Sumarólympíuleikarnir 1956

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Krikketvöllurinn í Melbourne var aðalleikvangur Ólympíuleikanna 1956.

Sumarólympíuleikarnir 1956 voru haldnir í Melbourne í Ástralíu frá 22. nóvember til 8. desember 1956. Þetta voru fyrstu Ólympíuleikarnir á Suðurhveli jarðar og fóru því fram á öðrum árstíma en venja var. Vilhjálmur Einarsson vann silfurverðlaun í þrístökki karla á þessum Ólympíuleikum. Það voru fyrstu verðlaun Íslendings á Ólympíuleikum.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Ákvörðunin um að halda leikana í Melbourne var tekin á árinu 1949. Buenos Aires, Mexíkóborg og sex bandarískar borgir (Los Angeles, Detroit, Chicago, Minneapolis, Fíladelfía og San Francisco) sóttust einnig eftir gestgjafahlutverkinu. Melbourne hlaut að lokum einu atkvæði meira en Buenos Aires.

Mótshaldið varð að pólitísku bitbeini ástralskra stjórnmálamanna og um skeið var óttast að ekkert yrði úr því. Kom til alvarlegrar umræðu að Rómarborg sem halda átti leikana 1960 myndi hlaupa í skarðið. Allt gekk þó upp að lokum og voru Ólympíuleikarnir settir á aðalleikvangi keppninnar, Krikketvellinum í Melbourne, á tilsettum tíma.

Vegna reglna um innflutning dýra, gat hestaíþróttakeppnin ekki farið fram í Ástralíu. Þess í stað var hún haldin í Svíþjóð nokkrum mánuðum fyrr.

Alþjóðastjórnmálin settu strik í reikninginn. Vegna Súesdeilunnar sátu Egyptar, Líbanir og Írakar heima. Sovétmenn brutu niður uppreisnina í Ungverjalandi fáeinum vikum fyrir leikanna og ákváðu þá Spánverjar, Hollendingar og Svisslendingar að sniðganga Ólympíuleikana til að mótmæla því að Sovétmönnum væri ekki vísað úr keppni. Á síðustu stundu hættu svo Kínverjar við að mæta, vegna deilna um þátttöku Formósu.

Keppnisgreinar[breyta | breyta frumkóða]

Keppt var í 145 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn[breyta | breyta frumkóða]

Betty Cuthbert hlaut þrenn gullverðlaun í spretthlaupi á leikunum. Styttur af henni og nokkrum öðrum gullverðlaunahöfum Ástrala standa fyrir utan Krikketvöllinn í Melbourne.

Sovétríkin tóku þátt í sínum öðrum Ólympíuleikum og skutu Bandaríkjamönnum aftur fyrir sig í keppninni um flest gullverðlaunin.

Hetja Sovétmanna á leikunum var Vladimir Petrovich Kuts sem sigraði í 5.000 og 10.000 metra hlaupi.

Rafvirkinn Egil Danielsen frá Noregi var eini gullverðlaunahafi Norðurlandanna í frjálsum íþróttum. Hann sigraði í spjótkasti á nýju heimsmeti, 85,71 metri.

Bandaríkjamaðurinn Charlie Jenkins sigraði í 400 metra hlaupi og var í sigursveitinni í 400 metra boðhlaupi. Sonur hans, Chip Jenkins, var í bandarísku sveitinni sem sigraði í sama hlaupi á Ólypmpíuleikunum í Barcelona. Eru þetta einu feðgarnir sem unnið hafa gull í sömu keppnisgrein á Ólympíuleikum.

Adhemar Ferreira da Silva frá Brasilíu varði gullverðlaun sín frá leikunum í Helsinki fjórum árum fyrr með því að sigra í þrístökkskeppninni. Vilhjálmur Einarsson varð í öðru sæti.

Hans Günther Winkler hlaut tvenn gullverðlaun í hestaíþróttakeppninni, sem halda þurfti í Stokkhólmi hálfu ári fyrir sjálfa Ólympíuleikana.

Bandaríkjamaðurinn Harold Connolly sigraði í sleggjukasti og Olga Fikotová frá Tékkóslóvakíu í kringlukasti. Þau urðu ástfangin á leikunum og gengu í hjónaband skömmu síðar. Gerðu fjölmiðlar sér mikinn mat úr því hvernig ástin hefði sigrað járntjaldið. Fikotová átti að baki landsleiki í bæði handknattleik og körfubolta áður en hún sneri sér að kringlunni.

Innrásin í Ungverjaland setti svip sinn á leikana. Ungversku íþróttamennirnir voru komnir til Ástralíu áður en Sovétmenn réðust inn. Sumir þeirra sneru aftur heim eftir leikana en aðrir fengu pólitískt hæli. Stundum varð heitt í kolunum þegar ungverskir og sovéskir íþróttamenn mættust á leikunum. Þannig varð viðureign þjóðanna í sundknattleik alræmd. Leikurinn snerist upp í blóðug slagsmál og var flautaður af áður en upp úr sauð á áhorfendapöllunum. Ungverjar urðu enn eina ferðina Ólympíumeistarar í greininni.

Indverjar unnu hokkíkeppnina, sjötta skiptið í röð, að þessu sinni með markatöluna 38:0.

