Fara í innihald

Sýningargrein á Ólympíuleikum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sýningargrein á Ólympíuleikum er íþróttakeppni sem fram fer í tengslum við Ólympíuleika og er hluti af hinni formlegu dagskrá þeirra, en hefur þó ekki stöðu formlegrar keppnisgreinar og sigurvegararnir teljast ekki Ólympíuverðlaunahafar. Greinar hafa einkum verið valdar sem sýningaríþróttir af tveimur ástæðum. Annars vegar í reynsluskyni, með það í huga að þær geti í fyllingu tímans orðið fastir liðið á dagskrá leikanna. Hins vegar getur verið um að ræða greinar sem njóta sérstakra vinsælda í því landi sem heldur Ólympíuleikana hverju sinni.

Upphaf sýningargreina

[breyta | breyta frumkóða]
Sjóskíðaíþróttir voru sýningargrein á Ólympíuleikunum 1972.

Hugtakið sýningargrein á Ólympíuleikum varð ekki til fyrr en á Stokkhólmsleikunum 1912. Þá var samþykkt að heimila keppni í tveimur greinum, hafnarbolta og íslenskri glímu, í tengslum við sjálfa leikana.

Hafnarbolti var þá glæný íþrótt í Svíþjóð og höfðu iðkendur hennar hug á að nýta tækifærið úr því að von væri á stórum hópi bandarískra íþróttamanna til landsins, koma á æfingarleik og kveikja áhuga heimamanna. Sú ákvörðun að leyfa glímunni að vera með skýrist af frændrækni Svía í garð Íslendinga, sem sóttu það stíft að fá að sýna glímu. Glíman og hafnarboltinn fengu því að vera hluti af hinni opinberu dagskrá leikanna án þess að vera þar formlegar keppnisgreinar.

Alþjóðaólympíunefndin fundaði samhliða leikunum í Stokkhólmi og tókst þar á við það flókna verkefni að greiða úr skrám yfir keppendur og verðlaunahafa frá fyrri leikum. Einkum voru leikarnir 1900 og 1904 mikill höfuðverkur, þar sem þeir voru haldnir yfir langt tímabil samhliða heimssýningum og lítill greinarmunur verið gerður á hvort um Ólympíukeppni eða almenna íþróttasýningu væri að ræða.

Á þessum fundum var ákveðið afturvirkt hvaða úrslit skyldu færð inn í opinberar bækur Ólympíuhreyfingarinnar. Þannig var til að mynda ákveðið að sigurvegararnir í ruðningi, póló og knattspyrnu á Parísarleikunum 1900 skyldu teljast fullgildir Ólympíumeistarar, en að flugdrekafimi, loftbelgjaflug, jeu de paume og bréfdúfukeppni þessara sömu leika skyldu teljast sýningargreinar.

Búbót fyrir gestgjafa

[breyta | breyta frumkóða]
Valensísk pílóta er spænskur knattleikur sem kynntur var í tengslum við Ólympíuleikana í Barcelona.

Þær borgir sem héldu Ólympíuleika næstu áratugi á eftir Stokkhólmsbúum kusu að fylgja fordæmi þeirra og taka inn sýningargreinar. Var þar oft um að ræða greinar sem nutu staðbundinna vinsælda, oft hópíþróttir , sem vænta mátti að skilaði vel í kassann. Þannig buðu leikarnir í Antwerpen 1920 og Amsterdam 1928 upp á korfbal, boltaíþrótt sem er vinsæl í Niðurlöndum . Í Los Angeles 1932 var keppt í amerískum fótbolta. Í Helsinki 1952 gaf að líta finnskt afbrigði af hafnarbolta og fjórum árum síðar í Melbourne var ástralskur fótbolti á dagskránni, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Alþjóðasambönd þeirra íþróttagreina sem ekki eru fastar keppnisgreinar á Ólympíuleikum leggja yfirleitt ríka áherslu á að komast inn fyrir gættina. Fyrsta skrefið í þeirri baráttu getur verið að komast að sem sýningargrein. Þannig var tennis sýningargrein á leikunum í Mexíkóborg 1968 og aftur í Los Angeles 1984, uns það varð fullgild grein fjórum árum síðar. Tækvondó var sömuleiðis sýningargrein í tvígang, 1988 og 1992 , uns það fékk fulla aðild á leikunum í Atlanta 1996.

Ekki tekst öllum sýningargreinum að hljóta náð fyrir augum Alþjóðaólympíunefndarinnar. Keila var til að mynda sýningargrein í Seoul 1988, en hvarf í kjölfarið af radar Ólympíuhreyfingarinnar. Hafnarbolti var sýningargrein á helium sex leikum (1912, 1936 , 1952, 1956, 1964 og 1984) áður en hann varð fullgild keppnisgrein, til þess eins að vera felldur út á ný fyrir leikana í Lundúnum 2012. Þá varð hjólaskautahokkí aldrei sú stóra íþrótt sem aðstandendur leikanna í Barcelona 1992 vonuðust eftir.

Ákveðið var eftir Barcelona-leikana að afnema sýningargreinar á Ólympíuleikunum, enda væri dagskrá þeirra nógu troðin fyrir. Þessari ákvörðun hefur þó ekki verið fylgt út í ystu æsar. Þannig var til dæmis staðið fyrir keppni í skák í tengslum við Ólympíuleikana í Sydney og móti í kínversku bardagalistinni wushu samhliða leikunum í Beijing.

Deilt um skilgreiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Indverski eltingaleikurinn Kabaddi var sýndur á Berlínarleikunum, en deilt er um hvort hann telst fullgild sýningargrein.

Ekki væri auðvelt mál að taka saman nákvæman lista yfir sýningargreinar á Ólympíuleikum sem allir yrðu sáttir við. Ólympíuleikarnir eru stærsta íþróttahátíð heims og því eðlilegt að áhugafólk um vöxt og viðgang einstakra íþróttagreina reyni að nota þennan vettvang til að vekja athygli á greinum sínum. Þær kynningar eru skipulagðar í mismiklu samráði við aðstandendur leikanna.

Íslenska glíman er gott dæmi um þetta. Íslendingar sendu glímumenn á þrenna Ólympíuleika: 1908 , 1912 og 1952. Árið 1912 er óumdeilt að glíman var fullgild sýningargrein. Árið 1952 er sömuleiðis óumdeilt að glímuflokkur Ármenninga hélt til Helsinki á eigin vegum og sýndi þar glímu meðan á leikunum stóð, en hafði enga formlega stöðu. Þegar kemur að leikunum 1908, er hefð fyrir því á Íslandi að líta svo á að glíman hafi verið formleg sýningargrein og má því til stuðnings benda á að íslensku glímumennirnir tóku þátt í setningarathöfn leikanna. Hins vegar geta útlendar skrár yfir keppnis- og sýningargreinar á Ólympíuleikum sjaldnast um glímuna 1908.

Indverska íþróttin kabaddi, sem er nokkurs konar liðakeppni í eltingaleik, var kynnt á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og bardagaíþróttin sambo var sýnd í tengslum við Ólympíuleikana í Moskvu 1980. Unnendur beggja greinanna líta svo á að þær hafi verið sýningaríþróttir, þótt þeirra sé sjaldnast getið í opinberum gögnum. Fleiri dæmi af þessu tagi mætti tína til.