Líbanon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
الجمهوريّة اللبنانيّة
Al Jumhuriyah al Lubnaniyah
Fáni Líbanons Skjaldarmerki Líbanons
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Koullouna Lilouataan Lil Oula Lil Alam
Staðsetning Líbanons
Höfuðborg Beirút
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Enginn
Forsætisráðherra Najib Mikati
Sjálfstæði undan Frakklandi
 - Yfirlýst 26. nóvember 1941 
 - Viðurkennt 22. nóvember 1943 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
161. sæti
10.452 km²
1,8
Mannfjöldi
 - Samtals (2014)
 - Þéttleiki byggðar
112. sæti
6.859.408
560/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 - Samtals 91 millj. dala (90. sæti)
 - Á mann 15.049 dalir (66. sæti)
VÞL (2018) Decrease2.svg 0.730 (93. sæti)
Gjaldmiðill líbanskt pund (LBP)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .lb
Landsnúmer +961
Beirút

Líbanon (arabíska: لبنان‎ Libnān eða Lubnān; líbönsk arabíska: [lɪbˈneːn]; arameíska: לבנאנ) er land fyrir botni Miðjarðarhafs í Mið-Austurlöndum með landamæri að Sýrlandi í austri og norðri og Ísrael í suðri.

Elstu merki um siðmenningu í Líbanon eru um sjö þúsund ára gömul. Í fornöld var landið norðurhluti Kananslands. Fönikumenn ríktu yfir Líbanon frá 1550 til 539 f.Kr. þegar Kýros mikli lagði landið undir Persaveldi. Alexander mikli lagði Týros undir sig, brenndi borgina og seldi íbúana í þrældóm 332 f.Kr. Pompeius vann Líbanon og Sýrland af Selevkídum 64 f.Kr. Kristnir munkar (maronítar) stofnuðu munklífi á Líbanonfjalli á 4. öld. Arabar lögðu Sýrland undir sig á 7. öld. Á 11. öld spratt hreyfing Drúsa upp úr sjía-grein íslam. Snemma á 14. öld féll Líbanon í hendur mamlúka frá Egyptalandi og síðar Tyrkjaveldi. Eftir fyrri heimsstyrjöld varð Líbanon hluti af Franska verndarsvæðinu í Sýrlandi og Líbanon sem Stór-Líbanon. Árið 1926 stofnuðu Frakkar Líbanska lýðveldið sem lýsti yfir sjálfstæði árið 1943 þegar Frakkland var hernumið af Þjóðverjum. Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar gekk Líbanon í gegnum blómaskeið sem miðstöð fjármálaþjónustu í Mið-Austurlöndum. Landið var þá kallað „Sviss Mið-Austurlanda“.

Líbanon studdi hin arabaríkin í fyrsta stríði Araba og Ísraelsmanna 1948, en gerði ekki innrás í Ísrael. Um 100.000 palestínskir flóttamenn flúðu til Líbanon vegna stríðsins. Ósigur PLO í Jórdaníu varð til þess að fjölga enn flóttamönnum í Líbanon sem leiddi til borgarastyrjaldar árið 1975. Stríðinu lauk árið 1990 en Ísraelsher hvarf ekki frá suðurhéruðum landsins fyrr en árið 2000 og Sýrlandsher ekki fyrr en 2005. Árið 2006 réðist Ísraelsher á landið til að stöðva eldflaugaárásir Hezbollah á skotmörk í norðurhluta Ísraels. Aftur kom til átaka árið 2008 milli líbanskra stjórnvalda og Hezbollah-samtakanna. Borgarastyrjöldin í Sýrlandi sem hófst árið 2012 hefur aftur leitt til átaka í Líbanon, en talið er að tæplega 700.000 sýrlenskir flóttamenn séu í landinu.

Íbúafjöldi Líbanon var áætlaður rúmlega fjórar milljónir árið 2010, en ekkert formlegt manntal hefur farið fram í landinu frá 1932 vegna væringa milli ólíkra trúarhópa. Talið er að tæp 60% íbúa séu múslimar (þar af helmingur sjíamúslimar og helmingur súnnítar) og tæp 40% kristin (þar af rúmlega 20% maronítar). Langflestir tala líbanska arabísku en um 40% tala líka frönsku sem nýtur sérstakrar stöðu. Efnahagur Líbanon hvílir á fjölbreyttum grunni en stór hluti útflutnings er gull, demantar og góðmálmar. Nýlega hefur jarðolía fundist í Líbanon og í hafinu milli Líbanon og Kýpur.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Líbanon dregur nafn sitt af Líbanonfjalli en nafn þess kemur úr fönísku, lbn, sem merkir „hvítt“ og vísar til snævi þaktra tinda þess.