Austur- og Vestur-Þjóðverjar kepptu sameiginlega undir heiti og fána Þýskalands. Löndin tefldu þó ekki fram blönduðum liðum í hópíþróttum, þannig voru bara Vestur-Þjóðverjar í þýska knattspyrnuliðinu. Fótboltakeppnin varð raunar hálfgerður farsi, þar sem fimm af sextán þátttökuliðum drógu sig úr keppni. Sovétríkin, Júgóslavíaog Búlgaría höfnuðu vandræðalaust í þremur efstu sætunum. Kommúnistaríkin í Austur-Evrópu skilgreindu bestu leikmenn sína sem áhugamenn og því löglega á Ólympíuleikunum, meðan lönd Suður-Ameríku og Vestur-Evrópu sendu algjör varalið skipuð unglingum og áhugamönnum.

Þátttaka Íslendinga á leikunum[breyta | breyta frumkóða]

Íslendingar voru í samfloti með öðrum keppendum frá Norðurlöndunum til Melbourne. Fékk Ísland þrjú sæti í flugvélinni og var ákveðið að senda Vilhjálm Einarsson þrístökkvara og Hilmar Þorbjörnsson spretthlaupara, auk fararstjóra. Skiptar skoðanir voru um hvort skilja ætti fararstjórann eftir, en senda Valbjörn Þorláksson stangarstökkvara sem þriðja mann. Valbjörn hafði náð Ólympíulágmarki einu sinni, en reglur íslensku Ólympíunefndarinnar sögðu að því þyrfti að ná að minnsta kosti tvisvar.

Hilmar átti að keppa í 100 og 200 metra hlaupi, en var fjarri sínu besta í 100 metrunum þar sem hann meiddist og gat því ekki tekið þátt í seinni greininni.

Vilhjálmur Einarsson setti Ólympíumet í þrístökkskeppninni og var í efsta sæti þar til keppinautur hans, Da Silva frá Brasilíu, náði forystunni með lokastökki sínu. Þar með hlutu Íslendingar sín fyrstu verðlaun á Ólympíuleikum og þau einu fram að leikunum 1984.

Knattspyrnusamband Íslands ráðgerði þátttöku á leikunum og hafði umsókn þess verið samþykkt af Alþjóðaknattspyrnusambandinu. Deilur um styrki til þátttöku urðu til þess að KSÍ dró lið sitt úr keppni. Þar sem fimm lið hættu við þátttöku á síðustu stundu, hefðu Íslendingar væntanlega öðlast rétt til þátttöku sem varalið ef umsókninni hefði verið haldið til streitu.

Verðlaunaskipting eftir löndum[breyta | breyta frumkóða]

Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1 Flag of the Soviet Union.svg Sovétríkin 37 29 32 98
2 Fáni Bandaríkjana Bandaríkin 32 25 17 74
3 Fáni Ástralíu Ástralía 13 8 14 35
4 Fáni Ungverjalands Ungverjaland 9 10 7 26
5 Fáni Ítalíu Ítalía 8 8 9 25
6 Fáni Sviþjóðar Svíþjóð 8 5 6 19
7 Flag of Germany.svg Þýskaland 6 13 7 26
8 Fáni Bretlands Bretland 6 7 11 24
9 Flag of Romania.svg Rúmenía 5 3 5 13
10 Fáni Japans Japan 4 10 5 19
11 Fáni Frakklands Frakkland 4 4 6 14
12 Flag of Turkey.svg Tyrkland 3 2 2 7
13 Fáni Finnlands Finnland 3 1 11 15
14 Flag of Iran.svg Íran 2 2 1 5
15 Flag of Canada-1868-Red.svg Kanada 2 1 3 6
16 Flag of New Zealand.svg Nýja Sjáland 2 0 0 2
17 Flag of Poland.svg Pólland 1 4 4 9
18 Flag of Czechoslovakia.svg Tékkóslóvakía 1 4 1 6
19 Flag of Bulgaria.svg Búlgaría 1 3 1 5
20 Fáni Danmerkur Danmörk 1 2 1 4
21 Flag of Ireland.svg Írland 1 1 3 5
22 Fáni Noregs Noregur 1 0 3 4
23 Flag of Mexico.svg Mexíkó 1 0 2 3
24 Fáni Indlands Indland 1 0 0 1
25 Fáni Braselíu Brasilía 1 0 0 1
26 Flag of SFR Yugoslavia.svg Júgóslavía 0 3 0 3
27 Flag of Chile.svg Chile 0 2 2 4
28 Fáni Belgíu Belgía 0 2 0 2
29 Flag of Argentina.svg Argentína 0 1 1 2
30 Flag of South Korea.svg Suður-Kórea 0 1 1 2
31 Fáni Íslands Ísland 0 1 0 1
32 Flag of Pakistan.svg Pakistan 0 1 0 1
33 Flag of South Africa (1928-1994).svg Suður-Afríka 0 0 4 4
34 Fáni Austuríkis Austurríki 0 0 2 2
35 Flag of the Bahamas.svg Bahamaeyjar 0 0 1 1
36 Flag of Greece.svg Grikkland 0 0 1 1
37 Fáni Sviss Sviss 0 0 1 1
38 Flag of Uruguay.svg Úrúgvæ 0 0 1 1
Alls 153 153 163 469
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist