Einingarríki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Einstýrt ríki)
Kort af skiptingu landa heimsins í einingarríki og sambandsríki.
  Einingarríki

Einingarríki er ríki sem byggir á sterku miðlægu ríkisvaldi þar sem staðbundin stjórnvöld svo sem sveitar- eða héraðsstjórnir hafa afmarkað hlutverk og minni völd. Einingarríki er andstaðan við sambandsríki. Munurinn er sá að í sambandsríki er litið svo á að hið miðlæga ríkisvald sé samband smærri stjórnsýslueininga (s.s. fylkja í Bandaríkjunum eða sambandslanda í Þýskalandi) og fari með vald sitt í umboði þessara smærri eininga á meðan miðlæg stjórnvöld í einingarríkjum fara með ríkisvaldið í grunninn en framselja það mögulega til staðbundinna stjórnvalda í mismunandi mæli. Tilvist smærri stjórnsýslueininganna í sambandsríki er gjarnan tryggð með stjórnarskrá þannig að hið miðlæga ríkisvald geti ekki afnumið eða breytt tilhögun þeirra án samþykkis þeirra en í einingarríkjum hafa miðlæg stjórnvöld frjálsari hendur með slíkar breytingar.

Þó að land teljist til einingarríkis getur vel verið að hlutar landsins hafi mikla sjálfsstjórn og mögulega heimastjórn. Þannig hefur Skotland til að mynda eigið þing og mikla sjálfstjórn innan Bretlands en samkvæmt breskri stjórnskipan gæti breska þingið þó fræðilega afnumið heimastjórn Skotlands með einfaldri lagasetningu þar sem heimastjórnin fer aðeins með þau völd sem hún hefur fengið sérstaklega framseld frá miðlægum stjórnvöldum Bretlands.

Flest lönd í heiminum eru einingarríki. 166 af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna teljast einingarríki.