Ferenc Puskás
Ferenc Puskás | ||
Upplýsingar | ||
---|---|---|
Fullt nafn | Ferenc Purczeld Biró, „Puskás“ | |
Fæðingardagur | 1. apríl 1927 | |
Fæðingarstaður | Búdapest, Ungverjalandi | |
Dánardagur | 17. nóvember 2006 | |
Leikstaða | Sóknarmaður | |
Meistaraflokksferill1 | ||
Ár | Lið | Leikir (mörk) |
1943–1949 | Kispest A.C. | 177 (187) |
1949–1955 | → Honvéd | 164 (165) |
1957 | Espanyol (gestur) | () |
1958–1966 | Real Madrid | 182 (157) |
Landsliðsferill | ||
1945–1956 1961–1962 |
Ungverjaland Spánn |
85 (84) 4 (0) |
Þjálfaraferill | ||
1967 1967 1968 1968–1969 1970–1974 1975 1975–1976 1976–1977 1978–1979 1979–1982 1985–1986 1986–1989 1989–1992 1993 |
Hércules CF San Francisco Golden Gate Gales Vancouver Royals Deportivo Alavés Panathinaikos Real Murcia Colo-Colo Sádi Arabía AEK Aþena Al-Masry Club Sol de América Cerro Porteño South Melbourne Hellas Ungverjaland | |
1 Leikir með meistaraflokkum og mörk |
Ferenc Puskás (fæddur 1. apríl 1927 í Búdapest, dó 17. nóvember 2006 í Búdapest) var ungverskur knattspyrnumaður og einhver þekktasti knattspyrnumaður heims fyrir afrek sín með ungverska landsliðinu og Real Madrid.
Ævi og ferill
[breyta | breyta frumkóða]Ferenc Puskás fæddist árið 1927 og hlaut nafnið Ferenc Purczeld. Foreldrar hans tilheyrðu þýska þjóðernisminnihlutanum í Ungverjalandi og breyttu þau ættarnafni sínu í Puskás árið 1937, svo það félli betur að ungversku. Puskás eldri hafði leikið knattspyrnu með Kispest A.C. sem síðar hlaut nafnið Honvéd og að keppnisferlinum loknum sneri hann sér að unglingaþjálfun hjá félaginu og var þar m.a. þjálfari sonarins, sem hann skráði undir fölsku nafni til að komast framhjá reglum um lágmarksaldur leikmanna. Síðar varð hann aðalþjálfari félagsins og urðu þeir feðgarnir saman Ungverjalandsmeistarar árið 1950.
Síðla árs 1943 lék Puskás sinn fyrsta leik með aðalliði Kispest, sextán ára gamall. Hann vakti þegar athygli og aðeins átján ára að aldri náði hann sínum fyrsta landsleik og skoraði þar í 5:2 sigri á Austurríkismönnum. Valdataka kommúnista í Ungverjalandi í ársbyrjun 1949 átti eftir að hafa mikil áhrif á þróun knattspyrnunnar þar í landi. Varnarmálaráðuneytið tók yfir rekstur Kispest sem var gert að yfirlýstu aðalliði hersins og á árinu 1950 var nafninu breytt í Honvéd, sem var stytting á nafni hersins. Félagið hafði fyrir yfir að búa nokkrum efnilegum leikmönnum, á borð við Puskás, en nú gátu stjórnendur félagsins látið kalla í herinn þá leikmenn sem þeir girntust og þótt heita ætti að áhugamennska væri við lýði í Ungverjalandi, æfðu leikmenn sem atvinnumenn en þáðu laun fyrir málamyndastörf hjá hernum.
Frá 1949 til 1955 varð Honvéd fimm sinnum ungverskur meistari og fljótlega fór orðspor liðsins að breiðast út fyrir heimalandið. Keppnisferðir Honvéd til annarra landa vöktu mikla athygli og urðu að einhverju leyti kveikjan að því að Evrópukeppni meistaraliða var komið á laggirnar. Það var ekki síst snilli Puskás sem hreif áhorfendur víða um lönd. Heima fyrir varð hann fjórum sinnum markakóngur í deildinni og árið 1948 varð hann markahæstur allra í Evrópu með 50 mörk á leiktíðinni.
Ungverska gullliðið
[breyta | breyta frumkóða]Það var á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952 sem knattspyrnuheimurinn veitti ungverska landsliðinu fyrst raunverulega athygli. Puskás skoraði fjögur mörk á leikunum og átti stóran þátt í sigri sinna manna. Englendingar, sem töldu sig bera höfuð og herðar yfir aðrar Evrópuþjóðir á knattspyrnusviðinu, buðu Ungverjum til tveggja vináttuleikja, sem lauk með 6:3 sigri Ungverja á Wembley og 7:1 í Búdapest, með tveimur mörkum frá Puskás í hvorri viðureign. Úrslitin settu allt á annan endann og á augabragði urðu Ungverjar sigurstranglegasta liðið á næsta heimsmeistaramóti, í Sviss 1954.
Allt útlit var fyrir að velgengnisspárnar myndu rætast og Puskás skoraði þrjú mörk í tveimur leikjum Ungverja í riðlakeppninni í Sviss, þar á meðal í ótrúlegum 8:3 sigri á Vestur-Þjóðverjum. Í þeirri viðureign meiddist Puskás hins vegar og kom ekki aftur við sögu fyrr en í úrslitaleiknum. Þar voru mótherjarnir Vestur-Þjóðverjar á nýjan leik en þótt Puskás kæmi sínum mönnum yfir, reyndist þýska liðið sterkara og Puskás var sem skugginn af sjálfum sér í leiknum vegna meiðslanna.
Oft er vísað til ungverska liðsins á HM 1954 sem „besta liðsins sem ekki hafi tekist að vinna“. Sigur Vestur-Þjóðverja var raunar talinn svo óvæntur að talað var um hann sem kraftaverkið í Bern. Ungverjar höfðu því ástæðu til að ætla að lið þeirra yrði aftur sigurstranglegast á HM fjórum árum síðar en þá höfðu alþjóðastjórnmálin gripið í taumana.
Titlar
[breyta | breyta frumkóða]- Ungverskur meistari: 1949–50, 1950, 1952, 1954, 1955
- Spænskur meistari: 1960–61, 1961–62, 1962–63, 1963–64, 1964–65
- Bikarmeistari: 1961–62
- Evrópukeppni meistaraliða: 1958–59, 1959–60, 1965–66
- Heimsmeistarakeppni félagsliða: 1960
- Ólympíumeistari: 1952
- Miðevrópumeistari: 1947-52
- Balkan-bikarinn: 1947
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Ferenc Puskás“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. september 2024.