélaginu og náttúru. Fyrirgefning er ekki sótt til guðs heldur þess sem fólk á sökótt við. Þegar eitthvað fer úrskeiðis skal sá sem olli bæta úr því. Bera skal virðingu fyrir sjálfum sér og gera sitt besta, og bera jafna virðingu fyrir öllum öðrum óháð hörundslit, trúarbrögðum, kynhneigð o.s.frv. Heiðarleiki, að treysta og vera treyst, er grunnur þess að vera frjáls og öruggur.

Í norrænni heiðni er engin tilbeyðsla, ekki þarf að krjúpa fyrir guðum og guðir dæma fólk ekki. Veröldin er ekki svart-hvít og það sem fyrir ber er ekki allt illt eða gott. Hlutir hafa mismunandi góðar og slæmar hliðar, það verður flóð og fjara, dag og nótt, sumar og vetur. Fólk ber ábyrgð á því að vera raunsætt, bjartsýnt og gera það besta úr því sem í boði er.

Hvorki himnaríki né helvíti bíður heiðinna manna. Óvíst þykir að hugmyndir um sæluvist vopndauðra í Valhöll hafi verið kunnugar venjulegu fólki á tíma fornrar heiðni, heldur hafi þær orðið til í hirðum heiðinna herkonunga og hirðskálda þeirra við fjörbrot siðarins, skömmu fyrir kristnun Norðurlanda. Valhallarhugmyndinni hefur verið komið á flot til að eggja heiðna hermenn í vonlítilli varnarbaráttu við vígasveitir kristniboðskonunga. Heiðingjar nú á dögum hirða lítt um slíkt. Trúboð er ekki stundað á vegum Ásatrúarfélagsins og trúin einungis útskýrð fyrir þeim sem leita eftir því.

Höfuðblót

[breyta | breyta frumkóða]

Í Ynglingasögu Heimskringlu segir að Óðin hafi fyrirskipað að „Þá skyldi blóta í móti vetri til árs en að miðjum vetri blóta til gróðrar, hið þriðja að sumri.“ Hefur verið talið að blót mót vetri hafi líklega verið haldið á vetrarnóttum, miður vetur var samkvæmt norræna tímatalinu fyrsti dagur þorra bendir til þess að það hafi verið haldið seinnipartinn í janúar samkvæmt núverandi tímatali. Ekki er eins ljóst hvenær að sumri hið síðasta hafi verið haldið. Hafa sumir fræðimenn talið að það hafi verið haldið um mitt sumarmisserið líkt og að blót var haldið um mitt vetrarmisseri og þá líklega kringum sumarsólstöður og gætu þá jónsmessuhátíðir verið arfleið frá þeim tíma.

Fyrir utan þessi þrjú lögskipuðu blót voru oft haldin önnur blót af ýmsum tilefnum og ekki endilega á ákveðnum tímum og gátu þau verið staðbundinn eftir byggðarlögum. Eins var samkvæmt fornsögunum oft stofnað til blóts ef einhver stórviðburður átti sér stað í sveitinni alveg óháð tímasetningu. Í upphafi fylgdu margir Kristnir höfðingjar tímasetningum þessarra þriggja föstu blóta en breyttu þeim í almennar veislur. Þær voru í upphafi ekki tengdar kirkjunni né kristni sérstaklega í upphafi, heldur til að friðþægja almenning sem ekki vildu missa sínar föstu hátíðir og frí hver sem trúin eða tilefnið var. Smásaman var þó reynt að kristna þær með einum eða öðrum hætti.

Heiðingjar blóta ekki einungis hin heiðnu goð, heldur blóta og trúa einnig á margvísleg náttúrufyrirbæri, svo sem ýmsar vættir. Kallast það vættatrú eða þjóðtrú.

Landvættir

[breyta | breyta frumkóða]

Landvættir eru nefndar í Landnámu og áttu menn samkvæmt heiðnum lögum að sýna þeim kurteisi á siglingum við landið. Landvættir prýða nú skjaldamerki Íslands.

Í Heimskringlu segir frá því að Haraldur Danakonungur Gormsson hafi verið reiður, og sendi mann í hvalslíki í herferð til Íslands. Hann sá að öll fjöll og hólar voru fullir af landvættum, smáum sem stórum. Þegar hann gekk á land fylgdu honum ormar, pöddur og eðlur sem blésu eitri á hann. Síðar réðust að honum fuglar, bergrisar og jötnar. Íslendingar trúðu því að landvættir vernduðu landið.