Heitið kemur fyrir í textum frá miðri bronsöld úr bókasafninu í Eblu og á þremur af tólf töflum Gilgameskviðu. Í fornegypskum heimildum kemur nafnið fyrir sem Rmnn (þar sem l verður r og b verður m). Heitið kemur margoft fyrir í hebresku biblíunni sem לְבָנוֹן.

Sem heiti á stjórnsýslueiningu, fremur en fjalli, kemur heitið fyrst fyrir eftir umbætur Ottómana 1861 sem Mútassarifat Líbanonfjalls (arabíska: متصرفية جبل لبنان‎; tyrkneska: Cebel-i Lübnan Mutasarrıflığı) og var áfram notað þegar Þjóðabandalagið stofnaði verndarríkið Stór-Líbanon árið 1920. Það fékk svo sjálfstæði sem Lýðveldið Líbanon (arabíska: الجمهورية اللبنانية‎ al-Jumhūrīyah al-Lubnānīyah) árið 1943.

Efnahagslíf[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnarskrá Líbanons tryggir frjáls viðskipti og eignarétt. Efnahagskerfið er skipulagt í anda frjálshyggju. Megnið af því er dollaravætt og engar hömlur eru á fjármagnsflutningum til og frá landinu. Afskipti líbanskra stjórnvalda af utanríkisverslun eru nær engin.

Efnahagslíf Líbanons óx hratt eftir Stríðið í Líbanon 2006 og meðalhagvöxtur var 9,1% milli 2007 og 2010. Eftir 2011 hefur Borgarastyrjöldin í Sýrlandi haft neikvæð áhrif á hagvöxt sem lækkaði niður í 1,7% 2011-2016 og 1,5% 2017. Árið 2018 var verg landsframleiðsla metin á 54,1 milljarð dala.

Opinberar skuldir í Líbanon eru miklar og mikil þörf fyrir ytri fjármögnun. Árið 2010 voru opinberar skuldir yfir 150,7% af landsframleiðslu, sem er það fjórða hæsta í heimi en höfðu þó lækkað úr 154,8% árið 2009. Við árslok 2008 sagði fjármálaráðherrann Mohamad Chatah að skuldirnar næðu 47 milljörðum dala það ár og myndu aukast í 49 milljarða ef einkavæðing tveggja símafyrirtækja gengi ekki eftir. Líbanska dagblaðið Daily Star skrifaði að skuldirnar hægðu á hagvexti og kæmu í veg fyrir að ríkið réðist í nauðsynlegar framkvæmdir.

Líbanon er þekkt fyrir mjög virkt viðskiptalíf meðal almennings, sem stafar meðal annars af viðskiptaneti líbanskra innflytjenda um allan heim. Peningasendingar frá brottfluttum Líbönum nema 8,2 milljörðum dala árlega og eru því fimmtungur efnahagslífs landsins. Líbanon hefur hæst hlutfall fagmenntaðs starfsfólks meðal Arabaríkjanna.

Um 12% vinnuafls vinnur við landbúnað sem stóð undir 5,9% af landsframleiðslu árið 2011. Hlutfall ræktarlands er hæst í Líbanon meðal Arabaríkjanna. Stór hluti af landbúnaðarframleiðslunni eru ávextir; ferskjur, epli, appelsínur og sítrónur.

Hrávörumarkaður Líbanon snýst meðal annars um framleiðslu á gullpeningum en samkvæmt stöðlum Alþjóðasambands flugfélaga verður að gera grein fyrir flutningi þeirra út fyrir landið.

Olía hefur nýverið fundist inni í landi og á hafsbotni í sjónum milli Líbanons, Kýpur, Ísraels og Egyptalands og viðræður eru í gangi við Kýpur og Egyptaland til að komast að samkomulagi um olíukönnun. Talið er að umtalsvert magn olíu og jarðgass sé að finna undir hafsbotninum milli Líbanons og Kýpur.

Iðnaður í Líbanon er mest bundinn við smáfyrirtæki sem setja saman og selja innflutta parta. Árið 2006 var iðnaður önnur stærsta atvinnugreinin með 26% vinnuafls og stóð undir 21% landsframleiðslunnar.

Um 65% vinnuaflsins vinnur í þjónustugeiranum sem stendur undir 67,3% af landsframleiðslu. Efnahagslífið er háð ferðaþjónustu og fjármálaþjónustu sem gerir það viðkvæmt fyrir áföllum og óstöðugu stjórnmálaástandi.

