Sumarólympíuleikarnir 1952

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Paavo Nurmi tendrar Ólympíueldinn í Helsinki.

Sumarólympíuleikarnir 1952 voru haldnir í Helsinki í Finnlandi frá 19. júlí til 3. ágúst. Áður hafði staðið til að Helsinki hýsti leikana árið 1940, en þeir féllu niður vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Fjöldi landa tók þátt í Ólympíuleikum í fyrsta skipti í Helsinki, þar á meðal Sovétríkin og Alþýðulýðveldið Kína.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Ólympíuleikvangurinn í Helsinki, myndin er tekin í kringum heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum 2005.

Ólympíuleikarnir 1940 áttu að fara fram í Tókýó í Japan. Vegna stríðs Japana og Kínverja ákvað Alþjóðaólympíunefndin á árinu 1938 að leikarnir skyldu haldnir í Helsinki, sem lent hafði í öðru sæti í staðarvalinu. Finnar voru vel undir verkefnið búnir. Framkvæmdir við Ólympíuleikvanginn höfðu hafist þegar árið 1934 og var hann tekinn í notkun á árinu 1938. Arkitektar hans voru þeir Yrjö Lindegren og Toivo Jäntti, en þeir voru ásamt Alvar Aalto leiðandi í þróun finnskrar byggingarlistar um miðja tuttugustu öld.

Árið 1947 var ákveðið hvar halda skyldi leikana fimm árum síðar. Helsinki vann þar afgerandi sigur í keppni við Amsterdam, Minneapolis, Los Angeles, Detroit, Chicago og Fíladelfíu.

Þjóðverjar og Japanir tóku á ný þátt eftir heimsstyrjöldina, auk þess sem Sovétríkin og Kína bættust í hóp þátttökuþjóða. Sú ráðstöfun varð þó til þess að Formósa sniðgekk leikana af pólitískum ástæðum.

Keppnisgreinar[breyta | breyta frumkóða]

Keppt var í 149 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn[breyta | breyta frumkóða]

Bandaríkin unnu til flestra gullverðlauna. Næstir komu nýliðar Sovétmanna, en í þriðja sæti varð Ungverjaland sem telja mátti eitt mesta íþróttaland heims þótt íbúarnir væru einungis rétt um átta milljónir.

Emil Zátopek ásamt silfurverðlaunahafanum í Maraþonhlaupi á leikunum 1952, Reinaldo Gorno frá Argentínu.

Kringlukastarinn Nina Romashkova vann til fyrstu gullverðlauna Sovétmanna í Ólympíusögunni. Sovétríkin hlutu raunar líka silfrið og bronsið í greininni.

Emil Zátopek frá Tékkóslóvakíu þótti mestur afreksmaður frjálsíþróttakeppninnar. Hann sigraði í 5.000 metra hlaupi, 10.000 metrum og í Maraþonhlaupi, þrátt fyrir að hafa aldrei áður hlaupið þá vegalengd og ákveðið á síðustu stundu að taka þátt. Hann setti Ólympíumet í öllum þremur greinunum.

Eiginkona Emils, Dana Zátopková, fékk gullverðlaunin í spjótkasti. Átta árum síðar, á Ólympíuleikunum í Róm, vann hún til silfurverðlauna í sömu grein, þá 37 ára að aldri.

Ingemar Johansson og Floyd Patterson berjast um heimsmeistaratitilinn í þungavigt árið 1959. Báðir voru þeir meðal verðlaunahafa á leikunum í Helsinki.

Joseph Barthel hlaut gullið í 1.500 metra hlaupi og varð þar með óvæntasti sigurvegari frjálsíþróttakeppninnar. Hann er eini gullverðlaunahafi Lúxemborgar í sögu Sumarólympíuleikanna.

Bandaríkjamaðurinn Walter Davis sigraði í hástökki. Á barnsaldri veiktist hann af lömunarveiki og gat ekki gengið í þrjú ár, en náði að yfirvinna fötlun sína. Eftir Ólympíuleikana gerðist hann atvinnumaður í körfubolta og lék í NBA um nokkurra ára skeið.

Ungverjar urðu Ólympíumeistarar í knattspyrnu. Gullaldarlið þeirra, með Ferenc Puskás fremstan í flokki, vakti í fyrsta sinn verulega athygli á leikunum og var næstu misserin talið það besta í heimi.

Bandaríkjamenn unnu körfuknattleikskeppnina að vanda. Sovétmenn voru andstæðingar þeirra í úrslitaleiknum og gripu til þess ráðs að keyra niður hraðann. Úrslitin urðu því sérkennileg, 36:25.

