Torfi Bryngeirsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stangarstökk á árum áður, þegar notuð var ósveigjanleg stálstöng, var nokkuð ólíkt því stangarstökki sem nú er iðkað.

Torfi Bryngeirsson (11. nóvember 192616. júlí 1995) var íslenskur frjálsíþróttamaður sem var í hópi bestu stangarstökkvara Evrópu um miðja 20. öld og varð Evrópumeistari í langstökki árið 1950.

Torfi fæddist í Vestmannaeyjum og ólst þar upp. Hann var farinn að æfa stangarstökk með hrífuskafti á barnsaldri en á uppvaxtarárum hans var keppni í stangarstökki einn af hápunktunum á Þjóðhátíð Vestmannaeyinga og naut mikilla vinsælda. Torfi setti sitt fyrsta Íslansdsmet í greininni sumarið 1947, 3,70 m.

Torfi tók þátt í Ólympíuleikunum í London 1948 og keppti í stangarstökki en var hársbreidd frá því að komast í úrslit. Á Evrópumeistaramótinu í Brussel 1950 keppti Torfi í stangarstökki og langstökki, sem var aukagrein hans, og komst í úrslit í báðum greinum, en þegar til kom reyndist úrslitakeppni í greinunum fara fram á sama tíma. Hann taldi sigurlíkur sínar meiri í langstökki, hafði líka stokkið risastökk (7,65 m) í undankeppninni en gert hárfínt ógilt, og kaus þá grein með þeim árangri að hann stökk 7,32 metra, 12 cm lengra en næsti maður, og varð Evrópumeistari. Stangarstökkið vannst með 4,30 m og hefði hann því átt sigurmöguleika þar einnig.

Þann 29. júní 1951 tóku Íslendingar þátt í þriggja landa frjálsíþróttakeppni í Osló ásamt Dönum og Norðmönnum og baru sigur úr býtum. Torfi sigraði í langstökki og stangarstökki, þar sem hann var hársbreidd frá því að setja Evrópumet, og hljóp endasprettinn þegar íslenska boðhlaupssveitin vann 4x100 metra hlaupið. Sama sumar stökk hann 4,32 metra og var það eitt besta stökkið í heiminum það ár en á þessum árum voru notaðar stálstengur svo að stökkin voru mun lægri en síðar varð.

Torfi lenti í erfiðum veikindum veturinn 1951-1952 en keppti þó á Ólympíuleikunum í Helsinki um sumarið. Hann komst í úrslit í stangartökki en gekk illa í aðalkeppninni. Viku síðar stökk hann þó 4,35 metra, sem var Íslandsmet sem stóð í nokkur ár. Síðasta stórmót hans var Evrópumeistaramótið í Bern 1954, þar sem hann komst í aðalkeppnina í stangarstökki en meiddist og varð að hætta keppni.

Torfi var víðkunnur fyrir afrek sín og prýddi mynd af honum meðal annars forsíðu breska íþróttablaðsins World Sports árið 1951.

Torfi starfaði sem lögregluþjónn í Reykjavík til 1955 en flutti þá til Vestmannaeyja og vann þar sem verkstjóri. Hann flutti aftur til Reykjavíkur 1969 og vann ýmis verslunarstörf, lengst af í eigin innflutningsfyrirtæki. Kona hans var Jóhanna Pétursdóttir og áttu þau fjögur börn, þar á meðal knattspyrnumanninn Guðmund Torfason.

Torfi var tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ árið 2015.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Ég naut þess að keppa. Lesbók Morgunblaðsins, 18. september 1982“.
  • „Evópumeistari í aukagrein sinn. Lesbók Morgunblaðsins, 25. september 1982“.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]