Líbanskir bankar eru þekktir fyrir greiðslugetu og mikið öryggi. Líbanon var eitt af fáum löndum heims þar sem hlutabréfamarkaðurinn óx árið 2008.

Þann 10. maí 2013 tilkynnti orkumálaráðherra Líbanons að verið væri að greina jarðsjármyndir af hafsbotninum við Líbanon og að 10% hans hefðu verið rannsökuð. Forskoðun benti til þess að 50% líkur væru á því að þessi 10% innihéldu 660 milljón tunnur af hráolíu og allt að 30×1012 rúmfet af jarðgasi.

Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur haft mikil áhrif á efnahagslíf Líbanons. Mikill fjöldi flóttamanna sem dvelur í landinu hefur skapað samkeppni á vinnumarkaðnum með þeim afleiðingum að atvinnuleysi hefur tvöfaldast á þremur árum og náði 20% árið 2014. Laun ómenntaðs verkafólks hafa lækkað um 14%. Ástandið hefur haft bein áhrif á fjármál íbúanna þar sem 170.000 Líbanir eru undir fátæktarmörkum. Á milli 2012 og 2014 jukust opinber útgjöld um 1 milljarð dala og hallinn fór upp í 7,5 milljarða. Seðlabanki Líbanons áætlar að bein útgjöld vegna flóttafólksins nemi 4,5 milljörðum á ári.

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Íbúafjöldi Líbanons var talinn vera 6.859.408 árið 2018, en ekkert opinbert manntal hefur farið fram í landinu frá 1932 þegar komið var á viðkvæmu valdahlutfalli milli ólíkra trúarhópa. Algengt er að Líbanar telji sig Araba sem er hentugt yfirheiti yfir þá mörgu ólíku hópa sem hafa byggt landið frá alda öðli sem frumbyggjar, innrásarmenn eða landnemar. Lengst af hafa þessir ólíku hópar lifað í landinu án mikilla átaka.

Frjósemishlutfall í landinu hefur lækkað úr 5,0 árið 1971 í 1,75 árið 2004. Hlutfallið er mjög ólíkt milli trúarhópa; það var 2,10 hjá sjítum, 1,76 hjá súnnítum og 1,61 hjá maronítum.

Líbanon hefur gengið í gegnum nokkrar stórar bylgjur af brottflutningi íbúa. Yfir 1,8 milljón fluttu frá landinu frá 1975 til 2011. Milljónir manna af líbönskum uppruna búa um allan heim. Stærsta þjóðarbrotið er í Brasilíu sem telur um 7 milljónir. Stór hópur flutti til Vestur-Afríku, aðallega til Fílabeinsstrandarinnar (um 100.000) og Senegal (um 30.000). Yfir 270.000 manns af líbönskum uppruna settust að í Ástralíu og í Kanada er talið að milli 250.000 og 700.000 íbúa séu af líbönskum uppruna. Nokkur fjöldi settist líka að í Persaflóalöndunum.

Árið 2012 bjuggu yfir 1,6 milljón flóttamenn og hælisleitendur í Líbanon; tæp hálf milljón frá Palestínu, um 3500 frá Írak, yfir 1,1 milljón frá Sýrlandi og um 4.000 frá Súdan. Samkvæmt Efnahags- og félagsmálanefnd fyrir Vestur-Asíu hjá Sameinuðu þjóðunum, búa 71% sýrlenskra flóttamanna í landinu við fátækt. Árið 2013 var talið að sýrlenskir flóttamenn í landinu væru yfir 1.250.000.

Tungumál[breyta | breyta frumkóða]

Í grein 11 í stjórnarskrá Líbanons er arabíska skilgreind sem opinbert tungumál landsins en franska er notuð þar sem lög kveða á um það. Meirihluti íbúa Líbanons talar líbanska arabísku em stöðluð nútímaarabíska er notuð í fjölmiðlum. Líbanskt táknmál er notað af heyrnarlausum. Um 40% Líbana teljast frönskumælandi og önnur 15% frönskumælandi að hluta. 70% framhaldsskóla kenna frönsku sem annað mál en aðeins 30% ensku. Áhrif frönskunnar stafa af sögulegum tengslum landsins við Frakkland sem réði yfir því í umboði Þjóðabandalagsins frá lokum Fyrri heimsstyrjaldar. Árið 2005 notuðu 20% íbúa frönsku daglega.

Notkun ensku fer vaxandi meðal vísindamanna og í viðskiptum. Líbanar af grískum, armenskum og assýrískum uppruna tala oft þessi mál. Árið 2009 voru um 150.000 íbúa Líbanons af armenskum uppruna, eða 5% þjóðarinnar.


  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.