Meðal þátttakenda í hnefaleikakeppninni voru nöfn sem síðar áttu eftir að lifa í hnefaleikasögunni. Bandaríkjamaðurinn Floyd Patterson hlaut gullið í millivigt og Svíinn Ingemar Johansson fékk silfurverðlaunin í þungavigt. Báðir áttu eftir að verða heimsmeistarar atvinnumanna í þungavigt. Gullverðlaunin í þeim þyngdarflokki á leikunum komu hins vegar í hlut Ed Sanders, sem gerðist atvinnumaður líkt og hinir en lést í hnefaleikahringnum árið 1954.

Íþróttin Pesäpallo var sýningargrein á leikunum. Það er afbrigði af hafnarbolta sem er nær einvörðungu spilað í Finnlandi og af fólki af finnskum uppruna annars staðar í heiminum.

Þátttaka Íslendinga á leikunum[breyta | breyta frumkóða]

Íslendingar lögðu ríka áherslu á að koma glímunni inn á dagskrá Ólympíuleikanna sem sýningargrein. Ekki var orðið við þeim óskum, en glímuflokkur á vegum Ármanns hélt þó til Helsinki og sýndi íþróttina þar í borg á sama tíma og leikarnir fóru fram.

Knattspyrnumenn höfðu hug á að taka þátt á leikunum, enda fullir sjálfstrausts eftir óvæntan 4:3 sigur á Svíum á Melavellinum 1951. Kostnaður við slíkt ævintýri reyndist þó að lokum of mikill. Einnig var hætt við að senda sundfólk á leikana af sömu ástæðu.

Níu frjálsíþróttamenn kepptu fyrir Íslands hönd, allt karlar. Það voru hlaupararnir Ásmundur Bjarnason, Pétur Fr. Sigurðsson, Guðmundur Lárusson, Hörður Haraldsson, Ingi Þorsteinsson og Kristján Jóhannsson. Stangarstökkvarinn Torfi Bryngeirsson og kringlukastararnir Friðrik Guðmundsson og Þorsteinn Löve.

Tíundi íþróttamaðurinn var tugþrautarkappinn Örn Clausen. Miklar vonir voru bundnar við þátttöku hans, en Örn tognaði illa eftir að til Helsinki var komið og gat því ekki tekið þátt. Kristján Jóhannsson setti eina Íslandsmetið á leikunum þegar hann náði 26. sæti í 10.000 metra hlaupi. Aðrir keppendur voru nokkuð frá sínu besta.

Árangurinn olli verulegum vonbrigðum á Íslandi, þar sem væntingarnar höfðu verið mjög miklar.

Verðlaunaskipting eftir löndum[breyta | breyta frumkóða]

Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1  Bandaríkin 40 19 17 76
2 Sovétríkin 22 30 19 71
3 Fáni Ungverjalands Ungverjaland 16 10 16 42
4  Svíþjóð 12 13 10 35
5  Ítalía 8 9 4 21
6 Tékkóslóvakía 7 3 3 13
7  Frakkland 6 6 6 18
8  Finnland 6 3 13 22
9  Ástralía 6 2 3 11
10  Noregur 3 2 0 5
11  Sviss 2 6 6 14
12 Suður-Afríka 2 4 4 10
13 Jamæka 2 3 0 5
14  Belgía 2 2 0 4
15  Danmörk 2 1 3 6
16 Tyrkland 2 0 1 3
17  Japan 1 6 2 9
18  Bretland 1 2 8 11
19 Argentína 1 2 2 5
20 Pólland 1 2 1 4
21 Kanada 1 2 0 3
Júgóslavía 1 2 0 3
23 Rúmenía 1 1 2 4
24  Brasilía 1 0 2 3
Nýja Sjáland 1 0 2 3
26  Indland 1 0 1 2
27 Lúxemborg 1 0 0 1
28  Þýskaland 0 7 17 24
29 Holland 0 5 0 5
30 Íran 0 3 4 7
31 Chile 0 2 0 2
32  Austurríki 0 1 1 2
Líbanon 0 1 1 2
34 Írland 0 1 0 1
Mexíkó 0 1 0 1
Spánn 0 1 0 1
37 Suður-Kórea 0 0 2 2
Trínidad og Tóbagó 0 0 2 2
Úrúgvæ 0 0 2 2
40 Búlgaría 0 0 1 1
Egyptaland 0 0 1 1
Portúgal 0 0 1 1
Venesúela 0 0 1 1
Alls 149 152 158 459