Í Egils sögu segir að Egill reisti níð Eiríki konungi blóðöx og Gunnhildi drottningu, um að landvættir ættu að reka þau úr landi. Litlu síðar urðu þau að flýja land.

Ísland var talið eign landvætta og hulduvera áður en landnám hófst. Eldur var notaður til að leysa löndin úr álögum vættanna og um leið marka það svæði sem landnámsmenn tóku sér til eignar og afnota.

Í norskum kirkjulögum var tekið sérstaklega fram að bannað væri að trúa á landvættir þar sem slíkt heyri til heiðins átrúnaðar.

Tröll eru talin búa í fjöllum. Tröllin eru ekki gædd æðri hæfileikum og eru oftast óvinveitt mönnum. Tröllin voru einu vættirnar sem nutu engrar dýrkunar landsmanna. Jötnum var stundum kennt um eldgos.

Náttúrudýrkun

[breyta | breyta frumkóða]

Í Noregi og Íslandi voru blót helguð lundum, haugum, fossum, skógum, trjám og vötnum, ásamt skurðgoðum. Ekki er alltaf ljóst hvort dýrkunin var á náttúrinni sjálfri eða vættum sem bjuggu í henni. Lengi fram eftir öldum átii fólk sér sérstök heimilistré og trúðu menn að velferð heimila væri komin undir því hvernig trén þrifust. Á Íslandi eru ekki færri en átta fjöll sem heita Helgafell og öllum svipar þeim til hallar í útliti. Fólk hafði átrúnað á þessum fjöllum.

Í Landnámu segir frá Þorsteini rauðnef sem blótaði Leifðafoss hjá Rauðnefsstöðum. Fossinn krafðist stöðugra sauða fórna af Þorsteini gegn því að veita honum auðsæld og framsýni.

Í Noregi tíðkast enn í dag að fórna smjöri fyrir sólina með því að setja það á húsþök og láta sólina bræða.

Mikið er um örnefni og þjóðtrú um vættir í steinum á Vestfjörðum. Var þeim hyglað með matargjöfum. Heimildir eru til um að matur var borinn vættum um aldamótin 1900. Stundum hefur því verið trúað að dísir byggju í steinum. Börnum var bannað að leika sér nálægt dísasteinum og ekki mátti vera þar með læti. Bannað var að slá gras í grenndinni. Annars myndi ógæfa steðja að. Í Ísafjarðarsýslu eru 19 örnefni tengd landdísum.

Orðið dís er haft um ýmiss konar kvenættir: ásynjur, valkyrjur, hamingjur og fylgjur.

Í Hallfreðar sögu er talað um fylgjukonu. En hvergi er þess getið að fylgjur væru blótaðar. Fylgjur töldust ekki til landvætta þar sem þær fylgja fólkinu en ekki landinu. Fylgja manns var oft í líki dýrs og fór á undan eiganda sínum. Sæu maður fylgju annars manns var ljóst að hans væri von innan skamms. Hins vegar var það jafnan feigðarboði að sjá sína eigin fylgju.

Í Snorra Eddu er talað um álfa sem búa í Álfaheimum í himni, og í jörðu. Álfar voru blótaðir á Íslandi, í Svíþjóð og Noregi. Til eru sagnir um konur sem færðu álfum mat. Alsiða var að húsmæður skömmtuðu álfum mat á gamlárskvöld og buðu heim með þessum formála: Komi þeir, sem koma vilja, veri þeir, sem vera vilja, og fari þeir, sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Hvað er Ásatrú?“. Ásatrúarfélagið. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. júní 2018. Sótt 23. maí 2019.
  2. 2,0 2,1 Tyrkjaránið á Íslandi. Útgefandi Sögufélag, 1906.
  3. „Erlendur Haraldsson: Þessa heims og annars. Könnun á dulrænni reynslu Íslendinga, trúarviðhorfum og þjóðtrú“. Bókaforlagið Saga. Sótt 23. maí 2019.[óvirkur tengill]
  4. [1] Geymt 9 janúar 2018 í Wayback MachineHagstofa Íslands: Mannfjöldi eftir trú- og lífsskoðunarfélögum 1998-2017
  5. Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík, 1999. Bls. 215.

Norræn goðafræði