Sumarólympíuleikarnir 1900

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Veggspjald fyrir ólympíuleikana í París 1900.

Sumarólympíuleikarnir 1900 voru haldnir í tengslum við heimssýninguna í París 14. maí til 28. október 1900. Engar opnunar- og lokaathafnir voru haldnar og leikarnir féllu mikið til í skuggann af heimssýningunni. Nefndin sem sá um leikana hélt fjöldann allan af alþjóðlegum íþróttamótum sem voru í fæstum tilvikum tengd við Ólympíuleikana. Mikið af atvinnumönnum keppti í leikunum og verðlaunagripir, bikarar eða jafnvel peningar voru veittir í verðlaun fremur en verðlaunapeningar. Konur tóku í fyrsta sinn þátt í þessum leikum. Eftir leikana sagði stofnandi Alþjóða ólympíunefndarinnar Pierre de Coubertin að það væri kraftaverk að ólympíuhugsjónin hefði lifað þessa leika af.

Keppnisgreinar[breyta | breyta frumkóða]

Keppt var í 20 flokkum íþrótta. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn[breyta | breyta frumkóða]

Alvin Kraenzlein vann til fjögurra gullverðlauna á leikunum. Hann var mesti grindahlaupari sinnar tíðar og innleiddi stökkstíl þann sem hefur verið ríkjandi í greininni upp frá því.

Bandaríkjamaðurinn Alvin Kraenzlein vann fern gullverðlaun í frjálsíþróttakeppninni: í 60 metra hlaupi, 110 og 200 metra grindahlaupi og langstökki. Í síðastnefndu greininni stökk Kraenzlein einum sentimetra lengra en keppinautur hans Meyer Prinstein, sem náð hafði þeim árangri í forkeppninni. Prinstein brást ókvæða við þessum fregnum, enda höfðu þeir félagarnir gert með sér samkomulag um að sniðganga úrslitakeppnina þar sem hún fór fram á sunnudegi.

Michel Théato kom fyrstur í mark eftir skrautlega keppni í Maraonhlaupi. Keppnisbrautin átti að mestu að fylgja hinum fornu borgarmúrum Parísar, en var illa merkt svo sumir keppendur villtust eða lentu í vandræðum vegna umferðar bíla og gangandi fólks. Bandarísku keppendurnir staðhæfðu að fljótustu hlaupararnir hefðu stytt sér leið, en þeim ásökunum var hafnað. Frakkar fögnuðu vel sigri Théatos. Síðar hefur komið í ljós að hann var fæddur í Lúxemborg. Vilja Lúxemborgarar telja hann fyrsta Ólympíumeistara sinn, en Alþjóðaólympíunefndin hefur ekki fallist á það.

Tenniskonan Charlotte Cooper, fyrsta konan til að vinna gullverðlaun í sögu Ólympíuleikanna.

Tenniskonan Charlotte Cooper frá Englandi varð fyrst kvenna til að vinna til gullverðlauna á Ólympíuleikum. Hún sigraði bæði í kvennaflokknum og í tvenndarleik.

Keppt var í krikket í fyrsta og eina sinn í sögu Ólympíuleikanna. Tvö lið tóku þátt í keppninni, breskt og franskt félagslið og unnu Bretarnir auðveldan sigur. Liðsmenn beggja liða gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir væru að keppa á Ólympíuleikunum. Fjöldi íþróttasýninga og –kappleikja fór fram samhliða heimssýningunni og kom það í hlut Alþjóðaólympíunefndarinnar að ákveða árið 1912 hverjar þeirra skyldu teljast til Ólympíuleikanna.

Sömu sögu er að segja um knattspyrnukeppnina. Þar léku þrjú lið tvo leiki. Fyrst unnu fulltrúar Bretlands, áhugamannaliðið Upton Park F.C. lið frá Frakklandi 4:0 að viðstöddum 500 áhorfendum. Síðan unnu Frakkarnir lið stúdenta frá Brüssel-háskóla. Á grunni þessara úrslita úthlutaði Ólympíunefndin löngu síðar gull-, silfur- og bronsverðlaunum í knattspyrnu.

Ítalskur knapi Giovanni Giorgio Trissino var nærri því að komast í sögubækurnar og hljóta tvenn verðlaun í sömu grein. Hann keppti á sitthvorum hestinum í stökkkeppninni og hafnaði í fyrsta og fjórða sæti.

Keppendur á Ólympíuleikunum í París stinga sér til sunds í Signu.

Frakkinn Gustave Sandras hlaut gullverðlaunin í fimleikum. 135 íþróttamenn tóku þátt í fimleikakeppninni, þar sem aðeins var keppt um ein gullverðlaun. Keppendur tókust á við ellefu mismunandi þrautir og söfnuðu stigum. Flestar þrautirnar falla undir hefðbundna skilgreiningu á fimleikum, en þar var líka að finna greinar á borð við langstökk og kraftlyftingar.

Yngsti gullverðlaunahafi Ólympíusögunnar var krýndur í róðrarkeppni leikanna. Róðrarlið frá Hollandi nýtti sér glufu í keppnisreglunum og ráku stýrimanninn sinn, sem var talinn of þungur, en fengu sjö ára franskan pilt í hans stað. Nafn hans er hins vegar óþekkt.

Sundkeppni leikanna fór fram í ánni Signu. Þar var boðið upp á óvenjulega keppnisgrein: hindrunarsund. Hún fól meðal annars í sér að sundmenn áttu ýmist að kafa undir báta eða klifra yfir þá á leið sinni í mark.

Verðlaunaskipting eftir löndum[breyta | breyta frumkóða]

Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1  Frakkland 26 41 34 101
2  Bandaríkin 19 14 14 47
3  Bretland 15 6 9 30
4 Blandað lið 6 3 3 12
5  Sviss 6 2 1 9
6  Belgía 5 5 5 15
7 Þýskaland 4 2 2 8
8 Ítalía 2 2 0 4
9 Ástralía 2 0 3 5
10  Danmörk 1 3 2 6
11 Ungverjaland 1 2 2 5
12 Kúba 1 1 0 2
13 Kanada 1 0 1 2
14 Spánn 1 0 0 1
15 Austurríki 0 3 3 6
16 Svíþjóð 0 2 3 5
17 Indland 0 2 0 2
18 Holland 0 1 3 4
19 Bæheimur 0 1 1 2
20 Mexíkó 0 0 1 1
Alls 90 90 88 268

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]